Íþróttamaður HSH 2018

Blakmaður HSH 2018 – Lydía Rós Unnsteinsdóttir , Umf. Grundarfjarðar 

Lydía Rós er efnilegur leikmaður sem hefur tekið miklum framförum á síðasta tímabili. Hún hefur góð áhrif á liðið bæði innan og utan vallar. Ávallt hress, jákvæð og lífgar svo sannarlega upp á stóra æfingahópinn.  

 

 

Hestaíþróttamaður HSH 2018 - Siguroddur Pétursson, Snæfelling 

Siguroddur hefur staðið sig gríðarlega vel í keppnum á árinu og tók þátt í öllum stærstu mótum hestamanna á árinu. Á Hestaþingi 

Snæfellings sem einnig var úrtaka fyrir Landsmót hestamanna mætti hann með fjóra hesta og náði að koma þeim öllum inná landsmót.  Á landsmótinu stóð hann sig gríðarlega vel, eftir að hafa unnið B úrslit og unnið sig uppí A úrslit þá endaði hann í 4. sæti. 

Á Íslandsmóti hestamanna var hann með Stegg frá Hrísdal í bæði Fjórgangi og Tölti og endaði í 2. sæti í fjórgang og 3. sæti í tölti. 

Á Reykjavíkurmeistaramótinu var Siguroddur með Stegg í tölti og endaði þar í 4. sæti. 

 Feif Wold Ranking listinn sem er listi yfir allar keppnir sem haldnar eru í heiminum á íslenska hestinum og þar er Siguroddur mjög ofarlega í Tölti og Fjórgang. 

 

 

Knattspyrnumaður HSH 2018 – Vignir Snær Stefánsson, Umf. Víking 

Vignir Snær er uppalinn í Víkingi Ó. en hann var í lykilhlutverki liðsins sumarið 2018 og skoraði tvö mörk þegar liðið endaði í 4. sæti 1. deildar og komst alla leið í undanúrslit bikarkeppninnar.  
Vignir, sem er 22 ára, er með mikinn baráttuanda sem smitar út frá sér. Hann er frábær liðsmaður innan sem utan vallar. Víkingshjartað slær ört í Vigni. 

 

 

Kylfingur HSH 2018 - Rögnvaldur Ólafsson, Golfklúbbnum Jökul 

Hann er okkar fremsti kylfingur og lykilmaður í  sveit Jökuls sem keppir í efstu deild. Hann er góð fyrirmynd og alltaf reiđubúinn ađ leiđbeina fólki međ sveifluna.  

 

 

Körfuknattleiksmaður HSH 2018 – Berglind Gunnarsdóttir, Umf. Snæfell 

Berglind Gunnarsdóttir byrjaði snemma í körfubolta og hefur hún spilað vel yfir 287 leiki með unglinga- stúlkna- og mfl. Snæfells einnig hefur hún leikið 21 landsleik og 18 leiki með yngri landsliðum.  Berglind er í krefjandi námi og átt við þrálát meiðsli að stríða en slær ekkert af, alltaf tilbúinn að mæta á æfingar, leiki og landsleik þar sem hún hefur verið fastamaður undanfarinn ár. Berglind hefur alltaf staðið sig vel bæði utanvallar sem innan. Á síðasta tímabili skoraði hún 13,1 stig að meðaltali í leik, tók 5,1 frákast, gaf 2,7 stoðsendingar og var með 11,6 framlagsstig í leik.   

Berglind er með betri varnarmönnum deildarinnar og hefur fengið mörg verðlaun fyrir sína spilamennsku.  

Nálgun og elja Berglindar er öðrum til fyrirmyndar. 

 

 

Skotíþróttamaður HSH 2018 – Jón Pétur Pétursson, Skotfélag Snæfellsness 

Jón Pétur hefur verið formaður félagsins frá árinu 2011. Frá því að hann tók við stjórninni hefur félagið vaxið og dafnað, fjöldi félagsmann hefur aukist mikið og viðburðum félagsins einnig. Hefur hann verið mjög drífandi í þeirri uppbyggingu sem átt hefur sér stað og varið ómæltum tíma í að sinna málum félgsins. Hannaði hann skothús félagsins sem er í byggingu, aflað fjölda stykja fyrir félagið og sinnt málum þess að mikilli elju. Hefur hann alltaf verið boðinn og búinn að aðstoða annað skotfólk við hin ýmsu mál.  

Jón Pétur gerir oftast lítið úr þeirri vinnu sem hann vinnur fyrir félagið en er óspar á að hrósa öðrum fyrir þeirra störf. Skotfélag Snæfellsness væri ekki eins án hans og nú er komin tími á að hann fá það hrós sem hann á svo sannarlega skilið. 

 

Vinnuþjarkur HSH 2018 – Skotgrund Skotfélag Snæfellsness 

Stjórn Skotfélag Snæfellsness hefur verið að skila miklu og góðu starfi á síðustu árum. Þeir hafa markvist unnið að því að fjölga í félagatalinu sínu  með 
átaki í öflun félaga. Á fáum árum hefur félagatalið farið úr 19 í 172 félaga. Félagið hefur haldið úti góðu kvennastarfi með mikilli aukningu kvenna í skotíþróttum. Haldið  námskeið fyrir nýliða, verið með vopnasýningar, ásamt  öflugu  mótahaldi. 
Einnig hefur félagið staðið fyrir mikilli uppbyggingu á íþróttasvæði sínu. Byggt hefur verið skothús, steypt borð fyrir riffilskot, svæðið snyrt og lagfært. Jafnframt geta þess að öll skýrsluskil til HSH hefur verið mjög góð, greinagóð skýrsla um störf félagsins ásamt myndum.  
Öll vinna og umgjörð hefur verið til mikill fyrirmyndar. Við metum störf Skotfélagsins mikils og félagið vel að Vinnuþjark HSH komið. 

Íþróttamaður HSH 2018 Vignir Snær Stefánsson, Víkingur Ólafsvík