top of page

FréttirLandsmót UMFÍ 50+ verður haldið í Stykkishólmi árið 2021. Mótið er blanda af íþróttum, alls kyns keppnum og hreyfingu með það að markmiði að fá fólk á besta aldri til að hafa gaman saman. Mótið hefur farið fram árlega síðan 2011 og er öllum opið sem verða 50 ára á árinu og eldri. Þátttakendur þurfa ekki að vera skráðir í íþróttafélag og geta allir tekið þátt á sínum forsendum.

Næsta sumar fer mótið fram í Borganesi og því upplagt fyrir alla hjá aðildafélögum HSH að fjölmenna þangað bæði til að taka þátt og öðlast þekkingu á umfangi mótsins til undirbúnings fyrir mótið 2021.

Landsmót UMFÍ 50+ skiptir máli fyrir fólk sem hefur bæði gaman af því að hreyfa sig og hitta aðra. Þangað kemur t.d. fólk sem hefur ekki stundað íþróttir síðan í æsku og rifjar upp hvað það var og er gaman að stunda íþróttir og hreyfa sig með öðrum. Einnig er þar tækifæri fyrir þá sem aldrei kepptu á mótum að láta gamlan draum rætast og skapa í leiðinni góðar minningar. Landsmót UMFÍ 50+ hefur mikla þýðingu fyrir samfélagið getur skilið eftir sig uppbyggingu og þekkingu á svæðinu. Mótið er einnig tækifæri til að vekja athygli á lýðheilsu og þeim möguleikum sem í boði eru til að efla lýðheilsu. Gera má ráð fyrir allt að þúsund þátttakendum frá öllu landinu ásamt fylgdarliði. Þá verður einstakt aðdráttarafl Stykkishólms og Snæfellsness alls nýtt til þess að bæta þar í og auka þátttöku enn frekar.


Sunnudaginn 20. október s.l. var haldin hin árlega Fjölmenningarhátíð í Félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík. Fjölmenningarhátíðin hefur fest sig í sess sem einn af stóru menningarviðburðunum í Snæfellsbæ ár hvert og viðburðurinn stækkað með hverju árinu sem líður. Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu (HSH) var með kynningu á starfi sínu og aðildarfélögum þess. Það voru kátir krakkar ásamt framkvæmdastjóra HSH sem stóðu vaktina og kynntu fyrir gestum hátíðarinnar hvað HSH stendur fyrir. HSH var með til dreifingar vetrartöflur ungmennafélaganna Víkings/Reynis, Ungmennafélags Grundarfjarðar og Ungmennafélagsins Snæfells og kynningarefni um HSH og aðildarfélög þess. Einnig var skoðanakönnun í boði fyrir krakka um íþróttastarf og á hverju þau hafa áhuga, það var ágætis þátttaka og greinilegt að ungt fólk hefur skoðanir á því hvaða íþróttir það vill stunda. Það er mikilvægt fyrir HSH að kynna sín aðildarfélög og hversu mikið og fjölbreytt íþróttastarf er í boði á Snæfellsnesni og að allir eru velkomnir að vera með. Áfram HSH !

Laufey Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri HSH


Unglingalandsmót UMFÍ fór að þessu sinni fram á Höfn í Hornafirði 1. – 4. ágúst s.l. og er þetta orðin rótgróin fjölskylduskemmtun um verslunarmannahelgi. HSH átti góðan hóp á Höfn í Hornafirði og voru mörg ungmenni sem kepptu í hinum ýmsu greinum. Þessi skemmtun er orðin árlegur viðburður hjá mörgum fjölskyldum sem alltaf sækja aftur í landsmótið og svo voru fjölskyldur að fara í fyrsta skipti og fara eflaust aftur.

Hægt er að keppa í hinum ýmsu greinum og margir nota tækifærið til þess að prófa nýjar greinar í bland við sínar greinar. Strandblakið var mjög vinsælt og voru það 99 lið sem tóku þátt í 200 leikjum og er þau töluverið aukning frá því í Þorlákshöfn í fyrra þar sem liðin voru 52. Að sjálfsögðu áttum við í HSH fulltrúa í strandblakinu og er gaman þegar ungmenni nýta sér þessi tækifæri á að keppa í greinum sem eru ekki endilega til staðar á svæðinu.

HSH átti meðal annars keppendur í körfu, knattspyrnu, strandblaki, frjálsum íþróttum, kökuskreytingum, sundi, upplestri og glímu. Öll okkar ungmenni stóðu sig með prýði og lentu nokkur á verðlaunapalli. Vonumst til að sjá enn fleiri keppendur frá HSH á Unglingalandsmóti UMFÍ á Selfossi 2020 😊

Áfram HSH

bottom of page