top of page

Fréttir

74. Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands var haldið 3. – 4. maí s.l. í Gullhömrum í Reykjavík. Þrír fulltrúar frá HSH sátu þingið, Hjörleifur K. Hjörleifsson formaður, Garðar Svansson gjaldkeri og Laufey Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri. Þingfulltrúar voru vel á annað hundrað fulltrúa af öllu landinu. Fyrir þinginu lágu 24 tillögur sem fjallað var um í nefndum föstudaginn 3. maí og voru svo afgreiddar laugardaginn 4. maí. Fjölmargar tillögur voru lagðar fram og má þar nefna áskorun um jafnréttismál, áskorun um baráttu gegn öllu ofbeldi, gistiaðstaða fyrir íþróttafólk af landsbyggðinni, tillaga um þjóðarleikvang og stuðningur ríkis við starf íþróttahéraða. Fréttir frá þinginu er hægt að lesa á heimasíðu ÍSÍ.



HSH fékk fljótustu konu Íslands í yfir áratug, Silju Úlfarsdóttir, til þess að koma vestur á Snæfellsnes 1. – 2 maí s.l. með hlaupanámskeið. Síðustu ár hefur Silja verið með sérhæfðar hlaupaæfingar fyrir börn og unglinga til að bæta hlaupastíl, hraða, snerpu, sprengikraft og vinna í stefnubreytingum og liðleika. Fókusinn hefur einnig verið á styrktaræfingar, sérstaklega meiðslafyrirbyggjandi æfingar, ásamt því að læra góðar upphitanir, teygjur og fleira sem ungir og efnilegir unglingar þurfa að huga að og læra að gera rétt. Silja var einnig með opinn fyrirlestur í FSN þar sem hún fór yfir það sem hún hefur lært af sínum ferli sem íþróttamaður og sem þjálfari afreksmanna. Námskeiðið var vel sótt og það voru kátir krakkar og unglingar sem lærðu heilmikið um hlaup í blíðskaparveðri í Grundarfirði. Gaman var að sjá að það voru börn og unglingar sem sóttu námskeiðið sem æfa hinar mismunandi íþróttir, meðal annars frjálsar íþróttir, körfubolta og fótbolta. Þetta var virkilega skemmtilegt og vel heppnað námskeið.


Unglingalandsmót UMFÍ hafa verið haldin árlega um verslunarmannahelgi frá árinu 1992. Mótin hafa vaxið og sannað gildi sitt sem glæsilegar fjölskyldu- og íþróttahátíðir þar sem saman koma þúsundir barna og unglinga ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá. Boðið er upp á fjölda keppnisgreina fyrir 11 – 18 ára börn og ungmenni. Allir á þessum aldri geta skráð sig til leiks. Ekki er skilyrði að æfa íþróttagrein eða vera skráð/ur í ungmanna- eða íþróttafélag. Þegar nær dregur mun skárning fara fram í gegnum heimasíðu UMFÍ (https://www.ulm.is). Stjórn HSH vill gjarnan reyna að fjölga keppendum frá sínu svæði og hvetur fólk til að kíkja á Unglingalandsmótið 😊

Allir ættu að geta fundið afþreyingu við hæfi á Unglingalandsmóti UMFÍ. Hér er smá upptalning af því sem boðið hefur verið uppá áður fyrir alla, bæði keppendur og aðra: Flugeldasýning, fótboltabilljard, fótboltamót barna 10 ára og yngri, fótboltapanna, fótbolti 3:3, frjálsíþróttaleikar barna, gönguferðir, hoppukastalar, sandkastalagerð, sundleikar barna, hestar teymdir undir börnum, 50 metra þrautabraut, kvöldvökur, tónleikar með frábæru tónlistarfólki o.m.fl.

Tengiliðir fyrir Unglingalandsmót UMFÍ 2019 eru:

Stykkishólmur: Eydís Eyþórsdóttir (ebergmann@simnet.is) og Magnús Ingi Bæringsson (mib@simnet.is).

Snæfellsbær: Ragnhildur Sigurðardóttir (ragnhildur@snaefellsnes.is)

Grundarfjörður: Lára Magnúsdóttir (laramagg84@gmail.com)

Vonandi sjáumst við sem flest á Unglingalandsmóti 2019 !

Laufey Helga Árnadóttir

Framkvæmdastjóri HSH

bottom of page