top of page

Fréttir

Frjálsíþróttaráð HSH stóð fyrir jólamóti í frjálsum íþróttum innanhúss í íþróttahúsinu í Stykkishólmi, sunnudaginn 9. desember sl.

Þar kepptu 8 ára og yngri í langstökki með og án atrennu og 35 m hlaupi og 9-10 ára í sömu greinum að viðbættu hástökki. Ellefu ára og eldri kepptu í hástökki, langstökki með og án atrennu, 35 m hlaupi og kúluvarpi, skipt í fjóra aldursflokka. Það voru um 40 hressir keppendur sem voru mættir til leiks og komu þeir víðsvegar að af Snæfellsnesi.

Mótsgestir höfðu verið hvattir til að mæta í skrautlegum og skemmtilegum sokkum og gaman að sjá hversu margir skelltu sér í skrautlega sokka. Krakkarnir stóðu sig með prýði á mótinu og stemningin var mjög góð. Árangur keppenda er skráður inn á síðu Frjálsíþróttasamband Íslands. Það er greinilegt að við eigum mikið af efnilegum krökkum sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni. Tvö héraðsmet voru slegin og margir bættu persónulegan árangur sinn. Það er orðið frekar fátítt að héraðsmet séu slegin og því gaman að sjá það. Daniel Emmanuel K. Kwakye sló héraðsmetið í langstökki án atrennu í flokki 10 ára. Gamla metið átti Þórður Kárason 1.97 m en Daniel stökk 2.25 m. Margrét Helga Guðmundsdóttir bætti metið í langstökki með atrennu í 14 ára flokki þar sem hún stökk 4.93 m og sló þar út hérðamset sem Heiðrún Sigursjónsdóttir átti síðan 1993.

Allir fengu í lokin þátttökuverðlaun frá HSH, sokka merkta HSH.

HSH vill þakka öllum þátttakendum fyrir þátttökuna og aðstandendum þeirra, sem aðstoðuðu á mótinu.


Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) auglýsti nýverið eftir sambandsaðilum UMFÍ til þess að taka að sér að halda Unglingalandsmót UMFÍ árin 2021 og 2022. Unglingalandsmót er íþrótta- og fjölskylduhátíð sem haldin er um verslunarmannahelgi ár hvert. Unglingalandsmót UMFÍ var haldið fyrst árið 1992 á Dalvík og hefur vaxið og dafnað jafnt og þétt síðan. Hátíðin er nú orðinn ómissandi viðburður um verslunarmannahelgi hjá mörgum fjölskyldum. HSH hefur átt þónokkuð marga keppendur sem fara á hverju ári og keppa í hinum ýmsu greinum ásamt því að eiga góðar stundir með fjölskyldunni. Nýverið kom fyrirspurn til HSH hvort hægt væri að halda Unglingalandsmót UMFÍ á Snæfellsnesi? Það væri hægt að sjá það gert ef félög innan HSH myndu sameinast um að sækja um og sjá um undirbúning og framkvæmd mótsins. Til þess að halda Unglingalandsmót þarf að uppfylla ákveðin skilyrði og samkvæmt reglugerð um Unglingalandsmót UMFÍ skal keppa í glímu, sundi, frjálsum íþróttum, körfuknattleik og knattspyrnu. Mótshaldari ákveður aðrar greinar með samþykki stjórnar UMFÍ.

Fyrir þessar keppnisgreinar þarf að vera viðurkennd aðstaða fyrir keppnissvæði sem dæmi má nefna:

· Frjálsar íþróttir: Frjálsíþróttavöllur með gerviefni

· Glíma: Íþróttahús, salur eða úti

· Golf: 9 holu golfvöllur

· Hestaíþróttir: Hestaíþróttavöllur

· Knattspyrna: 8-10 gras eða gervigrasvellir í minnibolta stærð

· Körfubolti: Íþróttahús þar sem komast fyrir a.m.k. tveir körfuboltavellir eða sambærileg aðstaða Motocross: Motocrosssvæði

· Sund: 25 mtr. sundlaug

Það er vitað fyrirfram að áður en hægt er að sækja um að halda Unglingalandsmót á svæði HSH þarf að eiga sér stað ákveðin uppbygging og endurnýjun á mannvirkjum/íþróttaaðstöðu á Snæfellsnesi. Af þeirri ástæðu sendi stjórn HSH inn bréf til bæjarstjórna í Snæfellsbæ, Grundarfirði og Stykkishólmi og spurðist fyrir um hvort til væri og þá hver væri framtíðarstefna sveitarfélagsins í íþróttamálum til lengri tíma. Það er öllum ljóst að ekki verður sótt um núna en gaman væri ef það væri samantekin ráð að hafa aðstöðu til þess að geta sótt um þetta eftir nokkur ár. Stjórn HSH hvetur því sveitarfélög á Snæfellsnesi að skoða þennan möguleika í framtíðinni.

Að taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi hefur marga kosti fyrir börn og unglinga og markmið allra sem starfa á þessu sviði er alltaf að reyna að vinna að því að fá sem flesta til þess að taka þátt. Við sem búum á Snæfellsnesi búum í fjölmenningarlegu samfélagi þar sem íbúar koma frá mörgum löndum og viljum við að sjálfsögðu að allir taki þátt í íþróttum sem og öllu samfélaginu sjálfu. HSH fór af stað í verkefni núna í haust til þess að reyna að kynna fyrir erlendum börnum og unglingum hvað er í boði innan svæðis HSH og að allir eru velkomnir að stunda íþróttir og vera með. HSH fékk styrk frá Ungmennafélagi Íslands og Svæðisgarðinum Snæfellsnesi fyrir verkefnið til þess að kynna fyrir og fjölga erlendum börnum í íþróttastarfi á Snæfellsnesi. Hluti af því var að kynna starfsemi HSH á fjölmenningardeginum sem fram fór í Frystiklefanum á Rifi 20. okt. s.l. Það voru þau Matthías Daði Gunnarsson, Kristófer Máni Atlason og Aldís Guðlaugsdóttir ásamt framkvæmdastjóra HSH sem kynntu fyrir gestum hátíðarinnar hvað HSH stendur fyrir. HSH var með hugmyndakassa fyrir börn og unglinga á fjölmenningarhátíðinni þar sem þau gátu komið með sínar óskir og hugmyndir um íþróttastarf á Snæfellsnesi. Gaman er að segja frá því að fram komu margar skemmtilegar hugmyndir en flestir sem svöruðu vildu fá að stunda skák, fimleika og blak. Margar fleiri hugmyndir komu eins og til dæmis körfubolti, golf, dans, crossfit, handbolti, ballett, karate, ruðningur (rugby) og fleira. Þessum hugmyndum var safnað saman og send á ungmennafélögin á Snæfellsensi og vonandi nýta þau sér eitthvað af þessu. Margret Vilhjálmsdóttir og Hanna Imgront héldu stutt erindi á hátíðinni um það af hverju þær stunda íþróttir og hvaða kosti þær telja að íþróttatiðkun hafi fyrir krakka. HSH hafði látið útbúa og merkja fjölnota poka sem innihélt kynningarbækling fyrir félögin innan HSH og stundatöflur UMF Víkings/Reynis, UMF Grundarfjarðar og UMF Snæfells. Hægt var að fá bæklingana á íslensku, ensku og pólsku. Þessum pokum var svo einnig dreift til allra grunnskólabarna í Grunnskóla Snæfellsbæjar, Grunnskóla Grundarfjarðar og Grunnskóla Stykkishólms. Krakkarnir voru hin ánægðustu með pokana og meðal annars í Grundarfirði sáu nokkrir not fyrir þá og fóru með þá til þess að sníkja nammi á Hrekkjavökunni.

Laufey Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri HSH.


bottom of page