top of page

Fréttir

Eins og fram hefur komið í fréttum á FB-síðu SamVest, þá stefnum við að fyrstu samæfingu ársins í Kaplakrika – föstudaginn 16. mars 2018 kl. ca. 17.00 – 20.00.

Æfingin er fyrir 10 ára (árgangur 2008) og eldri á starfssvæði SamVest.  Athugið, að það er ekki skilyrði að þátttakandi sé iðkandi í frjálsum – það er allt í lagi að mæta til að prófa.

Mætið með æfingaföt og innanhússíþróttaskó, gaddaskó þau sem eiga.

Þjálfarar frjálsíþróttadeildar FH sjá um þjálfunina, vonandi ásamt þjálfara af SamVest-svæðinu.

Nesti á æfingunni í boði SamVest.  Eftir æfingu förum við saman og fáum okkur kvöldsnarl.

Æfingin er þátttakendum að kostnaðarlausu, en hver og einn borgar fyrir sig í kvöldmatinn.

Skráið þátttöku í þetta skjal hér – og endilega sem allra fyrst. Mætum og gerum þetta að góðri æfingu!!

Athugið að laugardaginn 17. mars fer fram Góumót FH og við hvetjum SamVest-iðkendur til að taka þátt í því. Sjá upplýsingar um Góumótið hér í mótaforritinu ÞÓR, m.a. um aldursflokka, greinar og tímasetningar. Hvert félag/samband sér um skráningu sinna iðkenda.

Með kveðju, SamVest, framkvæmdaráð


Á 77. héraðsþingi HSH 2017 voru veitt verðlaun fyrir íþróttafólk HSH 2017.

- Blakmaður HSH 2017 – Svana Björk Steinarsdóttir, Umf. Grundarfjarðar

- Hestaíþróttamaður HSH 2017 - Siguroddur Pétursson, Snæfelling

- Knattspyrnumaður HSH 2017 – Birta Guðlaugsdóttir, Umf. Víking

- Kylfingur HSH 2017 - Rögnvaldur Ólafsson, Golfklúbbnum Jökul

- Körfuknattleiksmaður HSH 2017 – Berglind Gunnarsdóttir, Umf. Snæfell

- Skotíþróttamaður HSH 2017 - Guðmundur Andri Kjartansson, Skotfélag Snæfellsness

- Vinnuþjarkur HSH 2017 – Freydís Bjarnadóttir

- Íþróttamaður HSH 2017 Berglind Gunnarsdóttir, Umf. Snæfell









Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu hélt sitt 77. Héraðsþing í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík mánudaginn 11. des. s.l. Félög innan sambandsins sendu flest öll fulltrúa til þingsins og var mætingin mjög góð. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf og gekk þingið vel fyrir sig undir stjórn Sigrúnar Ólafsdóttur þingforseta. Það var kosin ný stjórn og hana skipa, Kristinn Hjörleifsson formaður, Garðar Svansson, Sæunn Dögg Baldursdóttir, Berglind Long og Ragnhildur Sigurðardóttir. Jafnframt var kosin ný varastjórn og í henni eru Þórhalla Baldursdóttir, Ragnar Smári Guðmundssón, Hildur Þórsdóttir og Eyþór Benediktsson. Ársskýrsla og ársreikningar 2015 og 2016 voru lögð fyrir þingið og samþykkt samhljóða. Líflegt starf er innan flestra félaga HSH og eru þau að standa sig vel hver á sínu sviði. Starfsemi HSH hefur verið í lægð undanfarin ár og má það að einhverju leyti rekja til stjórnarkreppu þar sem erfitt reyndist að fá fólk í stjórn en allt horfir þetta núna til betri vegar. Helsta starfsemi HSH snýst aðallega um að vera fulltrúi sambandsfélaganna út á við, sækja þá fundi sem ætlast er til utan héraðs. HSH ber ábyrgð á því að varðveita og skipta því fé sem héraðsssambandinu hefur verið veitt. Það þarf að vera með eftirfylgni með aðildarfélögum vegna skila á ársskýrslum til héraðssambandsins ásamt skilum í felix, starfskýrslu og félagatali ÍSÍ og UMFÍ. Veita aðstoð við sameiginleg verkefni aðildarfélaga ásamt útbreiðslu íþróttastarfs og aðstoða við héraðsmót, eins og stendur er það aðallega frjálsar íþróttir. Auður Inga Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri UMFÍ og Sabína Steinunn Halldórsdóttir verkefnastjóri UMFÍ voru fulltrúar UMFÍ á héraðsþinginu. Auður veitti Rán Kristinsdóttir starfsmerki UMFÍ fyrir vel unnin störf fyrir íþróttahreyfinguna í Snæfellsbæ. Garðar Svansson formaður almenningsíþróttasviðs ÍSÍ var fulltrúi þeirra á fundinum. Hann veitti Hilmari Haukssyni og Kristmundi Sumarliðasyni viðurkenningu ÍSÍ fyrir þeirra störf fyrir knattspyrnuna í Snæfellsbæ.



bottom of page