Fréttir


Jóhanna Magnea: Unglingalandsmót er mikil skemmtun. Ég hef farið á unglingalandsmót síðan að ég var lítið barn, þar sem systkini mín hafa verið að taka þátt. Þegar ég hafði aldur til fór ég sjálf að keppa á mótinu. Unglingalandsmót UMFÍ er fjölskylduhátíð sem haldin er um verslunarmannahelgina árlega. Hátíðin er aldrei á sama stað tvö ár í röð. Ég hef t.d. farið á unglingalandsmótið á Sauðarkróki, Akureyri og Borgarnesi. Nú í ár ætla ég í Þorlákshöfn og njóta mótsins með frænku minni, Þrúði Sóley, sem býr þar. Það sem heillar mig svona mikið við unglingalandsmótið er að hægt er að taka þátt í allskonar íþróttum, alveg óháð því hvort þú ert góður í íþróttinni eða ekki. Svo er alltaf full dagskrá af allskonar skemmtilegum viðburðum.

Guðný: Að eiga barn/börn sem hafa ánægju af íþróttum er mikil gjöf og um leið áskorun. Þegar sonur okkar Brynjar Gauti, reyndist vera mikill íþróttagarpur varð að bregðast við því. Þá er nú gott að eiga góða að og fyrstu árin fóru amma og afi með þau systkinin á unglingalandsmót og allir nutu þess svo sannarlega. Ég fór svo á mitt fyrsta unglingalandsmót með börnum og ömmum 2005 í Vík í Mýrdal og það var mikil gleði. Síðan þá höfum við farið á flest mót og alltaf skemmt okkur stórvel. Skipulag og dagskrá mótanna er alltaf til fyrirmyndar og allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Ef að barnið þitt hefur áhuga og ánægju af íþróttum eða ykkur langar að eiga góðan tíma með fjölskyldunni, er unglingalandsmót góður kostur.

Brynjar Gauti: Frá því að ég hafði aldur til að taka þátt var Unglingalandsmótið ávallt einn af hápunktum hvers sumars í mínum huga. Fyrsta Unglingalandsmótið sem ég fór á var á Ísafirði 2003 og fóru amma og afi með mig og yngri systur mína, Kolbrúnu Höllu. Þessi helgi er mér enn í fersku minni, allt frá akstrinum á Ísafjörð sem virtist vera endalaus, að upplifuninni og gleðinni sem fylgdi því að fá að taka þátt á þessu skemmtilega móti. Eftir þetta mót var ekki aftur snúið og tók ég þátt í öllum Unglingalandsmótum þar til ég var orðinn of gamall og önnur verkefni tekin við.

Fyrir mér snerist Unglingalandsmótið að mestu leyti um íþróttakeppnina og var dagskráin venjulega þétt setin hjá mér alla helgina. Ég tók þátt í öllum þeim frjálsíþróttagreinum sem mér stóðu til boða, tók þátt í fótboltamótinu og þá jafnvel með tveimur aldursflokkum. Eitt mótið fékk ég meira að segja að vera aðeins með í körfuboltaliðinu þrátt fyrir að hafa varla snert körfubolta áður. Eina karfan sem ég náði að skora á þessum stutta körfuboltaferli er í mínum huga eitt það eftirminnilegasta sem ég hef gert á mínum íþróttaferli. Dagarnir voru því oft langir hjá mér og fjölskyldu minni þar sem var hlaupið á milli keppnisvalla, uppá tjaldsvæði eða hvar sem það svo sem var sem ég eða systir mín áttum að vera á þeim tímapunkti. Oft stóð það tæpt en ávallt gekk þetta þó allt saman upp og aldrei missti maður af neinu.

Þó að kappið hafi oft verið mikið og íþróttirnar verið í aðalhlutverki eru það þó þessar samverustundir með fjölskyldunni og vinum sem sitja eftir í huganum þegar að maður horfir til baka. Stemmningin á HSH tjaldsvæðinu þar sem allir Snæfellingarnir voru komnir saman var alltaf góð og er mér sérstaklega minnisstætt þegar allir hittust í lok dags í HSH tjaldinu þar sem farið var yfir afrek dagsins hjá hópnum og þau verkefni sem voru framundan. Kvöldvökurnar, skemmtidagskráin, opnunarathöfnin og andrúmsloftið á Unglingalandsmótinu eru síðan nokkrir af þeim hlutum sem gerðu þessar helgar sérstaklega eftirminnilegar og frábrugðnar öðrum frjálsíþrótta- eða fótboltamótum sem maður tók þátt í. Þetta gerði það að verkum að maður var ávallt farinn að telja niður dagana að næsta Unglingalandsmóti um leið og maður hélt heim á leið af því seinasta.

HSH vinnur nú að undirbúningi vegna unglingalandsmóts og vill hvetja Snæfellinga til þátttöku í þessari einstöku íþrótta- og fjölskylduskemmtun. HSH fékk reynda þátttakendur á starfssvæðinu til að deila minningum sínum af unglingalandsmóti. Unglingalandsmót er alltaf eitthvað sem verður ofarlega í minninu. En ég naut þeirra forréttinda að vera í hópi krakka sem stundaði íþróttir á fullu allt árið um kring. Einnig naut ég þeirra forréttinda að eiga foreldra sem höfðu brennandi áhuga á íþróttum og voru til í að skutla okkur hingað og þangað um allt land svo við systkinin gætum keppt og það sama á við með vini mína.

Það var alltaf biluð spenna að fara á Unglingalandsmót og stemmningin góð! Okkur krökkunum hlakkaði alltaf til allt sumarið og biðum spennt eftir að Verslunamannahelgin gengi í garð, og ég efast ekki um að foreldrunum liði eins. En þegar að þessu var komið þá lögðu allir af stað í ferðalag og tjölduðu á sama blettinum, þetta var eins og lítið Snæfellsnes saman komið á pínulítið tjaldsvæði. Ein stór fjölskylda!

Við stelpurnar kepptum í körfubolta og urðum nokkrum sinnum unglingalandsmótsmeistarar, auk þess kepptum við í frjálsum og fótbolta. Það var alveg sama hvar maður var að keppa, það var alltaf einhver á staðnum sem hvatti mann áfram, þó svo að það var ekki einhver af vinunum eða fjölskyldunni, þá var það e-r annar úr HSH. En það er það skemmtilega við unglingalandsmótin – það er ungmennafélagsandinn! Við erum öll í sama liðinu og hjálpumst að og hvetjum hvort annað áfram.

Dagskráin er alltaf þétt og það er nóg að gera fyrir alla, ekki bara keppendur, heldur líka foreldra, systkini, ömmur og afa, frænkur og frændur sem vilja koma og horfa. En þó keppendur séu að frá 8 á morgnanna og frameftir degi að þá er alltaf kvöldvaka á kvöldin þar sem frægir söngvarar, grínistar og slíkir koma fram og skemmta öllum sem eru á staðnum.

Minningarnar frá unglingalandsmótunum eru ótal margar og við rifjum oft upp unglingalandsmótin og brosum út að eyrum. Hvort sem það er þegar við tölum um unglingalandsmótið á Höfn í Hornafirði þegar við urðum fyrst unglingalandsmótsmeistarar í körfubolta og allir frá HSH stóðu í stúkunni og hvöttu okkur áfram, eða unglingalandsmótið í Borgarnesi þegar við lentum í þrettánda sæti í fótbolta af 13 liðum, eða þegar við lentum í þriðja sæti í 4x100m boðhlaupi í frjálsum íþróttum á Laugum í Þingeyjarsýslu (minnir mig) og enduðum svo helgina á því að dýfa okkur ofan í tjörnina þar. Eins og ég hef komið inn á, þá fannst foreldrunum alveg jafn gaman og okkur því Palli Þorbergs ákvað einnig að stinga sér í tjörnina en áttaði sig ekki á því hvað hún var grunn og hruflaði á sér alla bringuna við lendingu í botninum. Það fannst okkur fyndið! Við krakkarnir urðum öll í bitum eftir þessa sundferð en af því það var svo gaman þá vorum við nú ekkert að hugsa neitt út í það meir. Ég man líka að Gunni Svanlaugs vildi að við krakkarnir myndum leiðast inn á völlinn og veifa áhorfendum á opnunarhátíðinni á fyrsta eða öðru landsmótinu sem ég fór á. Okkur fannst það nú ekki alveg nógu „cool“, en það, ásamt góðri hegðun HSH-inga alla helgina skilaði okkur fyrirmyndarbikarnum það Unglingalandsmótið. Við auðvitað leiddumst stolt inn og veifuðum á allar opnunarhátiðir árin eftir það og unnum fyrirmyndarbikarinn nokkur ár í röð.

Ég gæti haldið áfram að telja upp einhver atriði – en til að einfalda þetta þá get ég sagt að þegar ég hugsa til baka um Unglingalandsmót UMFÍ þá brosi ég og hugsa hvað það var ótrúlega gaman! Ég fullyrði líka, fyrir hönd foreldra minna, að þau skemmtu alveg jafn vel og við systkinin! Spurjið líka bara Högna og Írisi, Dagný og Kjartan, Betu og Óla, Gunna og Láru, Steinu og Sæa, Moniku og Hafstein, Sævar Harðar, Palla og Steinu, Helgu og Þröst og fleiri góða... Þau eru pottþétt sammála!

Það ættu allir að prófa að fara á alla vega eitt Unglingalandsmót! Góða skemmtun á Unglingalandsmóti í ár, Áfram HSH. Góð kveðja, Björg Guðrún Einarsdóttir.

Ungmennafélag Staðarsveitar hélt sinn íþróttadag sem er hluti af Íþróttadögum HSH á Snæfellsnesi 2018 þann 30. júní s.l. Mikið fjör var og það voru um 50 manns sem mættu á frjálsíþróttadaginn. Það voru léttleikar í hástökki, blómagreiningu, knattspyrnuæfingum, kúluvarpi, kasthringjum, snú, snú og leikjum.. Veðrið var gott (saga til næsta bæjar) og fólk á öllum aldri skemmti sér vel.