Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Færslur: 2012 Nóvember

12.11.2012 10:50

Sjö Snæfellsstúlkur rúlluð yfir Val.

10. nóvember 2012


Snæfellsstúlkur tóku á móti Val í dag og voru ekki margar í liðinu, alls sjö, eftir að hafa fengið Ellen Ölfu Högnadóttir inní liðið. Berglind Gunnarsdóttir á við meiðli að etja og þrjár stúlkur úr stúlknaflokk fóru í leiki með sínum flokk og mættu KKÍ menn athuga að mjög margar stúlknaflokksstelpur spila orðið með meistaraflokki og því ótrúlegt að þessum leikjum skuli vera raðað á sama tíma.


Bæði lið byrjuðu skipulögð og tilbúin í leikinn. Varnarlega var Snæfell þó sterkara og sóknarmegin smelltu Rósa og Alda Leif stórum körfum niður og komust í 12-8. Alberta Auguste hjá Val var komin í vandræði og fékk sína þriðju villu sem tæknivillu og var komin á tréverkið eftir fjögra mínútna leik. Snæfellsstúlkur voru duglegar að stela og taka fráköstin í vörninni og uppskáru að komast fljótt í 23-12.


Dómarar leiksins voru mjög strangir á tæknivillum eftir fyrirspurn um leikinn frá Inga Þór og fékk hann eina slíka á sig. Snæfell hélt forskoti sínu í öðrum hluta 36-23 en Valsstúlkur voru tilbúnar í að sækja í sig veðrið og Alberta komin inná. Þá kom mikil kafli hjá Snæfelli sem kom þeim í 43-23 og mikið brotið á bak aftur hjá Val sem voru að stilla sig af en Ágúst varð að taka smá tíma í spjall. Kieraah Marlow var sjóðandi og Helga Hjördís smellti stórum stigum yfir Val. Staðan 53-27 þegar ástæða þótti til skrafs og ráðagerða hjá Völsurum.


Ekki var að sjá að Ellen Alfa hefði einhverju gleymt og stóð sig vel en hjá Val voru þær Guðbjörg Sverrisdóttir, Alberta Auguste og Kristrún Sigrjóns sem reyndu að halda Val við efnið en staðan ver erfið eða 29 stiga munur 58-29 í hálfleik þar sem allir sjö leikmenn Snæfells voru uppá tánum með allt á hreinu og mjög góð skotnýting.


Valsstúlkur reyndu hvað þær gátu og áttu góðar sóknir á kafla en varnarleikurinn var frekar daufur og þurfti mikið púður í að slaka niður um 30 stiga forskoti þar sem Snæfelli héldu engin bönd og staðan 70-45 eftir þriðja hluta.


Fjórði hlut var prýðilega spilaður af báðum liðum en eins og áður sagði staðan löngu orðin erfið fyrir Val að elta svona mikið forskot uppi. Leiknum lauk 88-54 í öruggum sigri Snæfells og ótrúlega lítil fyrirstaða í Valsliðinu þennan leikinn en þær eiga nokkuð mikið inni trúi ég.Símon B. Hjaltalín.

12.11.2012 10:49

Góður sigur Snæfells á Fjölni

9. nóvember 2012


Snæfell heldur uppteknum hætti með sigri á Fjölni í Grafarvoginum í kvöld.  Snæfell hefur nú sigrað 5 af fyrstu sex leikjum deildarinnar og líta vægast sagt vel út.  Fjölnir siglir lignan sjó um miðja deild með þrjá sigra og þrjú töp.  Það munaði þó ekki miklu á liðunum í kalfaskiptum leik kvöldsins.  Snæfell tók af skarið og náði með 17 stiga forskoti en Fjölnir svaraði um hæl, oftar en einu sinni.  Snæfell var þó sterkara liðið á lokakaflanum með flottum leik frá Ólafi Torfasyni og Jóni Ólafi Jónssyni sem settu hvern þristinn á fætur öðrum og tryggðu 7 stiga sigur Snæfells, 95-102.

 

Stigahæstur í liði Snæfells var Jón Ólafur Jónsson með 32 stig og 5 fráköst en næstu menn voru Asim McQueen með 25 stig og 13 fráköst  og Jay Threatt með 17 stig og 8 fráköst.  Hafþór Ingi Gunnarsson átti einnig glimrandi góðan leik með 10 stoðsendingar.  Í liði Fjölnis var Sylvester Spicer stigahæstur með 27 stig og 7 fráköst en næstu menn voru Jón Sverrisson með 20 stig og 8 fráköst og Arnþór Guðmundsson með 19 stig og 5 stolna bolta.  Tómas Tómasson átti einnig virkilega góðan leik hjá Fjölni með 14 stig og 12 stoðsendingar. 

 

Snæfell byrjaði leikinn vel, þeir létu háan varnarleik heimamanna ekki trufla sig go nýttu sér vel yfirburði Asim McQueen í teignum, en hann hafði skorað 6 af fyrstu 13 stigum Snæfells þegar þrjár mínútur voru liðnar, 6-13.  Fjölnismenn voru duglegir að sækja á körfuna og uppskáru nokkrar villur með hröðum leik.  Þeir voru aftur búnir að minnka muninn niuður í 2 stig um mínútu síðar eftir glæsilega troðslu frá Sylvester , 13-15.  Það virtist þó alltaf vera auðveldara fyrir Snæfell að koma boltanum í körfuna og voru þeir búnir að ná forskotinu aftur upp í 8 stig þegar tvær mínútur voru eftir, 17-25.  Þessu forskoti héldu Snæfellingar til loka fyrsta leikhluta sem lauk 21-28. 

 

 Snæfell bætti smá saman í forskotið í öðrum leikhluta og þegar tvær mínútur voru liðnar var forskot þeirra komið í 11 stig, 23-34.  Varnarleikur Snæfells var að gera Fjölnismönnum erfitt fyrir sem gátu þó líka sjálfum sér um kennt þar sem þeir fóru illa með nokkur áleitleg færi í upphafi annars leikhluta.  Snæfell náði virkilega góðum kafla stuttu seinna og skoruðu 6 stig á innan við mínútu sem heimamönnum tókst ekki að svara, 23-40.   Hjalti Þór tók svo leikhlé fyrir Fjölnismenn stuttu seinna í stöðunni 25-43. 

 

Liðin skiptu með sér stigunum næstu mínúturnar en Fjölnir gekk illa að saxa á forskot Snæfells.  Þegar þrjár mínútur voru til hálfleiks munaði 16 stig á liðunum, 33-49.  Fjölnir tók sitt annað leikhlé í leikhlutanum þegar ein og hálf mínúta var eftir og það munað 14 stigum á liðunum, 35-49.  Fjölnismenn skoruðu þá fimm stig gegn engu á þeim tíma sem eftir var fyrri hálfleiks og því munaði aðeins 9 stigum á liðunum þegar gengið var til klefa, 40-49. 

 

Stigahæstur í liði Snæfells í hálfleik var Asim McQueen með 17 stig en næstu menn voru Jón Ólafur Jónsson með 11 stig og Jay Threatt með 10 stig.  Hjá Fjölni var Arnþór Guðmundsson stigahæstur með 11 stig en næstu menn voru Sylvester Spicer og Jón Sverrisson með 8 stig hvor. 

 

Fjölnismenn tóku uppá því skemmtilega uppátæki að bjóða öllum börnum í salnum uppí dans.  Það voru því hátt í 50 börn sem sáu um að skemmta áhorfendum með dansinum "Gangnam Style" sem flestir ættu að þekkja í dag.  Frábært framtak sem vakti vafalaust lukku bæði hjá ungum og eldri. 

 

Snæfell tókst ekki að vinna aftur upp forskotið í upphafi seinni hálfleiks og Fjölnir nýtti sér hver mistök gestana til að minnka forskotið.  Þegar rúmlega þrjár og hálf mínúta var liðin af þriðja leikhluta höfðu Fjölnismenn minnkað muninn niður í 4 stig, 53-57, og Ingi Þór tók leikhlé fyrir Snæfell.  Nonni mæju fékk þá sína þriðju villu en á þeim tímapunkti hafði Fjölnir aðeins fengið á sig fimm villur í öllum leiknum, á móti 9 villum Snæfellinga.  Snæfell svaraði því þó um hæl og var munurinn kominn aftur í 9 stig aðeins tveimur mínútum síðar, 55-64.  Fjölnir tók leikhlé stuttu seinna þegar forskot Snæfells var aftur komið upp í 11 stig, 57-68. Forskot Snæfells náði mest 12 stigum undir lok þriðja leikhluta en líkt og í lok annars leikhluta tókst Fjölni að skora síðustu fimm stig þess þriðja og minnka forskot gestana niður í 7 stig, 66-72. 

 

Sveinn Arnar Davíðsson fékk sína fimmtu villu strax í fyrstu sókn Fjölnis í fjórða leikhluta og var því settur á ís.  Heimamenn pressuðu þá hátt á Snæfell sem fékk fyrir vikið á sig fyrstu sex  stig leikhlutans, og þar af ótrúlega laglega Alley-oop troðslu frá Sylvester Spicer eftir sendingu frá Tómasi Tómassyni, 71-72.  Snæfell átti þó svör og settu næstu 5 stig, þar af þriðji þristurinn í leiknum frá Ólafi Torfasyni, 71-77.  Jón Ólafur Jónsson setti næsta þrist og á örstundu var Snæfell aftur komið með 9 stiga forskot, 71-80.  Fjölnir átti næsta kafla í leiknum þar sem þeir minnkuðu muninn aftur niður í eitt stig, 80-81, þegar leikhlutinn var rétt tæplega hálfnaður. 

 

Snæfell tók svo leikhlé stuttu seinna með þriggja stiga forskot, 80-83 og fjórar og hálf mínúta var eftir af leiknum.  Hafþór Iingi Gunnarsson fór meiddur af velli um mínútu síðar eftir rausnarlegt olnbogaskot frá Tómasi Tómasssyni sem virtist þó vera óviljaverk að öllu leiti.  Ólafur Torfason lét það ekki slá sig útaf laginu því hann setti sinn fjórða og fimmta þrist í leiknum stuttu seinna og það munaði því aftur 9 stigum á liðunum, 83-92.  Fjölnismenn tóku leikhlé þegar ein og hálf mínúta var eftir en forskot gestana stóð þá í 10 stigum og því ljóst að mikið þyrfti að breytast í leik Fjölnis til að vinna það forskot upp.  Snæfell stóð af sér síðasta áhlaup Fjölnis og vann á endanum 7 stiga sigur, 95-102. 

 


Umfjöllun: Gisli@karfan.is

Myndir: Heiða

 

12.11.2012 09:50

Afmælishóf hjá Blaksambandi Íslands

Heiðursformenn og merkishafar

Heiðursformenn BLÍ
Heiðursformenn BLÍ

Jason Ívarsson formaður BLÍ ávarpaði gesti í upphafi og sagði ögn frá stofnun sambands og starfsemi þess. Sævar Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BLÍ tók við boltanum frá Jasoni og kynnti hvernig allt myndi fara fram. Í upphafi tilkynnti hann að ný og uppfærð heimasíða BLÍ væri komin í loftið og gátu gestir kynnt sér síðuna á skjá í salnum. 

Bronsmerki BLÍ var því næst afhent 6 einstaklingum fyrir að hafa leikið sinn fyrsta A landsleik fyrir Ísland á árinu. Jason Ívarsson afhenti merkin til:

Lúðvík Már Matthíasson
Berglind Gígja Jónsdóttir
Lilja Einarsdóttir
Kolbeinn Tumi Baldursson
Guðrún Elva Sveinsdóttir
Kristina Apostolova

Starfsmerki BLÍ úr silfri var afhent 6 einstaklingum fyrir vel unnin störf innan hreyfingarinnar. Jason Ívarsson afhenti merkin:

Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir
Brynjar Júlíus Pétursson
Einar Sigurðsson
Aðalsteinn Einar Eymundsson
Miglena Apostolova
Apostol Apostolov

Heiðursmerki BLÍ úr gulli fengu tveir einstaklingar fyrir framúrskarandi störf innan hreyfingarinnar.

Karl Sigurðsson fékk gullmerki BLÍ en hann hefur náð góðum árangri í uppbyggingu strandblaks á Íslandi. Karl er einn af tveimur menntuðum þjálfurum í strandblaki og hefur verið formaður strandblaknefndar BLÍ um nokkurt skeið.

Guðrún Kristín Einarsdóttir fékk gullmerki BLÍ en hún hefur verið formaður yngriflokkanefndar BLÍ í nokkur ár. Hún hefur verið formaður blakdeildar Aftureldingar lengi og unnið frábært starf við uppbyggingu blaks í Mosfellsbæ. 

Stjórn BLÍ útnefndi alla fyrrverandi formenn BLÍ Heiðursformenn BLÍ

Listi yfir fyrrverandi formenn BLÍ:

1972-1973  Albert H.N. Valdimarsson
1973-1976  Dr. Ingimar Jónsson
1976-1977  Tómas Tómasson
1977-1981  Guðmundur Arnaldsson
1981-1983  Björgólfur Jóhannsson
1983-1986  Skjöldur Vatnar Björnsson
1986-1991  Kjartan Páll Einarsson
1991-1994  Arngrímur Þorgrímsson
1994-1995  Björn Guðbjörnsson
1995-1999  Stefán Jóhannesson
1999-2002  Júlíus Hafstein
2002-2005  Björn Guðbjörnsson

Albert H.N. Valdimarsson ávarpaði gesti yfir kaffinu og sagði sína sögu af upphafi Blaksambands Íslands. Albert þakkaði stjórn og framkvæmdastjóra fyrir frábæran afmælisdag. Tómas Tómasson tók einnig til máls og notaði tækifærið til að afhenda HK gamla verðlaunapeninga fyrir afrek sín í því félagi. Hrafnhildur Theódórsdóttir, formaður blakdeildar HK tók við verðlaunapeningunum og þakkaði fyrir. Þá tók Júlíus Hafstein til máls um mikilvægi þess að hafa þessa viðburði og þakkaði fyrir þann heiður sem sér er sýndur. Júlíus þakkaði fyrir frábæran dag og fyrir hönd allra hinna óskaði hann BLÍ velfarnaðar um ókomna tíð.

Fulltrúar ÍSÍ í afmælinu voru Ingibjörg Bergrós Jóhannesdóttir og Gunnlaugur A Júlíusson. Bergrós tók til máls og óskaði BLÍ til hamingju með daginn og óskaði hreyfingunni velfarnaðar um ókomin ár.

Þorsteinn Guðni var ljósmyndari BLÍ í veislunni og verða myndir úr henni settar inn á nýja vefinn fljótlega.

12.11.2012 09:45

Æfingaferð í frjálsum íþróttum

Sam-Vest æfingaferð til Reykjavíkur 24. nóv. 2012

Fyrsta kynning - til iðkenda og foreldra

Héraðssamböndin UDN, HSH, UMSB, HSS og HHF ásamt Ungmennafélaginu Skipaskaga og Ungmennafélagi Kjalnesinga hafa undanfarið mótað samstarf sín á milli með það að markmiði að efla frjálsíþróttastarf á svæðinu.

Við höfum nú fengið tíma í hinni glæsilegu frjálsíþróttaaðstöðu í Laugardalshöll í Reykjavík, laugard. 24. nóvember n.k. og stefnum að sameiginlegri æfingaferð með frjálsíþróttafólkið okkar.

Verið er að ganga frá ýmsum framkvæmdaratriðum sem verða kynnt betur innan skamms, en eftirfarandi er þó ákveðið um ferðina:

·         Hugsað fyrir þátttakendur 10 ára (árgangur 2002) og eldri

·         Þjálfarar á starfssvæðinu munu sjá um þjálfun, en jafnframt höfum við óskað eftir gestaþjálfurum og fleiri góðum gestum inn á æfinguna til okkar

·         Æfðar verða flestar greinar, s.s. spretthlaup, langstökk, hástökk og kastgreinar. Reynum jafnvel að prófa stangarstökk o.fl.

·         Dagskráin samanstendur af hittingi fyrir æfingu, æfingu frá ca. 14-16 og sameiginlegri sundferð eða öðru fyrir heimferð

Kæru iðkendur og foreldrar!

Við erum að vinna í framkvæmdaratriðum, eins og möguleika á rútuferð o.fl. sem skýrist innan fárra daga. Þessi æfingaferð er mikilvægt skref í samstarfi sem getur skilað okkur umtalsverðum ávinningi og skemmtilegri reynslu.

Mikilvægt er að vita sem allra fyrst hverjir hafa áhuga og sjá sér fært að komast.

 Skráningar hjá HSH þurfa að berast til Kristín Höllu þjálfara í síma 899 3043 eða með tölvupósti á netfangið    kh270673@gmail.com   í síðasta lagi þriðjudaginn 20. nóvember.

Með frjálsíþróttakveðju,

Frjálsíþróttaráð HSH


07.11.2012 14:55

KR launaði Snæfelli lambið gráa

6. nóvember 2012Heimamenn í KR tóku frumkvæðið snemma í kvöld þegar Snæfell var í heimsókn í Lengjubikarnum. Þegar 40 mínútum var lokið stóðu röndóttir uppi sem sigurvegarar, 90-67. Kvalarar KR úr Stykkishólmi voru flatir og hittu illa og heimamenn að sama skapi þéttir og tilbúnir í átök. Nú velta margir því fyrir sér hvort risinn sofandi sé vaknaður. Martin Hermannsson var að minnsta kosti vel vakandi og fór fyrir KR í kvöld með 19 stig.


KR leiddi 47-35 í hálfleik þar sem Brynjar Þór var kominn með 14 stig og Martin 10. Asim var með 8 hjá Snæfell og þeir Jón Ólafur og Sveinn Arnar báðir með 7 stig.


Æðibunugangur var á báðum liðum í upphafi síðari hálfleiks og tilheyrandi mistök sem fylgdu í kjölfarið. Brynjar Þór og Helgi fengu báðir sínar fjórðu villu í leikhlutanum og sáust lítið eftir það. Þessi villuvandræði landsliðsmannanna komu að lítilli sök því heimamenn í KR höfðu fyrir margt löngu plantað sér þægilega í bílstjórasætið.


Kristófer Acox átti lipra spretti með KR í kvöld og skilaði af sér 14 stigum og 7 fráköstum en hann og Martin Hermannsson fóru fyrir KR í síðari hálfleik. Röndóttir voru mun þéttari fyrir í kvöld, börðu vel frá sér og voru ófeimnir við snertinguna á meðan skapið virtist hanga á stuttum þræði hjá gestunum sem hittu illa í kvöld. Snæfell setti aðeins niður þrjá þrista í kvöld en síðast þegar þeir mættu í DHL Höllina settu þeir met á leiktíðinni og skelltu niður 15 stykkjum. Staðan að loknum þriðja leikhluta 66-49 fyrir KR.


Munurinn fór fljótt upp í 20 stig í fjórða leikhluta og þannig héldust leikar allt þar til lokaflautið gall. Nokkuð þungu fargi örugglega létt af heimamönnum sem voru mun líkari sjálfum sér í kvöld en upp á síðkastið. Góð barátta, menn ófeimnir við að spila stíft og fá villur og keyra svo upp hraðann og þannig refsuðu þeir gestum sínum margsinnis í kvöld.


Tölfræði leiksins


 
Mynd og umfjöllun/ nonni@karfan.is

07.11.2012 14:54

Tap geng KR í kvennakörfunni


93-67 tap var staðreynd eftir að Snæfellsstúlkur höfðu verið á hælunum nær allan leikinn gegn KR sem gáfu ekkert eftir en slakur varnarleikur Snæfells gaf KR næði til að klára góðar sóknir sínar. Fyrirfram hefðu flestir haldið að þetta yrði jafnari leikur þar sem KR er með hörkulið og Snæfell einnig.

Svo fór sem fór og stúlkurnar horfa fram á veginn í næsta leik en hann verður ekki gefinn gegn Val laugardaginn 10. nóv kl 15:00 í Stykkishólmi.

 

KR-Snæfell 93-67 (18-13, 28-12, 24-18, 23-24)
 
KR: Patechia Hartman 28, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 25, Helga Einarsdóttir 11/5 fráköst, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 9, Hafrún Hálfdánardóttir 8, Hrafnhildur Sif Sævarsdóttir 4, Anna María Ævarsdóttir 3, Björg Guðrún Einarsdóttir 3, Helga Hrund Friðriksdóttir 2, Salvör Ísberg 0, Perla Jóhannsdóttir 0, Rannveig Ólafsdóttir 0.
 
Snæfell: Kieraah Marlow 24, Hildur Björg Kjartansdóttir 17, Hildur Sigurðardóttir 7/4 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 7, Alda Leif Jónsdóttir 7, Aníta Sæþórsdóttir 2, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 2, Rósa Indriðadóttir 1, Rebekka Rán Karlsdóttir 0, Silja Katrín Davíðsdóttir 0.

03.11.2012 20:17

Taka tvö: Snæfell lagði KFÍ aftur.Ísfirðingar voru mættir í Hólminn á fimmtudaginn til að sleppa við ófærð og frestun en þá dundi yfir aftakaveður fyrir sunnan og dómarar komust hvergi. Eftir að frestun á föstudeginum var leikurinn leikinn í dag laugardag, allir í stuði. Gæðadrengurinn og Hólmarinn Kristján Pétur var kominn í lið KFÍ að nýju eftir meiðsli en Pálmi Freyr hjá Snæfelli var frá vegna meiðsla en verður kominn fyrr en varir á parketið.

Byrjunarlið Snæfells voru Jón Ólafur, Hafþór Ingi, AsimMcQueen, Jay Threatt og Sveinn Arnar. Hjá KFÍ voru Pance Ilievski, BJ Spencer, Chris Miller, Mirko Stefán og Jón Hrafn sem byrjuðu.
 

Leikurinn byrjaði með jafnræði og liðin voru rétt að hita sig upp en eftir að Snæfell komst yfir 7-6, þá kom sterk vörnin og flæði í sóknum varð gott. Snæfell komst í 15-9 og þegar Hafþór Gunnars tók sig til, smellti þrist og svo tveimur stigum í næstu sókn varð staðan 20-10. Strákur var þó ekki hættur þar og stal boltanum strax í næstu sókn og Momcilo braut óíþróttamannslega í sniðskotinu en Hafþór setti bæði vítin niður þar. Staðan eftir fyrsta hluta var 26-15 fyrir Snæfell sem hafði tök á leiknum.

KFÍ voru stífir í vörninni og alls ekki sannfærandi en sóknir voru betri þó skotin geiguðu oftar en ekki og brugðu á það ráð að taka leikhlé þegar staðan var 32-17 fyrir Snæfell og heimamenn að bæta hægt og sígandi í. Minna um vörn og meira varð um hlaup þegar leið á annan hluta en það kom ekki í veg fyrir að Snæfell héldi forskotinu. 43-27. Kristján Pétur var kominn inná og átti greinilega að finna gömlu góðu fjölina út við þriggja stiga línu og var einkar drjúgur fyrir lið sitt í sínum fyrsta leik í vetur og mikilvægt fyrir KFÍ að fá hann til baka en hann smellti niður fjórum stykkjum af þristum í leiknum.

KFÍ fundu glufu og gengu á lagið á meðan Snæfell slakaði á klónni í vörninni og Ísfirðingar söxuðu vel á áður en flautað var í hálfleik 45-36. Stigahæstir voru Jón Ólafur og Asim hjá Snæfelli með 11 stig hvor og Hafþór Ingi með 9 stig. Í liði KFÍ var Mirko Stefán kominn með 11 stig og Momcilo Latinovic 7 stig.

Snæfell náðu strax 6-0 áhlaupi og komnir í 51-36 þegar KFÍ tók kaffíhlé. Það lagaði eittvhað og þeir komu sér inn í leikinn aftur. Hafþór Ingi kom þá með enn eina sprengjuna fyrir Snæfell, setti tvo þrista í röð, stal svo bolta sem gaf tvö stig í næstu sókn og fór svo hraðaupphlaup í sókninni þar að eftir skoraði og fékk víti sem hann setti niður og staðan varð fljótt 69-49 fyrir Snæfell. Latinovic var farinn að hitna hjá KFÍ og hélt sínum mönnum við skorið. Títtnefndur Hafþór var þó iðinn við kolann í vörn og sókn fyrir Snæfell og sá til þess að staðan eftir þriðja hluta væri 82-61.

KFÍ sóttu í sig veðrið í upphafi fjórða hluta og sóknir runnu út í sandinn hjá Snæfelli. Asim McQueen fór útaf með 5 villur þegar tæpar 4 mínútur voru eftir en staðan var komin í 96-87 fyrir Snæfell þegar um 2:30 voru eftir og þar höfðu B. Spencer og Latinovic verið iðnir ásamt öllu liðinu sem gaf í og voru komnir nær því að gera þetta að alvöru leik undir lokin. Snæfell hélt þó haus undir lokin og náðu að setja nokkur mikilvæg stig undir lokin sem gáfu tóninn að sigri 108-95.

Snæfell: Jón Ólafur Jónsson 26/17 frák. Hafþór Ingi Gunnarsson 23/4 frák/4 stoðs/2 stolnir. Jay Threatt 19/15 stoðs. Asim McQueen 15/12 frák. Sveinn Arnar Davíðsson 10. Ólafur Torfason 9/5 frák. Stefán Torfason 6.  Tinni Guðmundsson 0. Kristófer Sævarsson 0. Óttar Sigurðsson 0. Magnús Ingi Hjálmarsson 0.

KFÍ: Momcilo Latinovic 28/6 frák. Bradford Spencer 20. Mirko Stefán Virijevic 17/9 frák. Kristján Pétur Andrésson 16. Chris Miller 6. Leó Sigurðsson 3. Jón Hrafn Baldvinsson 3/5 frák. Guðmundur Guðmundsson 2. Pance Ilievski 0. Hákon Halldórsson 0. Óskar Kristjánsson 0.

Símon B. Hjaltalín.

 

02.11.2012 22:36

Púðurlaus sigurleikur

31. október 2012

Njarðvíkurstúlkur mættu í Hólminn án nokurra leikmanna sem hafa staðið sig vel það sem af er vetri. Aníta Carter, Ingibjörg Elva og Marín Hrund en skarð þeirra var fyllt með óreyndari leikmönnum. Snæfell hins vegar með 9 leikmenn innanborðs.


Snæfellsstúlkur gengu hratt í leikinn og komust í 9-0 áður en Njaðrvík svaraði og voru með yfirráðin í leiknum. Segja má að ef það var ekki Lele Hardy fyrir Njarðvík þá var það lítið annað nema þegar Eyrún Líf byrjaði annan hluta af krafti með þrist og staðan 25-19 fyrir Snæfell en staðan hafði verið 25-16 í eftir fyrsta hluta.


Snæfell komst í 42-24 í öðrum hluta og voru bara að bæta í þrátt fyrir að vera ekkert að spila neina hörkuvörn en Njarðvík fengu oft fín færi sem þær nýttu en Snæfell áttu betri sóknir heilt yfir. Staðan í hálfleik 48-31 fyrir Snæfell. Stigahæstar hjá Snæfelli voru Kieraah Marlow með 16 stig og Hildur Björg 10 stig. Hjá Njarðvík var Lele Hardy með 16 stig og Eyrún Líf með 5 stig.


Í þriðja hluta náði Njarðvík stöðunni niður í 10 stig 50-40 og Lele Hardy þá komin með 25 stig. Snæfell setti þá í annan gír og komust strax með 10 stiga áhlaupi í 60-40  og héldu út 20 stiga mun þangað til flautað var út  og staðan þá 65-45 fyrir Snæfell og ekki mikil vandræði í leik þeirra þó þær hefðu getað gert betur oft á tíðum en þær spiluðu langt í frá á fullum hraða og leikurinn heilt yfir púðurlaus.


Bitlaus bolti var í fjórða hluta þar sem leikurinn var svo til búinn og liðin skiptust á skori með litlum tilþrifum eða meira Lele Hardy og Snæfell skiptust á að skora en stúlkan sú varð ekki fyrir vonbrigðum í "draumaliðsleiknum" með 32 stig af þessum 57 Njarðvíkur en lítil leikgleði var hjá Njarðvík. Áreynslulaust sigraði svo Snæfell leikinn 84-57.


Snæfell: Kieraah Marlow 26/4 frák/4 stoðs. Hildur Björg Kjartansdóttir 20/9 frák. Hildur Sigurðardóttir 13/11 frák/6 stoðs. Rósa Indriðadóttir 12/3 frák. Alda Leif Jónsdóttir 7/10 frák. Berglind Gunnarsdóttir 4/3 frák. Helga Hjördís Björgvinsdóttir 2/7 frák. Aníta Rún Sæþórsdóttir 0. Rebekka Rán Karlsdóttir 0.


Njarðvík: Lele Hardy 32/15 frák/. Salbjörg Sævarsdóttir 6/8 frák. Eyrún Lís Sigurðardóttir 5. Ásdís Vala Freysdóttir 5. Guðlaug Björt Júlíusdóttir 4. Ína María Einarsdóttir 3. Sara Dögg Margeirsdóttir 2. Eygló, Ásta, Emelía, Elísabet og Erna skoruðu ekki.


Símon B. Hjaltalín.

02.11.2012 22:34

Létt sigling í blíðunni við Breiðafjörðinn

29. október 2012

Bæði lið gerðust sek um örlítið mistækan leik í upphafi þegar KFÍ heimsótti Hólminn í Lengjubikarnum en Snæfell hitti þó betur. Menn voru að fínslípa sig í gegnu fyrsta hluta og hraðinn stundum meiri en sóknir liðanna réðu við. Snæfell stökk svo frá 11-10 stöðu í 29-10 með betri varnarleik og voru fyrri til að ná tökum á sínum leik. KFÍ héldu hins vegar áfram að missa boltann í slæmum sendingum og slökum skotum í hendur Snæfells og voru langt frá einbeitingu varnarlega. Staðan var 31-13 eftir fyrsta hluta fyrir heimamenn.


KFÍ skoraði fyrstu fimm stig annars hluta og virtust hafa fengið einhver góð orð frá Pétri Má um að koma sér í gírinn. Snæfellsmenn voru mjög oft eins og fransbrauð í höndunum og misstu ófáa bolta með að geta ekki gripið boltann en það háði þeim ekki í að leiða leikinn 39-20. KFÍ náðu með stórum skotum frá Óskari Kristjánssyni og tveimur frá Bradford Spencer að saxa aðeins á forskot Snæfellls 43-34.


Snæfellsmenn voru ekki í villuleiðangri framan af leiknum komnir með 3 villur gegn 10 gestanna undir lok fyrri hálfleiks. Ísfirðingar urðu beittari varnarlega og virtust vilja gera þetta loksins að leik 49-43. Snæfell bætti þó aðeins við undir lokin ogstaðan 52-43 í hálfleik. Stigahæstu menn voru hjá Snæfelli Jón Ólafur Jónsson með 14 stig og Jay Threatt með 11 stig. Hjá KFÍ voru Pance Illievski, Momcilo Latinovic, Bradford Spencer allir með 8 stig.


Pétur Már fékk dæmda á sig tæknivillu og smellti Jón Ólafur niður báðum vítum eftir að Asim McQueen hafði sett niður tvö víti og Jón smellti svo þremur stigum niður strax í næstu sókn og Snæfell komst aftur í 19 stiga mun 68-49. Magnað atvik átti sér stað þegar brotið var á Jay Threatt hjá Snæfelli áður en hann komst yfir miðju og kastaði hann boltanum í átt að körfunni í brotinu og smellti niður spjaldið ofan í en fékk ekki körfuna dæmda gilda og væri gaman að skoða hvort hann hefði átt að fá þessi stig. Staðan fyrir lokafjórðunginn 91-60 fyrir Snæfell sem áttu töluvert meira bensín.


Pálmi Freyr stirðnaði upp í baki við að dripla boltanum upp og lagðist flatur í gólfið og óvitað hvort upp hafi verið að taka sig gömul sár í baki eða hvað en slæmt virtist það vera. Fáar leiðir voru fyrir Ísfirðinga að koma til baka þegar Snæfell leiddi 102-72 um miðjan síðasta fjórðunginn. Liðin skoruðu á víxl og úrslitin nokkuð ráðin og lokastaðan varð 118-87 í öruggum sigri Snæfells en KFÍ menn fá að mæta aftur og reyna sig við Snæfellinga í Domino´s deildarleik á föstudaginn eftir viku í Hólminum.


Snæfell: Jón Ólafur Jónsson 28/5 frák. Asim McQueen 20/9 frák. Jay Threatt 20/4 frák/6 stoðs/4 stolnir boltar. Hafþór Ingi Gunnarsson 18/5 frák/5 stoðs. Sveinn Arnar Davíðsson 10/3 stolnir boltar. Pálmi Freyr Sigurgeirsson 8/3 stoðs. Ólafur Torfason 6. Stefán Karel Torfason 5/3 frák. Óttar Sigurðsson 3. Magnús Ingi Hjálmarsson 0. Kristinn Einar Guðmundsson 0. Kristófer Sævarsson 0.


KFÍ: Pance Illievski 17/4 frák. Bradford Spencer 15/5 frák/9 stoðs. Momcilo Latinovic 15/5 frák. Óskar Kristjánsson 14. Leó Sigurðsson 8. Christopher Miller-William 6/5 frák. Mirko Stefán Virijevic 6. Guðmundur J. Guðmundsson 6. Gautur Arnar Guðjónsson 0. Jón Hrafn Baldvinsson 0/5 frák/4 stoðs/3 stolnirboltar.

 

Símon B. Hjaltalín

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 360
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 514
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 3294836
Samtals gestir: 253656
Tölur uppfærðar: 20.1.2018 14:41:32
Flettingar í dag: 360
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 514
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 3294836
Samtals gestir: 253656
Tölur uppfærðar: 20.1.2018 14:41:32