Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Flokkur: Knattspyrna

12.06.2013 09:42

Ekki ferð til fjár hjá UMFG

Tap á tap ofan

Við fórum í langferð um helgina. Lagt var af stað á föstudaginn og haldið áleiðis til Akureyrar þar sem að við áttum leik við Magna frá Grenivík í Boganum á Akureyri. Leikið var innanhúss þar sem að vellirnir á norðurlandi koma almennt frekar illa undan vetri.
Leikurinn var jafn og spennandi en Magni náði forystunni og aðeins 6 mínútum síðar jafnaði Dalibor metin. Staðan var 1-1 lengi vel en Magnamenn náðu að setja eitt mark í síðari hálfleik en ekkert gekk hjá okkur fyrir framan markið. 2-1 tap því staðreynd og voru flestir okkar á þeirri skoðun að sú uppskera hafi verið full lítil miðað við spilamennsku liðsins og að við hefðum átt eitthvað aðeins meira skilið út úr þessum leik.

Á laugardeginum var svo farið á leik KA og Víkings í 1 deildinni og eftir það var haldið austur til Fáskrúðsfjarðar en þar áttum við leik á sunnudeginum. Tókum æfingu og sjósund þegar þangað var komið.

Í leiknum gegn Leikni Fáskrúðsfirði náðum við forystunni þegar að þeir skoruðu sjálfsmark eftir gott skot frá Christian. Við vorum með 1-0 forystu lengi vel en á 65 mínútu fá heimamenn frekar ódýra vítaspyrnu að okkar mati en línuvörðurinn var á öðru máli og dæmdi vítaspyrnuna. Leiknir jafna metin og svo á 82 mínútu ná þeir forystunni eftir aukaspyrnu sem að small í stönginni okkar og við náðum ekki að hreinsa. 2-1 tap þriðja leikinn í röð og döpur uppskera eftir þessa langferð. 

Nú er bara að taka 3 stig í næsta leik sem verður hérna heima á móti KFR næsta laugardag kl 14:00
Skrifað af Tommi

27.05.2013 11:17

Fyrsta stigið í hús

Fyrsta stig Víkinga komið í hús


27. maí 2013

Víkingar Ólafsvík náðu í sitt fyrsta stig í Pepsídeildinni í gær þegar Eyjamenn sóttu þá heim á Ólafsvíkurvöll. Leikurinn fór fram við fremur erfiðar aðstæður, vindurinn gerði leikmönnum erfitt fyrir í sóknaraðgerðum og vart sást marktækifæri í leiknum, enda lauk honum með markalausu jafntefli, því fyrsta í deildinni í sumar. Liðin voru engu að síður að sýna gott spil og ágætis fótbolta á köflum. Víkingar börðust vel og í heild var þetta besti leikur liðsins í sumar. Einar Hjörleifsson gamli fyrirliði Víkingsliðsins og markvörðurinn var í liðinu annan leikinn í röð. Hann stóð sig vel eins og Víkingsliðið í heild. Einar sagði eftir leikinn margt jákvætt í leik liðsins og stigið fínan stökkpall til að byggja á í næstu leikjum.

 

 

 

 

Víkingar eru með eitt stig eftir fyrstu fimm umferðirnar og þar fyrir ofan er Fylkir með 2 stig og ÍA 3. Nú verður hlé á keppni í Pepsídeild vegna leikja í Bikarkeppni og landsleikja. Í næstu umferð mæta Víkingar Breiðabliki og fer sá leikur fram á Kópavogsvelli mánudaginn 10. júní.

27.05.2013 10:24

Naumt tap hjá UMFG

Tap í dramatískum leik

Við mættum Fjarðabyggð í öðrum heimaleik okkar í röð. Eftir góðan sigur gegn Huginn um síðustu helgi var komið að verðugum andstæðing en Fjarðabyggð var spáð efsta sætinu í deildinni fyrir mótið. 


Leikurinn byrjaði með látum en strax á fyrstu mínútu komst Vincent einn í gegn og gaf fyrir á Golla sem var í dauðafæri en á einhvernóskiljanlegan hátt misnotaði hann það færi. Við byrjuðum með vindi og fengum fleiri færi til að skora en inn vildi boltinn ekki. Einnig gerðum við tilkall til að fá vítaspyrnu þegar að Vincent var að því er virðist klipptur niður inní teig en dómarinn sá ekki ástæðu til að flauta á það. Fjarðabyggð vann sig hægt og rólega inn í leikinn og fengu einnig sín færi en Viktor var vel á verði. Leikurinn var opinn og skemmtilegur og allt í járnum þangað til á 45 mínútu að Fjarðabyggð nær forystunni rétt fyrir leikhlé. Þá var smá misskilningur í vörninni sem varð til þess að einn leikmaður gestanna komst í ákjósanlegt færi og smurði boltann út við stöng, óverjandi fyrir Viktor í markinu. Staðan í leikhlé var því 0-1 gestunum í vil.


Í síðari hálfleik spiluðum við á móti vindi. Linta kom inná fyrir Kára sem var kominn með gult spjald á bakið. Erfiðlega gekk að skapa sér færi en Fjarðabyggð var svosem ekkert að gera neinar rósir. Það var svo á 68 mínútu að við fáum aukaspyrnu rétt fyrir utan teig hægra megin. Christian stillir boltanum upp og gefur góðan bolta fyrir sem dettur svo fyrir Aron sem smellir honum í netið og jafnar 1-1. 


20 mínútur eftir og nægur tími til stefnu. á 79 mínútu verðum við svo fyrir áfalli þegar að Tryggvi fær beint rautt spjald fyrir ofsafengna framkomu í garð andstæðings. Frekar súrt þar sem að þessi sami andstæðingur hafði sparkað aftan í hann þegar að boltinn var ekki í leik. Einum færri átti róðurinn svo eftir að þyngjast. 


Svo varð raunin og sókn Fjarðabyggðar þyngdist smátt og smátt. Það var svo á 86 mínútu að þeir sleppa í gegn og sóknarmaður þeirra er felldur innan teigs og vítaspyrna dæmd. Útlitið svart en Viktor gerði sér lítið fyrir og varði vítið og hélt von okkar um stig áfram á lofti.


Þegar þarna var komið við sögu var farið að draga verulega af okkar mönnum og mikið bil farið að myndast á milli varnar og sóknar. Þetta nýttu gestirnir sér og náðu að setja sigurmark í uppbótartíma og fóru því með öll stigin austur. Hrikalega svekkjandi miðað við allt sem á undan var gengið.


En svona er boltinn. Nú eru tæpar 2 vikur í næsta leik en þann 7. júní næstkomandi förum við í ferðalag þar sem að við spilum  2 leiki á sömu helginni. Við eigum leik við Magna á Grenivík 7. eða 8. júní og svo eigum við leik við Leikni Fáskrúðsfirði þann 9. júní. Tveir hrikalega erfirði leiki en Leiknir hefur byrjað mótið af miklum krafti og eru með fullt hús stiga.

Fleiri myndir eru inni í myndaalbúminu.


Skrifað af Tommi

22.05.2013 11:21

Tap fyrir norðan

Víkingar töpuðu fyrir norðan


Þrátt fyrir að vera öllu sterkara liðið á Þórsvellinum á Akureyri í gær tókst Víkingum ekki að ná stigi úr leiknum og urðu að sætta sig við 1:0 tap. Víkingar eru því stigalausir eftir fyrstu fjórar umferðirnar í Pepsídeildinni og á botnum ásamt hinu Vesturlandsliðinu, ÍA, sem fær tækifæri til að breyta stöðunni í kvöld þegar Framarar koma í heimsókn á Akranesvöll. Leikurinn á Þórsvellinum einkenndist af baráttu milli teiganna á illa grónum vellinum eftir vetrarríkið fyrir norðan. Færi voru fá og fyrri hálfleikur leið án þess að til tíðinda drægi. Þórsarar komust svo yfir þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum. Kom markið eftir mikinn atgang í teignum.

 

 

 

 

"Við vorum ekki nógu grimmir upp við markið og því fór sem fór," sagði Guðmundur Steinn Hafsteinsson framherji Víkinga eftir leikinn og Ejup Purisevic þjálfari Víkings sagði að liðið hefði verðskuldað meira úr þessu leik. Leikur liðsins hefði verið ágætur og vörnin aðeins bilað í hálfa mínútu og það reynst dýrkeypt. Víkinga bíður næst það verkefni í Pepsídeildinni að mæta ÍBV í Eyjum nk. sunnudag.

 

22.05.2013 11:13

5 fl. Snæfellsness Faxaflóameistarar

Í hálfleik í leik Víkings og Keflavíkur í Pepsídeildinni á fimmtudaginn síðasta voru leikmenn Snæfellsness í 5. flokki kvenna afhentir verðlaunapeningar fyrir sigur í Faxaflóamótinu, liðið fór taplaust í gegnum mótið. Unnu stúlkurnar Hauka, ÍBV, Gróttu, Keflavík, Breiðablik og Álftanes í flokki A liða. Að sögn Jónasar Gests Jónassonar formanns knattspyrnudeildar Víkings stunda um 20 stúlkur æfingar í þessum flokki og segir Jónas að framtíðin sé svo sannarlega björt i kvennaboltanum á Snæfellsnesi. Þjálfarar eru þau Björn Sólmar Valgeirsson og Ása Dögg Aðalsteinsdóttir.


21.05.2013 08:53

Góð byrjun hjá Grundfirðingum

Sigur í fyrsta leik

Við byrjuðum íslandsmótið á því að taka á móti liði Hugins frá Seyðisfirði í nýju þriðju deildinni. Upphaflega átti þessi leikur að fara fram laugardaginn 18. maí en vegna óveðurs var honum frestað um sólarhring.Sunnudaginn 19. maí var ennþá bálhvasst og leiknum var því frestað um 2 klukkustundir. Dómarinn flautaði svo leikinn á klukkan 19:30 en þá var komið hið ágætasta veður til knattspyrnuiðkunar. Leikurinn var í góðu jafnvægi þar sem að bæði lið skiptust á að sækja og skapa sér færi. Huginn náði svo að skora á 27 mínútu þegar að Marko Nikolic náði að koma boltanum í netið eftir klafs í teig okkar. Eftir þetta sóttum við í okkur veðrið og hófum stórsókn. Golli komst í dauðafæri þegar að hann slapp einn innfyrir vörn Hugins en Atli Gunnar Guðmundsson markvörður þeirra sá við honum. Það var svo á 45 mínútu að Dalibor komst í gott færi sem að hann kláraði vel og jafnaði metin í 1-1. Huginn tók miðju og í því flautaði dómarinn til leikhlés.Huginn byrjaði svo síðari hálfleikinn af miklum krafti og uppskar vítaspyrnu þegar að einum Huginsmanni var brugðið innan vítateigs á 52 mínútu. Friðjón Gunnlaugsson steig á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi fram hjá Viktori sem að kom engum vörnum við. Gestirnir komnir í vænlega stöðu og drógu sig aðeins tilbaka og beittu skyndisóknum. Sóknin hjá okkur þyngdist smátt og smátt og á 73 mínútu jafnaði Ingólfur Golli metin þegar að hann slapp aftur einn innfyrir og í það skiptið kláraði hann færið af mikilli yfirvegun. Staðan orðin 2-2 og skammt eftir af leiknum. Aðeins fimm mínútum síðar var Golli aftur á ferðinni þegar að hann fékk góða sendingu innfyrir vörn gestanna. Hann gerði engin mistök þegar að hann skoraði fram hjá Atla í markinu og kom okkur í  3-2. Við þéttum vörnina eftir þetta mark og náðum að halda út og innbyrða fyrsta sigur sumarsins. 3 stig staðreynd en okkur var spáð neðsta sæti deildarinnar fyrir mót eins og frægt er orðið. 


Skrifað af Tommi

13.05.2013 12:52

Tap gegn Stjörnunni 3-2

Sigurviljann vantaði hjá Víkingum í Garðabænum


13. maí 2013

Víkingar eru enn án stiga í Pepsídeildinni eftir 3:2 tap á móti Stjörnunni í Garðabænum í gær. Víkingar virtust ekki tilbúnir í leikinn og voru slakir í fyrri hálfleiknum þegar Stjörnumenn náðu tvívegis að skora. Næsti leikur Víkings verður á heimavelli næsta fimmtudagskvöld, þegar Keflvíkingar koma í heimsókn. Þeir eru einnig án stiga í deildinni. Víkingar gáfu heimamönnum í Stjörnunni fullmikið frjálsræði í fyrri hálfleiknum á "teppinu" í Garðabænum. Það kostaði að heimamenn skoruðu tvívegis, Halldór Orri Björnsson á 11. mínútu og Jóhann Laxdal skömmu síðar eða á þeirri 14. Ejub hélt skammarræðu yfir sínum mönnum í hálfleik og Víkingar komu ákveðnir til seinni hálfleiks. Björn Pálsson náði strax að minnka muninn á 49. mínútu.

 

 

 

 

Víkingar börðust áfram og voru allt eins líklegir til að jafna metin, en þess í stað skoraði bakvörðurinn Jóhann Laxdal aftur fyrir Stjörnuna á 72. mínútu. Þótti það mark í ódýrari kantinum. Víkingar náðu að skora undir lok leiksins, Damir Muniwic, en það var full seint. Silfurskeiðin fagnaði í lokin fremur öruggum sigri sinna manna.

 

Ejub Purisevic þjálfari Víkings sagði eftir leikinn að von væri á þremur nýjum leikmönnum í vikunni, einum varnarmanni og tveimur sóknarmönnum. Ekki verður þó að telja líklegt að þeir verði komnir í hópinn hjá Víkingum fyrir leikinn gegn Keflvíkingum á fimmtudagskvöldið, enda á lið Víkings eins og það er nú skipað að geta halað inn stig, þótt nokkuð virtist skorta á sjálfstraustið í Garðabænum.

 

08.05.2013 11:57

Áheitahlaupið gekk vel


Áheitahlaup Snæfellsnessamstarfsins

fór fram sunnudaginn 5. maí. Í hlaupinu tóku þátt börn sem æfa fótbolta á

Snæfellsnesi. Í vikunni áður höfðu börnin gengið í hús og fyrirtæki í Stykkishólmi,

Grundarfirði og Snæfellsbæ, í söfnun áheita, gekk vel að safna og var vel tekið á móti

börnunum. Á sunnudeginum hófu svo börnin í Stykkishólmi hlaupið klukkan 8:00 um

morguninn  og hlupu frá Íþróttamiðstöðinni í Stykkishólmi að afleggjaranum að Bjarnarhöfn

þar sem börnin úr Grundarfirði tóku við og hlupu að afleggjaranum að Kvíabryggju.

Þar tóku  börnin úr Snæfellsbæ við um hádegisbil  og hlupu að Vegagerðarhúsinu í Ólafsvík en

þar bættust börnin úr Grundarfirði og Stykkishólmi  aftur í hópinn.

Hópurinn, um það bil 100 börn, hljóp svo fylktu liði inn í Ólafsvík að Fiskiðjunni Bylgju

þar sem boðið var upp á pylsuveislu og svala. Börnin fjölmenntu svo að sjálfsögðu á

leik Víkings og Fram í Pepsídeildinni sem fram fór á Ólafsvíkurvelli sama dag.

Auglýsing 5. maí 2013


07.05.2013 11:20

Rokleikur í Ólafsvík

Pepsídeildin
Ólafsvíkurvöllur
Sunnudaginn 5.maí 2013 kl. 17.00

Víkingur Ó - Fram   1 - 2  (1 - 2)

0-1 Almar Ormarsson (11.mín)
0-2 Bjarni Hólm Aðalsteinsson (36.mín)
1-2 Steinar Már Ragnarsson (38.mín)


Fjölmiðlarnir eru byrjaðir að reyna að brjóta okkur niður. Gott dæmi er síðasta setningin í umfjölluninni í Morgunblaðinu í morgun. Menn dæma liðið strax eftir leik þar aðstæður til fótboltaiðkunnar voru ekki góðar, rok og kuldi.

Lið Víkings Ó er léttleikandi lið. Þeir vilja hafa boltann og spila honum sín á milli. En þegar þeir lenda í rokleikjum þurfa þeir að spila stórkarlalega og það á ekki við þá. Það var erfitt að hemja og reikna út boltann í rokinu og ef Víkingur Ó hefði náð skora á undan Fram að þá hefði þetta snúist við. Við hefðum stillt upp sterkri vörn og Fram hefði lent í baslinu. Fyrsta markið var gríðarlega mikilvægt í þessum leik, eins og kom í ljós. Það var vendipunkturinn.

En hvers vegna vann Fram leikinn? Ég er búinn að horfa á leikinn þrisvar sinnum og niðurstaðan er sú að Frammararnir voru heppnir. Þeir spiluðu á móti vindinum þegar gott var að spila gegn honum. Síðan bætti alltaf meir og meir í vindinn eins Veðurstofan hafði spáð. Fram hafði náð að skora heppnismark á 11.mínútu þegar einn varnarmanna Víkings Ó rann um koll á blautum og sleipum vellinum. Eftir fyrri hálfleikinn sem lauk 1-2 Fram í hag, breyttu þeir um taktík. Þeir stilltu upp varnarkerfi 4-1-4-1 og lágu aftarlega og freistuðu þess að halda fengnum hlut. Skynsamlega gert hjá þeim og ekkert við því að segja. Gegn þessari þéttu vörn og gríðarlega sterkum mótvind áttu Víkingarnir í miklu bastli með að komast upp völlinn. Fram sótti ekki mikið undan vindinum, þeir lágu bara í vörn og treystu á Steven Lennon og tvo aðra sem fylgdu fram og studdu hann þegar við átti.

Það tala margir um það að Framliðið hafi verið betra í þessum leik. Ég ósammála því. Þeir voru aðallega í því í seinni hálfleik að verjast og spyrna boltanum í burtu. Hvorugt liðið var að spila vel vegna aðstæðna og það er algjör óþarfi að hygla öðru liðinu bara af því að það vann leikinn sökum heppni.

Ég skora á fólk að fara út þegar rok er og taka spretthlaup gegn vindinum með bolta! Þá getur fólk áttað sig á því hvernig það er að spila fótbolta gegn sterkum vindi. Þetta þurftu leikmenn Víkings Ó að glíma við í seinni hálfleik.  

Næsti leikur Víkings Ó er næsta sunnudag kl.19.15 á útivelli gegn Stjörnunni. Við mætum þar að sjálfsögðu.

Helgi Kristjánsson

05.05.2013 18:48

Síðastliðinn föstudagskvöld hélt Víkingur Ólafsvíkur kynningu á leikmönnum meistaraflokks og kvennaflokks. Fjölmargir stuðningsmenn mættu þegar liðið var kynnt en það leikur nú eins og kunnugt er í fyrsta skipti í úrvalsdeild. Íslandsmótið hefst einmitt í dag m.a. með heimaleik Víkings Ó gegn Fram. Áður en leikmenn voru kynntir var horft á þátt Stöðvar2 Sport þar sem kynnt eru liðin sem spila í efstu deild. Ársmiðar voru seldir auk ýmissa muna sem tengjast liðinu. Loks var nýr búningur frumsýndur og voru menn sammála að hann væri vel heppnaður, en á meðfylgjandi mynd skarta fjórir leikmenn treyjunum.

 

05.05.2013 18:45

UMFG áfram í Borgunarbikarnum

Áfram í bikarnum

Í dag mætti UMFG liði Kóngana á Framvellinum í Reykjavík. Þetta var leikur í fyrstu umferð Borgunarbikarsins en síðan liðið var sett á laggirnar þá höfum við ekki riðið feitum hesti frá fyrstu umferð bikarsins. Árið 2010 mættum við Aftureldingu og lutum í gervigras 3-0. 2011 lágum við fyrir Elliða 5-2 í Egilshöll og í fyrra töpuðum við 2-1 fyrir ÍH í Hafnarfirði. 
Nú var loksins komið að því að komast áfram og það tókst. Byrjunarliðið var þannig skipað.

Viktor í marki
Tryggvi, Óli Hlynur, Ragnar Smári, Kári, Jón Pétur, Dominik, Heimir Þór, Ingólfur, Predrag og Dalibor
Bekkurinn var Linta, Ingi Björn, Svanlaugur, Hilmar Orri og Villi P.

Dominik og Ólafur Hlynur komu til okkar að láni frá tilvonandi spútnikliði Pepsideildarinnar í gær.

Golli byrjaði á að skora mark sem var dæmt af vegna rangstöðu. Ranglega að okkar mati en ekki var hægt að deila við ágætan dómara leiksins um það. 

Kóngarnir komust svo yfir 1-0 á 22 mínútu en aðeins 5 mínútum síðar jafnaði Dalibor Lazic metin en hann er nýkominn til okkar frá Þrótti Vogum. 

Staðan var jöfn í hálfleik 1-1. 

Í síðari hálfleik hrökk Ingólfur í gang en hann skoraði næstu 3 mörk á 48 mín, 61 og 65 mínútu og kom okkur í 4-1. Einn kóngurinn var svo rekinn útaf fyrir groddalegan leik en sá var nýkominn inná sem varamaður. 

Fínn sigur í fyrsta leik og það er ærið verkefni sem bíður í næstu umferð því að þá þurfum við að skella okkur á Suðurnesin og etja kappi við Reyni frá Sandgerði. 


Ingólfur var með 3 í dag.
Skrifað af Tommi

05.05.2013 18:44

Ungmenni úr Snæfellsnessamstarfinu hlupu áheitahlaup

5. maí 2013

Um eitt hundrað börn og ungmenni úr Snæfellsnes-samstarfinu hlupu í dag áheitahlaup frá Stykkishólmi til Ólafsvíkur. Lagt var af stað frá Íþróttahúsi Stykkishólms klukkan 8 í morgun en hlaupinu lauk við Fiskiðjuna Bylgju klukkan 15. Þar var boðið upp á grillaðar pylsur og Svala fyrir svanga og þreytta hlaupara. Að grillveislunni lokinni verður svo öllum iðkendum Snæfellsnessamstarfsins sem mæta í Snæfellsnesbúningnum boðið á leik Víkings og Fram í Pepsídeildinni. Leikurinn hefst klukkan 17:00 í dag á Ólafsvíkurvelli.

05.04.2013 17:01

5fl kvenna og 4fl karla í futsal um helgina

4. flokkur karla keppir til úrslita í futsal um helgina

4. flokkur karla leikur um helgina til úrslita í futsal þar sem liðið leikur gegn Álftnesingum og Fylkismönnum. Leikirnir fara fram í íþróttahúsinu á Álftanesi og hefst fyrsti leikurinn kl. 13:30.

sun. 07. apr        13:30     Innimót - 4. fl. karla Ú1 Snæfellsnes - Álftanes

sun. 07. apr        14:04     Innimót - 4. fl. karla Ú1 Fylkir - Snæfellsnes


Leikir hjá 5. Flokk kvenna um helgina

Heilir og sælir foreldrar góðir.

Stelpurnar í 5. Flokki keppa tvisvar núna um helgina, annars vegar í úrslitakeppni futsalsmótsins sem fer fram á Álftanesi laugardaginn 6. apríl og hins vegar í Faxaflóamótinu á sunnudaginn. Sökum þess að einungis 5 leikmenn eru inn á í einu í futsalkeppninni verða 7 stelpur valdar til að spila í futsal-keppninni á laugardeginum

lau. 06. apr         13:30     Snæfellsnes - Álftanes

lau. 06. apr         14:00     Breiðablik - Snæfellsnes

lau. 06. apr         15:00     Snæfellsnes - UMFL

lau. 06. apr         15:45     Fylkir - Snæfellsnes


Á sunnudeginum (7. apríl) mæta stelpurnar svo Gróttu-stelpum í Faxaflóamótinu á Gróttuvelli kl. 13:00. Þá eiga allar stelpurnar í flokknum að mæta þar sem bæði A og B lið flokksins keppa.

sun. 07. apr        13:00     Grótta - Snæfellsnes

sun. 07. apr        13:50     Grótta - SnæfellsnesHSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 79
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 514
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 3294555
Samtals gestir: 253637
Tölur uppfærðar: 20.1.2018 03:10:10
Flettingar í dag: 79
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 514
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 3294555
Samtals gestir: 253637
Tölur uppfærðar: 20.1.2018 03:10:10