Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Færslur: 2011 Desember

07.12.2011 22:13

Hlynur hjá Sundsvall næstu 3 ár

Hlynur samdi við Sundsvall til næstu þriggja ára

Grundfirðingurinn og landsliðsfyrirliðinn Hlynur Elías Bæringsson hefur gert nýjan þriggja ára samning við Svíþjóðarmeistara Sundsvall Dragons. Hlynur varð meistari með liðinu á síðustu leiktíð ásamt liðsfélaga sínum úr íslenska landsliðinu, Jakobi Erni Sigurðarsyni.
Aðspurður hvort skuldbindingin væri ekki mikil svaraði Hlynur:
 
,,Þetta er töluverð skuldbinding, ég er ekki vanur því. Ég var nú bara vanur að taka í höndina á Gissuri Tryggva í Hólminum. Þetta var því töluvert meira mál! En ákvörðunin var auðveld að því leyti að okkur líkar ákaflega vel hérna, ég hafði annað augað á öðrum löndum og möguleikum þar. Ég held hinsvegar að grasið sé ekki alltaf grænna hinum megin og ég valdi því ákveðið öryggi. Bæði fyrir mig og mína fjölskyldu, fannst það skynsamlegt, að vera ekki að rúlla teningunum meira en ég þarf," sagði Hlynur sem verður í eldlínunni með Drekunum á föstudag þegar Sundsvall mætir Södertalje Kings á útivelli.
 
nonni@karfan.is
 
 

07.12.2011 21:13

Víkingar efstir í B riðli Futsal

Futsal: Fylkir - Víkingur Ó 3-4

03. desember 2011 klukkan
Pepsídeildarlið Fylkis var næsti mótherji okkar í Futsal á þeirra heimavelli. Leikurinn varð gríðarlega jafn og spennandi, það spennandi að hann var ekki fyrir viðkvæmar sálir. Okkur tókst að vinna þennan leik með einu marki í leik sem gat dottið báðum megin en sem betur fer fyrir okkur datt sigurinn okkar megin.

Sem sagt, leikurinn fór 3-4 með sigri okkar. Samt byrjaði leikurinn ekki vel fyrir okkur, því snemma í leiknum gerðu leikmenn Fylkis tvö mörk gegn okkur á stuttum tíma eftir að hafa í bæði skiptin unnið boltann af þremur sækjandi leikmönnum Víkings Ó og brunað upp gegn fámennri vörn okkar. Þrátt fyrir þessa vondu stöðu var maður alveg rólegur. Og hvers vegna var maður rólegur? Jú, Fylkismenn komust varla fram fyrir miðju, þvílíka pressu settu leikmenn Víkings Ó á þá þegar þeir unnu boltann. Og áður en dómararnir blésu til hálfleiks hafði Alfreð Már Hjaltalín komið boltanum tvisvar í netið hjá þeim og staðan því 2-2 í hálfleik.

Í seinni hálfleik kom miklu ákveðnara og sterkara lið til leiks hjá Fylki. Nú gekk þeim betur að svara okkar taktík með því að gera nákvæmlega alveg eins og við, að hápressa. Það voru ekki margar mínútur liðnar af seinni hálfleiknum þegar Guðmundur Magnússon kemur okkur í 2-3 með hörkuskoti úr teignum í stöngina og inn. En Fylkir gafst ekki upp og um miðjan hálfleikinn komst einn þeirra einn gegn Einari markverði, en Einar sá við honum og varði skotið hans. En boltinn hrökk aftur til þessa leikmanns sem náði að renna boltanum undir Einar og í netið. Staðan þar með orðin 3-3 og útlitið þannig næstu mínúturnar að leikurinn muni enda með jafntefli.

En Guðmundur Steinn Hafsteinsson var ekki á því að taka ekki öll þrjú stigin sem í boði voru og skoraði gott mark þegar ein og hálf mínúta voru eftir og kom okkur yfir, 3-4 og þessari stöðu héldum við út, þrátt fyrir harðar sóknaraðgerðir Fylkismanna.

Þessum stórskemmtilega Futsal leik lauk því með sigri okkar manna og þar með erum við með fullt hús stiga eða 9 stig og trónum á toppnum í riðlinum þegar keppni er hálfnuð. Þrír síðustu leikir okkar verða allir spilaðir í Ólafsvík og má segja að úrslitakeppnin í byrjun janúar blasi við.

Næsti leikur okkar verður í Ólafsvík laugardaginn 10.des kl. 12.00 (hádeginu) og síðan kemur sá næsti og hann verður líka í Ólafsvík miðvikudaginn 14.des kl. 19.00 gegn Hvíta Riddarinn/Aftureldingu og svo mæta Fylkismenn til Ólafsvíkur laugardaginn 17.desember kl. 13.00.

07.12.2011 21:09

Blakfréttir frá UMFG

Nú er blakið hjá krökkunum komið vel af stað með nýjum þjálfara og gengur það ágætlega. Fyrri hluta Íslandsmóts er lokið en yngri flokkar, 4. - 5. flokkur áttu að spila á Neskaupsstað en ekki náðist í lið og bæði erfitt og langt að fara. Blakarar í 3. flokki kvenna og 2. flokki karla fóru á fyrri hluta Íslandsmóts í Mosfellsbæ helgina 27. -28. nóvember.  Kvennaliðið fékk tvær stelpur úr Ólafsvík til að spila með, en þær eru farnar að mæta á æfingar í Grundarfirði og er það bara skemmtilegt.  Stelpurnar lentu í 3. sæti af fimm liðum í A-riðli og er það flott hjá þeim. Stelpurnar unnu tvo leiki á mót Stjörnunni og Þrótti Nes. E, en töpuðu tveimur leikjum á móti Þrótti Nes. og KA Akureyri. Strákunum gekk ekki eins vel þar sem þeir töpuðu sínum leikjum. Erfitt var að ná í lið og voru fjórir leikmenn á fyrsta ári í 3. flokki en tveir góðir strákar í 2 flokki voru meiddir á fæti svo þetta var mjög erfitt hjá þeim. Seinni hlutinn verður í Kópavogi í vor og verður þá vonandi farið með fleiri lið.


 

Krakkar: munið eftir því að skila búningum

07.12.2011 20:42

UMFG að selja treyjur

Treyjur til sölu


Heimir Þór tekur sig einstaklega vel út í treyjunni.

Langar þig til að eignast gullfallega treyju meistaraflokks Grundarfjarðar? Ef svo er þá getur þú haft samband við Tomma tomasfreyr(hja)gmail.com og nálgast þetta hjá honum. Treyjan kostar aðeins 5000 kr og rennur allur ágóðinn beint inn í Meistaraflokkinn. Treyjurnar eru til í flestum stærðum frá barna og upp í fullorðins.


Aron ber búninginn vel.

Þetta verður aðallbúningur liðsins næsta sumar. Um að gera að fjárfesta í treyju fyrir tímabilið og lita brekkuna bláa.

Jólagjöfin í ár?

07.12.2011 20:40

Tap geng Njarðvík

Sárt tap í hörkuleik.

Njarðvík hafa verið að skríða upp töfluna og narta nú í hæla nágranna sinna í Keflavík. Snæfellsstúlkur hafa verið að vinna vel á heimavelli og líka liðin fyrir neðan sig aðallega og eru í 5.sæti með jafnmörg stig og Haukar sem eru í því fjórða. Eftir sigurinn í kvöld skella Njarðvík sér í toppsætið um sinn.



Byrjunarliðin:
Snæfell:
Kieraah Marlow, Hildur Björg, Hildur Sigurðard, Helga Hjördís, Alda Leif.
Njarðvík: Salbjörg Sævarsd, Lele Hardy, Shanae Baker, Petrúnella Skúlad, Erna Hákonard

 

 


Snæfell komst á gott skrið strax í 8-0 og Njarðvík voru frekar stirðar í sínum aðgerðum kláruðu sóknir sínar illa og voru ekki alveg mættar í Hólminn í upphafi leiks. Sverrir tók leikhlé til að fara yfir málin og Petrúnella svaraði kallinu strax með þrist og svo komust grænar nær í 10-9 og virtust búnar að stilla sig af. Staðan eftir fyrsta hluta var 18-16 fyrir Snæfelli.

Njarðvík komst yfir 20-21 og voru Snæfellsstúlkur í raun að gefa þeim færi á að taka forystuna með slökum sniðskotum og úrvalsfærum. Snæfell jafnaði þó aftur 28-28 en Shanae Baker hjá Njarðvík var komin með 17 stig um miðjan annan hluta af þessum 28 stigum á meðan skorið dreifðist meira hjá Snæfelli. Staðan í hálfleik var 32-36 fyrir Njarðvík.


Hjá Snæfelli voru Kieraah og Hildur Sig komnar með 8 stig hvor og Hildur Björg og Helga Hjördís voru komnar með 7 stig hvor. Hjá gestunum í Njarðvík var Shanae Baker í sérflokki með 19 stig en næst henni var Lele Hardy með 8 stig og 8 fráköst.

 

 

 


Njarðvík kom með látum inn í þriðja hluta og komust strax í forystu 34-40. Helga Hjördís náði að minnka muninn með þrist í 39-40 en Njarðvík tók þá 8-0 sprett sem skildi Snæfell eftir í reyk. Mikil kaflaskil voru í leiknum því Snæfell ruku í eitt stykkis 8-0 sprett einnig og staðan snarlega 47-48. Staðan eftir þriðja hluta 53-53 og Shanae Baker komin með 29 stig fyrir grænar.


Rosastuð var í leiknum í upphafi fjórða hluta og Snæfellleiddi strax 60-56 en misstu Njarðvík svo fram úr sér 61-63. Ellen Alfa setti þá rándýrann þrist fyrir Snæfell 64-63 og allt á brautum í Hólminum og liðin að skipstust á skinum og allskonar skúrum. Staðan var 69-69 þegar 29 sekúndur voru eftir. Títtnefnd Shanae Baker tók þá af skarið og setti þrist fyrir 69-72 og sín 39 stig þegar 4.5 sekúnda lifði og Snæfell fékk leikhlé. Snæfell gaf inn boltann en náðu ekki að koma boltanum í skot og Shanae Baker komst inní sendingu og leikurinn Njarðvíkur 69-72 í hörkuleik í Hólminum.


Stig Snæfells: Kieraah Marlow 21/4 stoðs. Hildur Sigurðard 15/5 frák/7 stoðs. Helga Hjördís Björgvinsd 12/4 frák. Hildur Björg Kjartansd 11/5 frák. Ellen Alfa Högnad 6. Alda Leif Jónsd 2/9frák. Sara Mjöll Magnúsd 2. Björg Guðrún 0. Rósa Kristín 0. Aníta Rún 0.


Stig Njarðvíkur: Shanae Baker 39/7 frák. Lele Hardy 14/18 frák. Petrúnella Skúlad 13/6 frák. Ólöf Helga 3. Erna Hákonard 2. Slabjörg Sævarsd1. Eyrún, Ásdís, Sara, Emelía og Harpa 0.

 

Tölfræði leiksins.

 

 

07.12.2011 20:39

Snæfell vann Hamar

Snæfell hirti stigin í Hveragerði: Hörmulegar lokamínútur hjá Hamri
05 12 2011 | 00:26

Snæfell hirti stigin í Hveragerði: Hörmulegar lokamínútur hjá Hamri

Kvennalið Hamars kastaði frá sér sigrinum í 4. leikhluta þegar liðið tók á móti Snæfelli í Iceland-Express deildinni í körfubolta í dag. Hamar náði 21 stigs forskoti í seinni hálfleik en tapaði að lokum, 68-71. www.sunnlenska.is greinir frá.
 
Fyrsti leikhlutinn var jafn og staðan að honum loknum var 18-15. Hamar náði tíu stiga forskoti í upphafi 2. leikhluta, 29-19, en Snæfell minnkaði muninn fyrir hálfleik, 34-27.
 
Samantha Murphy var sjóðheit um miðjan 3. leikhluta og skoraði þá 16 stig í röð. Á þeim kafla náði Hamar 21 stigs forskoti, 52-31, en Snæfell náði að minnka muninn niður í 15 stig fyrir lok 3. leikhluta, 60-45.
 
Síðasti fjórðungurinn var skelfilegur hjá Hamri. Álfhildur Þorsteinsdóttir skoraði reyndar fyrstu körfuna og kom Hamri í 62-45 en eftir það kom 21-2 kafli hjá Snæfelli sem komst yfir, 64-66, þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir. Hamarskonur hittu mjög illa á þessum kafla og misstu boltann þess á milli.
 
Eftir að Snæfell komst yfir hættu bæði lið að hitta en þegar 52 sekúndur voru eftir jafnaði Samantha Murphy úr vítaskoti, 66-66. Snæfell svaraði með þriggja stiga körfu og gestirnir kláruðu svo leikinn á vítalínunni á lokasekúndunum.
 
Samantha Murphy var lang stigahæst Hamarskvenna með 41 stig eða rúmlega 60% stiga liðsins. Nýi leikmaðurinn, Katherine Graham, skoraði 14 stig, Álfhildur Þorsteinsdóttir 8, Sóley Guðgeirsdóttir 3 og Marín Davíðsdóttir 2.
 
Stigaskor:
 
Hamar: Samantha Murphy 41/7 fráköst, Katherine Virginia Graham 14/4 fráköst/6 stoðsendingar, Álfhildur Þorsteinsdóttir 8, Sóley Guðgeirsdóttir 3, Marín Laufey Davíðsdóttir 2, Katrín Eik Össurardóttir 0, Bylgja Sif Jónsdóttir 0, Dagný Lísa Davíðsdóttir 0, Jenný Harðardóttir 0, Rannveig Reynisdóttir 0, Kristrún Rut Antonsdóttir 0, Rakel Úlfhéðinsdóttir 0.
 
Snæfell: Hildur Sigurdardottir 20/6 fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 18/7 fráköst, Kieraah Marlow 16/11 fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir 8/11 fráköst, Björg Guðrún Einarsdóttir 3, Sara Mjöll Magnúsdóttir 2, Ellen Alfa Högnadóttir 2, Alda Leif Jónsdóttir 2/5 stolnir, Rósa Indriðadóttir 0, Kristþóra Auður Bárðardóttir 0, Birta Antonsdóttir 0, Aníta Sæþórsdóttir 0.
 

07.12.2011 20:37

Slakur leikur gegn Keflavík í lengjubikarnum


Umfjöllun af Karfan.is

Keflavík vann annan spennuslag gegn Snæfell

 


Það verða Keflavík og Grindavík sem leika munu til úrslita í Lengjubikar karla þetta árið en Keflavík var rétt í þessu að leggja Snæfell að velli í síðari undanúrslitaleik kvöldsins í DHL-Höllinni. Lokaspretturinn var æsispennandi en Keflvíkingar sem höfðu frumkvæðið í leiknum héldu út og unnu sinn annan spennusigur í röð á Snæfellingum, lokatölur að þessu sinni 88-93. Jarryd Cole fór mikinn í liði Keflavíkur með 36 stig og 10 fráköst en Marquis Hall var með 25 stig í liði Snæfells. Úrslitaviðureign Grindavíkur og Keflavíkur hefst svo kl. 16:00 í DHL-Höllinni á morgun.

 


Keflvíkingar mættu með sex fyrstu stig leiksins og komust síðar í 5-12 þar sem Jarryd Cole gerði 10 stig og liðsfélagar Quincy Hankins-Cole voru orðnir þreyttir á því að grátbiðja sinn mann um að sína smá lit í vörninni. Ingi Þór Steinþórsson tók við þetta leikhlé fyrir Hólmara og smellti Quincy á bekkinn og þá hresstust hans menn nokkuð. Sveinn Arnar Davíðsson átti fína spretti hjá Snæfell sem snöggtum minnkaði muninn í 17-19. Quincy kom inn á völlinn að nýju undir lok leikhlutans og afrekaði það að setja niður síðustu stig hans og koma Snæfell í 25-23 og þannig stóðu leikar að leikhlutanum loknum.


 
Ekki átti að fara mikið fyrir varnarleiknum í öðrum leikhluta, Keflvíkingar höfðu frumkvæðið en Snæfell var aldrei langt undan. Valur Orri Valsson kom með fimm stig í röð hjá Keflavík og á sama tíma virtist Ingi Þór þjálfari Snæfells vera eini Hólmarinn með metnað til að vinna leikinn en hans liðsmenn voru fremur bragðdaufir í upphafi annars leikhluta.


 
Quincy Hankins-Cole jafnaði metin í tvígang fyrir Snæfell, 42-42 og svo aftur 44-44. Þegar leið á annan leikhluta mætti Steven Gerard með góðar rispur og munurinn komst upp í átta stig í leikhléi eftir byrjendamistök Snæfellinga, hentu fyrst boltanum upp í hendur Keflvíkinga í innkasti, Gunnar Hafsteinn Stefánsson mætti þá með þrist og þegar Hólmarar héldu í lokasókn fyrri hálfleiks misstu þeir boltann, Charles Parker brunaði þá upp og tróð með látum og Keflavík leiddi 51-59 í hálfleik.


 
Jarryd Cole var með 20 stig og Steven Gerard 15 hjá Keflavík en þeir Quincy Hankins-Cole og Marquis Hall voru báðir með 14 stig í liði Snæfells.


 
Keflavík kom muninum upp í tíu stig snemma í síðari hálfleik, Hólmarar virtust þá lítinn áhuga á því að spila vörn en hægt og bítandi fór varnarleikurinn að þéttast hjá báðum liðum og ekki seinna vænna eftir 110 stiga fyrri hálfleik.


 
Almar Guðbrandsson laumaði inn fínum rispum hjá Keflavík og Jarryd Cole fékk að leika sér nokkuð frjálslega, Hankins-Cole ekki mikið fyrir varnarleikinn í kvöld. Aukin harka færðist þó í leikinn í síðari hálfleik með bættum varnarleik en Keflavík leiddi 68-74 að loknum þriðja leikhluta.


 
Tvær mínútur liðu stigalausar í fjórða leikhluta áður en Jarryd Cole rauf þögnina. Hólmarar fóru þó að lemja sig nærri og minnkuðu muninn í 77-78 eftir þrista frá Hafþóri og Marquis en Keflvíkingar voru engu að síður alltaf með frumkvæðið.


 
Charles Parker tók lítinn þátt í síðari hálfleik í liði Keflavíkur en Jarryd Cole, Valur Orri Valsson og Steven Gerard voru Snæfell illir viðureignar. Gerard jafnaði metin í 83-83 með þriggja stiga körfu þegar læti voru komin í herbúðir Snæfells og upphófst spennandi lokasprettur.


 
Jarryd Cole kom Keflavík í 85-87 og síðar í 86-89 þegar 27 sekúndur voru eftir. Almar Guðbrandsson braut svo á Jóni Ólafi Jónssyni sem á vítalínunni minnkaði muninn í 88-89. Snæfell braut strax á Keflavík í næstu sókn og sendu Gerard á línuna og öryggið uppmálað kom hann Keflvíkingumí 88-91. Í næstu sókn Hólmara ver Halldór Örn Halldórsson skot frá Marquis Hall, Gerard greip frákastið af varða skotinu og Hólmarar brutu strax á honum, vítin fóru sína leið og lokatölur urðu svo 88-93 Keflavík í vil.


 
Annar spennusigurinn í röð sem Keflvíkingar vinna á Snæfell og að þessu sinni var Jarryd Cole atkvæðamikill með 36 stig og 10 fráköst. Steven Gerard bætti við 26 stigum og 8 stoðsendingum og Charles Parker var með 12 stig. Hjá Snæfell var Marquis Hall með 25 stig og Quincy Hankins-Cole bætti við 22 stigum og 11 fráköstum og þá var Jón Ólafur Jónsson með 18 stig og 7 fráköst.


 
Magnús Þór Gunnarsson tók út leikbann í liði Keflavíkur í kvöld og verður því löglegur með liðinu í úrslitaleiknum á morgun gegn Grindavík. Þá var Arnar Freyr Jónsson á bekknum í borgaralegum klæðum og því tvær kanónur sem Keflvíkingar eiga enn uppi í erminni.


 
Mynd/ Eyþór Benediktsson

Umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson - nonni@karfan.is 

04.12.2011 15:27

Dagbjartur Harðarson nýr formaður Vestarr

Aðalfundur Vestarr 29 nóv.

Aðalfundur Vestarr var haldinn 29 nóv 2011.

Þórður Magg var kosinn fundarstjóri.
Fundarritari var kosin Anna María Reynisdóttir.
Pétur las skýrslu stjórnar, fór yfir verkefni síðasta árs.  Skýrsla stjórnar var samþykkt með lófaklappi.
Endurskoðaðir reikningar lagðir fram.  Þar var það helsta að klúbburinn er skuldlaus og hagnaður ársins var 2.191.621 kr.  Hér er ársreikningurinn.
Lögð var fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2012.
Voru reikningar og fjárhagsáætlanir samþykktar samhljóða.
Lögð var fram breytingartillaga á reglum félagsins vegna kvennanefndar sem féll á jöfnu.
Dagbjartur Harðarson var kjörinn nýr formaður klúbbsins.
Ritari var kjörin Anna María Reynisdóttir.
Gjaldkeri, Þórður Magnússon, á enn eitt ár eftir af sínu kjörtímabili.
Formenn annarra nefnda voru kosnir svo:
Ásgeir Ragnarsson formaður vallarnefndar
Kjartan Sigurjóns formaður mótanefndar
Systa Reynis formaður skálanefndar
Bryndís Theodórs formaður kvennanefndar
Pétur Georgsson formaður nýliðanefndar
Guðni E Hallgrímsson formaður fjáröflunarnefndar.
Endurskoðendur voru kosnir.
Nýr formaður hélt tölu og þakkaði fráfarandi formanni, Pétri Georgssyni, fyrir góð störf.
Engin önnur mál voru og fundið var slitið.

Skrifað af Þórði Magg

01.12.2011 10:58

Auðvelt hjá Víking á mót Mosfellingum


Víkingur heimsótti  sameiginlegt lið Hvíta Riddarans / Aftureldingar frá Mosfellsbæ að Varmá í annarri umferð Futsals-mótsins á þriðjudag

og fór leikurinn 16-5 fyrir Víking. Þeir er því efstir í B-riðli

Fyrsti leikur Víkings í riðlinum endaði með 9-3 sigri liðsins á KB og vonandi ná strákarnir að fylgja því eftir í kvöld.

Þessi leikur átti að fara fram í Ólafsvík en var færður til Mosfellsbæjar á elleftu stundu.  

  Félag L U J T Mörk Net Stig
1 Víkingur Ó. 2 2 0 0 25  -    8 17 6
2 Afturelding/Hvíti 3 1 1 1 36  -  34 2 4
3 Fylkir 1 0 1 0 12  -  12 0 1
4 KB 2 0 0 2   9  -  28 -19 0



01.12.2011 09:08

Góður sigur á KR

Það var ekki fyrir gæðum körfuboltans að fara þegar Snæfell sigraði KR í Iceland express deild kvenna 77-72. Snæfell var langt frá sínu besta en það var slakt KR liðið líka, en leikurinn var jafn heilt yfir með sprettum beggja liða sem gerðu sig seka um mörg mistök einnig.








Byrjunarlið leiksins:
Snæfell:
Kieraah Marlow, Hildur Björg, Hildur Sig, Helga Hjördís, Alda Leif.
KR: Helga Einars, Bryndís Guðmunds, Erica Prosser, Margrét Kara, Sigrún Sjöfn.    


Í upphafi fyrsta hluta voru bæði Snæfell og KR að skiptast á að skora til jafns við að henda boltanum frá sér klaufalega hvort sem var í skrefum, lélegum sendingum og slakri hittni. Staðan var 7-9 um miðjann hlutann en Snæfell stökk aðeins frá KR uppúr því í 14-9 en jafnræðið var við völd í leiknum og KR náði fljótt í 18-16 en staðan eftir fyrsta hluta 20-16 fyrir Snæfell.


KR náði að jafna 20-20 strax í öðrum fjórðung en Margrét Kara var heit og smellti tveimur þristum sem kom þeim svo einu stigi nær 24-23. KR virtust braggast við þetta tóka 8-0 sprett í 24-28 en á móti var sóknarleikur Snæfells varð tilviljunarkenndur og hægur. Kara skellti sínum þriðja þrist svellköld komin með 14 stig og kom KR í 28-33 og vörn Snæfell að slakna einnig. Staðan í hálfleik var 33-40 fyrir KR.


Hjá Snæfelli var Kieraah Marlow komin með 16 stig og Hildur Sigurðardóttir 6 stig. Í liði gestanna í KR var Margrét Kara komin með 14 stig, Erica Prosser 9 stig og 5 stoðsendingar. Hafrún Hálfdánardóttir 8 stig og 4 fráköst.


Snæfellsstúlkur hefðu hæglega getað gert betur í að nýtaöll þau færi sem gáfust undir körfunni en boltinn bara vildi ekki ofan í en ótal sóknarfráköst fengu þær í staðinn. KR náði að leiða að mestu með fimm stigum í upphafi þriðja hluta en Snæfell kom til baka og jafnaði 44-44 og voru að binda sig betur saman og jafn leikur fylgdi í kjölfarið. Staðan eftir þriðja hluta 53-52 fyrir Snæfell þar sem Kieraah var að fara á kostum með 26 stig á meðan Margrét Kara var sett á ís.


Kara beið þó færis og smellti þrist fyrir KR og stal bolta strax í upphafi fjórða hluta og KR minnti heimastúlkur á að þær nörtuðu í hæla þeirra og staðan 55-55. Hildur Björg skellti næstu fimm stigum og þar af einum "Kareem Abdul Jabbar" húkkara ofan í og Hildur Sig þrist strax í næstu sókn og staðan strax 63-55 og mikill sprettur á stúlkunum sem áttu orðið yfirhöndina í vörn og fráköstum líka en þar fór Helga Hjördís fremsti flokki á vellinum og laumaði sínum stigum niður. Staðan var þó orðið 69-67 þegar tvær mínútur voru eftir og dregið af Snæfelli um tíma. 

 

71-70 var staðan þegar 50 sek voru eftir og Snæfell smellti tveimur vítum niður 73-70. KR voru komnar með 5 liðsvillur og brutu á Hildi Sigurðardóttur sem brást ekki á línunni og Snæfell fór í 75-70 stálu bolta ruku í næstu sókn og lítið sem KR gat gert í stöðunni 77-70 og örfáar sekúndur sem þær höfðu til að bæta þeim tveimur stigum við sem féll þeim til og Snæfell sigraði með glæsilegri baráttu í lokin 77-72.



Snæfell: Kieraah Marlow 32/8 frák/4 stoðs. Helga Hjördís 14/16 frák. Hildur Sigurðar 13/5 frák/4 stoðs. Hildur Björg 11/8 frák/4 stoðs. Ellen Alfa 3. Alda Leif 2/6 stoðs. Sara Mjöll 2. Björg Guðrún 0/2 stoðs. Rósa Kristín 0. Aníta Rún 0.



KR: Erica Prosser 19/7 frák/8 stoðs. Margrét Kara 19/6 frák/3 stoðs. Sigrún Sjöfn 14/6 frák. Hafrún Hálfdánard 11/5 frák. Bryndís Guðmundsdóttir 4/9 frák. Helga Einarsd 4. Rannveig Ólafsd 1. Hrafnhildur Sif 0. Kristbjörg 0. Anna María 0. Ragnhildur Arna 0. Helga Hrund 0.



Símon B. Hjaltalín

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 2393
Gestir í dag: 152
Flettingar í gær: 846
Gestir í gær: 68
Samtals flettingar: 3301120
Samtals gestir: 253923
Tölur uppfærðar: 23.1.2018 23:15:22
Flettingar í dag: 2393
Gestir í dag: 152
Flettingar í gær: 846
Gestir í gær: 68
Samtals flettingar: 3301120
Samtals gestir: 253923
Tölur uppfærðar: 23.1.2018 23:15:22