laufeyhelga
Unglingalandsmót UMFÍ 2019

Unglingalandsmót UMFÍ fór að þessu sinni fram á Höfn í Hornafirði 1. – 4. ágúst s.l. og er þetta orðin rótgróin fjölskylduskemmtun um verslunarmannahelgi. HSH átti góðan hóp á Höfn í Hornafirði og voru mörg ungmenni sem kepptu í hinum ýmsu greinum. Þessi skemmtun er orðin árlegur viðburður hjá mörgum fjölskyldum sem alltaf sækja aftur í landsmótið og svo voru fjölskyldur að fara í fyrsta skipti og fara eflaust aftur.
Hægt er að keppa í hinum ýmsu greinum og margir nota tækifærið til þess að prófa nýjar greinar í bland við sínar greinar. Strandblakið var mjög vinsælt og voru það 99 lið sem tóku þátt í 200 leikjum og er þau töluverið aukning frá því í Þorlákshöfn í fyrra þar sem liðin voru 52. Að sjálfsögðu áttum við í HSH fulltrúa í strandblakinu og er gaman þegar ungmenni nýta sér þessi tækifæri á að keppa í greinum sem eru ekki endilega til staðar á svæðinu.
HSH átti meðal annars keppendur í körfu, knattspyrnu, strandblaki, frjálsum íþróttum, kökuskreytingum, sundi, upplestri og glímu. Öll okkar ungmenni stóðu sig með prýði og lentu nokkur á verðlaunapalli. Vonumst til að sjá enn fleiri keppendur frá HSH á Unglingalandsmóti UMFÍ á Selfossi 2020 😊
Áfram HSH