top of page

Fréttir

Föstudaginn 6. október s.l. hélt HSH í samstarfi við Frjálsíþróttasamband Íslands dómaranámskeið í frjálsum íþróttum í húsnæði Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Sigurður Haraldsson sá um kennslu þar sem hann fór yfir almenn atriði varðandi dómgæslu, hlaupagreinar og vallargreinar þ.e. stökk og köst. Það voru fimm þátttakendur sem sátu námskeiðið, þrír frá HSH og tveir frá UDN. Í lok námskeiðs var lagt fyrir próf til þess að fá réttindi héraðsdómara. Námskeiðið tókst vel og HSH á loksins löglega héraðsdómara. Námskeiðið var styrkt af fræðslu- og verkefnasjóði UMFÍ.






Unglingalandsmót UMFÍ hafa farið fram reglulega frá árinu 1992 og árlega frá árinu 2002. Mótið er glæsileg fjölskyldu- og íþróttahátíð þar sem börn og ungmenni koma saman ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá. Á hérðasþingi HSH 2018 var samþykkt að reyna að auka þátttöku ungmenna frá Snæfellsnesi á Unglinglandsmóti UMFÍ 2018. Stofnuð var undirbúningsnefnd sem vann að því að reyna að finna leiðir til að auka þátttöku af svæðinu. Undirbúningsvinnan gekk vel og HSH átti 43 keppendur á Unglingalandsmótinu sem fram fór í Þorlákshöfn 2. – 5. ágúst s.l. HSH átti því flottan hóp sem tók þátt í skrúðgöngunni og var héraðssambandinu til sóma. Fulltrúar okkar voru skráðir til keppnis í hinum ýmsu greinum; körfubolta, fótbolta, skák, stafsetningu, upplestri, kökuskreytingum, frisbígolfi, frjálsum íþróttum, glímu, sandkastalagerð, dorgveiði og strandblaki. Það var góð stemning meðal keppenda og stóðu allir sig mjög vel.

Við áttum keppendur í fimm fótboltaliðum, ýmist skipuð eingöngu þáttakendum frá HSH eða í blönduðu liði þar sem raðað var saman í lið óháð því hvar þau búa, ef það vantaði í liðin. Öllum liðunum gekk vel og náðu fínum árangri. HSH átti skráð þrjú lið í kökuskreytingakeppni og stóðu þátttakendurnir með prýði og áttu glæsilegar kökur. Hér er yfirlit yfir verðalaunahafa HSH á unglingalandsmótinu. Í körfuboltanum vorum við með fulltrúa í sjö liðum og áttum við meðal annars nokkra sigurvegara. Eiríkur Frímann var í 1. sæti 11 – 12 ára drengja í blönduðu liði, Gestur Baldursson lenti í 3. sæti með sínu liði 13 – 14 ára drengja sem var blandað. Ragnheiður Arnarsdóttir var í 3. sæti í blönduðu liði 15 – 16 ára stúlkna, lið HSH 15 – 16 ára drengja lenti í 3. sæti. Ísak Baldursson var í blönduðu liði 15 – 16 ára drengja og lentu í 1. sæti og svo síðast en ekki síst þá lenti lið HSH í 1. sæti 17 – 18 ára drengja.

Í frjálsum íþróttum vann Margrét Helga Guðmundsdóttir til verðlauna. Hún lenti í 2. sæti í 100 m hlaupi 14 ára stúlkna og var einnig unglingamótsmeistari í langstökki 14 ára stúlkna. Jökull Gíslason fékk bronsverðlaun í glímu og Kristófer Máni Atlason vann einnig bronsverðlaun í frisbígolfi í sínum aldursflokki. Helga Sóley Ásgeirsdóttir vann gullverðlaun í upplestri og Hulda Salome Gunnarsdóttir varð í þriðja sæti einnig í upplestri. Þær unnu líka til verðlauna í stafsetningu þar sem Hulda Salome varð í öðru sæti og Helga Sóley í þriðja. HSH átti einnig verðlaunahafa í skák þar sem Matthías Daði Gunnarsson fékk gullverðlaun og Allan Purisevic silfurverðlaun.

Við erum heppin hvað við eigum mikið af efnilegum og flottum krökkum og voru þau öll HSH til sóma. Sjáumst vonandi sem flest á Unglingalandsmóti á Hornafirði 2019 ! Áfram HSH !

Laufey Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri HSH

bottom of page