top of page

Fréttir

Við í HSH höfum vitað af einstaklega duglegum ungum dreng í Stykkishólmi sem æfir frjálsar íþróttir og lætur ekki þjálfaraleysi stoppa sig og gerir sitt allra besta ásamt foreldrum sínum til þess að æfa. Við fengum hann til þess að segja aðeins frá sér og sínum aðstæðum.


Ari Bergmann heiti ég og kem úr Stykkishólmi. Ég hef æft frjálsar frá því að ég var í 3. Bekk og hef alltaf haft jafn gaman af. Ég spilaði einnig körfubolta en ákvað eftir 10. bekk að hætta þar sem ég vildi einblína á frjálsar íþróttir. Spretthlaup eru mínar greinar, en ég keppi í 60m, 100m, 200m og 400m hlaupum. Því miður eru aðstæður þannig að ég hef verið þjálfaralaus í Stykkishólmi síðustu 2 ár. Ég æfi hins vegar sjálfur í 2-3 tíma á dag, fimm til sex daga vikunnar, ásamt því keppi ég á mótum bæði innan- og utanhúss yfir árið. Ég er mjög heppinn, en foreldrar mínir hafa verið til í að keyra mig á æfingar hjá FH í Hafnarfirði á föstudögum. En þá hef ég möguleika á því að æfa með þjálfara og æfingafélögum á föstudögum og stundum laugardögum.


Í sumar var ég svo heppinn að fá að fara með FH á Gautaborgarleikana í frjálsum íþróttum. Það var mæting í Kaplakrika hjá FH kl. 04:45 og haldið beint út á flugvöll. Þegar við mættum í rútuna var tónlistin sett í botn og flestir sungu með, það átti greinilega að vera mikið fjör í þessari ferð!


Við gistum á hóteli í Gautaborg en það tók okkur um 15 mínútur að labba á leikvanginn. Þetta var vikuferð en mótið sjálft var dagana 28 til 30 júní. Gautaborgarleikarnir eru haldnir árlega á Ullevei leikvanginum og þar er aðstaðan alveg frábær. Keppnin er fyrir krakka á aldrinum 11 ára og upp úr. FH sendi hóp af 25 keppendum á aldrinum 13 til 22 ára. Ásamt keppendum voru fjórir fararstjórar og þrír þjálfarar, mamma var líka svo heppinn að ég tók hana með.


Ég keppti í 100m, 200m og 400m spretthlaupum og náði að bæta mig í öllum greinum. Þetta er fyrsta mótið sem ég keppi á erlendri grundu og einnig stærsta mót sem ég hef keppt á. En t.d. í 200m hlaupinu voru tólf riðlar og það var hlaupið á 9 brautum í hverjum riðli. Mótið fór mjög vel fram og var skipulagningin mjög góð, enda veitir ekki af á svona stóru móti. Þetta var ótrúlega skemmtilegt mót, gaf mér reynslu og ég stefni á að fara þangað aftur og keppa!


Til að fjármagna ferðina fór ég í fjáröflun og seldi flatkökur hér í Hólminum og einnig vinum og ættingjum annarsstaðar á landinu. Ég vil nota tækifærið og þakka kærlega fyrir stuðninginn.


Héraðssamband Snæfellsness og Happadalssýslu hélt sitt árlega jólamót í frjálsum íþróttum innanhúss í íþróttahúsinu í Stykkishólmi, sunnudaginn 24. nóvember s.l.


Mótið gekk vel fyrir sig og það voru um 45 sprækir krakkar víðsvegar af Snæfellsnesi sem tóku þátt í mótinu. Keppendur voru flestir á aldrinum 6 – 11 ára. 8 ára og yngri kepptu í langstökki með og án atrennu og 35 m hlaupi og 9-10 ára í sömu greinum. Ellefu ára og eldri kepptu í hástökki, langstökki með og án atrennu, 35 m hlaupi og kúluvarpi.


Allir keppendur stóðu sig með prýði á mótinu og stemningin var mjög góð. Í lok móts fengu allir þátttökuverðlaun frá HSH, bakpoka merkta HSH.


HSH vill þakka þátttakendum fyrir þátttökuna á mótinu og aðstandendum þeirra, sem aðstoðuðu við framkvæmd á mótinu.




bottom of page