Þessi síða er í vinnslu, endilega látið vita ef það er eitthvað sem betur má fara.
top of page
83. Héraðsþing HSH var haldið á Lýsuhóli þann 11 .apríl s.l. Þingshaldarar í ár voru UMF. Staðarsveit og Golfklúbbur Staðarsveitar. Við þökkum þeim fyrir gott utanumhald og móttökur.
Þingforsetar voru þau Kristján Þórðarson og Ragnhildur Sigurðardóttir og ritarar þingsins voru þær María Alma Valdimarsdóttir og Berglind Long. Þingið gekk vel fyrir sig og mæting þingfulltrúa var mjög góð.
Töluvert margar tillögur voru lagðar fyrir þingið og eiga þingfulltrúar hrós skilið fyrir vel unnin störf. Ný lög HSH voru samþykkt samhljóða með breytingatillögu en fyrst og fremst var verið að uppfæra lögin miðað við tíð og tíma en gömlu lögin voru samþykkt árið 2008. Þá voru tillögur um arðgreiðslu og lottóuppgjör samþykktar samhljóða og skiptingu á afkomu af Landsmóti 50+ samþykktar með breytingatillögu. Þá voru einnig samþykktar samhljóða ýmsar þakkar- og hvatningartillögur.
Viðar Sigurjónsson ávarpaði þingið fyrir hönd ÍSÍ en að auki veitti hann heiðursviðurkenningar. Þeir Bjarni Alexandersson og Gunnar Kristjánsson voru sæmdir Gullmerki ÍSÍ fyrir þeirra störf en þeir voru stofnfélagar í Hestamannafélaginu Snæfelling. Þeir störfuðu báðir ötullega fyrir félagið um langt árabil. Þá var Kristján Ágúst Magnússon sæmdur Silfurmerki ÍSÍ en hann hefur verið virkur í starfi Ungmennafélagsins Eldborgar í mörg ár.
Guðmunda Ólafsdóttir ávarpaði þingið fyrir hönd UMFÍ en að auki veitti hún, ásamt Auði Ingu Þorsteinsdóttur, framkvæmdastjóra UMFÍ heiðursviðurkenningar. Ragnhildur Sigurðardóttir og hjónin Þóra Kristín Magnúsdóttir og Helgi Sigurmonsson voru sæmd starfsmerki UMFÍ. Öll hafa þau verið mjög virk í starfi UMF. Staðarsveitar í mörg ár og unnið þar gríðarlega mikilvægt starf. Að lokum var María Alma Valdimarsdóttir sæmd Gullmerki UMFÍ fyrir hennar störf í þágu UMF. Snæfells. María hefur setið í aðalstjórn félagsins frá árinu 1994 og alltaf boðin og búin til þess að aðstoða.
HSH óskar öllu þessu frábæra fólki til hamingju og þakkar fyrir vel unnin störf.
Að lokum var komið að stjórnarkjöri. Hjörleifur Kristinn Hjörleifsson gaf áfram kost á sér sem formaður HSH og var það samþykkt með lófaklappi. Laufey Bjarnadóttir og Kristfríður Rós Stefánsdóttir, sitjandi stjórnaraðildar, gáfu áfram kost á sér til vinnu í stjórn HSH næstu tvö árin. Var það einnig samþykkt með lófaklappi. Stjórnin mun því starfa óbreytt fram að næsta Héraðsþingi HSH.
Unnið er að endurbættri heimasíðu HSH en hún mun vonandi vera sett í loftið í sumarbyrjun. Þinggerð, ársreikningar og ársskýrsla verða færðar þar inn um leið og síðan er tilbúin. Ársskýrslu HSH má sjá í viðhengi hér á facebook síðunni okkar.
Takk fyrir frábært þing,
f.h. HSH, Gunnhildur Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri.
bottom of page