Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Færslur: 2012 Október

04.10.2012 16:39

Ný heimasíða ÍSÍ

Kaflaskil í upplýsingastreymi

28.09.2012 12:21

Það er vert að óska íþróttahreyfingunni á Íslandi til hamingju með nýja heimasíðu ÍSÍ.  Það er von mín og vissa að þessi kaflaskil leiði til bætts upplýsingastreymis innan hreyfingarinnar, meiri og betri fréttaflutnings til almennings og síðast en ekki síst betri þjónustu við sambandsaðila, aðildarfélög, einstaklinga og aðra þá sem íþróttahreyfingin sinnir.

Það er markviss stefna Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands að stórauka upplýsingaflæði og bæta samskiptaferla í komandi framtíð.  Skilgreina þarf markhópa og hagsmunaaðila hreyfingarinnar og setja upp skilvirkar áætlanir um tíðni, samskiptatækni og efnisinnihald samskipta við þá aðila.  Það er sjálfstætt markmið okkar að efla ásýnd og bæta ímynd íþróttahreyfingarinnar með auknu upplýsingastreymi og betri samskiptum.

Gott dæmi eru hinir takmarkalausu möguleikar hinna tiltölulega nýju samskiptamiðla, á borð við Facebook, sem brýnt er að allar starfseiningar innan íþróttahreyfingarinnar tileinki sér notkun á - ekki síst þar sem þar er að finna stærsta og mikilvægasta markhóp íþróttahreyfingarinnar, unga fólkið okkar.  Samskiptamiðlar í einhverri mynd eru bæði nútíðin og framtíðin, og verðum við ávallt að gæta þess að láta ekki of mikla íhaldssemi ráða för að því leyti.

Veraldarvefurinn hefur skapað möguleika sem forverar okkar hefðu líklega öfundað okkur mikið af - okkar eigin fjölmiðla sem við getum nýtt með mjög skilvirkum og hagkvæmum hætti ef rétt er staðið að málum.  Þetta er vert að hafa í huga þegar skortur á gagnrýni þriðja aðila - hinna almennu fjölmiðla - er höfð á lofti.  Við þurfum að vera dugleg að tileinka okkur eigin miðla - við höfum nú aldeilis tæknina til þess.  Dæmi um þetta er RSS fréttaflutningur í gegnum heimasíðu ÍSÍ, sem getur sannarlega vakið athygli á smærri sambandsaðilum og íþróttagreinum, sem fá aukið streymi heimsókna í gegnum miðlæga heimasíðu íþróttahreyfingarinnar.

Á heimasíðu ÍSÍ er að finna gríðarlega mikið magn upplýsinga og frétta, undirvefja, tengla og ýmissa samskiptaupplýsinga.  Ráðgert er að auka stöðugt við þá þjónustu sem er í boði, og gera flæði samskipta stöðugt gagnvirkara og aðgengilegra.
Ég býð ykkur velkomin í þetta nýja anddyri upplýsingaheims íþrótta á Íslandi, og vona að þið dveljið þar um stund - og leyfið ykkur jafnvel að ferðast um óravíddir íþróttahéraða og sérsambanda íþróttahreyfingarinnar.

Ég vil þakka öllum þeim sem komu að endurbótum og gerð heimasíðu ÍSÍ.  Njótið vel.

Ólafur E. Rafnsson,
Forseti ÍSÍ

04.10.2012 16:33

Snæfellsstúlkur eru Meistarar meistaranna 

 

Umfjöllun fengin af Karfan.is

 

Fyrir fjórum dögum síðan hafði kvennalið Snæfells aldrei unnið titill en í dag eru þeir orðnir tveir. Það var aldrei spurning um hver færi með titilinn heim þegar Njarðvík og Snæfell mættust í keppni meistaranna í kvöld. Snæfellskonur unnu leikinn sannfærandi, 60-84. Hjá Snæfell var Kieraah Marlow að spila frábærlega en hún endaði leikinn með 24 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar.
Strax á fyrstu mínútu leiksins meiddist Lele Hardy á öxl eftir samstuð og virtist eins og hún hafi farið úr lið. Eftir að sjúkraþjálfarinn hafi litið á hana var hún kominn aftur inn á rúmri mínútu seinna og ekki virtist vera að um mikil meiðsl væri að ræða þar sem hún dró vagninn fyrir Njarðvík mest allan leikinn.


 
Nokkuð jafnræði var með liðunum á fyrstu mínútu leiksins og var eins og bæði lið væru tilbúin í slaginn og ætluðu ekkert að gefa eftir. En í stöðunni 11-13 tók Snæfell sig til og skellti í lás í vörninni sem varð til þess að þær fóru á 0-11 "run". Á þessum tíma virtist eins og Snæfell ætlaði að klára leikinn í fyrsta leikhlutanum þar sem Njarðvík átti engin svör við neinu sem Snæfell lagði upp. Leikhluturinn endaði síðan 17-29 fyrir Snæfell sem voru komnar á góða siglingu fyrir annan leikhlutann. Hjá Njarðvík var Hardy komin með 8 stig en hjá Snæfell var Marlow með 10 stig.


Í upphafi annars leikhluta var greinilegt að Njarðvík ætlaði að selja sig dýrt og ætlaði sér að berjast fyrir bikarnum. Þær sóttu stíft að Snæfell en áttu þó fá svör við svæðisvörn þeirra. En um miðjan leikhlutann setti Ingibjörg Vilbergsdóttir risa þrist og minnkaði muninn niður í sex stig, 36-42. Við það vöknuðu Snæfell aftur og skoruðu þær síðustu sex stig leikhlutans sem endaði 36-48. Hjá Njarðvík var Hardy komin með 15 stig og hjá Snæfell var Marlow komin með 16 stig og Berglind Gunnarsdóttir með 10 stig.


Þriðji leikhlutinn byrjaði eins og hinir tveir þar sem jafnræði var með liðunum. Mikill hraði var í báðum liðunum á þessum tíma og áttu bæði liðin erfitt með að koma boltanum í körfuna. Njarðvík var hægt og rólega að minnka muninn í leikhlutanum og komust í 51-58 þegar mínúta var eftir og allt stefndi í frábæran fjórða leikhluta. Snæfell passaði samt sem áður að hleypa þeim ekki of nálægt sér og áttu síðasta orðið í leikhlutanum sem sá til þess að þær fóru með níu stiga forskot inn í síðasta leikhlutann, 51-60. Hjá Njarðvík var Hardy komin með 20 stig og Ingibjörg Vilbergsdóttir með 13 stig. Marlow var komin 20 stig fyrir Snæfell, Berglind Gunnarsdóttir með 12 og Hildur Björg Kjartansdóttir með 11.


Fyrir leikhlutann leit út fyrir að síðustu 10 mínútur leiksins skildu einkennast af spennu og baráttu fram að loka sekúndu. Ingi Þór hafði greinilega sagt einhver vel valin orð við sínar konur því að allt annað lið mætti til leiks og átti Snæfell hreinlega leikhlutann. Þær komu miklu grimmari til leiks heldur en þær höfðu verið að spila framan af. Við það fór allt að ganga hjá þeim á meðan ekkert var að ganga hjá Njarðvíkur konum. Um miðjan leikhlutann var eins og öll trú Njarðvíkur var búin og því var eltingaleikurinn of mikill fyrir þær. Snæfell uppskar að lokum sanngjarnan sigur, 60-84, og eru komnar með sinn annan titil á fjórum dögum.


Maður, já eða reyndar kona, leiksins var án efa Kieraah Marlow sem spilaði hreint ótrúlega vel og endaði leikinn eins og áður segir með 24 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar. Einnig átti Hildur Björg Kjartansdóttir frábæran leik og er hún að vaxa í frábæran leikmann sem vert verður að fylgjast með í framtíðinni. Hún endaði leikinn með 19 stig, 7 fráköst, 2 stoðsendingar og 2 stolna bolta. Berglind Gunnarsdóttir skilaði síðan 14 stigum, 3 fráköstum og 2 stolnum og Alda Leif Jónsdóttir, sem er að komast í sitt fyrra form, endaði leikinn með 10 stigum, 4 fráköstum og 4 stoðsendingum.


 
Hjá Njarðvík var Lele Hardy að spila frábærlega og er greinilega í frábæru formi en hún endaði leikinn með 21 stig, 14 fráköst, 4 stoðsendingar og 4 stolna. Auk Lele Hardy átti Ingibjörg Vilbergsdóttir góðan leik en hún sallaði niður 13 stigum, tók 6 fráköst og stal 5 boltum.


 
Myndasafn úr leiknum eftir Skúla Sigurðsson

Tölfræði leiksins


Umfjöllun/ Rannveig Kristín Randversdóttir - rannveig@karfan.is

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 2155
Gestir í dag: 47
Flettingar í gær: 847
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 3292628
Samtals gestir: 253529
Tölur uppfærðar: 17.1.2018 12:48:16
Flettingar í dag: 2155
Gestir í dag: 47
Flettingar í gær: 847
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 3292628
Samtals gestir: 253529
Tölur uppfærðar: 17.1.2018 12:48:16