laufeyhelga
Snæfell 80 ára
UMF Snæfell fagnaði 80 ára afmæli félagsins s.l. helgi. Margt góðra gesta mætti í afmælishófið í íþróttahúsið og meðal þeirra sem ávarp fluttu voru Ellert Kristinsson, Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ og Hjörleifur Kr. Hjörleifsson. Iðkendur í körfu, fótbolta, fimleikum og frjálsum á vegum Snæfells sýndu listir sínar. Gjafir bárust frá Stykkishólmsbæ og HSH. Stykkishólmsbær færði félaginu eina milljón króna að gjöf til kaupa á hópferðabíl og HSH 80.000 kr. til tækjakaupa. ÍSÍ heiðraði Eydísi Eyþórsdóttur, Hermund Pálsson og Pál Margeir Sveinsson fyrir störf í þágu íþrótta með því að sæma þau silfurmerki sambandsins. Í tilefni tímamótanna voru fjórir aðilar heiðraðir og sæmdir gullmerki UMF Snæfells sem smíðað var af þessu tilefni. Þetta er í fyrsta sinn sem veitt eru heiðursmerki í sögu félagsins. Heiðraðir voru Gretar D. Pálsson, Gissur Tryggvason, Sigurþór Hjörleifsson og Ingi Þór Steinþórsson. Allir þessir aðilar hafa lagt mikið af mörkum á ýmsum sviðum í starfi ungmennafélagsins og eru vel að þessum heiðri komnir. Á myndinni ásamt heiðursmönnunum eru frá v. María Alma Valdimarsdóttir gjaldkeri Snæfells, Sigrún Anna Jónsdóttir, Ragnheiður Axelsdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir, Magndís Alexandersdóttir og Hjörleifur Kr. Hjörleifsson formaður Snæfells að afhendingu lokinni. Að sjálfsögðu var boðið upp á afmælistertu af stærri gerðinni af tilefninu.
am/frettir@snaefellingar.is
