top of page
unnamed_edited.jpg

Héraðssamband Snæfellssness- og Hnappadalssýslu eru samtök ungmenna og íþróttafélaga
sem vinna að sömu markmiðum á starfssvæði héraðsnefndar Snæfellinga. 

Héraðsamband Snæfellsness-og Hnappadalssýslu var stofnað 24. september 1922 í samkomuhúsinu að Fáskrúðarbakka í Miklaholtshreppi. Tildrög voru þau að fjórðungssambönd sem starfað höfðu voru lögð niður um 1920, og á síðasta þingi Vestfirðingafjórðungs mun hafa verið kosin þriggja manna nefnd til undirbúnings við stofnun héraðssambands er næði yfir Snæfellsnes og Hnappadalssýslu. Þessir menn voru Guðmundur Illugason Ystu - Görðum, Sveinbjörn Jónsson Snorrastöðum og Bragi Jónsson Hofgörðum. Skipuðu þeir jafnframt fyrstu stjórn. 

Verkefni sambandsins voru þau sem talið var að æskulýðsfélögum stæði næst. Sambandið réðist í að steypa Kolviðarneslaug en þar hafði þá farið fram hálfs mánaðar námskeið í sundi á sumrin í hartnær þrjá áratugi. 

Á fyrstu þingunum munu bindindis- og íþróttamál hafa verið aðal umræðuefni. Í fundargerðum upp úr 1940 má sjá að rætt hefur verið um að skora á sýslumann að banna dansleiki í tengslum við lög skila réttir. Til þess kom ekki en flutt var tillaga og samþykkt þess efnis að haldin væru námskeið í hvernig best væri að halda ölvuðum mönnum í skefjum. 

Kynningarmót voru haldin árlega um tíma. Árið 1942 var eitt slíkt haldið að Búðum í Staðarsveit. Þar fór fram söngur, ræðuhöld, íþróttir og dans. Þátttakendur voru um 200 frá átta aðildarfélögum. Það sama ár starfaði garðyrkjunautur á vegum sambandsins og mun svo hafa verið oftar. Á þessum árum var farið að huga að skógrækt og keyptar plöntur til gróðursetningar.

Héraðsmót voru haldin en fyrsta áratuginn voru þau kölluð "leikmót". Þar fór aðallega fram stökk og hlaup og menn yfirleitt óæfðir. Í heimildum segir að eitt sinn hafi verið haldin fimleikasýning á leikmóti. Aðstaða mun hafa verið meira en léleg, engin áhöld aðeins kista hlaðin úr torfi. 

Starfsemi sambandsins lá að mestu niðri frá árunum 1930 - 1939. Daníel Agústsínusson kom til starfa sem kennari í Stykkishólmi árið 1938 en hann hafði unnið sem ritari UMFÍ. Hann boðaði til fundar á Vegamótum veturinn 1939 og var sambandið endurvakið. Voru þá komin ungmennafélög í flest sveitarfélög sýslunnar og komu þau saman í sambandið. 

Árið 1951 urðu mikil þáttaskil í starfi sambandsins hvað íþróttir varðar. Ráðinn var til starfa maður að nafni Sigurður Helgason, þá kennari í Stykkishólmi og síðar skólastjóri í Laugagerðisskóla. Starfaði hann að málefnum sambandsins allt þar til hann flutti úr héraði 1970. 

Fyrst mun hafa verið haldið skíðamót 1957 í Grundarfirði og Stykkishólmi. Skák var iðkuð af kappi um ára bil og mun Ottó Árnason í Ólafsvík hafa verið aðal driffjöðrin í því meðan hans naut við. 

HSH hefur átt þátttakendur á öllum landsmótum UMFÍ frá 1940 að einu undanskildu eftir því sem best verður séð, að Laugum 1946. 

Ungmennabúðir voru fyrst haldnar að Lýsuhóli á 50 ára afmæli sambandsins 1972. HSH hefur ávallt sent fulltrúa á þing ÍSÍ og UMFÍ auk sérsambanda. HSH átti um 10 ára tímabil fulltrúa í stjórn UMFÍ, var það Magndís Alexandersdóttir. Þá hefur sambandið einnig átt menn í stjórn Frjálsíþróttasambands Íslands, þá Sigurð Helgason og Sigurþór Hjörleifsson. 

Í dag beinist starf sambandsins fyrst og fremst að íþróttum. Önnur félög og klúbbar hafa leyst af hólmi nauðsyn þá sem fyrir hendi var til annara félagslegra verkefna. 

 

Samantekið af Magndísi Alexandersdóttur og flutt á 75 ára afmælishófi sem haldið var á Lýsuhóli 1997. 

bottom of page