Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Færslur: 2011 Júlí

17.07.2011 18:27

Nýr leikmaður hjá Snæfell


Quincy Hankins Cole sem er Bandaríkjamaður hefur samið við Snæfell að spila með liðinu í Iceland express deildinni 2011/2012. Quincy er 203 cm á hæð og fæddur 1990. Tímbilið 2009-10 spilaði hann með University of Nebraska en á síðasta tímabili var hann í liði Pikeville College í Mid South deildinni, NAIA D1. Hann var þar með 12.9 stig að meðaltali og 8 fráköst. Quincy Hankins Cole þykir sterkur á mörgum sviðum körfuboltans sóknarlega sem og varnarlega og getur hafið sig til flugs þegar slík tækifæri gefast. Það verður gaman að sjá hann styrkja lið Snæfells í vetur

17.07.2011 18:25

Sigur hjá UMFG á Birninum

Við gerðum góða ferð í Grafarvoginn á laugardaginn. Þar mættum við liði Bjarnarins sem er undirklúbbur hjá Fjölni. Við höfðum unnið heimaleikinn í sumar og nú var komið að okkur að mæta á gervigrasið við Egilshöllina. Leikurinn var reyndar ekki mikið fyrir augað en gríðarleg barátta einkenndi leikinn. Það var svo á 28 mínútu að Steinar Már Ragnarsson nær að vinna boltann af einum varnarmanni Bjarnarins og geysist í átt að markinu. Varnarmaðurinn sér þann kost vænstan að toga Steinar niður og dómarinn dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu. Hárréttur dómur. Heimir Þór steig upp og var kannski einum of svalur þegar hann ákvað að vippa boltanum í mitt markið. Sem betur fer fyrir okkur þá ákvað markvörður Bjarnarins að taka sénsinn og skutla sér, Þeir sem horfðu á þessa vítaspyrnu fengu hjartastopp í eina sekúndu þangað til að boltinn lá í netinu og staðan orðin 1-0 okkur í vil. Þannig var staðan alveg þangað til að dómarinn flautaði til leiksloka og þrjú stig í hús hjá okkur. Gríðarlega mikilvægt því að nú sitjum við á toppi C-riðils með 22 stig, einu meira en Álftanes sem á þó leik til góða gegn Kára á mánudaginn. Við njótum þess að vera á toppnum á meðan það stendur yfir.


Heimir skoraði eina markið úr víti.

Skrifað 17.7.2011 kl. 0:21 af Tommi

14.07.2011 09:48

Margeir og Auður Klúbbmeistarar Mostrar

GMS
Margeir Ingi Rúnarsson og Auður Kjartansdóttir klúbbmeistarar Mostra

Meistaramóti Mostra lauk laugardaginn 9.júlí

Úrslit 1.fl karla 1 Margeir Ingi Rúnarsson 311 2 Helgi Reynir Guðmundsson 313 3 Kristinn Þór Ellertsson 335 4 Bergþór Smárason 341 5 Sigursveinn P Hjaltalín 343 6 Rúnar Örn Jónsson 350 7 Davíð Einar Hafsteinsson 360 8 Gunnar Björn Guðmundsson 365 9 Högni Friðrik Högnason 379 10 Ásgeir Héðinn Guðmundsson 385

1.fl kvenna 1 Auður Kjartansdóttir 365 2 Helga Björg Marteinsdóttir 389 3 Hildur Björg Kjartansdóttir 400 4 Hildur Sigurðardóttir 423

Unglingar 1 Hjalti Sigurðsson 397 2 Hafsteinn Helgi Davíðsson 478

Öldungafl karla 1 Björgvin Ragnarsson 352 2 Egill Egilsson 353 3 Rúnar Gíslason 358 4 Eyþór Benediktsson 385 5 Kjartan Páll Einarsson 409 6 Guðmundur Teitsson 445 7 Davíð Sveinsson 460

Öldungafl kvenna 1 Katrín Pálsdóttir 420 2 Erla Gísladóttir 434 3 Hulda Mjöll Hallfreðsdóttir 442 4 Dagný Þórisdóttir 449 5 Unnur Hildur Valdimarsdóttir 457

2.fl karla 1 Ólafur Þorvaldsson 368 2 Sveinn A Davíðsson 382 3 Nökkvi Freyr Smárason 392 4 Finnur Sigurðsson 404 5 Björn Arnar Rafnsson 417 6 Stefán Bergmann Heiðarsson 460

3.fl karla 1 Vignir Þór Ásgeirsson 390 2 Sigurður Ingi Viðarsson 419 3 Haukur Garðarsson 425 4 Einar Marteinn Bergþórsson 429 5 Jón Þór Eyþórsson 450 6 Benedikt Óskarsson 548

Unglingar  höggleikur með forgjöf

1. Nökkvi Freyr Smárason   320

2. Hjalti Sigurðsson    333

3. Hafsteinn Helgi Davíðsson   362

Sjá nánar á golf.is

12.07.2011 13:55

Dúfnaveislan 2011

Dúfnaveislan 2011

 

Dúfnaveislan hófst á 16 skotvöllum víða um land föstudaginn 1. júlí og stendur til 31. ágúst. Dúfnaveislan er samstarfsverkefni Umhverfisstofnunar (UST), Skotveiðifélags Íslands (SKOTVÍS), ýmissa félaga sem reka skotvelli auk styrktaraðila. Tilgangur dúfnaveislunnar er að hvetja veiðimenn um land

allt til að kynna sér þá aðstöðu sem skotvellirnir hafa uppá að bjóða

og stunda reglulegar skotæfingar áður en veiðitímabilið hefst og

undirbúa sig eins og best verður á kosið.

 

Reikna má með að um hátt í 10 þúsund veiðikortahafar muni ganga til

veiða á næstu mánuðum, en sannir veiðimenn temja sér ákveðnar

siðareglur í umgengni sinni við náttúruna og umhverfi sitt og ein af

þeim siðareglum er ástundun skotæfinga. Veiðimaður sem vill hitta

bráð sína þarf að vera einbeittur, í formi, fær um að meta fjarlægðir og meðvitaður um eiginleika vopna sinna og skotfæra og því eru veiðimenn hvattir til að nýta sér þennan viðburð til að kynnast því sem félög víða um land hafa uppá að bjóða.

Hægt er að kynna sér verkefnið frekar á eftirfarandi vefslóðum:
http://www.ust.is/einstaklingar/frettir/frett/2011/06/30/Dufnaveislan/
http://skotvis.is/index.php?

Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Skotfélagsins Skotgrundar www.123.is/skotgrund og á facebook síðu félagsins.  Þar má t.d. finna upplýsingar um opnunartíma sem og aðrar gagnlegar upplýsingar.  Neðst til vinstri á heimasíðu Skotfélagsins Skotgrundar er síðan tengill inn á auglýsingu Dúfnaveislunnar 2011.

10.07.2011 22:39

Baráttuleikur hjá UMFG og Berserkjum

3. deild: Þrjú rauð á Berserki
Andri Tómas Gunnarsson fékk að líta rauða spjaldið ásamt tveim öðrum Berserkjum
Mynd: Gunnlaugur Júlíusson
`
  Í C-riðli unnu Grundfirðingar 3-2 sigur á Berserkjum

C-riðill

Grundarfjörður 3 - 2 Berserkir
0-1 Gunnar Steinn Ásgeirsson (18')
0-2 Jón Steinar Ágústsson (43')
1-2 Aron Baldursson (60')
2-2 Aron Baldursson (78')
3-2 Aron Baldursson (90')
Rauð spjöld
Róbert Óli Skúlason 57' Berserkir, Einar Guðnason 63' Berserkir Andri Tómas Gunnarsson 67' Berserkir

Seinasti leikur áttundu umferðar fór fram í C-riðli þegar Grundfirðingar tóku ´móti Berserkjum en liðin eru bæði í hörkubaráttu um sæti í úrslitakeppninni. Berserkir höfðu tögl og haldir í fyrri hálfleik og skoruðu tvö mörk gegn engu. Þá vildu þeir fá rautt spjald á Hermann Geir Þórsson þegar hann braut á sóknarmanni Berserkja sem var að sleppa í gegn en dómarinn dæmdi hins vegar ekkert.

Berserkir vildu aftur fá rautt spjald á Grundfirðing í byrjun seinni hálfleiks en var refsað af dómara leiksins og misstu mann útaf og voru mjög óánægðir með það. Grundfirðingar náðu að minnka muninn áður en tveir aðrir Berserkir fengu að fjúka af velli. Þeir vildu meina að það hafi verið klárlega rangur dómur.

Þremur færri áttu Berserkir undir högg að sækja og náðu Grundfirðingar að nýta sér það í nyt og náðu að skora tvö mörk, það seinna í uppbótartíma og náðu að innbyrgja gríðarlega mikilvægan sigur.

Frétt fr� Fótbolta.net. Sj alla fr�ttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=111121#ixzz1RkDgGbHA

10.07.2011 22:32

Góður dagur hjá Víking

Það var blíðskapar veður í Ólafsvík þegar heimamenn í Víking tóku á móti BÍ/Bolungarvík í bráðskemmtilegum leik á Ólafsvíkurvelli. Heimamenn vígðu nýja búninga á meðan gestirnir spiluðu í gömlu varabúningum heimaliðsins þar sem þeim láðist að taka rétt búningasett frá Vestfjörðum.

 


(Myndir: Alma Rún Kristmannsdóttir)

Leikurinn fór fjörlega af stað og ljóst að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt og á fyrstu mínútum leiksins áttu bæði lið ágætis sóknarlotur en án þess þó að skapa sér hættuleg færi. Á 12 mínútu leiksins leit fyrsta markið dagsins ljós en þar var að verki aukaspyrnusérfræðingur Vestfirðinganna Nicholas Deverdicks. Emir Dokara Víkinga lenti þá í vandræðum eftir langa sendingu inn fyrir vörn heimamanna. Emir reyndi þá að taka boltann niður með þeim afleiðingum að hann missti knöttinn frá sér og Tomasz Luba reddaði honum fyrir horn með því að brjóta á sóknarmanni BÍ/Bolungarvíkur. Deverdicks stillti boltanum upp og hélt uppteknum hætti og skoraði framhjá Einari líkt og hann gerði tvívegis í bikarleiknum síðastliðinn sunnudag gegn Þrótturum.  

 

Heimamenn lögðu ekki árar í bát heldur lögðu aukinn kraft í sóknarleikinn og 6 mínútum eftir markið átti Edin Beslija hörkuskot eftir að hann komst einn inn fyrir. Þórður Ingason sá hins vegar við honum og varði í horn. Brynjar Kristmundsson átti svo skot eftir aukaspyrnu  sem fór rétt yfir áður en heimamenn fengu vítaspyrnu á markamínútunni margumtöluðu, þeirri 43. Á punktinn steig Artjoms Goncars vítaskytta þeirra bláklæddu og setti knöttinn örugglega framhjá Þórði sem fór í vitlaust horn. Nokkrum mínútum síðar flautaði Þorvaldur Árnason dómari leiksins til loka fyrrihálfleiks og staðan 1-1. (Mynd: Alma Rún Kristmannsdóttir)

Víkingar komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og strax á upphafsmínútu fyrri hálfleiks fengu þeir fínasta færi en gestirnir vörðust vel. Þegar tvær mínútur voru liðnar af seinni hálfleik fengu heimamenn svo aðra vítaspyrnu. Þá var brotið á Guðmundi Stein Hafsteinssyni inn í teig og Þorvaldur benti rakleiðis á punktinn. Artjoms steig aftur á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Víkingar létu kné fylgja kviði og fjórum mínútum síðar skoraði svo Guðmundur sjálfur eftir sendingu frá Edin Beslija sem var einkar sprækur í kvöld. Í aðdraganda marksins missti Atli Guðjónsson boltann til Edins sem sendi á Guðmund sem gerði engin mistök og þrumaði boltanum í netið.

 

Strax í kjölfarið á marki Guðmundar komst Ameobi  einn inn fyrir vörn Víkinga eftir mistök í vörn heimamanna. Einar Hjörleifsson í marki Víkings sá hins vegar við honum og varði vel. Þremur mínútum síðar átti Colin Marshall sendingu fyrir markið fór óvænt yfir Einari í markinu og í þverslánna á marki Víkings.  Skömmu síðar fékk Artjoms gullið tækifæri til að kóróna þrennuna en skot hans fór yfir markið úr upplögðu færi.

 

Á 74. mínútu leiksins gulltryggðu Víkingar sigurinn með frábæru marki. Þar var að verki Eldar Masic eftir þríhyrningaspil við Þorstein Má inn í teig gestanna. Eldar lagði svo boltann snyrtilega í hornið fjær af stuttu færi.  Eftir markið sóttu gestirnir svo í sig veðrið og reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn en þó án árangurs. Það fór því svo að heimamenn fóru með 4-1 sannfærandi sigur á BÍ/Bolungarvík sem eru eins og flestir vita komnir í undanúrslit Valitor-bikarsins.


Víkingar voru sprækari lungað úr leiknum og áttu auðvelt með að verjast sóknarlotum gestanna sem lágu aftarlega og freistuðu þess að spila löngum boltum upp á Ameobi sem var einn og yfirgefinn í sókninni. Víkingar voru á hinn bóginn ákveðnari í sínum sóknarlotum og nálguðust leikinn af meiri festu sem í lok dags skilar þeim þremur stigum. Heimamenn skríða upp töfluna og eru að loknum 10 umferðum í fjórða sæti með 15 stig, jafnmörg og Fjölnir sem er með lakara markahlutfall. 

Víkingur Ólafsvík

09.07.2011 07:31

Unglingalandsmót UMFÍ 2011


Næsta verður haldið á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina 2011. Ungmenna og íþróttasamband Austurlands er mótshaldari og stefnt er að því að halda glæsilegt mót við góðar aðstæður.

 Unglingalandsmótin eru vímuefnalaus íþrótta- og fjölskylduhátíð og frábær kostur fyrir alla þá sem velja heilbrigt og vímuefnalaust umhverfi samhliða því að taka þátt í fjölbreyttri íþróttakeppni.

Allir á aldrinum 11 - 18 ára geta tekið þátt í íþróttakeppni á Unglingalandsmótinu. Keppendur greiða eitt mótsgjald, kr. 6.000.- og fá með því þátttökurétt í öllum keppnisgreinum.

Glæsileg íþróttamannvirki eru til staðar á Egilsstöðum en Landsmót UMFÍ var haldið þar árið 2001 og töluverð uppbygging varð í kringum það mót.   Íþróttaleikvangurinn er vel staðsettur í hjarta bæjarins.  Sundlaug og íþróttahús er þar rétt við hliðina og  öll önnur íþróttamannvirki í næsta nágrenni.

 Tjaldstæði keppenda verður afskaplega vel staðsett og í göngufæri við keppnissvæðin.

 Samhliða íþróttakeppninni verður fjölbreytt skemmtidagskrá í boði fyrir alla fjölskylduna á daginn. Þar má nefna að skemmtidagskrá verður í Tjarnargarðinum alla daga.  Sprelligosa- og Fjörkálfaklúbbar, leiktæki fyrir born og unglinga og  gönguferðir með leiðsögn alla daga fyrir þá sem eldri eru. Þá verða fjölbreyttar kvöldvökur og síðan flugeldasýning á sunnudagskvöldið eins og venja er.

08.07.2011 00:05

Fyrirmyndarleikmaðurinn

Í dag var blaðamannafundur í höfuðstöðvum KSÍ þar sem kynnt var til sögunnar herferð gegn munntóbaksnotkun.  Nefnist hún "Fyrirmyndarleikmaðurinn" og þar taka sig saman aðilar til að sporna gegn munntóbaksnotkun ungs fólks.

Á fundinum kynnti Viðar Jensson, verkefnisstjóri tóbaksvarna hjá Landslæknisembættinu, niðurstöður glænýrrar skýrslu þar sem kemur í ljós að notkun á munntóbaki verður æ meiri á meðal ungra drengja og jafnvel stúlkna.  Þessari herferð er ætlað að sporna gegn þessari þróun með jákvæðum fyrirmyndum.  Hér að neðan má sjá fréttatilkynningu frá þessu átaki:

Fyrimyndarleikmaðurinn

Herferð gegn munntóbaksnotkun.

Fyrirmyndarleikmaðurinn er átaksverkefni gegn munntóbaksnotkun knattspyrnumanna og ungs fólks, á vegum embættis Landlæknis, KSÍ, ÍSÍ,UMFÍ og ÁTVR. Einnig er herferðinni beint gegn notkun tóbaks á íþróttasvæðum. Forustumenn íþróttafélaganna eru hvattir til að fylgja eftir ályktun Íþrótta og sérsambanda, að útrýma allri notkun tóbaks úr öllu íþróttastarfi. Átakið mun standa frá júní til loka september, eða yfir keppnistímabil knattspyrnumanna. Ástæða þess að átakinu er beint að knattspyrnumönnum er að þar hefur munntóbaksnotkun breiðst afar hratt út á síðustu misserum. Samkvæmt könnun meðal knattspyrnumanna, kemur fram að allt að 30% leikmanna hafi notað eða séu að nota munntóbak. Vitað er að helsta ástæða þess að ungt fólk byrjar munntóbaksnotkun er hópþrýstingur eða fyrir tilstuðlan  fyrirmynda.  Átakið fer fram með þeim hætti að valinn verður einn leikmaður frá hverju liði í efstu deild og fær hann titilinn fyrirmyndarleikmaður. Sá leikmaður er ekki að neyta tóbaks. Hlutverk leikmannsins er að vera fyrirmynd yngri iðkenda og ungs fólks auk þess að prýða veggspjöld í auglýsingaherferð átaksins sem og aðrar auglýsingar. 

Hvert einstakt lið í efstu deild fær heimsókn á heimaleik, þar sem ungir krakkar í búningum félagsins afhenda fyrirmyndarleikmanninum veggspjald sem hann áritar og staðfestir með undirskrift sinni að hann sinni fyrirmyndarhlutverki sínu af kostgæfni. Við sama tækifæri kynnir félagið stefnu sína í forvarnarmálum.

 Átakið verður kynnt rækilega með auglýsingum og umfjöllun fjölmiðla. Markmið átaksins er að koma þeim skilaboðum áleiðs að íþróttir og munntóbak eiga enga samleið. Og þó að átakið beinist sérstaklega að knattspyrnumönnum, þá er það aðeins upphafspunkturinn og markmiðið er að halda áfram á næstu árum að vekja íþróttamenn í öllum keppnisgreinum sem og ungt fólk til umhugsunar um  þær slæmu hliðar sem neysla munntóbaks hefur í för með sér.  

08.07.2011 00:02

Söguferð í Jónsnes 9. júlí kl. 14:00

Ferðafélag Snæfellsnes með göngu á laugardag 9 júlí kl. 14.00


Staðsetning: Jónsnes er á Þórsnesi á norðanverðu Snæfellssnesi.

Milli Ögurs og Hofstaða liggur Jónsnes, en þar komu öndvegissúlur Þórólfs Mostraskeggs á land. Þáttakendur komi á eigin farartækjum að býlinu Hofsstöðum, en frá íbúðarhúsinu verður lagt af stað í gönguferðina kl. 14:00.      Þetta verður um fjögurra tíma létt gönguferð og á leiðinni verður fræðst um áhugaverða staði og sagt frá gömlum tíma. Það er sérstaklega mælt með þessari ferð sem er tilvalin fyrir fjölskyldufólk.

Fararstjóri verður: Gunnlaugur Árnason og sími hans er: 438 1000 og 894 4664. Verð: 500. kr.

08.07.2011 00:01

Skógarganga UMFÍ í Þrastarskógi

50 manns tóku þátt í skógargöngu í Þrastaskógi

thrastaskogur_2011Fyrsta skógargangan af fjórum í þessum mánuði  í Þrastaskógi var gengin í gærkvöldi. Mjög góð þátttaka var í göngunni en nær 50 manns gengu um skóginn undir leiðsagnar Björns B. Jónssonar og Einars Kr. Jónssonar.

 

Í ár eru 100 ár síðan að ungmennafélagar eignuðust Þrastaskóg í Grímsnesi.  Af því tilefni bíður Ungmennafélag Íslands í skógargöngur öll þriðjudagskvöld í júlí. Allar skógargöngurnar taka u.þ.b. klukkutíma og hefjast klukkan 20:00 við veitingarhúsið Þrastalund.

 


,,Við vorum sérlega ánægðir með þátttöku í fyrstu göngunni. Reyndar var hún mun betri en við áttum von á. Fólk í göngunni koma víðar að, nágrannabyggðum, sumarhúsum og af Reykjavíkursvæðinu. Við erum að vona að þátttakan verði ekki síðri í göngunum þremur sem fram undan eru í júlí. Fyrr í vikunni fór hópur ungmenna um skóginn og þreif göngustíga þannig að skógurinn lítur mjög vel út," sagði Björn B. Jónsson formaður afmælisnefndar Þrastaskógar.

 

Göngurnar sem fram undan eru í júlí eru eftirfarandi: 


Þriðjudaginn 12. júlí. Lífið í skóginum. 
Leiðsögn: Bjarni Diðrik Sigurðsson skógfræðingur 
 
Þriðjudaginn 19. júlí. Fuglar í skógi.
Leiðsögn: Örn  Óskarsson líffræðingur
 
Þriðjudaginn 26. júlí. Skógar og skógrækt. 
Leiðsögn: Hreinn Óskarsson skógfræðingur

07.07.2011 23:56

UMFG tekur á móti Berserkjum á laugardag

Íslandsmót KSÍ 3.deild C riðill

Laugardagurinn 9. júlí 2011 kl 14:00

Grundarfjarðarvöllur

Grundarfjörður - Berserkir

Grundarfjörður situr í öðru sæti með 16 stig
Berserkir sitja í þriðja sæti með 15 stig

Það er gríðarlega mikið í húfi.

6 stiga leikur.

Síðast unnu Grundfirðingar góðan 2-0 sigur á Víkingsvelli
Hvað gerist nú???

Ekki láta þig vanta á Grundarfjarðarvöll. Hvetjum strákana til sigurs.

ÁFRAM GRUNDARFJÖRÐUR

07.07.2011 23:54

Gott gengi hjá Vestarr fólki á 35+

Íslandsmót 35+

Það voru tólf keppendur frá Vestarr sem tóku þátt í 35+ sem haldið var á Kiðjabergi og í Öndverðarnesi. Hjá körlum tóku tveir þátt í öðrum flokki, tveir í þriðja flokki og þrír í fjórða flokki. Hjá konum tók ein þátt í öðrum flokki, ein í þriðja flokki og tvær í fjórða flokki. Við komum sigursæl heim þar sem Jón Kristbjörn Jónsson varð í öðru sæti í öðrum flokki, Ágúst Jónsson vann fjórða flokkinn, Jón Björgvin Sigurðsson lenti í þriðja sæti í fjórða flokki og Anna María Reynisdóttir lenti í öðru sæti í þriðja flokki. Við óskum þessum keppendum innilega til hamingju með frábæran árangur sem og öðrum keppendum sem settu svip sinn á mótið. Það voru níu keppendur ásamt þremur stuðningmönnum sem gistu að Minniborgum og þar fór svo vel um keppendur að ekki var annað hægt en að landa öllum þessum sigrum. Nánari úrslit úr mótinu má sjá inn á golf.is 
Fleiri myndir inni í albúmi undir mót 2011. Sjá hér

05.07.2011 17:16

Ragnar Mar þjálfar hjá UMFG

Nýr Þjálfari

Ragnar Mar Sigrúnarson leikmaður Víkings Ólafsvíkur hefur tekið að sér þjálfun á Meistaraflokki Grundarfjarðar. Ragnar Mar hefur mikla reynslu sem leikmaður og á að baki yfir 170 leiki með Víking Ólafsvík. 

Við óskum Ragnar velfarnaðar í starfi og bjóðum hann hjartanlega velkominn.

03.07.2011 11:45

Keflavík íþrótta og ungmennafélag stendur fyrir gönguferð á Keili


keilirKeflavík íþrótta- og ungmennafélag ætlar að bjóða félgsmönnum sínum og öllum áhugasömum í gönguferð á Keili mánudaginn 4. júlí. Tilefnið er að fara með póstkassa með gestabók upp á topp á fjallinu og fær göngufólk tækifæri til að skrifa nöfnin sín í hana.

 

Gestabókin er ein af rúmlega 20 sem settar eru á fjöll víðsvegar um landið í tengslum við verkefni UMFÍ  Fjölskyldan á fjallið. Gönguferðin verður undir leiðsögn Rannveigar Garðarsdóttur.


Mæting mánudaginn 4. júlí kl 19:00 við gatnamótin Reykjanesbraut - Vatnsleysuströnd - Keilir, ekið verður í samfloti á eigin bílum að Höskuldarvöllum þaðan er gengið á  fjallið sem er 378 metra hátt, ferðin tekur u.þ.b. 3 klst.


Nánari upplýsingar gefur Rannveig Garðarsdóttir leiðsögumaður,  nanny723@gmail.com, sími 893 8900.

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 2007
Gestir í dag: 45
Flettingar í gær: 847
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 3292480
Samtals gestir: 253527
Tölur uppfærðar: 17.1.2018 10:42:24
Flettingar í dag: 2007
Gestir í dag: 45
Flettingar í gær: 847
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 3292480
Samtals gestir: 253527
Tölur uppfærðar: 17.1.2018 10:42:24