Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Flokkur: Knattspyrna

04.07.2013 00:55

Jafnt í Ólafsvík

Mynd: Þröstur Albertsson
Víkingur Ólafsvík 0 - 0 Fylkir

Markalaust jafntefli var í steindauðum fallbaráttuslag á Ólafsvík þar sem bæði lið virtust sætta sig við stigið.

Einar Hjörleifsson kom heimamönnum nokkrum sinnum til bjargar með góðum markvörslum en hafði þó ekki mikið að gera í leiknum.

Bjarni Þórður Halldórsson í marki gestanna hafði mjög lítið að gera og þurfti sjaldan að bregðast við.

Fylkir er á botni deildarinnar ásamt ÍA, en Ólafsvíkingar eru tveimur stigum ofar með fimm stig úr tíu leikjum.

Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://fotbolti.net/news/03-07-2013/pepsi-deildin-jafnt-i-fallbarattunni-a-olafsvik#ixzz2Y2Ahv3SB

02.07.2013 11:54

Tap hjá Víking gegn Haukastúlkum

Víkingur Ólafsvík 0 - 5 Haukar
0-1 Leikmaður óþekktur ('26)
0-2 Leikmaður óþekktur ('52)
0-3 Leikmaður óþekktur ('60)
0-4 Hulda Sigurðardóttir ('76)
0-5 Hulda Sigurðardóttir ('94)

Ólafsvíkingar fengu Hauka í heimsókn í fyrstu deild kvenna en fyrir leikinn voru Haukar með níu stig og Víkingar með fimm.

02.07.2013 11:49

Grundarfjörður vann Augnablik


Frábær leikur í gær sem endaði með 4-1 sigri okkar gegn Augnablik. Loksins loksins segjum við.

Mörkin skoruðu Heimir Þór 2, Dalibor og Vincent.02.07.2013 11:47

Víkingur með sigur á ÍA

Víkingar sigruðu í Vesturlandsslagnum


Víkingur Ólafsvík og Skagamenn áttust við í sannkölluðum Vesturlandsslag í gærkvöldi í Pepsídeild karla. Lauk leiknum með 1:0 sigri Víkings. Þessi úrslit þýða að Víkingur eru nú komnir úr fallsæti, eru í því 10. með fjögur stig, en ÍA færist í 11. sætið og er áfram með sín þrjú stig. Í botnsætinu eru Fylkismenn með tvö stig. Vel var mætt á leikinn, heimamenn fylltu stærstan hluta áhorfendastúkunnar en mikið var einnig af Skagamönnum sem höfðu gert sér ferð vestur. Leikurinn var frekar bragðdaufur framan af og áttu hvort liðið sitt hvort færið í fyrri hálfleiknum. Skagamenn skalla á mark sem bjargað var á línu og hinu megin áttu Víkingsmenn sömuleiðis skalla þar sem boltinn skoppaði í þverslána.

 

 

 

Víkingsmenn byrjuðu seinni hálfleik af meiri krafti en Skagamenn og uppskáru vítaspyrnu á 78. mínútu. Páll Gísli markvörður Skagamanna varði spyrnuna frá Guðmundi Magnússyni en hann fylgdi vel eftir og skoraði. Eftir markið datt leikurinn enn meira niður en Skagamenn færðu sig aðeins fram á völlinn. Þeir uppskáru þó einungis eitt færi og það kom í blálokin. Garðar Bergmann Gunnlaugsson átti hörkuskot sem endaði efst í stönginni. Þar með var fyrsti sigur Víkings Ólafsvík í efstu deild staðfestur og braust út mikill fögnuður á Ólafsvíkurvelli.

 

Skammt er stórra högga á milli hjá Vesturlandsliðunum. Strax á miðvikudagskvöldið verða þau aftur í eldlínunni í Pepsídeildinni og eiga þá mjög mikilvæga leiki í botnbaráttunni. Víkingar fá þá botnlið Fylkis í heimsókn og á sama tíma mætast á Akranesvelli ÍA og Þór frá Akureyri, sem gerði sér lítið fyrir og sigraði Keflvíkinga suður með sjó á sunnudag.

26.06.2013 09:02

Evrópukeppni Futsal leikið í Ólafsvík

Víkingur Ólafsvík tekur þátt í Evrópukeppninni í Futsal | Leikið í Ólafsvík

Víkingur Ólafsvík mun 27. ágúst til 1. september 2013 taka þátt í Evrópukeppni UEFA í Futsal sem nú er haldin í 13 sinn. Víkingur tryggði sér þátttökurétt í mótinu þegar liðið varð Íslandsmeistari í byrjun þessa árs og það sem meira er þá verður riðill Víkings spilaður í Ólafsvík.

Forráðamenn félagsins sóttust eftir því að fá keppnina hingað heim í byrjun sumars og í dag var félaginu kunngjört að Snæfellsbær verður gestgjafi eins riðils í forkeppni mótsins.

Fyrirkomulag keppninnar er þannig að 29 lið taka þátt í forkeppni þar sem liðunum er skipt í 8 riðla, 5 fjögurra liða riðla og 3 þriggja liða riðla. Sigurvegari hvers riðils fyrir sig kemst áfram í aðalkeppnina þar sem fyrir eru 16 lið.

Dregið verður í riðla þann 3. júlí og í framhaldinu verður haldinn kynningarfundur á keppninni í Snæfellsbæ.

Hér er stórt verkefni fyrir lítið en öflug félag sem án efa mun standa sig með miklum ágætum hvort sem er á vellinum sjálfum eða í framkvæmd mótsins.


UEFA Futsal Ólafsvík 2013

24.06.2013 15:09

Tap gegn ÍA.

Stúlkurnar í Víking Ólafsvík töpuðu stórt fyrir ÍA. Snemma í leiknum urðu Víkingsstúlkur fyrir áfalli en markmaður þeirra meiddist illa og kom ekki meir við í leiknum. Maren Leósdóttir skoraði fyrsta mark leiksins áður en Helga Sjöfn Jóhannesdóttir bætti við öðru. Eyrún Eiðsdóttir kom með þriðja mark ÍA í seinni hálfleik og þá bætti Ingunn Dögg Eiríksdóttir við fjórða markinu.

Helga Sjöfn skoraði svo fimmta mark Skagaliðsins og þegar sex mínútur voru eftir skoraði Heiðrún Sara Guðmundsdóttir sjötta og síðasta mark leiksins.Víkingur Ólafsvík 0-6 ÍA
0-1 Maren Leósdóttir ('13 )
0-2 Helga Sjöfn Jóhannesdóttir ('29 )
0-3 Eyrún Eiðsdóttir ('51 )
0-4 Ingunn Dögg Eiríksdóttir ('74 )
0-5 Helga Sjöfn Jóhannesdóttir ('78, víti )
0-6 Heiðrún Sara Guðmundsdóttir ('84 )

24.06.2013 12:48

Knattspyrnunámskeið hjá UMFG

Fótboltanámskeið

Meistaraflokkur Grundarfjarðar stendur fyrir knattspyrnunámskeiði fyrir krakka á aldrinum 6-16 ára.
Námskeiðið hefst mánudaginn 24. júní og verður í 2 vikur.
Kennt verður á mánudögum, þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum.
Árgangar 2007-2004 verða kl. 14:00 - 15:15
Árgangar 2003-1998 verða kl 15:30 - 17:00

Umsjónarmaður verður Aleksandar Linta aðalþjálfari Grundarfjarðarliðsins. Honum til halds og trausts verða leikmenn meistaraflokksins. Svo er aldrei að vita nema að óvæntir gestir kíki við á æfingu hjá krökkunum. Svo verður grillveisla síðasta daginn.
Verð: 1 barn er 6.000 kr.
Verð: 2 börn 10.000 kr.
Verð: 3 börn 14.000 kr.
Skráning fer fram við mætingu á fyrsta degi þann 24. júní.

24.06.2013 09:36

Stórt tap UMFG gegn ÍH

ÍH 6 - 0 Grundarfjörður
1-0 Andri Magnússon
2-0 Eiríkur Viljar Kúld
3-0 Andri Magnússon
4-0 Eiríkur Viljar Kúld víti
5-0 Eiríkur Viljar Kúld
6-0 Eiríkur Viljar Kúld

Eiríkur Viljar Kúld skoraði fjögur af sex mörkum ÍH sem vann öruggan sigur gegn Grundarfirði í 3. deildinni í kvöld.

Staðan í 3. deildinni er vægast sagt áhugaverð en fimm lið eru jöfn á toppnum með 12 stig hvert. Það eru Fjarðabyggð, Huginn, Leiknir F og Víðir sem hafa lokið fimm leikjum og svo ÍH sem er búið með sex leiki.

Grundarfjörður er með 6 stig í 8. sæti af tíu liðum. Magni er einnig með sex stig og Kári rekur lestina án stiga.

24.06.2013 09:34

UMFG 1 - KFR 2

Svekkjandi og ósanngjarnt 1-2 tap. Hemmi með okkar mark. - á/í Grundarfjordur, Iceland.
Mynd
Mynd
Mynd
Mynd

24.06.2013 09:24

Frábær frammistaða á KR vellinum

24. júní 2013 klukkan
Pepsídeildin
KR völlur
Sunnudaginn 23.júní 2013 kl. 19.15

KR - Víkingur Ó  2-1 (0-1)

0-1 Alfreð Már Hjaltalín (3.mín)
1-1 Gary Martin (68.mín, víti)
2-1 Óskar Örn Hauksson (68.mín)

Það má segja það með sanni, að Erlendur Eiríksson dómari í leik KR og Víkings Ó hafi bjargað Lengjunni frá gjaldþroti þegar hann dæmi mjög umdeilt víti á Víking Ó þegar um 20 mínútur voru eftir af leik liðanna. Lengjan hafði á einhvern óskiljanlegan hátt sett 12,80 á sigur Víkings Ó!!!! Vítaspyrnudómurinn kom öllum á óvart. En það munaði litlu að Einari Hjörleifssyni tækist að verja víti Gary Martins þegar hann las hann rétt og varði spyrnuna hans. En það var eins og boltinn væri eggjóttur því hann hafnaði í stönginni og kastaðist þaðan útá völlinn og skrúfaðist síðan undir Einar og í netið. Gríðarlegar heppnisstimpill á þessu marki hjá KR og reyndar líka á sigri þeirra í leiknum. KR þótti spila illa í leiknum og hvers vegna? Jú, Víkingur Ó leyfði þeim ekkert að spila neitt betur. Þú spilar ekki betur en andstæðingurinn leyfir þér stendur einhverstaðar.

Hlutir eins og fallbyssufóður, 6-0 burst og fleira neikvætt um okkur sást ekki á vellinum í kvöld og þurfa þeir sem misstu þessi orð útúr sér á éta þau ofaní sig. (Tómas Ingi og Henry Birgir). Það gæti líka verið erfitt fyrir Hjörvar Hafliðason að fjalla um okkur í næsta þætti og éta eitthvað ofaní sig í Pepsímörkunum. Hann er búinn að tala okkur niður frá 1.umferð. Þessi menn verða að átta sig á því að Víkingur Ó er búinn að vera með alla framherjana í meiðslum í allt sumar og glugginn lokaður.   

En þessi leikur byrjaði vel fyrir Víking Ó Ejub var búinn að segja það í Útvarpi KR að liðið myndi liggja til baka og beita skyndisóknum. Jú, liðið gerði það og gerði meira, það sótti mun framar á KRingana en þeir héldu. Það má segja það að Víkingur Ó hafi verið betra liðið í þessum leik heilt yfir og tapaði leiknum ósanngjarnt. KR átti sína kafla líka og það verður ekki tekið af þeim. Þeir áttu nokkur hættuleg færi í fyrri hálfleiknum og hefðu kannski getað jafnað en því miður fyrir þá, tókst þeim það ekki.

Strax á 3ju mínútu leiksins fékk Víkingur Ó horn eftir sóknaraðgerð. Eldar Masic tók spyrnuna og sendi háan bolta utarlega á vítateiginn þar sem Guðmundur Magnússon var staddur og hann lét bara vaða á markið og boltinn steinlág í markinu án þess að landsliðsmarkvörðurinn Hannes Halldórsson hreyfði legg né lið. Einhverjir fjölmiðlar vildu meina að Alfreð Már Hjaltalín hafi breytt stefnu boltans eða varnarmaður og verðum við að bíða eftir Pepsímörkunum til að fá þetta staðfest hver gerði markið. Þangað til skrái ég það á Guðmund Magnússon.

Það var mjög þægilegt að leiða 1-0 á KR vellinum. Þessi staða hefur svo sannarlega glatt marga á Hlíðarenda, Kaplakrika, Vestmannaeyjum og í Kópavogi. Þó KRingar telji upp öll sín færi í viðtölum og reyni með veikum mætti að telja mönnum trú á því að þeir hefðu átt að skora ógrynni af mörkum þá fékk maður aldrei á tilfinninguna að við værum að fara að fá á okkur mark. Vörnin var frábær, markvarslan var frábær, miðjan var frábær. En mjög líklega tókst KR að komast inní leikinn eftir dómaramistök. En þið tókuð eftir að ég skrifaði LÍKLEGA. Það kemur í ljós á morgun þegar Pepsímörkin sýna frá leiknum.

Mín skoðun er sú að ef KR hefði ekki fengið þetta víti að þá hefðum við klárað leikinn með sigri. Þvílík vinnusemi, barátta, dugnaður og skipulag var á Víkings Ó liðinu.

Víkingur Ó hefur sýnt það bæði gegn KR og Fram í síðasta leik að liðið er komið í gang. Nú þarf bara að klára sem fyrst leik með sigri og þá koma fleiri í kjölfarið. Liðið er þrælsterkt og gaman á að horfa.

Allir leikmenn liðsins 11 talist áttu frábæran leik í kvöld og það er á engan hallað þegar ég segi það að mjög líklega hefur spánverjinn í liðinu hann Insa Bohigues Francisko átt bestan leik í umferðinni. Þeir þurfa að vera góðir á morgun ef þeir ætla að skáka honum. Hann var stórkostlegur í leiknum. Leysti allar leikstöður frábærlega, klobbaði KRingana eins enginn væri morgundaginn og var áhorfendavænn. Toppleikur hjá toppleikmanni. Eldar Masic átti frábæran leik í kvöld, allur að koma til og spilaði í kvöld eins og við þekkjum hann best. Sá þriðji sem ég vel er Einar Hjörleifsson, þið vitið útaf hverju.

Í fyrsta sinn í nokkur ár skipti Ejub engum varamanni inná. Mér fannst ekki vera nein þörf á því í þetta sinn. Liðið er í svo góðu formi að það þolir léttilega 120 mínútur ef svo ber undir og þetta var kannski ekki rétti leikurinn til að gefa ungu varamönnunum tækifæri.

Ég gef öllum leikmönnum Víkings Ó 8 í einkunn nema Insa Bohigues Francisko sem fær 9. Hann gjörsamlega heillaði mig með sinni spilamennsku í kvöld.

Næsti leikur Víkings Ó er á Ólafsvíkurvelli sunnudaginn 30.júní gegn ÍA. Sex stiga leikur eins og sagt er.

18.06.2013 13:45

FH ingar sterkir

Pepsídeildin
Ólafsvíkurvöllur
Sunnudaginn 16.júní 2013

Víkingur Ó - FH  0-4 (0-2)

0-1  Freyr Bjarnason (5.mín)
0-2  Sjálfsmark (35.mín)
0-3  Guðmann Þórisson (52.mín)
0-4  Atli Viðar Björnsson (77.mín)

Byrjunarlið Víkings Ó.: Einar Hjörleifsson, Alfreð Már Hjaltalín, Damir Muminovic, Insa Kiko, Tomasz Luba, Björn Pálsson, Farid Zato, Brynjar Kristmundsson, Eldar Masic, Guðmundur Magnússon og Arnar Már Björgvinsson. Varamenn sem komu inná: Steinar Már Ragnarsson, Fannar Hilmarsson og Vignir Snær Stefánsson. Ónotaðir varamenn: Kaspars Ikstens, Kristinn M. Pétursson, Anton Jónas Illugason og Guðmundur Steinn Hafsteinsson. Meiddir: Jernej Leskovar, Eyþór Helgi Birgisson. Í leikbanni: Emir Dokara.

Víkingur Ó hefur nú notað 21 leikmann í Pepsídeildinni.

Það var vitað að Íslandsmeistararnir væru með sterkt lið og þess vegna viðbúið að þessi leikur gæti farið illa. En fjögur núll bjuggust fáir við. FH hafði tapað sínum leik gegn KR á heimavelli í umferðinni á undan og þess vegna var vitað að þeir myndu koma dýrvitlausir í þennan leik. Vitað var að þeir myndu beita hápressu strax í byrjun og freista þess að setja mark sem allra fyrst. Ef það tækist ekki hjá þeim fyrstu 20 mínúturnar að þá var viðbúið að þeim myndu færa sig til baka og reyna að lokka Víkings Ó liðið framar á vellinni og beita skyndisóknum í einhvern tíma. Þar hefðu okkar möguleikar gegn þeim í fyrri hálfleik geta legið. En þeir fengu óskabyrjun og skoruðu strax á 5. mínútu. Annar leikurinn í röð sem við fáum á okkur mark strax á 5.mínútu og það er okkur dýrt. En nú fengum við að halda áfram 11 inná vellinum.

Við áttum alveg í fullu tré við FH í fyrri hálfleiknum en við erum þessa dagana frekar bitlausir framávið vegna meiðsla sóknarmanna hjá okkur og kannski vegna þess hve við erum frekar varnarsinnaðir á miðjunni. En þetta á eftir að lagast. Byrjunin hjá okkur minnir mig á árið 2006 í 1.deildinni. Það var í 9.umferð að við unnum okkar fyrsta leik það árið og um haustið enduðum við í 7.sæti með 19 stig og fjóra sigra, sjö jafntefli og sjö töp. Það var 10 liða deild. Ég trúi því statt og stöðugt að fyrsti sigurinn er innan seilingar og þegar hann næst fer liðið heldur betur í gang.

Hann var vel sóttur leikurinn í Ólafsvík á okkar mælikvaða. 745 áhorfendur mættu á leikinn og stuðningsmenn Víkings Ó eiga heiður skilið að gefast ekki upp þó liðinu gangi verr en við vildum. Leikmennirnir mega vita það að stuðningsmennirnir munu aldrei snúa baki við þeim og sama með Ejub þjálfara. Það er ekkert smá afrek sem stjórn félagsins, Ejub og hans menn hafa náð með liðið, úr neðstu deild í þá efstu á 9 árum. Samhliða þessum glæsta árangri okkar klúbbs hefur aðstaðan á vellinum byggst upp og í dag á Ólafsvík einn glæsilegasta fótboltavöll landsins.

Það eru ákveðnir leikir sem eru okkur mikilvægari en aðrir í deildinni. Það eru leikirnir gegn liðunum í neðri hlutanum. Þar liggja stigin okkar frekar en gegn "risunum". Það er bónus ef okkur tekst að vinna inn stig gegn fjórum efstu liðunum og það verður að sjálfsögðu reynt að gera, en ef það tekst ekki eins og á móti FH að þá grátum við það ekki. FH kemur til með að vinna flest öll liðin sem við erum að keppa við og sama með KR og Val. En gegn öðrum liðum skulum við gera allt til að vinna. Við nefnilega vitum hvar við stöndum og markmiðið hjá okkur er sama og hjá öllum liðunum í kringum okkur í töflunni að við ætlum að gera allt til þess að halda sæti okkar í deildinni. Eftir þetta keppnistímabil vitum við betur hvernig þessi deild er. Einn sigur og við erum komnir úr fallsæti ef ákveðnir aðrir leikir fara eins og við viljum. Það er ekkert búið að stinga okkur af og þessi slæma byrjun, sem er í raun besta byrjun okkar í Pepsídeildinni á ferlinum, hefur í sjálfu sér ekkert skaðað okkur. Boltinn er bara ennþá hjá okkur. En það væri gaman setja allt á annan endann hjá sparkspekingunum og knattspyrnuhreyfingunni með því á hirða stig á KR vellinum í næsta deildarleik. Við getum það alveg.

En snúum okkur aftur að leiknum gegn FH. Það var rjómablíða í Ólafsvík fimm mínútum fyrir leik og auðvitað um leið og Örvar Sær Gíslason (bróðir Rúnars Freys Gíslasonar leikara) flautaði leikinn á að þá byrjaði að blása. En það bjargaðist því vindurinn varð aldrei verulega sterkur að hann hefði áhrif á leikinn.

Byrjunin eins og ég nefndi áðan var ekki sú sem við vildum sjá. En þrátt fyrir þetta stóra tap sem mér ásamt fleirum fannst í stærra lagi var Víkings Ó liðið að leggja sig fram. Strákarnir börðust um alla bolta og vinnusemin í liðinu var til fyrirmyndar. Ekkert útá það að kvarta. En það sem mér finnst liðið mætti laga, er það sem sást lítið hjá liðinu síðustu árin og er komið í liðið, það er of mikið af háum boltum yfir tengiliðina og fram á fremstu menn og líka allt of mikið af sendingum aftur á markvörðinn sem síðan sparkar boltanum út og mótherjinn oft á tíðum vinnur þannig boltann af okkur. Kantspilið þyrfti að vera öflugra og þaðan eiga að koma eitraðar sendingar fyrir markið um leið og boltinn er kominn langleiðina að hornfána. Leikmenn mættu líka róa sig aðeins niður og horfa betur í kringum sig, en það er hraðinn í deildinni sem kemur okkur kannski mest á óvart og við honum verðum við að bregðast. Það er minni tími sem leikmenn fá með boltann en í 1.deildinni og þess vegna þyrftu menn að hafa einhver ráð til að grípa í þegar liðið liggur undir mikilli pressu. Til dæmis að kantmennirnir spili sig betur fría til að hægt sé að losa boltann til þeirra og á meðan geta aðrir leikmenn hlaupið í "holurnar" sem myndast í varnarmúr mótherjanna. En þetta voru mínar hugrenningar um liðið.

En þegar upp er staðið að þá var þetta sanngjarn sigur FH. Fyrsta markið sem kom mjög snemma skipti miklu máli fyrir þennan leik og í stöðunni 0-1 var Guðmundur Magnússon leikmaður Víkings Ó felldur á markteig af varnarmanni FH og þar skorti Örvar Sæ hugrekki til að dæma víti og ef okkur hefði tekist að jafna leikinn á þeim tímapunkti hefði allt getað gerst í leiknum. En það er erfitt að vera nýliðar í stórri deild þar sem ákveðin lið hafa verið áskrifendur af sæti í tugi ára. Erfitt að brjóta það upp. Virðing fyrir "stóru" liðunum virðist einhvern veginn vera föst í hausnum á sumum dómurum. Mér finnst að það þurfi að koma upp svipuðu kerfi og er í Englandi, ef dómari verður uppvís af afdrifalíkum mistökum, líkt og dómarinn í síðasta leik okkar að þá skuli hann dæma í næstu umferð leik í lægri deildunum sem er minna borgað fyrir en í Pepsídeildinni. Öðruvísi vanda menn sig ekki.

Það var gaman að sjá ungan 16 eða 17 ára uppaldan stórefnilegan dreng Vigni Snæ Stefánsson (Kristóferssonar) koma inná og eiga góðan leik. Hann spilaði síðustu 10 mínúturnar og var kröftugur. Til hamingju Vignir með þinn fyrsta leik í Pepsídeildinni. Í síðasta leik setti Ejub, Anton Jónas Illugason inná gegn Breiðablik og Kristófer Jakobsen Reyes hefur einnig verið í leikmannahópnum. Allir Ólsarar. Nú virðist ný kynslóð sem hefur verið undir handleiðslu Ejub, Bega og fleiri góðra þjálfara að vera að byrja að skila sér uppí meistaraflokkinn. Glæsilegt.

Að mínu mati voru þrír bestu leikmenn Víkings Ó í leiknum þessir: Farid Zata (þrátt fyrir sjálfsmarkið og aðdraganda þess), Damir Muminovic og Tomasz Luba.

Næsti leikur verður í Borgunarbikarnum á Ólafsvíkurvelli næsta miðvikudag kl. 19.15. Mótherjinn er Pepsídeildarlið Fram sem hefur verið á mikilli siglingu eftir þjálfaraskiptin.Helgi Kristjánsson

18.06.2013 13:42

Stelpurnar með sigur á BÍ/Bolungarvík

Fyrsti sigur Víkings Ó í Íslandsmóti í sögunni.

1.deild kvenna.
Torfnesvöllur
Sunnudaginn 16.júní 2013

BÍ/Bolungarvík - Víkingur Ó.  0-1 (0-0)

0-1 Freydís Bjarnadóttir  (85.mín, víti)


Í dag vann meistaraflokkur Víkings Ó sinn fyrsta leik í Íslandsmóti þegar liðið lagði BÍ/Bolungarvík á útivelli 0-1. Við þennan sigur lyfti liðið sér upp í 5.sæti í riðlinum með 5 stig.

Næsti leikur liðsins verður föstudaginn 21. júní kl. 20.00 á Ólafsvíkurvelli gegn liði ÍA sem heyjir baráttu við Fylki um toppsætið í riðlinum.

Til hamingju með sigurinn, stelpur.
Helgi Kristjánsson

13.06.2013 08:54

2fl karla áfram í Bikarnum

Snæfellsnes strákarnir í 2. flokki spiluðu við Gróttu í

bikarkeppninni s.l. fimmtudag á Ólafsvíkurvelli. Áttu strákarnir

góðan  leik og komust yfir strax á annarri mínútu en Gróttustrákar náðu að  jafna á átjándu mínútu. Snæfellsnes  strákarnir gáfust ekki upp og komust aftur  yfir á 31. Mínútu  og staðan í hálfleik því 2 - 1.

Í seinni hálfleik héldu þeir áfram, gáfu ekkert eftir og endaði leikurinn 6 - 2.

Flottur árangur  hjá strákunum og Snæfellsnes er því komið áfram í bikarkeppninni í 2. flokki og spilar næst við Fylkir/Elliða þann 21. júní.

 

Þeir tóku svo á móti Sindra á Stykkishólmsvelli í íslandsmótinu sunnudaginn 9. júní.

Strákarnir náðu sér ekki á strik þrátt fyrir góða baráttu á köflum og

endaði sá leikur 1 - 2.

Þa.  Frétt úr jökli 13 júní

12.06.2013 11:11

Víkingsstúlkur með jafntefli og tap

Jafntefli og tap hjá kvennaliði Víkings

Söguleg stund var á Ólafsvíkurvelli þegar kvennalið Víkings Ó í meistaraflokki spilaði sinn fyrsta heimaleik í A-riðli Íslandsmótsins. Tóku þær á móti Tindastól, fyrri hálfleikur var rólegur en Víkingsstúlkur áttu mörg góð tækifæri. Í byrjun seinni hálfleiks skoraði Rakel Hinriksdóttir og staðan því 0 - 1 fyrir Tindastól. Stúlkurnar gáfust þó ekki upp og á 91 mínútu skoraði Lovísa Margrét Kristjánsdóttir fyrir Víking eftir mikla baráttu í teig Tindastóls og leiknum lauk með jafntefli 1 - 1. Að loknum tveimur leikjum eru stelpurnar í 6. sæti með 2 stig. Frítt var inn á leikinn í boði Sjávariðjunnar á Rifi.

Á Laugardaginn 8 júní tóku þær svo á mót Framstúlkum sem voru nokkuð sterkari og unnu leikinn 0-2

12.06.2013 09:44

Tap gegn Breiðablik

Dómaramistök eyðulögðu leikinn.

10. júní 2013 klukkan 21:00
Pepsídeildin
Kópavogsvöllur
Mánudaginn 10.júní 2013

Breiðablik - Víkingur Ó   2-0  (1-0)

1-0 Guðjón Pétur Lýðsson (5.mín, víti)
2-0 Guðjón Pétur Lýðsson (61.mín, víti)

Rautt spjald: Emir Dokara (Víking Ó) 5.mín.


Það var ofboðslegt að heyra það frá áhorfenda á vellinum að vítið og rauða spjaldið sem kom í upphafi leiksins væri sennilega rangur dómur og fá það síðan staðfest í Pepsímörkunum að dómarinn hafi "giskað" á atburðarásina. Það er bara ekki hægt að þegja yfir svona. Svona stórkostleg mistök eins og dómarinn gerði í leiknum eiga ekki að sjást í efstu deild. Það er verið að borga dómurunum 40.000 þús. kr fyrir hvern leik og þá eiga þeir að standa sig betur. Þetta var ekki annað en ágiskun hjá dómaranum þetta atvik þegar hann dæmdi víti á Víking Ó og rak Emir Dokara af velli. Hann getur ekki hafa séð brot þegar það var engin snerting eins og sjónvarpsvélarnar sýndu. Þetta var sorglegt, mjög sorglegt að sjá.

Hörður Magnússon skaut því að í Pepsídeildarmörkunum í kvöld hvort þetta væri dæmt svona af því að þetta væri Víkingur Ó! Guð hjálpi íslenskum fótbolta ef það er raunin.

Þetta atvik eyðilagði leikinn fyrir öllum.

Tveir ungir leikmenn hjá Víking Ó komu inná í leiknum og spiluðu þar af leiðandi sinn fyrsta leik í efstu deild á Íslandi. Þetta voru þeir Kristinn M. Pétursson og Anton Jónas Illugason.

Ég skrifa ekki meira um þennan leik.

Helgi Kristjánsson

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 360
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 514
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 3294836
Samtals gestir: 253656
Tölur uppfærðar: 20.1.2018 14:41:32
Flettingar í dag: 360
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 514
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 3294836
Samtals gestir: 253656
Tölur uppfærðar: 20.1.2018 14:41:32