Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Færslur: 2011 Nóvember

15.11.2011 01:21

Formannafundur ÍSÍ
Formannafundur ÍSÍ
föstudaginn 11. nóvember 2011, fór fram hinn árlegi formannafundur ÍSÍ.  Fundinn sitja formenn héraðssambanda, íþróttabandalaga og sérsambanda auk framkvæmdastjórnar ÍSÍ og er fundurinn upplýsingafundur til sambandsaðila ÍSÍ.

Fundurinn hófst kl. 16:30 í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal og var það Ólafur E. Rafnsson, forseti ÍSÍ, sem setti fundinn, en að setningu lokinni flutti Líney R. Halldórsdóttir skýrslu framkvæmdastjórnar ÍSÍ og Gunnar Bragason, gjaldkeri ÍSÍ, fór yfir fjárhagsstöðu ÍSÍ og íþróttahreyfingarinnar.

Á undan formannafundinum fór fram fundur íþróttahéraða sem var vel sóttur.

ÍSÍ hefur gefið út haustútgáfu af ÍSÍ fréttum sem má sækja hér á heimasíðu ÍSÍ, en auk þess munu upplýsingar frá formannafundinum birtast á heimasíðu ÍSÍ á næstu dögum.

Hermundur Pálsson formaður HSH sótti fundi og jafnframt var Garðar Svansson framkvæmdarstjóri HSH á fundunum sem stjórnarmaður í framkvæmdarstjórn ÍSÍ

Á myndinni má sjá Gunnar Bragason, gjaldkera ÍSÍ, flytja skýrslu stjórnar um fjármál með forseta og framkvæmdastjóra sér við hlið.

09.11.2011 10:18

Snæfell sigraði Stjörnuna með einu stigi

 Umfjöllun: Stáltaugar Ólafs dugðu til sigurs
07.11.11

Umfjöllun: Stáltaugar Ólafs dugðu til sigurs

Ólafur Torfason var hetja Snæfells í kvöld þegar Hólmarar lögðu Stjörnuna 94-95 í Lengjubikar karla í Garðabæ. Brotið var á Ólafi um leið og leiktíminn rann út og hann sendur á vítalínuna þar sem honum dugði annað skotið til að tryggja sigurinn. Framan af benti allt til sigurs gestanna í leiknum en Garðbæingar hleyptu mikilli spennu í lokasprettinn með góðri baráttu sem þó varð skammvinn að þessu sinni.
 
Garðbæingar þurfa ekki að bíða lengi eftir því að fá tækifæri til að kvitta fyrir leikinn í kvöld þar sem liðin mætast í Iceland Express deildinni á föstudag og þá aftur í Ásgarði.
 
Gestirnir úr Stykkishólmi voru ferskari í Ásgarði í upphafi leiks eftir stormasama ferð suður til Reykjavíkur í hvassviðrinu. Quincy Hankins-Cole var skæður í teignum í upphafi en Garðbæingar unnu á og minnkuðu muninn í 20-26 með þriggja stiga körfu frá Marvin Valdimarssyni um leið og fyrsta leikhluta lauk.
 
Framan af öðrum leikhluta batnaði Stjörnuvörnin og Garðbæingar minnkuðu muninn í 24-29 en þá fóru Hólmarar hægt og sígandi að slíta sig frá. Staðan í hálfleik var 36-50 Snæfell í vil þar sem Fannar Freyr Helgason var með 10 stig í liði Stjörnunnar en Marquis var með 13 stig.
 
Snæfell opnaði síðari hálfleik með 7-0 dembu og staðan 36-57 en þá rönkuðu heimamenn við sér. Marvin Valdimarsson fór að minna á sig og þegar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum herti Stjarnan róðurinn og náði að minnka muninn í 7 stig, 66-73 þar sem Fannar Freyr Helgason lokaði þriðja leikhluta með þriggja stiga körfu.
 
Fannar opnaði fjórða leikhluta líkt og hann lokaði þeim þriðja og staðan 69-73. Garðbæingar voru allan fjórða leikhluta að narta í forystu gestanna og það gaf á bátinn þegar tvær og hálf mínúta var eftir. Pálmi Freyr Sigurgeirsson fékk þá tæknivillu dæma á sig fyrir samskipti sín við einn dómara leiksins og skömmu síðar kom Marvin Valdimarsson Stjörnunni yfir í fyrsta sinn í leiknum er hann breytti stöðunni í 91-90.
 
Lokakaflinn var æsispennandi, bæði lið voru í bullandi villuvandræðum og komin með skotrétt svo lítið mátti út af bera. Marquis Hall og Jón Ólafur Jónsson voru báðir utan vallar með fimm villur og hjá Stjörnunni voru þeir Fannar Freyr og Sigurjón Lárusson einnig utan vallar fyrir sömu sakir.
 
Keith Cothran jafnaði metin í 94-94 á vítalínunni þegar hann setti aðeins niður annað vítið, Hólmarar héldu í sókn með 18 sekúndur eftir, Pálmi Freyr stillti upp og fyrsta skot Hólmara geigaði en sóknarfrákastið endaði í höndum Ólafs Torfasonar og er hann reyndi skot rann klukkan út á meðan boltinn var í loftin og villa dæmd um leið á varnarmanninn Sigurbjörn Björnsson.
 
Ólafur fékk því tvö víti og voru Garðbæingar fjarri því sáttir við þessa niðurstöðu enda töldu þeir villuna vera komna til fyrir litlar sakir. Ólafur hélt á línuna og setti fyrra vítið og brenndi af því síðara en það skipti engu máli, Garðbæingar áttu ekki sekúndubrot inni til að svara fyrir sig og lokatölur því 94-95 Snæfell í vil.
 
Stigaskor:
 
Stjarnan: Fannar Freyr Helgason 20/7 fráköst, Justin Shouse 20/4 fráköst/9 stoðsendingar, Keith Cothran 17/6 fráköst, Sigurjón Örn Lárusson 16/7 fráköst, Marvin Valdimarsson 15/5 fráköst/3 varin skot, Guðjón Lárusson 6/5 stoðsendingar, Magnús Bjarki Guðmundsson 0, Sigurbjörn Ottó Björnsson 0, Dagur Kár Jónsson 0, Christopher Sófus Cannon 0, Aron Kárason 0.
 
Snæfell: Marquis Sheldon Hall 20/8 stoðsendingar, Quincy Hankins-Cole 16/11 fráköst, Jón Ólafur Jónsson 13, Egill Egilsson 12/4 fráköst, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 12, Ólafur Torfason 12/8 fráköst, Hafþór Ingi Gunnarsson 7, Sveinn Arnar Davidsson 3/4 fráköst, Daníel A. Kazmi 0, Snjólfur Björnsson 0, Þorbergur Helgi Sæþórsson 0, Magnús Ingi Hjálmarsson 0.
 
Mynd/ Ólafur Torfason í baráttunni við Marvin Valdimarsson í Ásgarði í kvöld.
Mynd og umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson - nonni@karfan.is

05.11.2011 20:11

Snæfell tapaði í Njarðvík

 Lokatölur í Njarðvík voru 90-80 grænum í vil þar semþær Lele Hardy og Shanae Baker gerðu báðar 26 stig í Njarðvíkurliðinu. Hjá Snæfell var Hildur Sigurðardóttir atkvæðamest með 28 stig.
 

 
Njarðvík-Snæfell 90-80 (28-24, 24-22, 12-14, 26-20)
 
Njarðvík: Shanae Baker 26/7 stoðsendingar, Lele Hardy 26/11 fráköst, Eyrún Líf Sigurðardóttir 12, Harpa Hallgrímsdóttir 10/5 fráköst, Salbjörg Sævarsdóttir 5, Erna Hákonardóttir 5, Petrúnella Skúladóttir 4/4 fráköst, Sara Dögg Margeirsdóttir 2, Ólöf Helga Pálsdóttir 0, Marín Hrund Magnúsdóttir 0, Emelía Ósk Grétarsdóttir 0, Ásdís Vala Freysdóttir 0.
 
Snæfell: Hildur Sigurdardottir 28/7 fráköst/6 stoðsendingar, Kieraah Marlow 23/15 fráköst/7 stoðsendingar, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 14/7 fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir 6/7 fráköst/5 stoðsendingar, Ellen Alfa Högnadóttir 4, Alda Leif Jónsdóttir 3/4 fráköst, Sara Mjöll Magnúsdóttir 2, Aníta Sæþórsdóttir 0, Rósa Indriðadóttir 0.

04.11.2011 09:57

Uppskeruhátíð Snæfellings 11.11.11Uppskeruhátíð 

Snæfellings

Föstudaginn 11.11.11 kl. 19:30

Innri-Kóngsbakka í Helgafellssveit

(í fjósinu sem hefur verið breytt í samkomusal)

Frjálslegur klæðnaður, gamli lopinn upplagður og

viðurkenning fyrir flottasta höfuðfatið.

Grillað verður á staðnum og kostar maturinn 2500 kr.


Veitt verða verðlaun fyrir góðan árangur á árinu

·        Ræktunarbú ársins

·        Hvatningarverðlaun til þeirra sem sýnt hafa góða takta í keppni

·        Knapi ársins

·        Þotuskjöldurinn verður afhentur

·        Foladasýningin


Veglegir vinningar verða í happdrættinu

 Miðaverð aðeins 1000kr.


Látið vita með þátttöku í síðasta lagi á miðvikudaginn 09.11  kl. 22

í netfangið  herborgs@hive.is eða síma 893 1584


Vonumst til að sjá sem flesta

                                                                         Stjórnin                                                                                                   

04.11.2011 09:30

Öruggt hjá Snæfell gegn Njarðvík

 Umfjöllun: Engin norðankæla, heimamenn sigldu lygnan sjó
04 11 2011 karfan.is

Umfjöllun: Engin norðankæla, heimamenn sigldu lygnan sjó

Snæfell tók á móti Njarðvík í Stykkishólmi í Iceland Express deild karla og fyrir leikinn voru heimamenn í 8. Sæti en Njarðvík í 7. Sæti og bæði lið með 4 stig eftir fjóra leiki. Það fór svo að Snæfell keyrði leikinn fljótt upp og sköpuðu sér forystu 35-14 eftir fyrsta hluta sem þeir létu aldrei af hendi, höfðu greinilega lært af ÍR leiknum, þrátt fyrir að Njarðvíkingar kæmu með heiðalegar tilraunir til að minnka muninn sem varð 30 stig í fjórða hluta. Einfaldlega of mikið of seint og Snæfell sigraði örugglega 89-67 í leik sem varð aldrei spennandi að ráði.
 
Byrjunarliðin:
Snæfell: Jón Ólafur, Sveinn Arnar, Pálmi Freyr, Quincy Cole, Marquis Hall.
Njarðvík: Ólafur Helgi, Cameron Echols, Rúnar Ingi, Elvar Már, Travis Holmes.
 
Snæfellingar byrjuðu á að keyra leikinn strax upp og tóku hraðar sóknir sem skiluðu fljótt 10 stiga forskoti 15-5. Njarðvíkingar splæstu þá í svæðisvörn til að freista þess að stoppa gegnumhlaup Snæfells en fengu í staðinn stórskot á sig frá Nonna og Sveini Arnari. Grænir tóku leikhlé í stöðunni 23-11 en fengu samt hratt á sig næstu 9 stig, Snæfell voru búnir að skora 14-0 og staðan varð fljótt 32-11 fyrir Snæfell. Ekki það að Njarðvíkingar væru að fá sérstaklega slæm skot þau bara voru ekki að detta og varnarleikurinn var svollítið skrefi á eftir til að byrja með. Staðan þægileg, 35-14, fyrir Snæfell eftir fyrsta leikhluta.
 
Leikurinn varð jafnari þegar blásið var til annars hluta og liðin skiptust á að skora. Snæfellingar héldu um 20 stiga forystu framan af nokkuð áreynslulaust og virtist fyrsti hlutinn hafa tekið Njarðvík nokkuð útúr leiknum en það var fyrir fína varnarvinnu í svæðinu að Njarðvík vann annann hluta 16-22. Ekkert annað stórkostlega markvert fyrir utan eitt "veggspjald" hjá Quincy Cole í Snæfelli var í fyrri hálfleik, sem er farið að vera daglegur hlutur jafnvel út í búð á miðjum degi í Hólminum. Njarðvíkingar bættu eilítið við sig og minnkuðu muninn í 15 stig áður en flautan gall við í hálfleikinn, 51-36 eftir að hafa verið 24 stigum undir og sóknir þeirra runnu ögn betur.
 
Hjá Snæfelli var Quincy kominn með 15 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar. Pálmi Freyr 11 stig og Marquis Hall 10. Í liði Njarðvíkur var Tarvis Holmes atkvæðamestur með 11 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar. Næstir honum voru Rúnar Ingi og Cameron Echols með 6 stig hvor.
Snæfellingar komu mistækir til leiks í seinni hálfleik, voru á hælunum í vörninni, misstu boltann ítrekað í sókninni og gestirnir gengu á lagið og minnkuðu muninn í 10 stig 52-42 með góðri vörn og hröðum sóknum, ásamt því að fá að fara oft á vítalínuna. Þar á meðal vegna tæknivillu á Quincy Cole hjá Snæfelli og Jón Ólafur var komin í villuvandræði um miðjann þriðja hluta með fjórar villur. Snæfell krafsaði sig uppí 18 stig aftur með góðu áhlaupi 68-49 þar sem Sveinn Arnar setti niður stórar körfur og Quincy var drjúgur í teignum en í liði Njarðvíkur var Travis Holmes einkar sprækur og átti mestann þátt í áhlaupi síns liðs. 76-51 var staðan eftir þriðja hluta fyrir Snæfell og þeir aftur komnir í þægilega stöðu þrátt fyrir stríðni Njarðvíkinga í uppahafi hlutans.
 
Snæfellingar komust svo auðveldlega í 84-54 um miðjann hlutann og leikurinn fór að verða alls óspennandi hvað stigamuninn varðar og liðin fóru að rúlla á öllum mönnum eins og sagt er sem var jákvætt að sjá. Erfiður heimavöllur fyrir ungt og sprækt Njarðvíkurlið, en þaðan kemur gott fólk og þekki ég nokkra alveg prýðismenn. 89-67 endaði leikurinn fyrir heimamenn í Snæfelli.
 
Snæfell: Quincy Cole 19/10 frák/6 stoð. Jón Ólafur Jónsson 15/6 frák. Pálmi Freyr Sigurgeirsson 14/4 frák/3 stoð. Sveinn Arnar Davíðsson 12/4 stoð. Marquis Hall 12/3 frák/4 stoð. Ólafur Torfason 9/6 frák/3 stoðs. Hafþór Gunnarsson 4. Egill Egilsson 2. Snjólfur Björnsson 2/3 frák. Guðni, Daníel og Magnús spiluðu en náðu ekki að skora.
 
Njarðvík: Travis Holmes 17/3 frák/3 stoðs. Cameron Echols 10/5 frák. Rúnar Erlingsson 9/3 frák. Maciej Baginski 8. Hjörtur Einarsson 7. Elvar Friðriksson 6/5 stoðs. Ólafur Jónsson 5. Óli Alexandersson og Jens Óskarsson 2 stig hvor. Oddur Pétursson 1. Sigurður Dagur og Styrmir Gauti skoruðu ekki.
 
 
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín.

03.11.2011 16:14

Víkingar aftur af stað eftir sumarfrí

1. nóvember 2011 
Æfingar meistaraflokks karla hefjast fimmtudaginn 3.nóvember kl:19:00. Leikmenn hafa fengið tæplega tveggja mánaða hlé og kominn tími til að teygja úr sér og taka á því.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Einar moka sparkvöllinn fyrir æfingu fyrr á þessu ári. Vonandi kemur ekki til þess að strákarnir þurfi að moka snjó í kvöld.  
Víkingur Ólafsvík

03.11.2011 16:11

Alfreð og Kristinn á landsliðsæfingum

Alfreð Már og Kristinn Magnús boðaðir á æfingu

01. nóvember 2011

Alfreð Már Hjaltalín og Kristinn Magnús Pétursson voru boðaðir á úrtaksæfingar hjá yngri landsliðum Íslands. Alfreð sem er fæddur árið 1994 mun æfa með U-19 ára hópnum og Kristinn sem fæddur er árið 1996 mun æfa með U-17.

Æfingarnar munu fara fram höfuðborgarsvæðinu, annars vegar í Kórnum Kópavogi og hins vegar í Egilshöll, Grafarvogi. Kristinn Rúnar Jónsson hefur umsjón og stjórnar æfingum U-19 ára liðsins á meðan Gunnar Guðmundsson stjórnar U-17.

Víkingur Ólafsvík

03.11.2011 08:15

Blakmót 16. okt.

Sunnudaginn 16 október var farið á blakmót í Mosfellsbæ.  Umfg fór með 4 lið í 6 - 3 flokk.  Krakkarnir kepptu í nýjum búningum sem Ungmennafélagið var að kaupa með styrk frá Landsbankanum. Grundfirðingum gekk ágætlega en ekki voru mörg lið mætt til leiks en var þetta bara góð æfing og skemmtun fyrir krakkana og ekki síður fyrir foreldra sem voru á staðnum.


 
Ekki verður farið á Íslandmót í blaki fyrir 5 - 4 fl. sem haldið verður á Neskaupstað 11 -13 nóvember þar sem ekki var nógu mikil skráning og langt að fara en seinni hluti verður í Kópavogi í vor og þá verður stefnan tekin þangað með alla flokka.


 
Einnig viljum við minna á skráningu á Íslandsmótið sem fram fer í Mosfellsbæ fyrir 3  og 2 fl. sem haldið er dagana 25 -27 nóvember.
 
Kveðja
Blakráð

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 689
Gestir í dag: 51
Flettingar í gær: 471
Gestir í gær: 114
Samtals flettingar: 3290315
Samtals gestir: 253478
Tölur uppfærðar: 16.1.2018 17:28:50
Flettingar í dag: 689
Gestir í dag: 51
Flettingar í gær: 471
Gestir í gær: 114
Samtals flettingar: 3290315
Samtals gestir: 253478
Tölur uppfærðar: 16.1.2018 17:28:50