top of page

Fréttir


Íþróttastarf á Snæfellsnesi er mjög fjölbreytt og margt er í boði fyrir allan aldur. Það eru fjögur ungmennafélög sem vinna mikið og metnaðarfullt starf þar sem stanslaust er unnið að því að hafa fjölbreytt starf í boði fyrir börn og ungmenni. Til að nefna framboð á íþróttagreinum á Snæfellsnesi fyrir börn og unglinga þá er verið að bjóða upp á æfingar í sundi, frjálsum íþróttum, knattspyrnu, körfubolta, blaki og fimleikum. Eins og flestir vita höfum við ekki fjöldann í sitthvoru lagi en með því að vinna saman getum við verið samkeppnishæf í flestum íþróttagreinum eins og hefur sýnt sig í því samstarfi sem við höfum verið með í knattspyrnu og SamVest. Mikill uppgangur hefur verið í starfi Hestamannafélagsins Snæfellings og hjá Skotfélagi Snæfellsness þar sem mikið starf er í gangi hjá þessum félögum og félagafjöldi hefur aukist mikið. Einnig eiga golfklúbbarnir allir fjórir hrós fyrir gott starf og mikla uppbyggingu á þeirra svæði.

HSH fór af stað með verkefni í fyrra til þess að vekja athygli á því íþróttastarfi sem er í gangi á Snæfellsnesi. Hvert félag fékk einn dag til þess að kynna eina íþróttagrein og vera með opinn dag fyrir iðkendur af Snæfellsnesi. Þetta verkefni fór vel fram og ákveðið var að halda áfram með það núna í vor og sumar. Á næstu vikum verða öll íþróttafélög með einn dag þar sem öllum er velkomið að taka þátt. Hvetjum alla til þess að kynna sér þetta verkefni nánar.

Það má segja að við erum heppin að hafa allt þetta starf sem við höfum en ekkert væri það ef það væri ekki fjöldinn allur af sjálfboðaliðum á bak við það, þetta fólk vinnur mikla vinnu til þess að hægt sé að halda úti þessu starfi. Við verðum við öll að þakka fyrir það og reynum að meta það. Ég hvet alla til þess að sýna okkar félögum áhuga og vinna að því að aðstoða þegar þörf er á.

Reynum að vinna saman að því að efla íþróttastarfið okkar á Snæfellsnesi og gera það enn betra en það er í dag ! Áfram HSH ! Áfram Snæfellsnes !

Laufey Helga Árnadóttir

Framkvæmdastjóri HSH

Dagana 11.-12. apríl sátu þrír fulltrúar ungmennaráðs Grundarfjarðarbæjar, þær Elva Björk Jónsdóttir, Tanja Lilja Jónsdóttir og Alma Jenný Arnarsdóttir ráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði sem haldin var af Ungmennafélagi Íslands í Borgarnesi. Þeim til aðstoðar var Heiður Björk Fossberg Óladóttir, bæjarfulltrúi og tengiliður ungmennaráðs. Á ráðstefnuna komu ungmenni víða að á landinu, en frá Vesturlandi voru mættir fulltrúar frá ungmennaráðum Grundarfjarðarbæjar, Borgarbyggðar og Akraness.

Dagskráin var fjölbreytt og gafst þátttakendum tækifæri til að hitta og tala við ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og starfandi dómsmálaráðherra Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur ásamt mennta- og menningarmálaráðherra Lilju Alfreðsdóttur.

Áhrifavaldarnir Erna Kristín og Fanney Dóra voru með erindi um jákvæða líkamsímynd, Jón Halldórsson frá KVAN hélt fyrirlestur um leiðtogahæfni. Auk þess voru Unnur Arna Jónsdóttir og Hrafnhildur Sigurðardóttir frá Hugarfrelsi með fyrirlestur um hvernig má auka vellíðan.

Okkar fulltrúar voru mjög ánægðir með að hafa tekið þátt og verður lærdómurinn af ráðstefnunni ræddur í ungmennaráði á næstunni. Frétt fengin af heimasíðu GrundarfjarðarSilja Úlfars í samstarfi við HSH ætlar að vera með hlaupanámskeið fyrir börn og unglinga á Snæfellsnesi 1. - 2. maí í Grundarfirði 🏃‍♀️🏃‍♂️🏃‍♀️🏃‍♂️🏃‍♀️🏃‍♀️🏃‍♂️🏃‍♀️

Skráning og frekari upplýsingar á www.siljaulfars.is

Silja hefur verið að ferðast um landið að hitta unga og efnilega íþróttamenn og kenna þeim betri hlaupastíl, hvernig þau geta bætt hraðann og sprengikraftinn. Einnig leggur Silja mikla áherslu á að kenna hvað það þarf til að vera íþróttamaður og ná árangri.


bottom of page