Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Flokkur: Almennar fréttir

08.03.2012 14:44

Í öðru sæti í Lífshlaupinu

Níu hressir og kátir einstaklingar úr Félagi eldriborgara í Snæfellsbæ tóku sig saman og skráðu sig til leiks í lífshlaupinu. Markmið Lífshlaupsins er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig og huga að sinni hreyfingu í frítíma, heimilisstöfum, vinnu, skóla og við val á ferðamáta. Lífshlaupið var haldið í fimmta sinn nú í ár


Hópurinn frá Félagi eldri borgara endaði í öðru sæti í keppninni um flesta daga og fengu glæsilegan verðlaunaskjöld fyrir, fjölbreytt hreyfing skilaði hópnum verðlaununum en þau eru öll dugleg að taka þátt í ýmiskonar hreyfingu og íþróttum, má þar m.a. nefna sundleikfimi, dans, göngu og boccia. Í hópakeppninni var mikil samkeppni en þátt tóku 457 vinnustaðir með 1.542 liðum og í þeim liðum voru samtals 11.706 þátttakendur.

08.03.2012 14:38

100 ára saga ÍSÍ

Í tilefni af 100 ára afmæli ÍSÍ gaf Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands út bók sem ber heitið "Íþróttabókin - ÍSÍ saga og samfélag í 100 ár".  Með útgáfu hennar er leitast við að geyma í senn sögu sambandsins og merka atburði í íslensku íþróttalífi.  Ákveðið var að fara nýja leið við upprifjun sögunnar og leggja aðaláhersluna á að fjalla um þau víðtæku áhrif sem íþróttastarfið og íþróttahreyfingin hefur haft á íslenskt samfélag í gegnum tíðina.

 


Steinar J. Lúðvíksson rithöfundur ritstýrði verkinu.  Fáir Íslendingar hafa jafn yfirgripsmikla þekkingu á starfi íþróttahreyfingarinnar. Til liðs við Steinar voru fengnir nokkrir höfundar sem allir eru kunnir íþróttaáhugamenn, Ellert B. Schram, Ágúst Ásgeirsson, Jón M. Ívarsson, Steinþór Guðbjartsson, Björn Vigni Sigurpálsson og Þorgrím Þráinsson.  Í ritnefnd bókarinnar voru Stefán S. Konráðsson formaður, Magnús Oddsson, Jón Gestur Viggósson og Unnur Stefánsdóttir. Jón M. Ívarsson annaðist myndaval og útvegun mynda í bókina. Skönnun mynda var í höndum Brynjars Gunnarssonar ljósmyndara. Prentsmiðjan Oddi sá um umbrot og prentun en Árni Jörgensen var útlitshönnuður bókarinnar.

 

Bókin er til sölu í Bókabúð Máls og Menningar, Laugavegi 18. í dag, fimmtudaginn 8. mars er hún á íþróttaverði eða 5.900 en venjulegt verð er 7.900 krónur.  Við ritun bókarinnar kom í ljós að ekki kæmist allt efnið fyrir í bókinni. Seinna verður það efni aðgengilegt á heimasiðu ÍSÍ.

06.03.2012 20:44

Jón Ólafur Jónsson íþróttamaður Snæfells 2011


Jón Ólafur Jónsson eða Nonni Mæju eins og flestir þekkja hann fékk afhent verðlaun sín sem Íþróttamaður Snæfells 2011 í hálfleik á leik Snæfells og Hamars í kvennadeildinni á laugardaginn sl og óskum við honum innilega til hamingju.

04.03.2012 10:56

Aðalfundur UMFG

Aðalfundur UMFG var haldinn fimmtudagskvöldið 1. mars síðastliðið, á Kaffi 59. Þar voru helstu atriði skýrsla UMFG fyrir árið 2011, Ársreikningur 2011 og önnur mál. 

Sama stjórn mun sitja áfram. Tap var á rekstri UMFG árið 2011 og tekin ákvörðun um hækkun æfingagjalda sem hér segir.

Æfingagjöld fyrir einstakling hækkar úr 10.900 í 13.900 kr
Æfingagjöld fyrir tvö systkyni hækka úr 18.900 í 20.900 kr
Æfingagjöld fyrir þrjú systkyni hækka úr 24.100 í 25.500 kr

Hækkun æfingagjalda er óhjákvæmileg sökum minni tekna. En ef við berum okkur saman við bæjarfélög af svipaðri stærð erum við samt með mjög lág æfingagjöld og mjög gott framboð af íþróttagreinum. 

Við munum halda áfram ótrauð að efla starf UMFG og skapa góða umgjörð fyrir krakkana okkar. 

kv Stjórn UMFG
Tómas Freyr Kristjánsson formaður
Sólberg Ásgeirsson gjaldkeri
Lára Magnúsdóttir ritari
Halldóra Dögg Hjörleifsdóttir meðstjórnandi
Ragnheiður Dröfn Benidiktsdóttir meðstjórnandi


Skrifað af Tommi

02.02.2012 17:07

Skákdagurinn 2012

Skákdagurinn var haldinn hátíðlegur um allt land fimmtudaginn 26. janúar, á afmælisdegi Friðriks Ólafssonar fyrsta stórmeistara Íslands. Fjöldi   skákviðburða voru víða í grunnskólum landsins, sundlaugum, vinnustöðum og á netinu og er  tilgangurinn með sérstökum skákdegi að auka skákáhuga meðal landsmanna.

Í Grunnskóla Snæfellsbæjar í Ólafsvík var hefðbundinni kennslu hætt í tvær kennslustundir en þess í stað var nemendum boðið að taka þátt í fjöltefli eða fá  kennslu í skáklistinni en  þeir sem ekki vildu tefla fengust við hin ýmsu spil.

Tveir meistarar frá Skákfélagi Snæfellsbæjar, þeir  feðgar Gylfi og Sigurður Scheving, tefldu við nemendur 5. - 10. bekkjar en um 60 nemendur höfðu skráð sig í fjölteflið. Ekki tókst að ljúka nema um helmingi skákanna innan þess tíma sem gefinn var en þá voru þeir feðgar enn ósigraðir enda miklir keppnismenn.  

Á sama tíma var skákkennsla fyrir byrjendur og nýttu fjölmargir nemendur sér það og höfðu gagn og gaman af.

Í skólanum hefur nemendum elstu bekkjanna gefist kostur á að velja skák sem valgrein og hafa um 10 nemendur nýtt sér það í vetur.

Við þökkum Gylfa og Sigurði fyrir komuna og aðstoðina við að gera þennan dag eftirminnilegan og við hlökkum til að endurtaka  leikinn næsta vetur.


02.02.2012 10:35

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands 100 ára

isi_100_araÍþrótta- og Ólympíusamband Íslands, ÍSÍ, fagnaði 100 ára afmæli sínu í Ráðhúsi Reykjavíkur á laugardaginn 28 janúar. Sérstakur hátíðarfundur framkvæmdastjórnar var haldinn í fundarsalnum Bárubúð í Ráðhúsi Reykjavíkur fyrr um daginn. Það var einmitt í húsinu Bárubúð, þar sem Ráðhúsið stendur í dag, þar sem sambandið var stofnað fyrir hundrað árum.

 

Að loknum fundinum í Bárubúð var móttaka fyrir boðsgesti þar sem ræður voru fluttar og einstaklingar heiðraðir. Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður Ungmennafélags, flutti ávarp og færði Ólafi Rafnssyni, forseta Íþrótta- ólympíusambandsins gjöf frá UMFÍ í tilefni tímamótanna.

 

 

Mynd: Helga Guðrún Guðjónsdótir, formaður Ungmennafélags Íslands, færir Ólafi Rafnssyni, forseta Íþrótta- og Ólympíusambandsins, gjöf frá UMFÍ á afmælishófinu sem haldið var í Ráðhúsi Reykjavíkur.

02.02.2012 10:33

Lífshlaupið hafið í fimmta sinn

Lífshlaupið hafið
Í gær miðvikudaginn 1. febrúar kl: 11:00 var Lífshlaupið ræst í fimmta sinn í íþróttahúsi Breiðabliks, Smáranum í Kópavogi.  

Ólafur Rafnsson, forseti ÍSÍ, Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, Geir Gunnlaugsson, landlæknir, Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Böðvar Jónsson, formaður íþróttaráðs Kópavogsbæjar og Friðþjófur Helgi Karlsson skólastjóri Smáraskóla fluttu stutt ávörp og tóku síðan þátt, ásamt nemendum úr Smáraskóla, í skemmtilegri þraut í anda Skólahreysti undir stjórn Andrésar Guðmundssonar.

Ólafur Rafnsson, forseti ÍSÍ afhenti fjórum einstaklingum platínumerki Lífshlaupsins en þau náðu þeim frábæra árangri að hreyfa sig samfleytt í 335 daga a.m.k. 30 mínútur daglega frá 2. febrúar 2011 til 2. janúar 2012. Þau eru Hlöðver Örn Vilhjálmsson, Inga Birna Tryggvadóttir, Lísbet Grímsdóttir, Bjarni Kr. Grímsson.

Nú hafa rúmlega 340 vinnustaðir skráð 904 lið til leiks og 36 skólar með 5585 nemendum. En er hægt að skrá sig til leiks inn á www.lifshlaupid.is

19.01.2012 22:43

UMFÍ auglýsir eftir mótshaldar ULM 2015

Umsóknir óskast um að halda 18. Unglingalandsmót UMFÍ 2015

ulm_2015Ungmennafélag Íslands óskar eftir umsóknum frá sambandsaðilum og sveitarstjórnum um að taka að sér undirbúning og framkvæmd 18. Unglingalandsmóts UMFÍ sem haldið verður 2015.


Unglingalandsmót UMFÍ er vímuefnalaus íþrótta- og fjölskylduhátíð haldin um verslunarmannahelgina ár hvert. Keppt er í fjölda íþróttagreina í aldursflokknum 11-18 ára. Á Unglingalandsmótum er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Unglingalandsmót UMFÍ hafa á undanförnum árum hlotið góðar við tökur hjá fjölskyldufólki jafnt sem ungu fólki, enda góður kostur sem heilbrigð skemmtun um mestu ferðahelgi ársins. Unglingalandsmót UMFÍ 2012 verður haldið á Selfossi, 2013 á Höfn og 2014 á Sauðárkróki.


Unglingalandsmót UMFÍ hafa verið mikil lyftistöng fyrir bæjarfélögin þar sem þau hafa verið haldin og hleypt lífi í innra starf þeirra félaga sem komið hafa að framkvæmd mótanna.


Umsóknum um að halda 18. Unglingalandsmót UMFÍ 2015 skal skilað til Þjónustumiðstöðvar UMFÍ, Sigtúni 42, 104 Reykjavík fyrir 30. júní 2012.

16.01.2012 14:14

Vorannarfjarnám ÍSÍ í þjálfaramenntun!


Vorannarfjarnám 1. stigs þjálfaramenntunar ÍSÍ mun hefjast mánudaginn 6. febrúar nk. og tekur það átta vikur.  Um er að ræða samtals 60 kennslustunda nám eða sem samsvarar öllu 1. stiginu,1a, 1b og 1c.  Námið er almennur hluti þjálfaramenntunar ÍSÍ og gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar.  Skráning er á namskeid@isi.is eða í síma 514-4000 og þarf henni að vera lokið fyrir fimmtudaginn 2. febrúar. Með skráningu þarf að fylgja fullt nafn, kennitala, heimilisfang, netfang og símanúmer.  Rétt til þátttöku hafa allir sem lokið hafa grunnskólaprófi.  

Þetta nám er metið sem ÍÞF 1024 í framhaldsskólum.

Allar nánari uppl. um fjarnámið og aðra þjálfaramenntun ÍSÍ gefur sviðsstjóri Þróunar- og fræðslusviðs í síma 460-1467 eða á vidar@isi.is   

Með bestu kveðju,

Viðar Sigurjónsson
Sviðsstjóri Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ.

20.12.2011 10:20

Ferðasjóður ÍSÍ

Ferðasjóður íþróttafélaga

Minnt er á að umsóknir í Ferðasjóð íþróttafélaga  vegna keppnisferða á fyrirfram skilgreind styrkhæf mót á árinu 2011 verða að berast fyrir miðnætti þann 9. janúar 2012.  Á miðnætti verður umsóknarsvæðinu lokað og gögnin færð yfir í gagnagrunn til úrvinnslu.  Það verður því ekki mögulegt að taka við umsóknum eftir að umsóknarfrestur rennur út.

Umsóknir eru fylltar út á rafrænu umsóknarsvæði sjóðsins.  Hægt er komast inn á umsóknarsvæðið með því að smella á bleika kassann hér fyrir neðan. Einnig á heimasíðu ÍSÍ  Nánari upplýsingar veitir Halla Kjartansdóttir skrifstofustjóri ÍSÍ í síma 514 4000 / netfang halla@isi.is.


http://ferdastyrkir.isi.is/

13.12.2011 20:41

Jólafrí og kveðjur frá UMFG

Jólafrí

Æfingar á vegum UMFG fara í jólafrí samhliða Grunnskóla Grundarfjarðar. Síðasti æfingadagurinn er því 16. desember. Svo byrjum við aftur samkvæmt tímatöflu miðvikudaginn 4. janúar 2012. Þetta á við um alla nema að þjálfarar taki annað fram.

Fótboltinn hjá Birni Sólmari byrjar aftur 9. janúar samkvæmt tímatöflu.Jólakveðja Stjórn UMFG

15.11.2011 01:21

Formannafundur ÍSÍ
Formannafundur ÍSÍ
föstudaginn 11. nóvember 2011, fór fram hinn árlegi formannafundur ÍSÍ.  Fundinn sitja formenn héraðssambanda, íþróttabandalaga og sérsambanda auk framkvæmdastjórnar ÍSÍ og er fundurinn upplýsingafundur til sambandsaðila ÍSÍ.

Fundurinn hófst kl. 16:30 í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal og var það Ólafur E. Rafnsson, forseti ÍSÍ, sem setti fundinn, en að setningu lokinni flutti Líney R. Halldórsdóttir skýrslu framkvæmdastjórnar ÍSÍ og Gunnar Bragason, gjaldkeri ÍSÍ, fór yfir fjárhagsstöðu ÍSÍ og íþróttahreyfingarinnar.

Á undan formannafundinum fór fram fundur íþróttahéraða sem var vel sóttur.

ÍSÍ hefur gefið út haustútgáfu af ÍSÍ fréttum sem má sækja hér á heimasíðu ÍSÍ, en auk þess munu upplýsingar frá formannafundinum birtast á heimasíðu ÍSÍ á næstu dögum.

Hermundur Pálsson formaður HSH sótti fundi og jafnframt var Garðar Svansson framkvæmdarstjóri HSH á fundunum sem stjórnarmaður í framkvæmdarstjórn ÍSÍ

Á myndinni má sjá Gunnar Bragason, gjaldkera ÍSÍ, flytja skýrslu stjórnar um fjármál með forseta og framkvæmdastjóra sér við hlið.

17.10.2011 14:03

Ný stjórn UMFÍ


thingfulltruar_a_akureyriHelga Guðrún Guðjónsdóttir var endurkjörin formaður UMFÍ  til næstu tveggja ára á 47. Sambandsþingi UMFÍ sem lauk á Akureyri í gærkvöldi. Sex  einstaklingar voru kosnir í stjórn. Nýir inn í aðalstjórn UMFÍ eru  Stefán Skafti Steinólfsson, Ungmennafélaginu Skipaskaga, Haukur Valtýsson, Ungmennafélagi Akureyrar, Jón Pálsson, Ungmennasambandi Kjalarnesþings og Bolli Gunnarsson Héraðssambandinu Skarphéðni. Þær Björg Jakobsdóttir og Eyrún Harpa Hlynsdóttir voru endurkjörnar.

 Í varastjórn koma inn ný þau Baldur Daníelsson, Héraðssambandi Þingeyinga og Matthildur Ásmundardóttir Ungmennasambandinu Úlfljóti og Anna María Elíasdóttir Ungmennasambandi Vestur Húnvetninga. Einar Kristján Jónsson, Ungmennafélaginu Vesturhlíð var endurkjörinn í varastjórn.

Stjórn HSH óskar formanni og nýkjörinni stjórn til hamingju og þakkar fráfarandi stjórnarmönnum gott samstarf en Garðar Svansson, framkvæmdarstjóri HSH er meðal þeirra sem fóru úr stjórn.

28.09.2011 21:42

2. Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið í Mosfellsbæ

moso_2012Á stjórnarfundi Ungmennafélags Íslands sem haldinn var í  dag var ákveðið að 2. Landsmót UMFÍ 50 + verði í umsjón Ungmennasambands Kjalarnesþings, UMSK, með mótsstað í Mosfellsbæ. Fimm sambandsaðilar sóttu um að halda mótið en auk UMSK voru það USAH með Blönduós sem mótsstað, UMSB, Borgarnes, UÍA, Norðfjörður og UMSE með Dalvík sem mótsstað.


Það var mat stjórnar að allir umsækjendur væru í stakk búnir til að taka að sér framkvæmd mótsins en þetta varð niðurstaðan að þessu sinni.


Mótið er sérstaklega ætlað einstaklingum 50 ára og eldri. Framkvæmd mótsins verður í höndum Ungmennafélags Íslands og UMSK í samstarfi við Mosfellsbæ.


Fyrsta Landsmót UMFÍ 50+ var haldið á Hvammstanga sl. sumar.

 

 

Mynd: Frá fyrsta Landsmóti UMFÍ 50+sem haldið var á Hvammstanga sl. sumar.

28.09.2011 21:36

Íþróttasjóður ríkisins

Menntamálaráðuneyti skal árlega auglýsa eftir umsóknum um styrki úr Íþróttasjóði. Í auglýsingu skal koma fram hvert verksvið sjóðsins er sbr. 1. gr. Umsóknir skulu berast íþróttanefnd á þar til gerðum eyðublöðum fyrir 1. október ár hvert. Í umsókn skulu m.a. koma fram upplýsingar um:

  1. heiti verkefnis,
  2. markmið,
  3. fræðilegt og hagnýtt gildi verkefnis, eftir því sem við á,
  4. verk- og tímaáætlun,
  5. kostnaðar- og fjármögnunaráætlun,
  6. samstarfsaðila, eftir því sem við á.

Sé sótt um frekari stuðning við verkefni, sem áður hefur hlotið styrk úr Íþróttasjóði, ber umsækjanda að láta fylgja umsókn áfangaskýrslu um stöðu verkefnisins.

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 689
Gestir í dag: 51
Flettingar í gær: 471
Gestir í gær: 114
Samtals flettingar: 3290315
Samtals gestir: 253478
Tölur uppfærðar: 16.1.2018 17:28:50
Flettingar í dag: 689
Gestir í dag: 51
Flettingar í gær: 471
Gestir í gær: 114
Samtals flettingar: 3290315
Samtals gestir: 253478
Tölur uppfærðar: 16.1.2018 17:28:50