Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Færslur: 2012 Maí

18.05.2012 23:13

Víkingur með sigur gegn Ægi

Sigur á móti Ægi Þorlákshöfn.

17. maí 2012 klukkan 16:19
Við fórum í heimsókn til Þolákshafnar og öttum kappi við Ægismenn í 2 .umferð bikarkeppni KSÍ.

Leikurinn fór fram við góðar aðstæður, þokkalegt veður og völlurinn góður. En það kólnaði aðeins í veðri þegar líða tók á leikinn.

Leikurinn fór fjörlega af stað og var greinilegt að Ægismenn ætluðu ekki að gefa neitt eftir í baráttu við okkur. Þjálfari Ægismanna er okkur Víkingum að góðu kunnur en það er enginn annar en Alfreð Elías Jóhannsson okkar fyrrum liðsfélagi. 

Eins og við var að búast vorum við sterkari aðilar í leiknum og fór það svo að við unnum leikinn sannfærandi 1-4
Mörkin gerðu
0-1 Edin Beslija (28.mín, víti)
0-2 Eldar Masic  (35.mín)
0-3 Guðmundur Steinn Hafsteinsson (45.mín)
0-4 Guðmundur Magnússon (61.mín)

1-4 Arilíus Marteinsson (66.mín)
  Fyrir Ægi.

Gaman var að sjá hvað margir af stuðningsmönnum okkar komu og fylgdu liðinu eftir. Vonandi verður áframhald á því í sumar. Að fara að horfa á Víkings liðið spila er frábær skemmtun.

Hægt er að lesa nánar um leikinn á heimasíðu Helga Bjargar, virkilega ítarleg og skemmtileg lesning.
http://helgik.bloggar.is/ 
 

18.05.2012 23:11

UMFG - Víðir Garði á sunnudag

Íslandsmót KSÍ 3. deild karla C riðill 2012

 Grundarfjörður - Víðir Garði 

  Grundarfjarðarvöllur

Sunnudagurinn 20. maí 2012 kl 14:00

    Frítt á völlinn. Meistaraflokksráð UMFG

18.05.2012 22:28

Jöfnun á íslandsmeti í Stykkishólmi

Þjálfari Snæfells eftir 0-31 tap: Þetta var mjög gaman
Páll Margeir Sveinsson (til hægri).
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
`
Snæfellingum gekk illa að eiga við Guðmund Viðar Mete.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

,,Þetta var mjög gaman, ég hafði allavega gaman að þessu. Grasið var í fínasta lagi og það var slatti mikið af áhorfendum," sagði Páll Margeir Sveinsson spilandi þjálfari Snæfells léttur í bragði í samtali við Fótbolta.net í dag eftir 31-0 tap liðsins á heimavelli gegn Haukum í bikarnum í gær.

Þetta stóra tap hefur vakið mikla athygli en Páll Margeir segir að fastamenn hafi vantað í lið Snæfellinga og það hafi haft mikil áhrif.

,,Ég bjóst við að vera með allt annað lið í höndunum fyrir leikinn. Það vantaði sjö menn í byrjunarliðið og við vorum ekki að spila á okkar sterkasta liði. Þetta er erfitt hjá okkur út af vinnu og síðan eru einhverjir leikmenn í Reykjavík."

,,Lokahófið hjá körfuknattleiksdeildinni var í gærkvöldi og það hafði áhrif, það voru leikmenn þar sem ætluðu að spila. Allir bestu íþróttamennirnir á svæðinu á milli tvítugs og þrítugs eru í körfunni en mér heyrist að þeir hafi áhuga á að koma og styrkja okkur í sumar og ég vona að þeir komi. Það eru margir þar 1.90 á hæð, góðir hafsentar,"
sagði Páll en hann spilaði sjálfur í gær auk þess sem margir ungir leikmenn voru í liðinu.

,,Það var einn strákur úr 9. bekk sem spilaði allan leikinn og sjálfur spilaði allan leikinn en ég verð 42 ára á árinu. Það má kannski segja að það hafi verið amateur bragur á þessu. Ég hafði vonast til að Haukar myndu mæta ellefu íþróttamönnum í toppstandi en það var ekki út af þessum afföllum."

Litum ekki illa út á kafla í fyrri hálfleik:
Haukar voru 13-0 yfir í leikhléi og í síðari hálfleik héldu mörkin áfram að hrúgast inn.

,,Við spiluðum 4-5-1 og þetta var í raun eltingarleikur. Ef við hefðum verið með okkar sterkasta lið hefði þetta verið allt annað. Það hefði kannski verið betra að spila 5-4-1 eða eitthvað svoleiðis en það voru í raun allir varnarmenn nema þessi fremsti," sagði Páll en Snæfellingar áttu nokkrar álitlegar sóknir.

,,Það var kafli í fyrri hálfleik þar sem við litum alls ekkert svo illa út og það var meira segja klappað fyrir okkur eftir leik. Við fengum 5-6 sinnum nálægt vítateignum í hraðaupphlaup en við náðum ekki opnum færum."

Haukarnir komu drengilega fram:
Haukar höfðu eins og tölurnar gefa til kynna mikla yfirburði og þeir náðu oft að vinna boltann strax eftir miðju og skora.

,,Guðmundur Viðar Mete var eins og refur í hænsnakofa þegar síðari hálfleikurinn byrjaði. Hann óð alltaf upp frá miðjunni í gegnum þríhyrningsspil og sendi á einhvern sem skoraði. Þetta var eins og létt æfing fyrir þá. Ég hef samt ekki trú á öðru en að þeir eigi eftir að gera góða hluti í sumar, þeir hljóta að vera í úrvalsdeildarklassa, það getur ekki annað verið," sagði Páll sem hrósar Haukum mikið fyrir leikinn.

,,Ég er rosalega ánægður með hvað Haukarnir komu drengilega fram við okkur. Þeir sýndu virðingu, þeir voru aldrei að gera grín að einhverjum."

Hef ekki trú á öðru en að við höldum þetta út:
Snæfell er með á nýjan leik lið í þriðju deildinni í sumar eftir fjögurra ára hlé. Liðið mætir Þrótti Vogum í fyrsta leik sínum í deildinni á sunnudag.

,,Ég hef ekki trú á öðru en að við náum að halda þetta út. Það eru fleiri leikmenn hérna en var árið 2008 og það er ný kynslóð ungra leikmanna frá 15-20 ára að koma upp," sagði Páll brattur.

Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?id=126513#ixzz1vGNReO4K

18.05.2012 22:23

Uppskeruhátíð Snæfells

Frá lokahófi Snæfells og Mostra

Það var heilmikið stuð þegar körfuknattleiksdeild Snæfells lokaði tímabilinu. Herbert Guðmunds gerði allt vitlaust að vanda, uppboðið sló í gegn og verðlaun tímabilsins hjá Snæfelli og Mostra voru veitt. Örvar Kristjánsson veislustjóri sá um að enginn færi heim nema með góðar herðsperrur í maga og vakti stormandi lukku með fallegum lýsingum í sögum sínum að kvennfólkið stóð í röðum að laga make-upið eftir á.

 

Það voru þau Hildur Sigurðardóttir og Jón Ólafur Jónsson (Nonni Mæju) sem valin voru bestu leikmennirnir. Bestu varnarmenn voru Alda Leif Jónsdóttir og Sveinn Arnar Davíðasson og ungu efnin voru valin Hildur Björg Kjartansdóttir og Snjólfur Björnsson.

 

Mikið var um allskonar verðlaun hjá Mostra einnig og gríðaleg stemming á sviði og í sal við verðlaun og viðurkennigar kvöldsins en sérstaka þakkarviðurkennigu fékk Kristín Benediktsdóttir frá stjórn Snæfells.

 

Hildur Björg Kjartansdóttir átti ekki heimagegnt álokahófið að þessu sinni vegna Norðurlandamóts u18 landsliðsins í Solna í Svíðþjóð þar sem hún er lykilleikmaður og sendum við henni stuðkveðjur úr Stykkis.

 


 

14.05.2012 16:56

Jafnt hjá Víking og Fjölni

Jafntefli var niðurstaðan í fyrsta leik sumarsins. Leikurinn fór fram á Ólafsvíkurvelli við flottar aðstæður, gott veður og þokkalegt ástand á vellinum.

Við byrjuðum leikinn af miklum krafti og vorum við talsvert ógnandi í upphafi og hefðum við hæglega getað sett tvö mörk snemma leiks. En við fengum dæmda vítaspyrnu á 40 mínútu þegar Guðmundur Steinn var togaður niður í teignum. Edin Beslija steig á punktinn og skoraði nokkuð örugglega.

  Mikið jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik og var talsverð stöðu barátta. Sóknir Fjölnismanna þyngdust og náðu þeir að opna vörn okkar nokkrum sinnum. Það fór svo að Fjölnismenn skoruðu og jöfnuðu metin á 54, mínútu og var þar á ferðinni Ómar Hákonarson. 

Einar Hjörleifsson, fór fyrir okkar mönnum, og varði nokkrum sinnum meistaralega og kom í veg fyrir að Fjölnismenn tækju öll 3 stigin með sér suður.

Niðurstaðan í dag var jafntefli og verður að segja að það hafi verið nokkuð sanngjarnt.
En mótið er rétt að byrja og vonandi eigum við eftir að sjá fullt af skemmtilegum leikjum í sumar.

07.05.2012 22:31

Snæfell áfram í bikarkeppninni

Skessuhorn:


Grundfirðingar féllu úr bikarkeppninni en Snæfell mætir Haukum


7. maí 2012

Lið Grundarfjarðar datt út úr bikarkeppni KSÍ þegar liðið mætti á Ásvelli í Hafnarfirði til að etja kappi við lið ÍH. Hafnfirðingarnir byrjuðu leikinn betur og komust í 1-0 í fyrri hálfleik. Í þeirri stöðu misnotuðu Grundfirðingar kjörið tækifæri til að jafna metin þegar þeir fengu vítaspyrnu en Heimi Þór Ásgeirssyni brást bogalistin á vítapunktinum. ÍH komst svo í 2-0 áður en Heimir Þór náði að minnka muninn í 2-1 þegar skammt var til leiksloka. Leikurinn fjaraði síðan út án þess að Grundfirðingar næðu að bæta við marki.

Aðra sögu er að segja af Snæfelli sem fékk frímiða í næstu umferð bikarkeppninnar þar sem lið Höfrungs frá Þingeyri gaf sinn leik. Snæfell mætir því sterku fyrstudeildarliði Hauka á Stykkishólmsvelli miðvikudaginn 16. maí næstkomandi.

 

05.05.2012 16:58

Ásdís Hjálmsdóttir og Óðinn Björn í heimsókn

Afreksíþróttafólk í heimsókn

studaginn 4. maí sl. fengum við í frjálsíþróttadeild UMFG góða heimsókn. 
Til okkar komu þau Ásdís Hjálmsdóttir spjótkastari úr Ármanni og Óðinn Björn Þorsteinsson, kúluvarpari og kringlukastari úr FH, sem bæði eru í fremstu röð okkar frjálsíþróttafólks í dag. Þau hafa bæði náð Ólympíulágmörkum í sínum greinum og fara til London í sumar að keppa á ÓL. Markmiðið með heimsókn þeirra var að fræða, hvetja og leiðbeina krökkunum okkar - en æfingarnar voru opnar fyrir alla krakka á Snæfellsnesi. 

Fyrir hádegi hittu þau yngri og eldri nemendur í Grunnskóla Grundarfjarðar og ræddu við þau um íþróttir, heilbrigðan lífsstíl og margt fleira. Þau töluðu um að íþróttir væru hollar fyrir einstaklinginn, en félagsskapurinn sem fylgir sé ekki síður mikils virði. Þau sögðu líka að það væri mjög gott fyrir krakka á grunnskólaaldri að æfa fleiri íþróttagreinar en eina. Slíkt efldi hreyfiþroska og gagnaðist fólki síðar. Margir af bestu íþróttamönnum Íslands, t.d. í fótbolta og handbolta, hefðu æft frjálsar íþróttir þegar þeir voru börn og unglingar. Ásdís og Óðinn Björn sögðu að mikilvægt væri að setja sér markmið, þ.e. að skrifa niður draumana sína - og útbúa áætlun um hvernig maður vildi ná markmiðunum. Þetta gilti bæði fyrir íþróttir og annað, t.d. skólanám. Krakkarnir voru mjög áhugasamir og voru dugleg að spyrja gestina, m.a. út í þátttöku þeirra á Ólympíuleikunum, fyrirkomulag æfinga og fleira. 

Eftir hádegi leiðbeindu Ásdís og Óðinn Björn krökkunum svo á frjálsíþróttaæfingum allra aldurshópa, bæði innanhúss og á íþróttavellinum - í bliðskaparveðri. 

Hér eru á ferðinni frábærir íþróttamenn og góðar fyrirmyndir - og ekki var annað að sjá og heyra, en að krakkarnir væru ánægðir með heimsóknina og aðstoð íþróttafólksins. 

Í lok heimsóknarinnar voru þau leyst út með gjöfum - og af því að alvöru íþróttamenn þurfa alvöru fæði, þá fengu þau fisk frá fiskvinnslum í Grundarfirði. G.Run gaf þeim vænan skammt af þorskflökum, FISK-Seafood sá þeim fyrir fallegri rækju og Soffanías Cecilsson hf. færði þeim saltfisk í gjafapakkningu. Á meðfylgjandi mynd sjáum við þau Ásdísi og Óðin Björn með saltfiskinn - og Kirkjufellið í baksýn. 

Við þökkum þeim Óðni Birni og Ásdísi kærlega fyrir komuna og óskum þeim alls hins besta í komandi æfingum og keppnum! 
 
Heimsókn þeirra var á vegum frjálsíþróttadeildar UMFG í samvinnu við stjórn UMFG, Grunnskóla Grundarfjarðar og HSH.

Í myndaalbúmi sem er að finna hér til hliðar á síðunni, er að finna fleiri myndir úr heimsókninni. 
 
Skrifað af Björg

05.05.2012 16:40

100 ára afmæli UMSB

Þann 26 apríl síðastliðinn varð nágranni okkar Ungmennasamband Borgarfjarðar 100 ára.
Í tilefni dagsins var samsæti í Framhaldsskóla Borgafjarðar. Hermundur Pálsson formaður HSH og Garðar Svansson framkvæmdarstjóri HSH mættu þar og færðu UMSB gjöf með UDN og Skipaskaga. Gott samstarf hefur verið með þessum félögum í gegnum tíðina og því við hæfi að fagna stórum áfanga hjá UMSB

Anna Bjarnadóttir formaður Skipaskaga,  Hermundur Pálsson formaður Héraðssambands Snæfellsness og Hnappadalssýslu og Finnbogi Harðarson formaður Ungmennasambands Dalamanna og N-Breiðfirðinga (UDN) færðu Sigurði Guðmundssyni sambandsstjóra UMSB gjöf í tilefni afmælissins
Stefán Skafti Steinólfsson gjaldkeri Skipaskaga fór svo með stöku
 

05.05.2012 09:40

Aðalfundur Skotgrund

Aðalfundur Skotfélagsins Skotgrundar var haldinn í gær í blíðskapar veðri í félagshúsi Skotgrundar í Hrafnelsstaðabotni.  Fundurinn var ágætlega vel sóttur og voru léttar veitingar í boði.  Farið var yfir skýrslu stjórnarinnar, ársreikning félagsins auk þess sem ný stjórn var kjörin. Einnig var farið yfir framkvæmdaáætlun félagsins og framkvæmdum var forgangsraðað.  Ekki vantar hugmyndirnar og áhugann, en þar sem fjármunir félagsins eru af skornum skammti var framkvæmdunum forgangsraðað eftir mikilvægi þeirra. Einnig voru rædd "önnur mál" og má þar t.d. nefna opnunartíma, tryggingar, varning merktan félaginu, byssusýning, lyklamál, umgengni o.fl.
Helstu fréttir eru þær að það urðu mannaskipti í stjórninni þar sem tveir stjórnarmenn óskuðu eftir því að stíga til hliðar og hleypa fersku blóði að.  Freyr Jónsson lætur nú af störfum sem gjaldkeri félagsins en Freyr og Jarþrúður Hanna hafa séð um fjármál félagsins undanfarin ár.  Við þeirra starfi tekur nú Tómas Freyr Kristjánsson og óskum við honum velfarnaðar í starfi um leið og við þökkum Frey og Jarþrúði Hönnu fyrir ómælda vinnu í gegnum árin.


Einnig lætur Bjarni Sigurbjörnsson af störfum sem ritari félagsins og við starfi hans tekur nú Gústav Alex Gústavsson.  Óskum við honum líka velfarnaðar í nýju starfi um leið og við þökkum Bjarna fyrir hans vinnu í þágu félagsins.


Aðrir stjórnarmenn gáfu kost á sér til áframhaldandi starfa og er stjórn Skotfélagsins Skotgrundar því skipuð eftirfarandi mönnum:

 

 • Jón Pétur Pétursson - Formaður
 • Gústav Alex Gústavsson - Ritari
 • Tómas Freyr Kristjánsson - Gjaldkeri
 • Guðmundur Pálsson - Meðstjórnandi
 • Guðni Már Þorsteinsson - Meðstjórnandi
 • Þorsteinn Björgvinsson - Meðstjórnandi
Annað sem kosið var um á fundinum er til dæmis:


  • Að félagsmenn sem eru 18 ára eða yngri greiði ekki félagsgjöld. Ekki er þó ætlast til þess að einstaklingar yngri en 15 ára gangi í félagið

  • Keypt verður Pace þakviðgerðargúmmí til þess að bera á riffilborðin.  Það kemur vonandi í veg fyrir að skotvopn og skotmenn rispist á borðunum auk þess sem þetta hlífir borðunum fyrir veðrun.  Þetta er tilraunarstarfssemi hjá okkur sem á vonandi eftir að gefa góða raun.  Hægt verður að fylgjast með framvindu mála hér á heimasíðu félagsins.

  • Gjaldkera og formanni félagsins var falið að fara yfir tryggingamál félagsins.

  • Formanni félagsins var falið það verkefni að kanna kostnað o.fl. við kaup á derhúfum með merki félagsins og límmiða í bílrúður.
    Það sem snýr að framkvæmdum á svæðinu þá er stefnt að því að:


 • #   Steypa nýja sökkla undir markið og turninn. (Jón Pétur og Gústav Alex)

  #   Klæða markið og turninn að utan. (Sjálfboðaliðar)
 • #   Mála markið, turnin og aðrar eignir félagsins. (Sjálfboðaliðar)
 • #   Setja upp 2 riffilborð til viðbótar. (Birgir og Steini Gun)
 • #   Setja Pace þakviðgerðarefni á öll rifflaborðin. (Birgir og Steini Gun)
 • #   Laga riffilskotmörkin/battana. (Guðni Már og Jón Einar)
 • #   Setja upp riffilskotmörk/batta á 50 metrana. (Sálfboðaliðar)
 • #   Sjóða ramma utan um skiltin okkar og setja þau upp. (Unnsteinn)Þetta er það helsta en það er lengi hægt að telja upp enda sátu fundarmenn fram undir myrkur á spjalli.  Að lokum var gengið um svæðið og farið yfir þau atriði sem lagfæra þarf.  
Það er von stjórnarinnar að vel takist til með þær framkvæmdir sem ráðist verður í á næstunni og að þær verði öllum til ánægju.  Ef að einhver hefur ábendingar til stjórnarinnar  varðandi svæði félagsins þá getur viðkomandi haft samband á skotgrund@gmail.com.

Stjórn Skotgrundar vill þakka þeim sem tóku þátt í fundunum í gær og vonast til að sjá sem flesta á vellinum í sumar.03.05.2012 14:18

Frjálsíþróttaskóli UMFÍ

Frjálsíþróttaskólinn er ætlaður ungmennum á aldrinum 11 - 18 ára. Ungmennin koma saman á hádegi á mánudegi en skólanum lýkur á hádegi á föstudegi í sömu viku. Aðaláhersla er lögð á kennslu í frjálsum íþróttum. Auk frjálsra íþrótta er farið í sund, leiki, óvissuferðir og haldnar kvöldvökur. Ungmennin borga þáttökugjald en innifalið í því er kennsla, fæði og gisting.  

 

Ungmennafélag Íslands hefur yfirumsjón með framkvæmd skólans og annast sameiginlega kynningu á starfseminni. Skólinn er í samvinnu við Frjálsíþróttasamband Íslands.

Sambandsaðilar á því svæði sem skólinn er haldinn á hverju sinni sjá um að finna kennara og aðstoðarmenn til starfa við skólann. Lagt er upp með að fagmenntaðir kennarar sjái um kennsluna á hverjum stað til að tryggja sem besta kennslu fyrir ungmennin.

 

Í lok námskeiðsins fá öll ungmennin viðurkenningarskjal til staðfestingar um þátttökuna. Einnig er lagður fyrir þá stuttur spurningarlisti til að athuga hug þeirra til skólans almennt. Skólinn hefur fengið eindæmum góð viðbrögð og ungmennin hafa farið sátt heim eftir lærdómsríka, krefjandi en umfram allt skemmtilega viku. Þátttaka ungmenna hefur aukist umtalsvert milli ára. Góð þátttaka undirstrikar að skólinn er ákjósanlegur vettvangur til að kynna og breiða út frjálsar íþróttir á Íslandi.

 

Þannig gegnir skólinn mikilvægu hlutverki í að opna augu ungmenna fyrir ágæti íþróttaiðkunar og styðja fjölmargar rannsóknir þá fullyrðingu að ungmenni sem stunda íþróttir leiðast síður út í óreglu síðar á lífsleiðinni. Síðast en ekki síst öðlast ungmennin tækifæri til að kynnast hvert öðru og mynda tengslanet og auka hæfni sína í mannlegum samskiptum.

 

 

 

Frjálsíþróttaskólinn veður á eftirfarandi stöðum í sumar

Laugum í Reykjadal 11. - 15. júní

Egilsstaðir 11. - 15. júní

Sauðárkrókur 11. - 15. júní

Borgarnes 18. - 22. júní

Selfoss 16. - 20. júní

Skráning á tengli hér fyrir neðan

 

 Frjálsíþróttaskóli UMFÍ

 


 


03.05.2012 09:10

Afreksfólk í heimsókn

ALLIR á Snæfellsnesi velkomnir á æfingar. 

Föstudaginn 4. maí fáum við í frjálsíþróttadeild UMFG góða heimsókn. 
Til okkar koma þau Ásdís Hjálmsdóttir spjótkastari úr Ármanni og Óðinn Björn Þorsteinsson, kúluvarpari og kringlukastari úr FH, sem bæði eru í fremstu röð okkar frjálsíþróttafólks í dag. Þau hafa bæði náð Ólympíulágmörkum í sínum greinum og fara til London í sumar að keppa.  

Þau byrja á því að fara upp í grunnskóla og hitta nemendur þar fyrir hádegi en mæta síðan á æfingar til okkar eftir hádegið. 
Hér eru góðir íþróttamenn og frábærar fyrirmyndir á ferðinni - og markmiðið með því að fá þau til okkar er að fræða og hvetja okkar krakka, og leiðbeina þeim á frjálsíþróttaæfingum. 
 
Æfingatímarnir skiptast þannig:
Kl 12:40 - 13:40 eru nemendur í 1 - 3 bekk.
13:40 - 14:40 eru nemendur í 3 - 7 bekk  
14:40 - 15:40 eru nemendur í 5. bekk og eldri saman  
 
Nokkrir bekkir fá aðeins lengri tíma þar sem lögð er meiri áhersla á tækni í seinni tímanum.
 
Lögð verður áhersla á að kenna grunntækni sem hentar öllum, sama hvaða grein viðkomandi ætlar að æfa seinna meir.
 
Ef veður leyfir þá getur verið að hluti af æfingunum verði færður niður á íþróttavöll þannig að miðhópurinn og elstu eiga að hafa með sér útiföt.
 
Þetta verða opnar æfingar þannig að þeir sem vilja koma og fylgjast með (t.d. foreldrar) eru velkomnir og geta sest upp á áhorfendapallana en eru beðnir um að hafa gott hljóð og trufla ekki æfingarnar.
 
Þetta er samstarfsverkefni frjálsíþróttadeildar og stjórnar UMFG og HSH. 
Og það eru ALLIR á Snæfellsnesi velkomnir á þessar æfingar. 

Með bestu kveðju,
f.h. frjálsíþróttaráðs UMFG 
Kristín H og Björg

01.05.2012 22:55

Hestíþróttamót Snæfellings


Opið hestaíþróttamót Snæfellings

 

Opna íþróttamót Snæfellings verður haldið í

Grundarfirði laugardaginn 12, maí

Mótið hefst kl. 10:00

 

Dagskrá:  (háð nægri þátttöku í öllum flokkum)

Þulur stjórnar keppni og eru 2 inná í einu.

 

Forkeppni

Fjórgangur: 1, flokkur,  2, flokkur, barna-, unglinga- og       ungmennaflokkur

Fimmgangur:  1, flokkur,  2, flokkur                            

Tölt: Barna-, unglinga-, ungmennaflokkur og  2, flokkur,  1, flokkur,

Pollaflokkur, þar má teyma undir eða ríða sjálfur, allir fá þátttökupening.

Úrslit

Fjórgangur: 1, flokkur,  2, flokkur barna-, unglinga- og ungmennaflokkur

Fimmgangur: 1, flokkur,  2, flokkur

Tölt: Barna-, unglinga-, ungmennaflokkur,  og 2, flokkur,  1, flokkur,

100 m skeið: 1, flokkur

Gæðingaskeið 1, flokkur

 

Skráning hjá Ásdísi í síma: 845 8828  eða á netfangið asdis@hrisdalur.is

Við skráningu þarf að koma fram keppnisflokkur, kennitala knapa, skráningarnúmer hests og upp á hvora hönd knapi vill hefja keppni.

2, flokkur er minna keppnisvanir.

 

Tekið er við skráningum til miðvikudagsins  9. maí kl. 22

 

Skráningargjald er 2500 kr. en 2000 kr. fyrir skuldlausa félaga, fyrir hverja skráningu í öllum flokkum nema í barna- og unglingaflokki, en þar er skráningargjaldið kr. 500 fyrir hverja skráningu.

Skráningargjöld leggist inná reikning 0191-26-876 kt. 440992-2189

fyrir klukkan 22 miðvikdaginn 9. maí annars verður viðkomandi ekki settur á ráslista.

Sendið kvittun á netfangið asdis@hrisdalur.is og setja í skýringu,  íþróttamót 2012

 

Stjórnin

 

Skrifað af Siggu

01.05.2012 22:29

Aðalfundur SnæfellsAðalfundur Snæfells verður haldinn fimmtudaginn 3. maí kl. 20 í fundarherbergi félagsins í Íþróttamiðstöðinni
Dagskrá fundarins eru venjuleg aðalfundarstörf og önnur mál.

Aðalstjórn Snæfells

01.05.2012 22:24

Aðalfundur SkotgrundVið minnum á aðalfundinn sem haldinn verður fimmtudaginn 3. maí 2012 kl. 20:00 í húsnæði félagsins í Hrafneklsstaðabotni. Dagskrá fundarins verður á þennan veg:


Skýrsla stjórnar

Reikningar félagsins lagðir fram

Ákvörðun um félagsgjöld

Kjör formanns, stjórnar og skoðunarmanna

Önnur mál

Við hvetjum félagsmenn til að mæta á fundinn og ef það er eitthvað sem þeir vilja koma á framfæri viljum við endilega fá ábendingar um það.  Einnig er hægt að senda okkur tölvupóst á skotgrund@gmail.com, hafa samband við Jón Pétur í síma 863 1718 eða sent skilaboð á facebook síðu félagsins .

Hlökkum til að sjá sem flesta.

Skrifað af JP

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 2238
Gestir í dag: 52
Flettingar í gær: 847
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 3292711
Samtals gestir: 253534
Tölur uppfærðar: 17.1.2018 13:21:33
Flettingar í dag: 2238
Gestir í dag: 52
Flettingar í gær: 847
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 3292711
Samtals gestir: 253534
Tölur uppfærðar: 17.1.2018 13:21:33