top of page
Search
  • Writer's picturelaufeyhelga

Allir velkomnir að vera með í íþróttum á Snæfellsnesi

Að taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi hefur marga kosti fyrir börn og unglinga og markmið allra sem starfa á þessu sviði er alltaf að reyna að vinna að því að fá sem flesta til þess að taka þátt. Við sem búum á Snæfellsnesi búum í fjölmenningarlegu samfélagi þar sem íbúar koma frá mörgum löndum og viljum við að sjálfsögðu að allir taki þátt í íþróttum sem og öllu samfélaginu sjálfu. HSH fór af stað í verkefni núna í haust til þess að reyna að kynna fyrir erlendum börnum og unglingum hvað er í boði innan svæðis HSH og að allir eru velkomnir að stunda íþróttir og vera með. HSH fékk styrk frá Ungmennafélagi Íslands og Svæðisgarðinum Snæfellsnesi fyrir verkefnið til þess að kynna fyrir og fjölga erlendum börnum í íþróttastarfi á Snæfellsnesi. Hluti af því var að kynna starfsemi HSH á fjölmenningardeginum sem fram fór í Frystiklefanum á Rifi 20. okt. s.l. Það voru þau Matthías Daði Gunnarsson, Kristófer Máni Atlason og Aldís Guðlaugsdóttir ásamt framkvæmdastjóra HSH sem kynntu fyrir gestum hátíðarinnar hvað HSH stendur fyrir. HSH var með hugmyndakassa fyrir börn og unglinga á fjölmenningarhátíðinni þar sem þau gátu komið með sínar óskir og hugmyndir um íþróttastarf á Snæfellsnesi. Gaman er að segja frá því að fram komu margar skemmtilegar hugmyndir en flestir sem svöruðu vildu fá að stunda skák, fimleika og blak. Margar fleiri hugmyndir komu eins og til dæmis körfubolti, golf, dans, crossfit, handbolti, ballett, karate, ruðningur (rugby) og fleira. Þessum hugmyndum var safnað saman og send á ungmennafélögin á Snæfellsensi og vonandi nýta þau sér eitthvað af þessu. Margret Vilhjálmsdóttir og Hanna Imgront héldu stutt erindi á hátíðinni um það af hverju þær stunda íþróttir og hvaða kosti þær telja að íþróttatiðkun hafi fyrir krakka. HSH hafði látið útbúa og merkja fjölnota poka sem innihélt kynningarbækling fyrir félögin innan HSH og stundatöflur UMF Víkings/Reynis, UMF Grundarfjarðar og UMF Snæfells. Hægt var að fá bæklingana á íslensku, ensku og pólsku. Þessum pokum var svo einnig dreift til allra grunnskólabarna í Grunnskóla Snæfellsbæjar, Grunnskóla Grundarfjarðar og Grunnskóla Stykkishólms. Krakkarnir voru hin ánægðustu með pokana og meðal annars í Grundarfirði sáu nokkrir not fyrir þá og fóru með þá til þess að sníkja nammi á Hrekkjavökunni.

Laufey Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri HSH.


21 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page