Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Færslur: 2013 Febrúar

08.02.2013 17:14

Vesturlandsmót í Bridds

Vesturlandsmótið í sveitakeppni í bridds verður haldið á Hótel Hamri við Borgarnes helgina 16. - 17. febrúar nk. Þrjár efstu sveitirnar vinna sér rétt til þátttöku á Íslandsmótinu í sveitakeppni.  Spiluð verða að lágmarki 120 spil.  Skráning og frekari upplýsingar eru hjá Ingimundi á zetorinn@visir.is eða í síma 861-5171.  

 

 

08.02.2013 17:08

Hvað gang gera frjáls félagasamtök

Málþing á vegum Almannaheilla - Hvaða gagn gera frjáls félagasamtök?

almannaheillAlmannaheill standa fyrir málþingi þriðjudaginn 12. febrúar kl. 12:15 - 13:45 í Háskólanum í Reykjavík í fyrirlestrarsal M101 undir yfirskriftinni ,,Hvaða gagn gera frjáls félagasamtök?

 

12:15 Þingið opnað


Ragna Árnadóttir formaður Almannaheilla opnar þingið og segir  frá vinnu Almannaheilla með stjórnvöldum að gerð lagafrumvarps  um frjáls félagasamtök sem vinna í þágu almennings, þess efnis að viðurkennt verði með  áþreifanlegum hætti tilvist og framlag  þriðja geirans til íslensks samfélags.


12:25 Áhrif félagsstarfs á heilsufar 

Una María Óskarsdóttir MA í lýðheilsufræðum og BA í uppeldis- og menntunarfræðum. 5 mín til fyrirspurna.


12:45 Það sem ég fékk með aðild minni  -  félagar segja frá


12:50 Þáttur frjálsra félagasamtaka í lýðræði


Björn Þorsteinsson doktor í heimspeki og sérfræðingur við Heimspekistofnun Háskóla Íslands ræðir um samband lýðræðis, upplýsingar og menntunar út frá gömlum og nýjum kenningum. Jafnframt mun hann segja frá starfi Öldu, félags um sjálfbærni og lýðræði, sem hann hefur tekið þátt í frá stofnun félagsins í nóvember 2010. 5 mín til fyrirspurna


13:10 Það sem ég fékk með aðild minni  -  félagar segja frá


13:15 Hvert er framlag frjálsra félagasamtaka?


Ketill B. Magnússon framkvæmdastjóri Festu -  miðstöðvar um samfélagsábyrgð og formaður Heimilis og skóla landssamtaka foreldra.  MBA og MA. 5 mín til fyrirspurna.


13:35 Það sem ég fékk með aðild minni  - félagar segja frá.


13:40 Lokaorð
Ragna Árnadóttir

08.02.2013 12:38

Mikilvægur sigur á KR

Sigurður Þorvaldsson skoraði 24 stig á 23 mínútum í kvöld.
Sigurður Þorvaldsson skoraði 24 stig á 23 mínútum í kvöld. Mynd/Stefán
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snæfellingar komust aftur á sigurbraut í Fjárhúsinu í Stykkishólmi í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld þegar þeir unnu sex stiga sigur á KR, 110-104. Snæfell hafði tapað tveimur deildarleikjum í röð í húsinu sem og undanúrslitaleik í bikarnum. KR-ingar hafa nú þremur deildarleikjum í röð.

Sigurður Þorvaldsson (24 stig) og Jay Threatt (24 stig og 11 stoðsendingar) voru stigahæstir hjá Snæfelli. Jón Ólafur Jónsson skoraði 19 stig og Ryan Amaroso var með 17 stig og 12 fráköst á 27 mínútum í sínum fyrsta leik með Snæfelli á þessu tímabili.

KR-ingar hafa þar með tapað öllum leikjum sínum með þá Darshawn McClellan og Brandon Richardson saman en Bandaríkjamennirnir komu til KR-liðsins eftir áramót. Richardson var með 20 stig í kvöld en McClellan skoraði 12 stig þar af átta þeirra undir lok leiksins. Helgi Már Magnússon skoraði 17 stig fyrir KR en þeir Brynjar Þór Björnsson og Martin Hermannsson skoruðu báðir 16 stig.

KR byrjaði betur og var 23-4 eftir rúmlega sjö mínútna leik en Snæfell átti góðan spretti í lok leikhlutans og það munaði bara einu stigi, 24-25, eftir fyrsta leikhlutann. Snæfell vann annan leikhlutann 27-21 og var fimm stigum yfir í hálfleik, 51-46.

Snæfellingar gerðu síðan út um leikinn með því að vinna fjórar fyrstu mínútur seinni hálfleiks 20-9 og komast sextán stigum yfir, 71-55. KR-ingar náðu aðeins að laga stöðuna en ógnuðu aldrei sigri heimamanna.

07.02.2013 19:34

Þing KSÍ

Ársþing 2013 - Þingið sett kl. 11:00

Þingið fer fram laugardaginn 9. febrúar á Hilton Nordica Hótel

6.2.2013

Ársþing KSÍ, það 67. í röðinni, verður haldið á Hilton Nordica Hótel laugardaginn 9. febrúar. Þingið verður sett kl. 11:00 en afhending þinggagna hefst kl. 10:00.

Þingið verður sett kl. 11:00 laugardaginn 9. febrúar og gert er ráð fyrir að því ljúki um kl. 16:00 sama dag. Öllum þingfulltrúum er boðið til sameiginlegs kvöldverðar og skemmtunar sem hefst kl. 19:30 á Reykjavík Hótel Natura.

Á undan verður boðið upp á fordrykk frá kl. 18:30 á sama stað. (Þingfulltrúum er boðið til kvöldverðar en félög geta keypt miða fyrir fleiri gesti - Vinsamlegast hafið samband við Ragnheiði 510-2905, ragnheidur@ksi.is

Hægt er að nálgast allar fréttir er tengjast ársþinginu hér.

HSH á 5 fulltrúa á þinginu og fara 4 frá Víking og 1 frá UMFG

07.02.2013 19:30

Vesturlandssýning hestamannaFulltrúar hestamannafélaga á Vesturlandi og Hrossaræktarsambands Vesturlands 
hafa ákveðið að efna til 
Vesturlandssýningar í reiðhöllinni Faxaborg, Borgarnesi,
laugardaginn 23. mars n. k.

Þetta er þriðja árið í röð sem Vesturlandssýningin er haldin í Faxaborg en mikil ánægja var með Vesturlandssýninguna2011 og 2012 og mun því allt kapp verða lagt á að sýningin í ár verði sem glæsilegust.

Á sýningunni munu koma fram vestlenskir gæðingar og dæmi um sýningaratriði
eru sýningar hjá börnum og unglingum, ásamt fimmgangs og fjórgangshestum,
skeiði, tölti, kynbótahrossum og ræktunarbúum ásamt mörgum fleiri atriðum með
góðum gestum. Dagskrá verður auglýst þegar nær dregur.
Þeir sem hafa ábendingar um atriði eða hross, sem eiga erindi á sýninguna geta
komið þeim á fram við eftirfarandi aðila:

          Arnar Asbjörnsson, arnarasbjorns@live.com  gsm: 841-8887
          Hlöðver  Hlöðversson, toddi@simnet.is  gsm: 661-7308
          Stefan Armannsson,  stefan@hroar.is gsm: 897-5194
          Heiða Dís Fjelsted,  heidadis@visir.is  gsm: 862-8932 (tengiliður vegna barna unglinga)

Undirbúningsnefndin

Fulltrúar hestamannafélaga á Vesturlandi og Hrossaræktarsambands Vesturlands efna til sýningar Fulltrúar hestamannafélaga á Vesturlandi og Hrossaræktarsambands Vesturlands hafa ákveðið að efna til Vestu rlandssýningar í reiðhöllinni Faxaborg, Borgarnesi, laugardaginn 23. ma rs n. k. Þetta er þriðja árið í röð...

07.02.2013 19:27

Björn Pálsson með 2 ára samning við Víking

Bjössi PálsBjörn Pálsson skrifaði nýverið undir tveggja ára samning við Víking Ólafsvík en hann hefur undanfarin tvö ár verið á láni hjá félaginu frá Stjörnunni. Hann á að baki yfir 170 leiki í meistaraflokk og yfir 40 leiki í efstu deild með Garðbæingum.

Í fyrra var Bjössi í lykilhlutverki í liði Víkings þar sem hann kom við sögu í öllum 22 leikjum liðsins þegar það tryggði sér sæti í úrvalsdeild. Auk þess skoraði kappinn 3 mörk, 2 gegn Haukum á Ásvöllum og eitt gegn KA-mönnum á Akureyri, sælla minninga.

Víkingurol.is setti sig í samband við kappann í tilefni af nýja samningum.

Það er búinn að vera langur aðdragandi að þessu - ertu ekki sáttur að vera loks búinn að semja?

Jú, mjög sáttur. Þetta var orðinn ágætis tími þar sem ég var samningslaus, tæpir 3 mánuðir, þannig að það var gott að klára þetta og vita hvernig landið liggur næstu mánuðina. Það skrúfar líka upp metnaðinn að vita hvert maður stefnir og hvaða verkefni eru framundan.

Það er ljóst að liðinu bíður erfitt verkefni í sumar, hvernig metur þú möguleika liðsins?

Ég tel möguleikana góða. Auðvitað er þetta brekka en hún er langt frá því að vera of brött þó það þurfi auðvitað að bæta við smá mannskap og svo fínpússa hann þegar hann verður kominn. Þar fyrir utan eru góðir hæfileikar í liðinu og margir leikmenn sem geta sprungið út í sumar.

Hvernig leggst það í þig að flytja vestur?

Bara vel. Ég er náttúrulega alinn upp í litlum bæ úti á landi en er búinn að búa allt árið í borginni alveg frá og með 2008. Þannig að þetta verður breyting fyrir mig og vonandi skemmtileg.

Liðið hefur farið brösulega af stað í byrjun undirbúningstímabilsins, er það eitthvað til að hafa áhyggjur af?

Það hefur verið smá ströggl á liðinu og við verið mjög misjafnir milli leikja. Af þeim þremur (viðtalið tekið fyrir leik Víkings gegn Stjörnunni) leikjum sem við höfum spilað í fotbolta.net mótinu höfum við bara spilað vel í 45 mínútur og það var í fyrri hálfleik á móti ÍA. Ég hef svo sem ekki miklar áhyggjur en auðvitað er aldrei skemmtilegt að spila illa. Ég vonast bara til þess að það komist mynd á leikmannahópinn sem fyrst svo liðið geti farið að stilla saman strengi sína sem allra fyrst.

07.02.2013 19:24

Sigur í Njarðvík

Kvennakörfufréttir - 6. febrúar 2013


Snæfellsstúllkur sigruðu Njarðvík 61-78 og voru með undirtökin allan tímann í leiknum. Þær byrjuðu fyrsta leikhluta sterkt 8-19 og litu ekki til baka eftir það. Staðan í hálfleik  var 28-43 fyrir Snæfell. Stigaskor var jafnara í seinni hálfleik en ekkert sem ógnaði forskoti Snæfells sem landaði sigri og eru þar með áfram í öðru sæti með 32 stig en Keflavík er í fyrsta með 36 stig og Valur í þriðja með 24 stig.

 

Njarðvík-Snæfell 61-78 (8-19, 20-24, 18-19, 15-16)
 
 
Njarðvík: Lele Hardy 35/16 fráköst, Svava Ósk Stefánsdóttir 7/6 fráköst, Ásdís Vala Freysdóttir 6, Sara Dögg Margeirsdóttir 3, Soffía Rún Skúladóttir 2, Guðlaug Björt Júlíusdóttir 2, Heiða B. Valdimarsdóttir 2, Salbjörg Sævarsdóttir 2/6 varin skot, Emelía Ósk Grétarsdóttir 2, Erna Hákonardóttir 0, Eva Rós Guðmundsdóttir 0, Marín Hrund Magnúsdóttir 0.


 
Snæfell: Kieraah Marlow 24/15 fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir 16/7 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 13/4 fráköst, Rósa Indriðadóttir 8, Hildur Sigurðardóttir 6/13 fráköst/5 stoðsendingar, Alda Leif Jónsdóttir 6/7 fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 5/5 fráköst, Silja Katrín Davíðsdóttir 0, Rebekka Rán Karlsdóttir 0, Aníta Sæþórsdóttir 0, Brynhildur Inga Níelsdóttir 0.

 

Tölfræði leiksins

07.02.2013 19:20

Snæfell og Geislinn í samstarfi í knattspyrnu


6. febrúar 2013

Um miðja síðustu viku undirrituðu forsvarsmenn knattspyrnuliðs Snæfells og Geislans á Hólmavík samkomulag um að tefla fram sameiginlegu liði í fjórðu deild Íslandsmóts karla næsta sumar. Liðið mun leika heimaleiki sína í Stykkishólmi en æfingar þess munu verða hópaskiptar í Reykjavík, Stykkishólmi og Hólmavík. Síðastliðið sumar tapaði Snæfell öllum sínum leikjum í 3. deild og endaði með markatöluna 2-175. Þetta mun vera í fyrsta sinn í 19 ár sem Geislinn spilar á Íslandsmóti í fótbolta.

 

06.02.2013 00:09

Ánægjuvogin, kynning 11 febrúar í Borgarnesi

                                                                                                     

 


 

ÁNÆGJUVOGIN -STYRKUR ÍÞRÓTTA

 

niðurstöður rannsókna og hugleiðingar um skipulagt

 íþróttastarf fyrir börn og ungmenni

 

 

Ánægjuvogin er könnun sem UMFÍ og ÍSÍ stóðu að í sameiningu á stöðu íþróttastarfs, ánægju iðkenda, stöðu áfengis og tóbaksnotkunar og fleira meðal sambandsaðila í 8.-10.bekk.

 

Mánudaginn 11.febrúar munu UMFÍ og ÍSÍ standa í sameiningu fyrir fundi í Hjálmakletti, menningarhúsi Borgarfjarðar og hefst fundurinn klukkan 20:00.

 

Þar mun Dr. Viðar Halldórsson, félagsfræðingur, m.a. ræða um hvort að íþróttahreyfingin sé að standast áskoranir nútímasamfélags eða eingöngu að þjálfa til árangurs. Viðar mun styðjast við niðurstöður rannsóknarinnar Ánægjuvogin sem Rannsókn og greining gerði fyrir UMFÍ og ÍSÍ.

 

 

 

Þátttaka er ókeypis og öllum heimil.

 

 


04.02.2013 20:52

Tap gegn Keflavíkurstúlkum

3. febrúar 2013
Snæfell 66 - 75 Keflavík

Keflavík vann í dag sinn þriðja deildarisgur í Domino´s deildinni gegn Snæfell og hefur nú sex stiga forskot á Hólmara en liðin áttust við í Stykkishólmi í dag.
 
 

Byrjunarlið Snæfells: Hildur Sig, Alda Leif, Hildur Björg og Kieraah Marlow
Byrjunarlið Keflavíkur: Pálína, Jessica, Sara Rún, Birna og Bryndís
 

Keflavíkurstúlkur sigruðu fyrir viku síðan í bikarkeppninni og tryggðu sér þar með sæti í úrslitaleiknum gegn Valsstúlkum, en í dag var það Dominosdeildin þar sem Keflavík höfðu einugis tapað einum leik. Keflavík höfðu sigrað báða leiki liðanna í deildinni fyrir daginn í dag og því síðasti séns Hólmara að ná að eiga möguleika á að ná Keflavík á toppnum.
 

Kieraah Marlow byrjaði leikinn af miklum krafti fyrir heimastúlkur og skoraði 17 stig í fyrsta leikhluta. Jessica Ann hélt í við hana og skoraði 12 stig. Eftir að Keflavík höfðu verið yfir 17-21 skoruðu Snæfellsstúlkur síðustu níu stig leikhlutans og leiddu 26-21. Áfram héldu Hólmarar að leiða leikinn 34-27 en síðustu fimm mínúturnar í fyrri hálfleik var Hólmurum fyrirmunað að skora og Keflavíkurstúlkur sem voru mjög grimmar að slá út um allan völl þvinguðu Snæfell í mikið af töpuðum boltum eða 11 þar af 9 í öðrum leikhluta.
 

Stigahæst í Snæfell var Kieraah með 19 stig og næst kom Hildur Björg með 6.
Stigahæst í Keflavík var Jessica Ann með 16 stig og næst kom Bryndís Guðmunds með 9.
 

Keflavík voru einbeittar og ákveðnar í upphafi þriðja leikhluta og lögðu þær grunninn að sigrinum á þessum kafla, þær komust í 36-49 áður en Snæfell rönkuðu við sér þegar fyrirliðinni Hildur Sigurðardóttir setti niður góða körfu. Snæfell neituðu að leggja upp laupana og bættu í, þær minnkuðu muninn í 53-55 með þrist frá fyrirliðanum rétt fyrir lok þriðja leikhluta. Keflvíkingar höfðu áfram frumkvæðið og var ótrúlegt að Snæfell skyldi hanga inní leiknum á öllum þessum töpuðu boltum en þeir voru 27 í heildina. Staðan 61-64 þegar að um fimm mínútur voru eftir af leiknum. Birna Valgarðs og Jessica settu þá niður sex vítaskot og Keflavík komust í 61-70, þá forystu létu þær ekki af hendi þrátt fyrir að Snæfell reyndu hvað þær gátu.
 

Jessica Ann Jenkins var best í liði Keflavíkur með 31 stig og 11 fráköst, næst henna kom Birna Valgarðs með 18 og Bryndis Guðmunds var með 13 stig.
Hjá Snæfell var það Kieraah Marlow sem var stigahæst með 31 stig og 8 fráköst en næstar henni komu nöfnurnar Hildur Sig og Hildur Björg með 9.
 

27 tapaðir boltar eru ekki uppskriftin að sigurleik og það þurfa Snæfellsstúlkur að laga fyrir næsta leik. Þær sýndu Keflavíkurstúlkunum alltof mikla virðingu og leyfðu þeim að berja sig útúr leiknum. Keflavíkurliðið spilaði grimmt og refsuðu Snæfell fyrir sín mistök og fóru heim með stigin tvö sem þetta jú snýst allt um.
 

Keflavík eru því sex stigum á undan Snæfell á toppnum þegar tíu umferðir eru eftir af 28 leikja móti og verður erfitt fyrir nokkuð lið að ná þeim úr þessu. En það á aldrei að segja aldrei og verður fróðlegt að sjá hvort að eitthvað lið nái að stöðva þetta Keflavíkurlið.

 

Snæfell leika næst á miðviudag gegn Njarðvík á útivelli en Keflavík fá Valsstúlkur í heimsókn.
 

Dómarar leiksins voru Þeir Björgvin Rúnarsson og Rögnvaldur Hreiðarsson en þeir báru of mikla virðingu fyrir Keflavík í þessum leik.
 

Snæfell-Keflavík 66-75 (26-21, 10-16, 17-18, 13-20)
 

Snæfell: Kieraah Marlow 31/8 fráköst, Hildur Sigurðardóttir 9/15 fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir 9/11 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 8/5 fráköst/5 stoðsendingar, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 5, Alda Leif Jónsdóttir 3/8 fráköst, Rósa Indriðadóttir 1/4 fráköst, Sara Sædal Andrésdóttir 0.
 

Keflavík: Jessica Ann Jenkins 31/11 fráköst, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 18/8 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 13/8 fráköst, Pálína Gunnlaugsdóttir 7/5 stolnir, Sara Rún Hinriksdóttir 4/7 fráköst, Sandra Lind Þrastardóttir 2, Aníta Eva Viðarsdóttir 0, Lovísa Falsdóttir 0, María Ben Jónsdóttir 0, Telma Lind Ásgeirsdóttir 0, Ingunn Embla Kristínardóttir 0.
 

Umfjöllun/ Arnþór Pálsson


Myndir Eyþór Benediktsson

Myndir Sumarliði Ásgeirsson

04.02.2013 20:49

Snæfell náði hefndum geng stjörnuninni

1. febrúar 2013
Eins stigs baráttusigur í Garðabæ


Það var sannkallaður toppslagur í Ásgarði þegar Snæfellingar heimsóttu Stjörnuna. Hólmarar áttu harma að hefna en Garðabæjarliðið gerði góða ferð í Stykkishólm á dögunum og tryggði sér sæti í bikarúrslitaleiknum. Stjörnumenn léku án Marvins Valdimarssonar sem sat borgalega klæddur meðal varamanna vegna meiðsla.


 
Stjörnumenn byrjuðu leikinn af krafti en Brian Mills skoraði fyrstu stig leiksins með góðu þriggja stiga skoti eftir að hafa varið skot á hinum enda vallarins. Þetta virtist kveikja í Garðbæingum sem tóku frumkvæðið og léku öfluga vörn í upphafi leiks en Snæfell skoraði sín fyrstu stig af gólfinu eftir tæpar 4 mínútur. Upphafs mínúturnar voru hálfgert einvígi milli bandaríkjamannanna Jarrid Frye hjá Stjörnunni og Jay Threatt hjá Snæfellingum en Frye virtist geta skorað að vild og Threatt var einkar fingralangur í vörn Hólmara, stal boltanum trekk í trekk og skilaði auðveldum stigum í hús.

 

Jafnt var á öllum tölum en Snæfelllingar leiddu eftir fyrsta leikhluta, staðan 21-23. Frye kominn með 12 stig hjá þeim bláklæddu en Threatt með 8 hinum megin. Jón Ólafur Jónsson fékk sína þriðju villu seint í leikhlutanum og deginum ljósara að það gæti gert róðurinn erfiðan fyrir Hólmara enda lykilmaður þar á ferð.
 

Snæfellingar mættu ákveðnir til leiks í öðrum leikhluta og náðu 9 stiga forskoti í stöðunni 31-22, Jarrid hélt áfram uppteknum hætti hjá Stjörnunni og hreinlega bar uppi sóknarleik liðsins á meðan stigaskor dreifðist mun betur hjá leikmönnum Snæfells, Pálmi Freyr og Sigurður Þorvaldsson áttu afar góða innkomu af bekknum og hreinlega röðuðu niður þriggja stiga skotunum. Fyrrum Snæfellingurinn Justin Shouse lét fremur lítið fyrir sér fara og skoraði sín fyrstu stig eftir um 15 mínútna leik. Að sama skapi var Jón Ólafur meðvitundarlítill í sóknarleik Snæfells en hann virtist láta ágengan varnarleik Stjörnunnar fara í taugarnar á sér á köflum.

 

Jón fékk sína fjórðu villu skömmu fyrir hálfleik fyrir brot á Justin Shouse í stöðunni 34-39. Hólmurum var ekki skemmt og fór það svo að dæmdar voru tvær tæknivillur, annars vegar á bekkinn og hins vegar á Jón Ólaf. Justin Shouse fór því í fjórgang á vítalínuna, setti öll skotin niður og Stjarnan hélt boltanum. Jovan Zdravevski fullkomnaði svo 6 stiga sókn Garðbæinga með því að setja niður gott skot og Stjarnan komin yfir, hreint ótrúlegt atvik. Snæfellingar voru þó ekki af baki dottnir og Jay Threatt svaraði að bragði á hinum enda vallarins með þrist, allt í járnum og sannarlega bráðfjörugur endir á fyrri hálfleik.


Staðan í hálfleik 48-47 Garðbæingum í vil og allt stefndi í æsilegan síðari hálfleik. Stigahæstir hjá Stjörnunni voru Frye með 19 stig og Jovan með 12 en hjá Snæfelli voru Jay Threatt og Pálmi Sigurgeirsson með 13 stig hvor auk þess sem Sigurður Þorvaldsson lagði þrjá þrista í púkkið með 9 stig. Stóru mennirnir hjá Snæfelli voru báðir komnir í villuvandræði en Asim MqQueen nældi sér í 3 villur í fyrri hálfleik og Jón Ólafur fjórar eins og áður sagði.
 

Fjörið hélt áfram í þriðja leikhluta og bæði lið voru ákveðin í að gefa ekkert eftir, Sigurður Þorvaldsson hóf leik á glæsilegum þrist og enn var það Jarrid Frye sem lét hlutina gerast fyrir Garðbæinga en hann kveikti all hressilega í kofanum með hörkutroðslu snemma í leikhlutanum. Þegar tæplega þrjár mínútur lifðu af þriðja leikhluta kom Jay Threatt Snæfellingum yfir með ævintýralegum þrist lengst neðan úr miðbæ auk þess að hljóta vítaskot að auki eftir brot Justin Shouse, þessi fjögurra stiga sókn kom Snæfellingum yfir en gleðin var skammvinn, örskömmu síðar fauk Asim MqQueen útaf með sína fimmtu villu, fjölmörgum Hólmurum í húsinu til lítillar gleði. Á þessum tímapunkti í leiknum var mikið flautað og þótti gestunum af Snæfellsnesi það oft vera gert fyrir litlar sakir. Snæfell leiddi með einu stigi 66-67 eftir þriðja leikhluta og allt stefndi í æsilegar lokamínútur.
 

Í upphafi fjórða leikhluta var komið að þætti Brian Mills, miðherjinn stæðilegi hreinlega tók yfir leikinn og raðaði niður stigum en Stjörnumenn skoruðu fyrstu 8 stig leikhlutans áður en þeir rauðklæddu náðu að svara fyrir sig. Shouse smellti í rándýran þrist úr horninu og kom Stjörnunni í 10 stiga forystu í fyrsta sinn í leiknum 79-69. Snæfellingar voru þó ekki af gáfust þó ekki upp, Sigurður var áfram funheitur, svo heitur að hann ákvað að smella næsta þrist niður af spjaldinu og minnka með því muninn niður í 2 stig, 79-77 og hér var hreinlega allt á suðupunkti og þeir fjölmörgu áhorfendur sem lögðu leið sína í Ásgarð voru vel með á nótunum.

 

Liðin skiptust á að skora og þegar mínúta lifði af leiknum renndi Jarrid Frye sér í gegnum vörn Snæfells með glæsilegri hreyfingu og kom Stjörnunni í 3 stiga forystu en Jay Threatt svaraði að bragði, Stjörnumenn misnotuðu næstu sókn og því var eins stigs munur á liðunum þegar 20 sekúndur voru eftir og Snæfell í sókn. Jay Threatt sem átt hafði stórgóðan leik fram að þessu sýndi algjörar stáltaugar og smellti niður galopnu skoti þegar rétt rúmar 6 sekúndur voru eftir á klukkunni. Stjörnumenn tóku leikhlé, Justin Shouse fékk boltann í hendurnar en tókst ekki að skora á ögurstundu gegn sínu gamla liði og Snæfellingar fögnuðu innilega sætum baráttusigri í algjörum hörkuleik 88-89.
 

Hjá Snæfelli átti Jay Threatt afbragðs leik með 28 stig auk þess að gefa 9 stoðsendingar. Sigurður Þorvaldsson var með 18 og Pálmi Freyr Sigurgeirsson 16 stig, báðir af bekknum. Það vakti athygli að Jón Ólafur Jónsson var stigalaus í leiknum en hann sinnti þó hlutverki sínu vel varnarlega þar sem hann reif niður 9 fráköst en í fráköstunum var Ólafur Torfason einnig öflugur með 12. Jarrid Frye var atkvæðamestur Stjörnumanna með 28 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar, næstir komu Justin Shouse með 19 stig og 6 stoðsendingar og Brian Mills með 13 stig, 7 fráköst og 4 varin skot.

Stjarnan-Snæfell 88-89 (21-23, 27-24, 18-20, 22-22)  

Stjarnan: Jarrid Frye 27/9 fráköst/5 stoðsendingar, Justin Shouse 19/6 stoðsendingar, Brian Mills 13/7 fráköst/4 varin skot, Jovan Zdravevski 12/4 fráköst, Fannar Freyr Helgason 10/7 fráköst, Dagur Kár Jónsson 4, Kjartan Atli Kjartansson 3, Tómas Þórður Hilmarsson 0, Oddur Rúnar Kristjánsson 0, Magnús Bjarki Guðmundsson 0, Sæmundur Valdimarsson 0.

Snæfell: Jay Threatt 28/6 fráköst/9 stoðsendingar, Sigurður Á. Þorvaldsson 18, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 16/4 fráköst, Asim McQueen 10/4 fráköst, Sveinn Arnar Davíðsson 7, Ólafur Torfason 6/12 fráköst, Hafþór Ingi Gunnarsson 4/5 fráköst, Kristinn Einar Guðmundsson 0, Jóhann Kristófer Sævarsson 0, Stefán Karel Torfason 0, Óttar Sigurðsson 0, Jón Ólafur Jónsson 0/9 fráköst. Myndasafn eftir Tomasz Kolodziejski
Umfjöllun/ Jón Steinar Þórarinsson  af Karfan.is

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 79
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 514
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 3294555
Samtals gestir: 253637
Tölur uppfærðar: 20.1.2018 03:10:10
Flettingar í dag: 79
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 514
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 3294555
Samtals gestir: 253637
Tölur uppfærðar: 20.1.2018 03:10:10