top of page
Search
  • Writer's picturelaufeyhelga

Unglingalandsmót er eðal fjölskylduskemmtun


Jóhanna Magnea: Unglingalandsmót er mikil skemmtun. Ég hef farið á unglingalandsmót síðan að ég var lítið barn, þar sem systkini mín hafa verið að taka þátt. Þegar ég hafði aldur til fór ég sjálf að keppa á mótinu. Unglingalandsmót UMFÍ er fjölskylduhátíð sem haldin er um verslunarmannahelgina árlega. Hátíðin er aldrei á sama stað tvö ár í röð. Ég hef t.d. farið á unglingalandsmótið á Sauðarkróki, Akureyri og Borgarnesi. Nú í ár ætla ég í Þorlákshöfn og njóta mótsins með frænku minni, Þrúði Sóley, sem býr þar. Það sem heillar mig svona mikið við unglingalandsmótið er að hægt er að taka þátt í allskonar íþróttum, alveg óháð því hvort þú ert góður í íþróttinni eða ekki. Svo er alltaf full dagskrá af allskonar skemmtilegum viðburðum.

Guðný: Að eiga barn/börn sem hafa ánægju af íþróttum er mikil gjöf og um leið áskorun. Þegar sonur okkar Brynjar Gauti, reyndist vera mikill íþróttagarpur varð að bregðast við því. Þá er nú gott að eiga góða að og fyrstu árin fóru amma og afi með þau systkinin á unglingalandsmót og allir nutu þess svo sannarlega. Ég fór svo á mitt fyrsta unglingalandsmót með börnum og ömmum 2005 í Vík í Mýrdal og það var mikil gleði. Síðan þá höfum við farið á flest mót og alltaf skemmt okkur stórvel. Skipulag og dagskrá mótanna er alltaf til fyrirmyndar og allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Ef að barnið þitt hefur áhuga og ánægju af íþróttum eða ykkur langar að eiga góðan tíma með fjölskyldunni, er unglingalandsmót góður kostur.

Brynjar Gauti: Frá því að ég hafði aldur til að taka þátt var Unglingalandsmótið ávallt einn af hápunktum hvers sumars í mínum huga. Fyrsta Unglingalandsmótið sem ég fór á var á Ísafirði 2003 og fóru amma og afi með mig og yngri systur mína, Kolbrúnu Höllu. Þessi helgi er mér enn í fersku minni, allt frá akstrinum á Ísafjörð sem virtist vera endalaus, að upplifuninni og gleðinni sem fylgdi því að fá að taka þátt á þessu skemmtilega móti. Eftir þetta mót var ekki aftur snúið og tók ég þátt í öllum Unglingalandsmótum þar til ég var orðinn of gamall og önnur verkefni tekin við.

Fyrir mér snerist Unglingalandsmótið að mestu leyti um íþróttakeppnina og var dagskráin venjulega þétt setin hjá mér alla helgina. Ég tók þátt í öllum þeim frjálsíþróttagreinum sem mér stóðu til boða, tók þátt í fótboltamótinu og þá jafnvel með tveimur aldursflokkum. Eitt mótið fékk ég meira að segja að vera aðeins með í körfuboltaliðinu þrátt fyrir að hafa varla snert körfubolta áður. Eina karfan sem ég náði að skora á þessum stutta körfuboltaferli er í mínum huga eitt það eftirminnilegasta sem ég hef gert á mínum íþróttaferli. Dagarnir voru því oft langir hjá mér og fjölskyldu minni þar sem var hlaupið á milli keppnisvalla, uppá tjaldsvæði eða hvar sem það svo sem var sem ég eða systir mín áttum að vera á þeim tímapunkti. Oft stóð það tæpt en ávallt gekk þetta þó allt saman upp og aldrei missti maður af neinu.

Þó að kappið hafi oft verið mikið og íþróttirnar verið í aðalhlutverki eru það þó þessar samverustundir með fjölskyldunni og vinum sem sitja eftir í huganum þegar að maður horfir til baka. Stemmningin á HSH tjaldsvæðinu þar sem allir Snæfellingarnir voru komnir saman var alltaf góð og er mér sérstaklega minnisstætt þegar allir hittust í lok dags í HSH tjaldinu þar sem farið var yfir afrek dagsins hjá hópnum og þau verkefni sem voru framundan. Kvöldvökurnar, skemmtidagskráin, opnunarathöfnin og andrúmsloftið á Unglingalandsmótinu eru síðan nokkrir af þeim hlutum sem gerðu þessar helgar sérstaklega eftirminnilegar og frábrugðnar öðrum frjálsíþrótta- eða fótboltamótum sem maður tók þátt í. Þetta gerði það að verkum að maður var ávallt farinn að telja niður dagana að næsta Unglingalandsmóti um leið og maður hélt heim á leið af því seinasta.

0 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page