laufeyhelga
Hlaupanámskeið á Snæfellsnesi

HSH fékk fljótustu konu Íslands í yfir áratug, Silju Úlfarsdóttir, til þess að koma vestur á Snæfellsnes 1. – 2 maí s.l. með hlaupanámskeið. Síðustu ár hefur Silja verið með sérhæfðar hlaupaæfingar fyrir börn og unglinga til að bæta hlaupastíl, hraða, snerpu, sprengikraft og vinna í stefnubreytingum og liðleika. Fókusinn hefur einnig verið á styrktaræfingar, sérstaklega meiðslafyrirbyggjandi æfingar, ásamt því að læra góðar upphitanir, teygjur og fleira sem ungir og efnilegir unglingar þurfa að huga að og læra að gera rétt. Silja var einnig með opinn fyrirlestur í FSN þar sem hún fór yfir það sem hún hefur lært af sínum ferli sem íþróttamaður og sem þjálfari afreksmanna. Námskeiðið var vel sótt og það voru kátir krakkar og unglingar sem lærðu heilmikið um hlaup í blíðskaparveðri í Grundarfirði. Gaman var að sjá að það voru börn og unglingar sem sóttu námskeiðið sem æfa hinar mismunandi íþróttir, meðal annars frjálsar íþróttir, körfubolta og fótbolta. Þetta var virkilega skemmtilegt og vel heppnað námskeið.