Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Flokkur: Almennar fréttir

09.06.2014 12:37

Opinn fyrirlestur í íþróttasálfræði

Miðvikudaginn 11. júní kl.12:00-13:30 mun Dr. Robert S. Weinberg prófessor í íþróttasálfræði flytja fyrirlestur í Lögbergi stofu 101 í Háskóla Íslands.

 

Fyrirlesturinn ber heitið Hvað er andlegur styrkur og hvernig er hægt að auka hann? (Mental Toughness: What is it and how can it be built?).

Weinberg er einn virtasti vísindamaður heims á sviði íþróttasálfræði og eftirsóttur fyrirlesari á alþjóða-vettvangi. Hann hefur unnið með fjölda íþróttafólks í fremstu röð, m.a. fyrir bandaríska Ólympíusambandið.

 

Þeir sem þjálfa íþróttafólk, sinna stjórnunarstörfum sem miða að bættum árangri, íþróttafólk og sálfræðingar eru sérstaklega hvattir til að mæta.

 

Fyrirlesturinn er opinn öllum á meðan húsrúm leyfir.

02.06.2014 10:33

Þjálfaramenntun í sumar

Sumarfjarnám í þjálfaramenntun 1. 2. og 3. stigs


ÍSÍ býður upp á sumarfjarnám á öllum þremur stigum þjálfaramenntunar ÍSÍ og hefst nám allra stiga 23. júní næstkomandi.  Skráning er á namskeid@isi.is og þarf henni að vera lokið fyrir föstudaginn 20. júní næstkomandi.  Námið er almennur hluti í þekkingu íþróttaþjálfara og gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar.  Sérgreinaþátt námsins taka þjálfarar hjá viðkomandi sérsamböndum.

Námið gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar og er allt í fjarnámi, engar staðbundnar lotur.  Þátttökugjald er kr. 25.000.- á 1. stig og eru þá öll námskeiðsgögn innifalin í gjaldinu og send á heimilisföng þátttakenda.  Inntökuskilyrði á 1. stig er grunnskólapróf og 16 ára aldur.  

Þátttökugjöld á 2. og 3. stig er kr. 18.000.- á hvort stig.  Inntökuskilyrði á 2. stig er 18 ára aldur, 6 mánaða starfsreynsla við þjálfun og gilt skyndihjálparnámskeið.  Inntökuskilyrði á 3. stig er 20 ára aldur, 12 mánaða starfsreynsla við þjálfun og gilt skyndihjálparnámskeið.

Þjálfaramenntun ÍSÍ hefur verið afar vinsæl undanfarin ár enda hefur verið aukinn þrýstingur í samfélaginu um fagleg og vönduð vinnubrögð og jafnframt réttindi við íþróttaþjálfun.  Það samræmist vel stefnu íþróttahreyfingarinnar.

Allar frekari upplýsingar um þjálfaramenntun ÍSÍ gefur Viðar Sigurjónsson Skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri í síma 460-1467 & 863-1399 og/eða á vidar@isi.is

17.05.2014 23:21

Míluspretturinn

MÍLUSPRETTURINN

MilukarlinnBörnum á aldrinum 8 - 16 ára gefst kostur að taka þátt í Mílusprettinum og það er ókeypis að vera með. Skipuleggjendur hafa mælt út þessa hjólaþraut og lítur hún út ofan frá eins og karl með ýktan hökutopp. Brautin er ein míla að lengd (1,6 km.). Það er okkur mikið gleðiefni að heimamenn og Héraðssamband Snæfells- og Hnappadalssýslu (HSH) vilja veg Mílusprettsins sem mestan og taka virkan þátt í skipulagningu og framkvæmd viðburðarins. Okkur grunar að mörg börn eigi eftir að kynnast Mílukarlinum og muna eftir honum um ókomin ár. 

 

Ræsing í Grundarfirði, 14. júní 2014

 • Hópræsing frá íþróttahúsinu kl. 13:00 fyrir börn á fjalla- og götuhjólum

 

Verðlaun

 • Þátttökupeningur
 • PYLSUPARTÝ í boði Jökulmílunnar

 

Skráning í Mílusprett

 

Mílusprettur sem path skrá (.kmz) fyrir Google Earth GoogleEarth_Icon

 

Efst í skalla á Mílukarli
Í Grundarfirði

17.05.2014 23:20

Jökulmílan, hjólreiðakeppni

JÖKULMÍLAN

Aldarskeið - Century Ride

Grundarfjordur smallJökulmílan er einn af lengstu hjólreiðaviðburðum sem eru skipulagður árlega á Íslandi.  Hringurinn meðfram strandlengju Snæfellsness, vestur fyrir Jökul og til baka um Vatnaleið er 160,9 km langur, eða nákvæmlega 100 mílur. Jökulmílan er því "Aldarskeið" eða á ensku "Century Ride" sem er vinsæl tegund hjólreiðaviðburða víða um heim.  Eins og tíðkast með slíka viðburði, viljum við skipuleggjendur Jökulmílunna höfða til breiðs hóps hjólreiðamanna.  Við skorum á þig að reyna Jökulmíluna á þínum eigin forsendum óháð því hvað aðrir kynnu að hjóla hana hægt eða hratt.

Jökulmílan hefst og endar í Grundarfirði og er hringurinn um hið fagra Snæfellsnes hjólaður rangsælis. Fyrir þá sem vilja í fyrstu prófa styttri vegalengd verður jafnframt boðið uppá Hálfa-Jökulmílu, sem er um 74 km og hefst á Búðum og endar í Grundarfirði.

Ræsing frá Grundarfirði 14. júní 2014

 • Forræsing kl. 9:00 fyrir náttúruunnendur á tandem-, fjalla- og götuhjólum
 • Hópræsing kl. 11:00 fyrir keppnisflokk á götuhjólum

 

Hvíldar- og drykkjarstöðvar á leiðinni

Skipulagðar drykkjarstöðvar á vegum mótshaldara eru við Kothraun (eftir 52 km), Búðir (eftir 87 km) og á Vegamótum (eftir 124 km). Þar verður boðið uppá orkudrykki og meðlæti sem auðvelda mun þátttakendum að klára hringinn. Handhægar salernisaðstöður á leiðinni eru við Hellissand og á Vegamótum. Örlítill krókur er niður að þjónustumiðstöð við Arnarstapa. Er það annars ekki notaleg tilhugsun fyrir þá sem eru ekki að flýta sér um of, að stoppa á Arnarstapa og fá sér kaffisopa?

Tímamörk og fyrir þá sem ekki ná að klára

Samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu á Aldarskeiðum (sjá wiki síðu)  þá er endamarki lokað 12 tímum eftir ræsingu. Mótshaldarar munu því taka á móti þátttakendum allt fram til kl. 21:00 við endamarkið í Grundarfirði. Öllum þátttakendum Jökulmílunnar og Hálfrar Jökulmílu er gert að hafa með sér farsíma til að hafa uppá mótshöldurum komi eitthvað óvænt uppá og er þess valdandi að viðkomandi nái ekki endamarki.

Verðlaun

 • Gull, silfur og brons verðlaunapeningar fyrir fyrstu þrjú sætin í hverjum flokki
 • Viðurkenningaskjal með staðfestum tíma mótshaldara
 • Kjötsúpa

 

Skráning í Jökulmíluna

 

Jökulmílan sem path skrá (.kmz) fyrir Google Earth GoogleEarth_Icon

Jökulmílan á bikemap.net

Jokulmila kort og profill

17.05.2014 23:18

Hálf jökulmíla

HÁLF JÖKULMÍLA

Komid_i_markFyrir þá sem vilja í fyrstu prófa styttri vegalengd verður jafnframt boðið uppá Hálfa Jökulmílu.  Hún er um 74 km og hefst á Búðum og endar í Grundarfirði.

 

Ræsing frá Búðum, 14. júní 2014

 • Hópræsing kl. 13:00 fyrir þátttakendur á fjalla- og götuhjólum

 

Hvíldar- og drykkjarstöð á leiðinni

Skipulögð drykkjarstöð á vegum mótshaldara er á Vegamótum (eftir 37 km). Þar verður boðið uppá orkudrykki og meðlæti sem auðvelda mun þátttakendum að komast alla leið. Þar er einnig handhæg salernisaðstaða.

 

Tímamörk og fyrir þá sem ekki ná að klára

Mótshaldarar munu taka á móti þátttakendum allt fram til kl. 21:00 við endamarkið í Grundarfirði.  Öllum þátttakendum Jökulmílunnar og Hálfrar Jökulmílu er gert að hafa með sér farsíma til að hafa uppá mótshöldurum komi eitthvað óvænt uppá og er þess valdandi að viðkomandi nái ekki endamarki.

 

Verðlaun

 • Gull, silfur og brons verðlaunapeningar fyrir fyrstu þrjú sætin í hverjum flokki
 • Viðurkenningaskjal með staðfestum tíma mótshaldara
 • KJÖTSÚPA

 

Skráning í Hálfa Jökulmílu

 

Hálf Jökulmíla sem path skrá (.kmz) fyrir Google Earth GoogleEarth_Icon

Jökulmílan á bikemap.net

 

Jokulmila kort og profill

15.05.2014 14:58

Spennandin tækifæri fyrir ungt fólk

Norræn ungmennavika í Noregi

Frá norrænni ungmennaviku sem haldin var á Sólheimum í Grímsnesi í fyrrasumar.

Frá norrænni ungmennaviku sem haldin var á Sólheimum í Grímsnesi í fyrrasumar.

Dagana 28. júlí til 2.ágúst næstkomandi fer fram ungmennavika NSU í Noregi. Ungmennavika NSU rennur að þessu sinni inn í stórviðburð sem Norsk Frilynt heldur fyrir aðildarfélög sín í Noregi ár hvert og heitir SplæshCamp.

Dagskráin er stórglæsileg og þema vikunnar að þessu sinni er leikhús, kvikmyndagerð og menning tengt norrænum glæpasögum.

UMFÍ á sæti fyrir 12 þátttakendur að þessu sinni og styrkir alla þátttakendur sína til ferðarinnar. Skráningarfrestur á ungmennavikuna rennur út 20.maí nk. Allar nánari upplýsingar um kostnað og styrki veitir Sabína Steinunn landsfulltrúi í síma 568-2929 og á netfanginu sabina@umfi.is.

Á SplæshCamp mæta um 350 ungmenni víðsvegar frá Noregi og þátttakendur frá hinum Norðurlöndunum verða um 60. Hér má finna frekari upplýsingar um vikuna: http://www.nsu.is/files/2014/files/NordiskUngdomsugeogspl%C3%A6shCamp2014.pdf

15.05.2014 14:55

Skráning hafin á 50+ á Húsavík

Opnað fyrir skráningu á 4. Landsmót UMFÍ 50+ á Húsavík

4. Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið á Húsavík dgana 20-22. júní í sumar.

4. Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið á Húsavík dgana 20-22. júní í sumar.

Opnað hefur verið fyrir skráningu á 4.Landsmót UMFÍ 50+ sem verður haldið á Húsavík dagana 20.-22. júní í sumar. Skráningin fer fram á heimasíðu www.umfi.is . Þetta verður fyrsta Landsmót UMFÍ 50+ sem haldið hefur verið á norðausturhorninu. Fyrri mót voru haldin á Hvammstanga, Mosfellsbæ og Vík í Mýrdal. Þó nokkuð er síðan að Landsmót hefur verið haldið á Húsavík, en það var árið 1987 og tókst með eindæmum vel og var það ekki síst veðurguðunum að þakka.

Unglingalandsmót var haldið að Laugum í Reykjadal sumarið 2006 og var þá ráðist í miklar framkvæmdir á vegum Þingeyjarsveitar og unnu sjálfboðaliðar gríðarlega mikið verk við að koma upp nýjum frjálsíþróttavelli. Fyrir Landsmót UMFÍ 50+ á Húsavík verður flikkað uppá þá aðstöðu sem er til staðar og vonandi verður það íþróttamannlífi til góða að Landsmóti UMFÍ 50+ loknu.

Landsmót UMFÍ 50+ er ekki einungis íþróttamót heldur einnig heilsuhátíð og verður boðið upp á fyrirlestra um heilbrigðan lífsstíl og ýmsar heilsufarsmælingar. Fjölmargar keppnisgreinar verða í boði á Landsmóti UMFÍ 50+ á Húsavík, en það eru: Fjallahlaup, boccia, bridds, bogfimi, blak, frjálsar, hestaíþróttir, línudans, golf, pútt, ringó, skák, dráttavélaakstur, jurtagreining, pönnukökubakstur, skotfimi, sund, sýningar, stígvélakast og þríþraut. Markmið mótsins er að skapa fólki 50 ára og eldri vettvang til að koma saman og keppa í hinum ýmsu íþróttagreinum og kynna um leið þá möguleika sem eru í boði til þess.

04.04.2014 10:23

76 þing HSH haldið á Hótel Hellissands

Þing HSH var haldið á Hótel Hellissands í gær 3 apríl. Þinginu hafði áður verið dagsett 20 mars en varð að fresta vegna veður.

Þingið var starfsamt og meðal ályktana þingsins voru áskoranir til ÍSÍ og UMFÍ að halda áfram með þátttöku í ánægjuvoginn. Einnig var áskorun á Mennta og menningarmálaráðuneytið að efla ferðasjóð íþróttafélaga og rekstarstyrkur til íþróttahéraða. Þingforseti var Kjartan Páll Einarsson og ritarar voru María Valdimarsdóttir og Harpa Jónsdóttir

 

Sæmundur Runólfsson, framkvæmdastjóri UMFÍ flutti kveðjur frá stjórn UMFÍ og starfsfólki. Harpa Jónsdóttir íþróttafélagi Miklaholts var sæmd starfsmerki UMFÍ


 

Garðar Svansson ávarpaði þingið fyrir hönd ÍSÍ og flutti kveðjur frá stjórn og starfsfólki ÍSÍ.

Hermundur Pálsson, fráfarandi formaður heiðraður með silfurmerki ÍSÍ fyrir mikil og góð störf í þágu íþróttahreyfingarinnar.

 

Framboð til formanns var dregið til baka og var ákveðið framhaldsþing til að uppfylla kjör formanns og stjórnar. Auk Hermundar gekk Garðar úr stjórn en áfram í stjórn eru Kristján Magni Oddsson, Sólberg Ásgeirsson og Elín Kr. Halldórsdóttir.  Uppstillinganefnd ásamt stjórn var falið að koma með tillögur innan þriggja vikna um framboð til formanns og stjórnarmanns. 
25.03.2014 13:27

Starfsíþróttaþing í Borgarnesi

Starfsíþróttaþing UMFÍ haldið í Borgarnesi

Starfsíþróttaþing 2014

Frá keppni í starfsíþróttum á Landsmót UMFÍ á Selfossi í fyrrasumar.

Starfsíþróttaráð UMFÍ boðar til 3. starfsíþróttaþings UMFÍ laugardaginn 29. mars nk. Þingið verður haldið í Hjálmakletti í Borgarnesi, og hefst kl. 13:00. Fulltrúafjöldi sambandsaðila er eftirfarandi: UMSE, HSÞ, UMSS, HSS, UMSB, UMSK, UÍA, USK og UMFN tóku þátt í starfsíþróttum á síðasta landsmóti og hafa því tvo fulltrúa. Það gerði HSK líka en hélt að auki héraðsmót í starfsíþróttum og á því rétt á þremur fulltrúum.

Aðrir eiga rétt á einum fulltrúa. (Upplýsingar um fleiri héraðsmót hafa ekki borist.) Hafi t.d. UFA eða Fjölnir átt keppendur á síðasta landsmóti undir merkjum íþróttabandalaga sinna, gildir ákvæðið um 2. fulltrúa einnig um þau.

21.03.2014 13:50

Þing HSH frestað til 3 apríl


76. Héraðsþing HSH

 

verður haldið fimmtudaginn 3 apríl. 2014 kl. 18:00

á Hótel Hellissandi, HellissandiAf óviðráðanlegum orsökum varð að fresta þingi HSH í gær 20.mars.


12.03.2014 11:11

Deildarkeppni lokið og úrslitakeppnin framundan


Frábærri deildarkeppni lokið! Úrslitin taka við!
Frábærri deildarkeppni lokið! Úrslitin taka við!

Til að byrja með þá endilega lesið grein Berglindar Gunnarsdóttur, verðugt umhugsunarefni og umræða. Maður verður jú að spyrja sig, er ekki alveg sama hvaða körfubolti er spilaður, karla eða kvenna og mikilvægið jafn mikilvægt? Þetta er jú allt körfubolti og við elskum hann öll sama hvort það er men-power eða girl-power. Hyllum okkar fólk í hvívetna sama af hvaða aldri og kyni, þá er þetta svo mikið skemmtilegra.

Deildarmeistarar Snæfells fengu Keflavík í heimsókn, sem voru án Bryndísar Guðmundsdóttur, í síðasta leik Dominosdeildar kvenna og stóðu heimastúlkur undir nafni og sigruðu sinn sextánda leik í röð 72-60 og kláruðu deildina með 50 stig.

Leikurinn var bitlaus á köflum og tilþrifalítill með þó ágætis sprettum beggja liða. Snæfellsstúlkurnar komust í upphafi í 10-4 og virkuðu ansi liprar og voru fastar fyrir í vörninni en í fráköstum höfðu þær yfirburði í fyrsta hluta 17 gegn 3 frá Keflavík. Snæfell var yfir 17-16 eftir fyrsta hluta en hittu afleitlega úr opnum skotum þrátt og Keflavík sótti á þær undir lokin.

Frákastabaráttan var bara djók, 36 fráköst Snæfells gegn 12 Keflavíkur í hálfleik, miðað við hve illa Snæfell nýttu sér yfirburðina og voru að drattast þetta í sóknum sínum og morgunljóst að pýridoxinhýdróklóríð nýttist í fráköstum en ekki sókn hjá þeim. Þær héldu þó forystu nokkuð örugglega en staðan var 27-22 í hátt í þrjár mínútur, seinni hluta annars fjórðungs og mikið um hlaup beggja liða fram og til baka með tilheyrandi vöfflum og veltu. Keflavík braut þá ísinn 27-24 en Snæfell gaf þá í og voru yfir í hálfleik 33-26.

Hildur Björg var afgerandi á vellinum af þokkalegri heild Snæfells með 11 stig og 11 fráköst í hálfleik. Bríet Sif var komin með 6 stig fyrir Keflavík.

Snæfellsstúlkur höfðu tögl og haldir tilþrifalaust yfir þriðja hluta og komu sér þægilega í bílstjórasætið eftir þriðja hluta 56-45.

Leikurinn var orðinn nokkuð ráðin þegar Alda Leif smellti sínum öðrum þrist og staðan orðin 62-45. Kelfavík ógnaði aldrei eftir það en áttu góða spretti og sem dæmi má nefna Emelíu Ósk sem skoraði körfu eftir gegnumbrot og fékk villu að auki. Hún hitti ekki úr vítinu en tók frákastið og skoraði. Já fjögur stig steinláu þar hjá dömunni og hugsanlega tilþrif leiksins. Ekki þarf að fjölyrða frekar um leikinn sem fór 72-60 fyrir Snæfell og fólk farið að bíða eftir úrslitakeppninni sem hefst á laugardaginn 15. Mars.

KL 15:00

Snæfell - Valur

Stykkishólmur

KL 16:00

Haukar - Keflavík

Schenkerhöllin

Snæfell: Hildur Björg Kjartansdóttir 20/12 fráköst, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 15/5 fráköst, Chynna Unique Brown 10/9 fráköst, Alda Leif Jónsdóttir 8, Eva Margrét Kristjánsdóttir 8/6 fráköst, Hildur Sigurðardóttir 6/9 fráköst/11 stoðsendingar, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 3, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 2/6 fráköst/ 4 stolnir, Rebakka Rán 0, Aníta Rún 0, Edda Bára 0.

Keflavík: Diamber Johnson 12, Bríet Sif Hinriksdóttir 9, Sandra Lind Þrastardóttir 8/5 fráköst, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 7, Telma Lind Ásgeirsdóttir 7/6 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 7, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 4, Katrín Fríða Jóhannsdóttir 2, Thelma Dís Ágústsdóttir 2, Írena Sól Jónsdóttir 2. Lovísa Falsdóttir 0.

Góða skemmtun í úrslitakeppninni.

Tölfræði leiksins

Símon B. Hjaltalín

- See more at: http://snaefell.is/?p=3471#sthash.mz2LQyZD.dpuf

12.03.2014 11:01

Í tilefni Alþjóða baráttudags kvenna


Í tilefni af Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, þann 8. mars síðastliðinn, fannst mér ekki annað hægt en að vekja athygli á misrétti kvenna og karla í körfuboltaheiminum á Íslandi í dag. Til eru endalaus dæmi. Ég ætla einungis að nefna örfá en ég veit varla hvar ég á að byrja.
 
Þegar ég var 17 ára var ekkert A-landslið kvenna starfandi. Ekki heldur þegar ég var 18 ára. Eftir síðasta leik minn á mínu síðasta Norðurlandamóti yngri landsliða þurfti ég að spyrja mig að því hvert ég stefndi. Ég sá ekki næsta skref. Ég þurfti að leita eftir fyrirmyndunum mínum á meðan besti vinur minn horfði á fyrirmyndirnar sínar í A-landsliði karla með stjörnur í augunum, því það var þangað sem hann stefndi.
 
Þann 15. janúar 2011 fór ég á fyrirlestur fyrir öll yngri stúlknalandslið í Ásgarði. Þar voru mjög áhugaverðir fyrirlestrar varðandi afreksstarf. Á þessum fundi varpaði ég fram spurningu varðandi U-20 ára landslið karla sem senda átti á Evrópumót um sumarið, og af hverju það væri ekkert U-20 ára landslið stúlkna. Svarið sem ég fékk var það að einhvers staðar þyrfti að byrja. Árið 2013 var svo U-22 ára landslið karla kallað saman, en aldrei heyrðist neitt af stúlknalandsliðum í þessum aldursflokkum, hvorki U-20 ára né U-22 ára.
 
Stjörnuleikir karla og kvenna hafa alltaf verið skemmtilegir viðburðir í íslenskum körfubolta. Þetta voru leikir sem sýndir voru í beinni útsendingu á laugardögum og fullkomið tilefni fyrir popp, kók og körfuboltagláp. Stjörnuleikur kvenna var lagður niður í tvö ár, 2011 og 2012. Í janúar 2013 var hins vegar svakaleg endurkoma á stjörnuleik kvenna. Leikurinn var auglýstur og haldinn á miðvikudegi í Keflavík(!) á meðan karlaleikurinn var haldinn á laugardegi í Ásgarði. Þetta hlaut að vera eitthvað grín. Þvílík vanvirðing við íslenska kvennakörfu.
 
Umfjöllun um körfubolta almennt hefur ekki verið upp á marga fiska síðastliðin ár í sjónvarpi, og hvað þá umfjöllun um kvennakörfubolta. Það er ekki langt síðan RÚV fór að segja frá úrslitum í körfuboltaleikjum kvöldsins í fréttunum og ennþá í dag er það ekki alltaf gert.
 
Íslenski boltinn hóf göngu sína á RÚV árið 2011 þar sem fjallað var aðallega um handbolta, körfuboltinn fékk smá part og körfubolti kvenna fékk nokkrar mínútur. 8. október 2013 var mikill gleðidagur fyrir áhugafólk um íslenskan (karla)körfubolta því þá var gerður samstarfssamningur á milli KKÍ og Stöðvar 2 Sport um að sýna frá íslenskum körfuknattleik í sjónvarpi. Stöðin hafði greinilega engan áhuga á að sýna leiki í beinni útsendingu í Dominos deild kvenna en 10 leikir voru á dagskrá í beinni útsendingu frá Dominos deild karla!
 
Fyrir utan misrétti í dómaramálum kvenna og karla í körfubolta sem er mjög greinilegt, misrétti í landsliðsmálum og í umfjöllun um kvennakörfubolta í sjónvarpi er umgjörð kvennaleikja það sem mér finnst allra sorglegast. Oftar en ekki líður mér eins og ég sé komin á minniboltamót en ekki að spila leik í efstu deild kvenna. Ég veit að taka átti m.a. á þessum þáttum eftir síðasta leiktímabil, þ.e. að hafa umgjörðina eins á kvennaleikjum og karlaleikjum liða. Því miður sé ég enga breytingu þar á.
 
Það er einungis á heimaleikjum í Stykkishólmi sem mér finnst eitthvað vera í gangi. Snæfellingar eru að gera virkilega góða hluti að mínu mati í jafnréttismálum í körfunni enda er árið 2014 komið í Hólminn.
 
Á hverjum einasta leik bæði hjá konum og körlum, í deildinni sem og í úrslitakeppninni er kynning á öllum leikmönnum beggja liða, ásamt dómurum. Þar er leikskrá þar sem nöfn leikmanna koma fram og þar er einnig dagskrá yfir næstu leiki. Þar er tónlist og stemmning. Og þar er alveg sama hvort þú sért með typpi eða píku.
 
Ég skora á þig að líta á þitt eigið íþróttafélag með gagnrýnum augum. Ég skora á þig að sýna í verki að þú viljir það sama fyrir dóttur þína og son þinn í íslenskum körfubolta. Hafðu áhrif og breyttu einhverju í kringum þig. Ég veit innst inni að 2014 er ekki bara komið í Stykkishólm.
 
Áfram stelpur,
og áfram körfubolti.
 
Berglind Gunnarsdóttir

09.03.2014 17:13

76 Héraðsþing HSH 20 mars


                                                                       76. Héraðsþing HSH

 

verður haldið fimmtudaginn 20. Mars 2014 kl. 18:00

í Klifi Ólafsvík

 Dagskrá:

 1.     Þingsetning

2.     Tilnefning þingforseta, varaþingforseta og tveggja þingritara

3.     Skipun kjörbréfanefndar

4.     Skýrsla stjórnar

5.     Lagðir fram endurskoðaðir reikningar

6.     Umræður um skýrslu stjórnar og reikningar lagðir fram til

        Samþykktar

7.     Kosning nefnda þingsins:

                        a) Fjárhagsnefnd

                        b) Íþróttanefnd

                        c) Allsherjar- og laganefnd.

8.      Ávörp gesta

9.      Fjárhagsáætlun lögð fram

10.    Framkomnar tillögur lagðar fram og vísað til nefnda

11.    Nefndarstörf

12.    Nefndarálit, umræður og atkvæðagreiðslur

13.    Kosningar

                        a) Formaður HSH

                        b) Aðrir í stjórn og varastjórn

                        c) Tveir skoðunarmenn og tveir til vara

                        d) Ráð og nefndir skv. gildandi samþykktum og reglum

                        e) Uppstillingarnefnd, 3 af formönnum aðildarfélaga HSH

                            sem starfa fram að næsta héraðsþingi

                        f) Kosning á Íþróttaþing ÍSÍ

14.    Önnur mál

Þingslit.09.03.2014 11:38

Starfsíþróttaþing UMFÍ


Til sambandsaðila UMFÍ

 

Starfsíþróttaþing UMFÍ 2014 verður haldið í Hjálmakletti í Borgarnesi laugardaginn 29. mars kl. 14:00.

Starfsíþróttaþing er haldið annað hvort ár og á dagskrá eru hefðbundin málefni eins og skýrsla um starfið, reikningar og kosningar í starfsíþróttaráð. Einnig eru reglugerðir í starfsíþróttum endurskoðaðar á þinginu.

Í lögum starfsíþróttaráðs segir svo:

 

5. grein

Á starfsíþróttaþingi eiga sæti minnst einn fulltrúi frá hverjum sambandsaðila UMFÍ sem hér segir:

1 fulltrúi á hvern sambandsaðila UMFÍ.

1 fulltrúi ef sambandsaðili heldur héraðsmót í starfsíþróttum (milli þinga).

1 fulltrúi ef sambandsaðili tók þátt í starfsíþróttum á síðasta landsmóti.

 

Með von um að sjá sem flesta á starfsíþróttaþingi í Borgarnesi,

Halldóra Gunnarsdóttir

formaður starfsíþróttaráðs UMFÍ

s. 892-8202

hgun@simnet.is

14.02.2014 01:58

Vinnuþjarkur HSH 2013


Vinnuþjarkur HSH var útnefndur í hálfleik Snæfell og ÍR

Stjórn meistaraflokks Snæfells í körfubolta eru vinnuþjarkar HSH 2013


Myndir tók Sumarliði

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 106
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 822
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 3294068
Samtals gestir: 253602
Tölur uppfærðar: 19.1.2018 03:33:19
Flettingar í dag: 106
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 822
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 3294068
Samtals gestir: 253602
Tölur uppfærðar: 19.1.2018 03:33:19