Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Flokkur: Knattspyrna

05.04.2013 16:45

Bein útsending frá Ólafsvík

Leikur Víkings Ólafsvík og Fram í 1. umferð Pepsideildarinnar verður sýndur beint á Stöð 2 sport þann 5. maí en Hörður Magnússon íþróttafréttamaður greindi frá þessu á Twitter nú rétt í þessu. Þetta verður því í annað sinn sem stöðin sendir beint út frá Ólafsvík, síðast 2010 þegar leikur Víkings og Stjörnunnar í 8 liða úrslitum bikarkeppninnar var sýndur. Sá leikur endaði með sigri Víkings í vítaspyrnukeppni eins og frægt er orðið.

stod2_sport

Það er rík ástæða til að fagna þessari ákvörðun hjá Stöð 2 sport og ljóst að spennan magnast með hverjum deginum sem líður enda sléttur mánuður í að flautað verði til leiks á Ólafsvíkurvelli.

02.04.2013 21:28

Snæfell 1 - 0 Stjarnan

Jón Ólafur með 29 stig í sigri Snæfells

Jay Threatt og Ólafur Torfason Snæfelli í baráttu við Jovan Zdravevski og Justin Shouse úr ... stækka

Jay Threatt og Ólafur Torfason Snæfelli í baráttu við Jovan Zdravevski og Justin Shouse úr Stjörnunni. mbl.is/Golli

Snæfell og Stjarnan áttust við í undanúrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik í Stykkishólmi klukkan 19:15. Snæfell sigraði með minnsta mun 91:90 og tók forystuna 1:0 í rimmu liðanna en vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslitarimmuna. 

Snæfell - Stjarnan 91:90

Stykkishólmur, Úrvalsdeild karla, 02. apríl 2013.

Gangur leiksins:: 11:6, 16:15, 24:25, 30:30, 35:35, 42:40, 46:44, 48:56, 59:61, 67:63, 71:70, 75:72, 75:75, 83:79, 88:84, 91:90.

Snæfell: Jón Ólafur Jónsson 29/5 fráköst, Jay Threatt 25/6 fráköst/9 stoðsendingar, Ryan Amaroso 20/15 fráköst, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 5, Ólafur Torfason 5, Hafþór Ingi Gunnarsson 5/4 fráköst, Sigurður Á. Þorvaldsson 2.

Justin Shouse leikstjórnandi Stjörnunnar.

Justin Shouse leikstjórnandi Stjörnunnar. mbl.isGolli

Fráköst: 25 í vörn, 9 í sókn.

Stjarnan: Jarrid Frye 23/9 fráköst/5 stoðsendingar, Justin Shouse 22/5 fráköst/7 stoðsendingar, Brian Mills 18/6 fráköst, Jovan Zdravevski 14/4 fráköst, Marvin Valdimarsson 9, Fannar Freyr Helgason 4.

Fráköst: 27 í vörn, 0 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Rögnvaldur Hreiðarsson, Einar Þór Skarphéðinsson.

40. mín: Leiknum er lokið með sigri Snæfells 91:90. Justin skoraði síðasta stig leiksins af vítalínunni þegar tæp hálf mínúta var eftir en brenndi af síðara skotinu. Í framhaldinu brenndi Ryan Amoroso af hjá Snæfelli en Stjörnunni tókst ekki að koma skoti á körfuna í síðustu sókn leiksins og Jarrid Frye tapaði boltanum. 

Jarrid Frye, Jón Ólafur Jónsson og Sigurður Þorvaldsson.

Jarrid Frye, Jón Ólafur Jónsson og Sigurður Þorvaldsson. mbl.ist/Golli

40. mín: Staðan er 91:89 fyrir Snæfell. Þriggja stiga körfurnar gengu á víxl. Fyrst kom Justin Shouse Stjörnunni stigi yfir en Jón Ólafur svaraði og kom Snæfelli tveimur stigum yfir þegar hálf mínúta er eftir. 

39. mín: Staðan er 88:86 fyrir Snæfell. Hólmarar fá boltann þegar rétt rúm mínúta er eftir. Sigurður Þorvalds stal boltanum.

37. mín: Staðan er 86:84 fyrir Snæfell. Spennan fer síður en svo minnkandi. Jovan er enn með fjórar villur og aðrir minna. Jón Ólafur hefur látið til sín taka í kvöld og er með 24 stig fyrir Snæfell.

30. mín: Staðan er 75:72 fyrir Snæfell fyrir síðasta leikhlutann. Lokamínútur þessa leiks verða væntanlega æsispennandi. Jovan er sá eini á vellinum sem er með fjórar villur en þeir Fannar Freyr Helgason Stjörnunni, Jón Ólafur og Ryan Amoroso Snæfelli eru með þrjár villur. 

26. mín: Staðan er 67:65 fyrir Snæfell. Heimamönnum hefur tekist að komast yfir þrátt fyrir að hafa verið átta stigum undir í hléi. Þvílíkur leikur. 

20. mín: Staðan er 56:48 fyrir Stjörnuna þegar leikmenn ganga til búningsherbergja í leikhléi. Fyrri hálfleikurinn var jafn og liðin skiptust á að hafa forystuna þar til á lokamínútunum en þá náði Stjarnan að halda forskoti fram að hléi. Stjarnan hefur hitt úr sjö af þrettán þriggja stiga skotum sínum til þessa sem er frábært. Snæfell byrjaði með látum í þeirri tölfræði og hitti úr sex af átta þriggja stiga skotum í fyrsta leikhluta. Hólmarar kólnuðu hins vegar í öðrum leikhluta og hafa alls hitt úr átta af sautján þriggja stiga skotum sínum. Jay Threatt stendur sig vel hjá Snæfelli að venju og er með 15 stig og hefur hitt úr öllum skotum sínum til þessa. Jarrid Frye er með 14 stig hjá Stjörnunni og Jovan Zdravevski 12. Jovan hefur hitt með ólíkindum vel síðustu vikurnar og hefur sett niður fjögur af fimm þriggja stiga skotum sínum. 

10. mín: Staðan er 30:30 að loknum fyrsta leikhluta. Hraður og fjörugur fyrsti leikhluti sem lofar góðu fyrir leikinn. Stjarnan náði fjögurra stiga forystu um tíma en Snæfell komst yfir á ný og þannig hafa liðin skipst á að taka forystuna. Það stefnir í enn einn stórleikinn hjá Jarrid Frye sem hefur skorað 11 stig fyrir Stjörnuna. Ryan Amoroso er með 7 stig fyrir Snæfell sem og Jón Ólafur Jónsson og það er góðs viti fyrir Snæfell. 

4. mín: Staðan er 14:8. Hólmarar fara vel af stað á fyrstu mínútum leiksins. 

Er þetta fyrsti leikur liðanna í undanúrslitunum en vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslitarimmuna. Snæfell hafnaði í 3. sæti í deildinni en Stjarnan í 4. sæti. 

Snæfell sló Njarðvík út í átta liða úrslitum 2:1 og Stjarnan sló Keflavík út einnig 2:1.

02.04.2013 02:20

Tap hjá Víking gegn ÍBV

Bragðdauft í fyrsta tapleik okkar í Lengjubikarnum.

Lengjubikar
Leiknisvöllur gervigras
Mánudaginn 1.apríl 2013

ÍBV - Víkingur Ó    1-0  (1-0)


Það er alltaf þannig að öll fótboltalið tapa leikjum af og til. Í dag töpuðum við leik gegn ÍBV. Og fyrst lið þurfa að tapa leikjum er kannski best að tapa þeim leikjum sem skipta minnstu máli. Leikurinn í dag var einn þeirra leikja sem mátti tapast án þess að skaðast. Við vorum búnir að vinna okkur sæti í 8 liða úrslitum mótins.

Þessi leikur í dag er einn sá bragðdaufasti sem Víkingur Ó hefur spilað í langan tíma. Það nánast gerðist ekkert í leiknum, hvorki frá hendi Víkings Ó eða ÍBV. Kannski aðstæður hafi valdið því, því á meðan á leiknum stóð var kalt í veðri, hráslaðalegt er annað íslenskt orð yfir það. Einnig var grasið þurrt og stammt. Bæði liðin hafa auk þess verið komin með hugann við æfingaferðina sína erlendis. Víkingur Ó er að fara í vikuferð til Spánar á morgun og er eflaust komin mikil tilhlökkun í hópinn.

En það er best að vera ekki að eyða mörgum orðum í þennan leik og punktarnir sem ég skrifaði niður segja mikið um það hve lítið var um færi í honum.

Ég valdi Dominik Bajda, Eldar Masic og Jernej Leskovar þrjá bestu leikmennina okkar í dag. Dominik var að spila á yfir pari eins og sagt er. Eldar gerði margt gott á miðjunni og Jernej líka.

Byrjunarlið Víkings Ó var svona: Einar Hjörleifsson, Björn Pálsson, Tomasz Luba, Emir Dokara, Dominik Bajda, Brynjar Kristmundsson, Eldar Masic, Jernej Leskovar, Fannar Hilmarsson, Guðmundur Magnússon og Steinar Már Ragnarsson. Á bekknum voru: Kaspars Ikstens, Alfreð Már Hjaltalín, Damir Muminovic, Eyþór Helgi Birgisson og Kristinn M. Pétursson. Meiddir voru þeir Guðmundur Steinn Hafsteinsson og Farid Zato. Ólafur Hlynur Illugason var ekki með í dag, hvers vegna veit ég ekki.

4.mín. Fannar Hilmarsson kemst í hálffæri  og skýtur framhjá úr þröngu færi.
7.mín. MARK. 1-0. Ian Jeffs skorar fyrir ÍBV eftir að hafa fengið góða sendingu innfyrir vörn Víkings frá Gunnari Má Guðmundssyni. Hann gjörsamlega gleymdist á milli miðvarðanna og kláraði færi vel með skoti með jörðinni hægra megin framhjá Einari markverði.
26.mín. Eyjamaðurinn Víðir Þorvarðarson með laust skot utan teigs og framhjá.
29.mín. Brotið á Emir Dokara rétt utan vítateigs. Brynjar Kristmundsson skýtur framhjá markinu vinstra megin úr aukaspyrnunni.
45.mín. Varnarmistök hjá ÍBV og það munaði litlu að Víkingur næði að jafna þegar markvörður ÍBV fór í "skógarferð" útí teiginn og missti boltann til Jernej Leskovar sem náði skoti á opið markið en hitti bakið á einum varnarmanninum.
45.mín. Gunnar Már Guðmundsson ÍBV með skot með jörðinni á markið sem Einar ver auðveldlega.

Hálfleikur

Skipting. Brynjar Kristmundsson fer af velli fyrir Damir Muminovic.

52.mín. Aukaspyrna sem ÍBV fékk rétt utan teigs. Spyrnan léleg og æfingabolti beint í hendur Einars.
53.mín. Eyþór Helgi Birgisson kemur inn fyrir Fannar Hilmarsson.
61.mín. Alfreð Már Hjaltalín kemur inná fyrir Guðmund Magnússon
77.mín. Jernej Leskovar skýtur yfir frá vítateigslínu.
83.mín. Kristinn M. Pétursson kemur inná fyrir Steinar Már Ragnarsson
84.mín. Eyþór Helgi Birgisson með skot utan teigs og beint á markvörðinn.
86.mín. Gunnar Már Guðmundsson ÍBV með skot hátt yfir markið.

Leik lokið.


Helgi Kristjánsson

29.03.2013 09:24

Víkingur og N1

N1 verður aðalstyrktaraðili Víkings ásamt því að styðja Snæfellsnessamstarfið

Betraverð fyrir víkinga v1Víkingur og Snæfellsnessamstarfið skrifuðu á dögunum undir þriggja ára samning við olíufélagið N1 sem jafnframt verður aðalstyrktaraðili félagsins. Merki N1mun vera framan á maga keppnistreyju meistaraflokks karla og kvenna  og á stuttbuxum yngri flokka Snæfellsnessamstarfsins. Víkingur mun að fremsta megni halda merki N1 á lofti þar sem um er að ræða samstarfssamning milli félagsins, stuðningsmanna og yngriflokka Snæfellsnessamtarfsins. (Hægt er að smella á myndina til vinstri til að sjá tilboð fyrir stuðningsmenn)

Með því að fá sér N1 kort undir hópanúmeri Víkings og Snæfellsnessamstarfsins fá stuðningsmenn 5 krónu afslátt auk tveggja punkta og fjölda annarra fríðinda. Ofan á þessi frábæru kjör styrkir N1 grasrótarhreyfinguna  með því að greiða Snæfellsnessamstarfinu 500 kr. fyrir hvert nýtt N1 kort eða lykil sem fer í notkun. Ennfremur greiðir N1 samstarfinu 1 krónur á hvern líter eldsneytis sem greitt er með kortum eða lyklum félagsmanna.

Hægt er að nálgast skráningarspjöld á þjónustustöðvum N1 á Snæfellsnesi (Hellissandi, Ólafsvík, Grundarfirði, Vegamótum og hjá Dekk og Smur Stykkishólmi) auk þess sem iðkendur Snæfellsnessamstarfsins munu labba í hús og bjóða íbúum á Snæfellsnesi þessi frábæru kjör eftir páska. Einnig er hægt að sækja um kort með því að smella hér, eina sem umsækjendur þurfa mun er að setja inn hópanúmer félagsins, 575.

25.03.2013 01:02

Víkingur í 8 liða úrslit

Sæti í 8 liða úrslitunum í höfn.

24. mars 2013 klukkan 22:32

Lengjubikar
Egilshöll
Sunnudaginn 24.mars 2013

Fjölnir - Víkingur Ó  0-1  (0-0)

Víking Ó verður dæmdur 3-0 sigur eftir að Fjölnir notaði tvo ólöglega leikmenn í leiknum.

0-1 Guðmundur Steinn Hafsteinsson (48.mín)


Víkingur Ó braut enn og aftur blað í sögu sinni í dag þegar liðið tryggði sér í fyrsta sinn sæti í 8 liða úrslitum A-deildar Lengjubikarsins. Þetta er frábær árangur hjá liðinu okkar. Eins og staðan er í dag gætu andstæðingar okkar í 8 liða úrslitunum verið annað hvort ÍA eða Stjarnan, en óvænt úrslit í einhverjum leikjum sem eftir eru geta breytt þessu. En við eigum samt eftir að spila tvo leiki í riðlinum til viðbótar og er stutt í þá. Fyrri leikurinn verður spilaður á gervigrasvelli Leiknis uppí Breiðholti á miðvikudaginn kemur gegn Íslandsmeisturum FH. Seinni leikurinn verður síðan gegn ÍBV á sama velli sunnudaginn 1.apríl kl. 16.00. (Annar í páskum).

Í dag spiluðu leikmenn Víkings Ó þokkalega og samt nógu vel til að ná undirtökunum í leiknum. Í bæði lið vantaði lykilmenn. Hjá okkur vantaði þrjá meidda leikmenn, þá Guðmund Magnússon, Eyþór Helga Birgisson og Damir Muminovic. Þeir ættu allir að vera klárir í næsta leik gegn FH.

Í dag skoraði Guðmundur Steinn Hafsteinsson sitt 30 mark fyrir Víking Ó í 57 leikjum.

Það sem ég er ánægðastur með hjá Víkings Ó liðinu er það hve liðið er í góðu formi. Þeir eru tilbúnir fyrir Pepsídeildina að mínu mati, hvað varðar formið. Þjálfaragengið (Ejub, Dzevad og Bega) eru búnir að undirbúa liðið þvílíkt vel að ég er orðinn bjartsýnn á að liðið muni gera góða hluti í sumar.

Í dag mætti mikill fjöldi áhorfenda á leikinn. Það má alveg segja að það hafi verið uppselt í öll sæti. Það var gaman að sjá marga Ólsara og nærsveitunga á leiknum í dag. Ég ætlaði að nafngreina alla þá sem ég sá á vellinum en þeir voru bara of margir til að ég nenni að skrifa öll nöfnin.

Í dag valdi ég þessa þrjá sem þrjá bestu leikmenn okkar, Emir Dokara, Farid Zato og Kaspars Ikstens markvörður. Emir var stórkostlegur í dag í stöðu vinstri bakvarðar, Farid Zato lék eins og hershöfðingi á miðjunni og Kaspars Ikstens var öryggið uppmálað í markinu og varði allt það sem þurfti að verja enda hélt liðið hreinu í dag.

Ég mætti með blaðið mitt og pennann minn.

Byrjunarliðið í dag: Kaspars Ikstens, Björn Pálsson, Tomasz Luba, Emir Dokara, Brynjar Kristmundsson, Eldar Masic, Farid Zato, Steinar Már Ragnarsson, Jernej Leskovar, Guðmundur Steinn Hafsteinsson og Fannar Hilmarsson. Varamenn: Einar Hjörleifsson, Dominik Bajda, Kristinn M. Pétursson, Alfreð Már Hjaltalín og Ólafur Hlynur Illugason.

2.mín. Guðmundur Steinn Hafsteinsson spilar sig í gott skotfæri frá vítateigslínu og á skot á markið sem markvörðurinn ver.
3.mín. Fannar Hilmarsson með skot hátt yfir markið.
5.mín. Leikmaður Fjölnis reynir skot á markið úr vítateignum og yfir markið.
8.mín. Dauðafæri hjá Fjölni. Guðmundur Karl Guðmundsson leikmaður Fjölnis fær boltann frír inní teig vinstra megin og skýtur framhjá stönginni hægra megin. Þarna vorum við heppnir.
12.mín. Jernej Leskovar með skot hátt yfir markið.
13.mín. Fannar Hilmarsson með skot sem fór rétt framhjá.
15.mín. Steinar Már Ragnarsson með fast skot beint í fangið á markverðinum frá vítateig.
17.mín  Leikmaður Fjölnis með hörkuskot á markið sem Kaspars Ikstens ver með tilþrifum í horn.
18.mín. Leikmaður Fjölnis skallar lausan bolta framhjá eftir hornið.
19.mín. Mikil hætta skapaðist við mark Víkings Ó þegar boltinn rennur framhjá hverjum sóknarmanni Fjölnis fyrir framan markið og í útspark.
24.mín. Jernej Leskovar í flottu færi eftir sendingu Brynjars Kristmundssonar. Hann skaut í skrefinu og framhjá markinu. Óheppni.

Hálfleikur.

48.mín. MARK. 0-1. Eldar Masic fær boltann í dauðafæri en Þórður Ingason í marki Fjölnis ver frá honum. Eldar nær boltanum aftur og rennir honum fyrir markið á Guðmund Stein sem gat ekki annað en rennt honum í opið markið.
54.mín. Eldar Masic með óvænt fast skot á markið sem Þórður markvörður ver með tilþrifum í horn.
58.mín. Fannar Hilmarsson í dauðafæri á markteig og skýtur yfir.
60.mín. Björn Pálsson með þrumufleyg á markið sem Þórður Ingason markvörður ver enn og aftur með tilþrifum.
61.mín. Stangarskot hjá Fjölni. Leikmaður sem er í skoðun hjá þeim kemst í dauðafæri við fjærstöng og skýtur í stöngina og í hliðarnetið.
62.mín. Fannar Hilmarsson kemst í gegn hægra megin og skýtur í hliðarnetið.
63.mín. RAUTT SPJALD. Brotið er á Guðmundi Steini sem er að komast einn í gegn og varnarmaður Fjölnis fær rautt spjald fyrir vikið.
64.mín. Eftir að Brynjar Kristmundsson hafði þrumað boltanum í varnarvegg Fjölnis úr aukaspyrnu berst boltinn út til Farid Zato sem þrumar á markið og Þórður Ingason ver skotið með tilþrifum í horn. 
65.mín. Guðmundur Steinn Hafsteinsson fær boltann á markteig og einn varnarmanna Fjölnis nær að bjarga á síðustu stundu.
66.mín. Steinar Már Ragnarsson skýtur á óskiljanlegan hátt framhjá á markteig fyrir miðju marki.
73.mín. Einstefna Víkings Ó er í gangi þessar mínútur enda einum fleiri.
74.mín. Farid Zato skallar hornspyrnu yfir.
80.mín. Jernej Leskovar skýtur yfir markið úr teignum.
80.mín. Alfreð Már Hjaltalín og Ólafur Hlynur Illugason koma inná fyrir Brynjar Kristmundsson og Fannar Hilmarsson.
82.mín. Frábært skyndiupphlaup Víkings Ó sem endar með því að Farid Zato kemst einn gegn Þórði markverði. Þórður sér við honum og ver skotið.
83.mín. Ólafur Hlynur Illugason með skot beint á markvörðinn.
85.mín. Kristinn M. Pétursson kemur inná fyrir Björn Pálsson.
90.mín. Fjölnir nálægt því að jafna. Þeir fá tvö fín færi á lokamínútunni og Kaspars Ikstens ver í tvígang frá þeim.

Leik lokið.

Næsti leikur er gegn Íslandsmeisturum FH á gervigrasvelli Leiknis í Breiðholti miðvikudaginn 27.mars kl. 19.00.

Mætum sem getum.

Helgi Kristjánsson

22.02.2013 11:30

Herrakvöld Víkings 2 mars

Herrakvöld 2013

Hið árlega Herrakvöld Víkings verður haldið laugardaginn 2. mars næstkomandi. Líkt og undanfarin ár þá verður dagskráin með hefðbundnu sniði. Ræðumaður kvöldsins verður að þessu sinni Jakob Skúlason stjórnarmaður Knattspyrnusambands Íslands. Dregið verður í leikmannahappadrætti, formaður flytur ræðu auk þess sem uppboðið verður á sínum stað.

Sveinn Waage skemmtikraftur og fyrrum fyndnasti maður Íslands mun sjá um að stjórna herlegheitunum eins og honum einum er lagið. Matseðill kvöldsins verður ekki af verri endanum en Jón á Hótel Hellissandi mun sjá um að reiða fram hið margrómaða sjávarréttahlaðborð.

Matseðillinn:

- Forréttur: Fiskisúpa að hætti kokksins

- Aðalréttir: Bláskel í kóríander,chilli,hvítlauk og bjórBeikonvafinn SkötuselurSteinbítur í piparsósuRauðspretturúllur á hvítu smjöriSaltfiskur með sólþurrkuðum tómötum,ólifum og vorlauk

- Meðlæti: Salat og nýbakað brauð

Að hefðbundinni dagskrá lokinni verður húsið opnað almenningi þar sem DJ-Gpopps mun þeyta skífum fram eftir nóttu.

22.02.2013 11:27

Víkingur og VÍS

VÍS verður öflugur bakhjarl Víkings í Ólafsvík næstu tvö ár, en eins og flestir vita þá etja Víkingar í fyrsta sinn kappi við bestu lið landsins í efstu deild á næsta sumar. Á heimasíðu VÍS segir:

Knattspyrnulið Víkings hefur vakið verðskuldaða athygli undanfarin ár fyrir frammistöðu sína á vellinum og uppgang. Hápunktinum var náttúrlega náð í fyrra þegar félagið tryggði sér sæti í Pepsideildinni með glæsibrag. Það verður gaman að sjá Ólafsvíkinga spreyta sig á meðal þeirra bestu næsta sumar og við óskum þeim að sjálfsögðu velfarnaðar í baráttunni. VÍS er með öfluga starfsemi um allt land og við leggjum metnað okkar í að styðja við bakið á liðum sem víðast eftir því sem aðstæður leyfa hverju sinni. Nú erum við stoltir bakhjarlar tveggja liða á Vesturlandi sem leika í efstu deild", segir Auður Björk Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Sölu- og þjónustusviðs VÍS og vísar þar til ÍA.

Jónas Gestur Jónasson formaður knattspyrnudeildar Víkings er ánægður með samninginn. "Ég held að öllum sé ljóst hversu kostnaðarsamt er að halda úti öflugu knattspyrnuliði, svo ekki sé talað um úti á landi og í efstu deild. Það er því mikill fengur að VÍS sjái sér hag í vera bakhjarl okkar. Við gerum okkar besta til frambúðar að halda nöfnum beggja hátt á lofti."

Á myndinni handsala Gunnar Örn Arnarson frkvstj. Víkings, Auður Björk Guðmundsdóttir frkvstj. Sölu- og þjónustusviðs VÍS og Jónas Gestur Jónasson formaður knattspyrnudeildar Víkings samninginn.

Olafsvik_web

14.02.2013 22:10

Konur óskast í knattspyrnu

Kvennalið Víkings Ólafsvík auglýsir eftir leikmönnum
Meðfylgjandi mynd var tekin við undirskrift leikmannasamninga hjá Víkingi milli jóla og nýárs.
Mynd: Víkingur Ólafsvík
Síðastliðinn nóvember var meistaraflokkur Víkings Ólafsvík settur á laggirnar og hefur liðið nú æft saman í rúma tvo mánuði. Liðið er skipað ungum og efnilegum stelpum í bland við reyndari leikmenn sem hafa ákveðið að taka skóna niður af hillunni.

Nú er svo komið að liðið leitar að frekari liðsstyrk fyrir átök sumarsins en liðið mun leika í 1. deild kvenna á komandi leiktíð. Sem stendur er liðið án markmanns sökum þess að eini markvörður liðsins glímir við erfið meiðsli og ekki ljóst hvenær hún getur snúið aftur.

Mikill metnaður er til staðar og því um að ræða gott tækifæri fyrir stelpur sem vilja bæta sig sem knattspyrnukonur. Félagið skuldbindir sig til að útvega bæði atvinnu og húsnæði fyrir réttu einstaklingana.

Áhugasamir hvattir til að hafa samband við framkvæmdastjóra félagsins, Gunnar Örn Arnarson á netfönging goarnarson@gmail.com eða vikingurol@gmail.com

Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://fotbolti.net/news/14-02-2013/kvennalid-vikings-olafsvik-auglysir-eftir-leikmonnum#ixzz2KujaHCQy

14.02.2013 01:13

4fl kvenna með Silfur á Íslandsmót í Futsal


2. flokkur kvenna futsalStelpurnar í 2. flokk kvenna léku til úrslita í Íslandsmótinu í Futsal nú um helgina en leikið var í Ólafsvík. Stelpurnar voru í riðli með Breiðablik, Haukum og Valskonum en þar sem rúta Valskvenna bilaði rétt fyrir utan Borgarnes drógu þær sig frá keppni.

Í fyrri leik liðsins máttu stelpurnar sætta sig við 3-1 tap gegn Breiðablik. Gegn Haukum var annað upp á teningnum og tókst stelpunum að innbyrða glæsilegan 4-1 sigur.

Það fór því svo að þær kræktu sér í silfur og þær vel að því komnar. Til hamingju stelpur!

12.02.2013 20:28

Stúkan stækkuð í Ólafsvík

Framkvæmdir hafnar við stúkuna í Ólafsvík


12. febrúar 2013

Í sumar mun Víkingur Ólafsvík spila í Pepsídeildinni í fótbolta og þarf af þeim sökum að fjölga sætum í stúku Ólafsvíkurvallar, vegna reglna KSÍ, úr 330 sætum í 500. Framkvæmdir við völlinn þurfa að klárast fyrir 5. maí þegar Víkingur mætir Fram í fyrsta heimaleik Víkings í deildinni. Framkvæmdir eru nú hafnar og þegar blaðamann Skessuhorns bar að garði í síðustu viku voru starfsmenn TS vélaleigu að vinna að jarðvegsskiptum undir stækkun stúkunnar. Það er fyrirtækið Nesbyggð sem heldur utan um framkvæmdirnar. Auk þess að stækka stúkuna var bætt við niðurföllum, varamannaskýlin verða stækkuð, klára á aðstöðu fyrir fjölmiðlamenn og girða á völlinn af.

 

07.02.2013 19:34

Þing KSÍ

Ársþing 2013 - Þingið sett kl. 11:00

Þingið fer fram laugardaginn 9. febrúar á Hilton Nordica Hótel

6.2.2013

Ársþing KSÍ, það 67. í röðinni, verður haldið á Hilton Nordica Hótel laugardaginn 9. febrúar. Þingið verður sett kl. 11:00 en afhending þinggagna hefst kl. 10:00.

Þingið verður sett kl. 11:00 laugardaginn 9. febrúar og gert er ráð fyrir að því ljúki um kl. 16:00 sama dag. Öllum þingfulltrúum er boðið til sameiginlegs kvöldverðar og skemmtunar sem hefst kl. 19:30 á Reykjavík Hótel Natura.

Á undan verður boðið upp á fordrykk frá kl. 18:30 á sama stað. (Þingfulltrúum er boðið til kvöldverðar en félög geta keypt miða fyrir fleiri gesti - Vinsamlegast hafið samband við Ragnheiði 510-2905, ragnheidur@ksi.is

Hægt er að nálgast allar fréttir er tengjast ársþinginu hér.

HSH á 5 fulltrúa á þinginu og fara 4 frá Víking og 1 frá UMFG

07.02.2013 19:27

Björn Pálsson með 2 ára samning við Víking

Bjössi PálsBjörn Pálsson skrifaði nýverið undir tveggja ára samning við Víking Ólafsvík en hann hefur undanfarin tvö ár verið á láni hjá félaginu frá Stjörnunni. Hann á að baki yfir 170 leiki í meistaraflokk og yfir 40 leiki í efstu deild með Garðbæingum.

Í fyrra var Bjössi í lykilhlutverki í liði Víkings þar sem hann kom við sögu í öllum 22 leikjum liðsins þegar það tryggði sér sæti í úrvalsdeild. Auk þess skoraði kappinn 3 mörk, 2 gegn Haukum á Ásvöllum og eitt gegn KA-mönnum á Akureyri, sælla minninga.

Víkingurol.is setti sig í samband við kappann í tilefni af nýja samningum.

Það er búinn að vera langur aðdragandi að þessu - ertu ekki sáttur að vera loks búinn að semja?

Jú, mjög sáttur. Þetta var orðinn ágætis tími þar sem ég var samningslaus, tæpir 3 mánuðir, þannig að það var gott að klára þetta og vita hvernig landið liggur næstu mánuðina. Það skrúfar líka upp metnaðinn að vita hvert maður stefnir og hvaða verkefni eru framundan.

Það er ljóst að liðinu bíður erfitt verkefni í sumar, hvernig metur þú möguleika liðsins?

Ég tel möguleikana góða. Auðvitað er þetta brekka en hún er langt frá því að vera of brött þó það þurfi auðvitað að bæta við smá mannskap og svo fínpússa hann þegar hann verður kominn. Þar fyrir utan eru góðir hæfileikar í liðinu og margir leikmenn sem geta sprungið út í sumar.

Hvernig leggst það í þig að flytja vestur?

Bara vel. Ég er náttúrulega alinn upp í litlum bæ úti á landi en er búinn að búa allt árið í borginni alveg frá og með 2008. Þannig að þetta verður breyting fyrir mig og vonandi skemmtileg.

Liðið hefur farið brösulega af stað í byrjun undirbúningstímabilsins, er það eitthvað til að hafa áhyggjur af?

Það hefur verið smá ströggl á liðinu og við verið mjög misjafnir milli leikja. Af þeim þremur (viðtalið tekið fyrir leik Víkings gegn Stjörnunni) leikjum sem við höfum spilað í fotbolta.net mótinu höfum við bara spilað vel í 45 mínútur og það var í fyrri hálfleik á móti ÍA. Ég hef svo sem ekki miklar áhyggjur en auðvitað er aldrei skemmtilegt að spila illa. Ég vonast bara til þess að það komist mynd á leikmannahópinn sem fyrst svo liðið geti farið að stilla saman strengi sína sem allra fyrst.

07.02.2013 19:20

Snæfell og Geislinn í samstarfi í knattspyrnu


6. febrúar 2013

Um miðja síðustu viku undirrituðu forsvarsmenn knattspyrnuliðs Snæfells og Geislans á Hólmavík samkomulag um að tefla fram sameiginlegu liði í fjórðu deild Íslandsmóts karla næsta sumar. Liðið mun leika heimaleiki sína í Stykkishólmi en æfingar þess munu verða hópaskiptar í Reykjavík, Stykkishólmi og Hólmavík. Síðastliðið sumar tapaði Snæfell öllum sínum leikjum í 3. deild og endaði með markatöluna 2-175. Þetta mun vera í fyrsta sinn í 19 ár sem Geislinn spilar á Íslandsmóti í fótbolta.

 

07.01.2013 09:18

Víkingur Íslandsmeistarar í Futsal


Í karlaflokki tryggði Víkingur Ólafsvík sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta skipti í sögu félagsins með 5-2 sigri á Val í úrslitaleik.

Ólafsvíkingar leiddu 1-0 í hálfleik og í síðari hálfleik var leikurinn alltaf í þeirra höndum.

Víkingur Ólafsvík 5 - 2 Valur (Karlaflokkur)
1-0 Alfreð Már Hjaltalín
2-0 Eyþór Helgi Birgisson
2-1 Kolbeinn Kárason
3-1 Eyþór Helgi Birgisson
4-1 Dominik Bajda
4-2 Rúnar Már Sigurjónsson
5-2 Brynjar Kristmundsson

Til hamingju Víkingar með glæsilegan árangur
Guðmundur Steinn Hafsteinsson fyrirliði Ólafsvíkinga hampar sigurlaununum í leikslok.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð


Víkingur Ólafsvík Futsal meistarar karla 2013.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

15.12.2012 15:26

Víkingur Ólafsvík fékk heiðursverðlaun Tinds árið 2012

Heiðursverðlaun Tinds 2012Víkingur Ólafsvík hlotnaðist sá mikli heiður í dag að fá heiðursverðlaun Tinds bókaútgáfu fyrir að hafa náð athyglisverðum árangri í knattspyrnu árið 2012. Verðlaunin voru veitt í tilefni af útgáfu bókarinnar íslensk knattspyrna 2012 en þetta er í 32. árið í röð sem árbók knattspyrnunnar á Íslandi kemur út.

Er þetta í fimmta skipti sem heiðursverðlaunin eru veitt en Katrín Jónsdóttir tók fyrst við þeim árið 2008 fyrir hönd íslenska kvennalandsliðsins. Það voru þeir Ejub Purisevic og Gunnar Örn Arnarson sem veittu verðlaununum viðtöku úr höndum Víðis Sigurðssonar höfundar bókarinnar nú síðdegis.

En eins og allir þekkja þá náðu ÓlafsVíkingar þeim glæsilega árangri að vinna sér sæti í efstu deild í fyrsta skipti í sögunni. Ólafsvík er einn af minnstu bæjum frá upphafi til að eignast lið í efstu deild og þar hefur átt sér stað mikið ævintýri í fótboltanum á undanförnum árum. Þetta byrjaði allt fyrir 10 árum þegar Ejub Purisevic fór vestur og tók við liði sem var við botninn á neðstu deild. Ejub er ennþá fyrir vestan og núna er hann kominn með Ólafsvíkurliðið í hóp þeirra bestu á landinu. Að baki hans hefur starfað geysilega öflugur og samstilltur hópur manna sem nú uppskera laun erfiðisins  og fá að spreyta sig á því að taka á móti öllum stærstu liðum landsins á Ólafsvíkurvelli næsta sumar. Víkingarnir eru vel að þessum verðlaunum komnir. Sagði Víðir áður en hann afhenti Ejub og Gunnari verðlaunin í dag.

Að launum fékk félagið glæsilegan bikar og tvö eintök af bókinni íslensk knattspyrna 2012 sem staðsett verða á skrifstofu Víkings frá og með morgundeginum.

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 360
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 514
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 3294836
Samtals gestir: 253656
Tölur uppfærðar: 20.1.2018 14:41:32
Flettingar í dag: 360
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 514
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 3294836
Samtals gestir: 253656
Tölur uppfærðar: 20.1.2018 14:41:32