Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Flokkur: Knattspyrna

16.09.2013 12:34

Foreldraráð hjá Snæfellsnessamstarfinu

Stofnun foreldraráðs | 5. 4. & 3. flokks kvk

Foreldrar iðkenda í 5. - 4. - og 3.flokks kvenna eru boðaðir á fund mánudaginn 16.september klukkan 20:00 í Samkomuhúsi Grundarfjarðar.

Umræðuefnið er stofnun foreldraráðs um þessa flokka og eflingu kvennaknattspyrnunnar á Snæfellsnesi.

Vonumst til þess að sjá sem flesta og fá góðar umræður.

Eygló, Jófríður, Kristjana, Þórður og Ingi

Ef nánari útskýrninga er þörf er hægt að hafa samband við Eygló í síma 863-0185

Vinsamlegast látið þetta berast til foreldra!

16.09.2013 12:32

3 deild lokið

7 sætiVið mættum í Garðinn í dag í lokaumferðinni. Við vorum töluvert betri aðilinn í þessum leik og hreinlega óðum í færum. Einn varnarmaður þeirra var rekinn af velli á 36 mínútu og vítaspyrna dæmd sem að því miður við náðum ekki að nýta. Staðan var 0-0 í hálfleik. Í seinni hálfleik náði Kári svo að skora af miklu harðfylgi en aðeins 4 mínútum síðar jafna þeir metin þegar að þeir sleppa 2 í gegn um vörnina. Gríðarlegur rangstöðufnykur var af þessu marki en línuvörðurinn sá eitthvað annað en allir aðrir á vellinum og flaggaði því ekki.Eftir þetta áttum við hvert færið á fætur öðru en náðum ekki að setja tuðruna í netið og því fór sem fór. 21 stig er uppskera sumarsins sem verður að teljast viðunandi árangur. 7 sætið þrem stigum frá fallsæti. 


Fleiri myndir í myndaalbúminu.

Við þökkum kærlega fyrir stuðninginn í sumar og sjáumst hress og kát næsta vor.
Skrifað af Tommi

28.08.2013 08:21

Víkingar lögðu Anzhi Tallinn

Eitt marka Anzhi Tallinn í leiknum við Víkinga í Ólafsvík í kvöld. stækka

Eitt marka Anzhi Tallinn í leiknum við Víkinga í Ólafsvík í kvöld. mbl.is/Alfons

Víkingur Ólafsvík vann Anzhi Tallinn, 8:7, H-riðli forkeppni Evrópumótsins í innifótbolta, futsal, en leikið var í íþróttahúsinu í Ólafsvík í kvöld. Ásamt Víkingi og Anzhi er gríska liðið Athina '90 í riðlinum. Grikkirnir mæta Eistlendingunum annað kvöld en á fimmtudag leikur Víkingur við Athina '90. Sigurlið riðilsins kemst áfram í næstu umferð.

Staðan í hálfleik í leik Víkings og Anzhi í kvöld var jöfn, 4:4.

Antonio Espinosa Mossi skoraði þrjú af mörkum Víkinga, Eyþór Helgi Birgisson gerði tvö mörk og Brynjar Kristmundsson, Juan Manuel Torres og Eldar Masic eitt mark hver.

27.08.2013 13:57

Evrópudeildin í Futsal. H-riðill spilaður í Ólafsvík

Víkingur Ólafsvík spilar á EM í Futsal í dag
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í dag hefst keppni í H-riðli í Evrópudeildinni í Futsal en leikið verður í Ólafsvík næstu þrjá dagana.
Snæfellingar eru hvattir til að fjölmenna í Ólafsvík og hvetja Víking.


Íslandsmeistarar Víkings frá Ólafsvík eru í riðli emð Anzhi Tallin frá Eistlandi og Athina 90' frá Grikklandi.

Fyrsti leikur riðilsins er í kvöld en þá mæta Ólafsvíkingar liði Anzhi Tallin.

Leikjaniðurröðun:
Víkingur Ó. - Anzhi Tallin (Í kvöld 20:00)
Anzhi Tallinn - Athina 90' (Á morgun 20:00)
Athina 90' - Víkingur Ó. (Fimmtudag 20:00)


Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://fotbolti.net/news/27-08-2013/vikingur-olafsvik-spilar-a-em-i-futsal-i-dag#ixzz2dB5H9JFo

27.08.2013 13:52

3 fl Íslandsmeistarar

3.flokkur karla hjá Snæfellsnesi Íslandsmeistarar í 7 manna boltanum.

25. ágúst 2013
Í dag varð 3.flokkur karla hjá Snæfellsnesi Íslandsmeistari í 7manna boltanum eftir að hafa unnið alla þrjá leiki sína í úrslitakeppninni á Akureyri nú um helgina. Þetta er í annað sinn sem þessi sami flokkur verður Íslandsmeistari í 7 manna boltanum. Árið 2011 varð 3.flokkurinn einnig Íslandsmeistari.

Þetta er glæsilegt hjá strákunum og vil ég óska þeim innilega til hamingju með þennan titil. Mér skilst að í hálfleik í leik Víkings Ó og Breiðabliks hafi strákunum verið fagnað innilega af stuðningsmönnum Víkings Ó.

Það væri fínt að fá mynd af flokknum senda inná Facebook síðuna mína og setja hana í safnið mitt um sögu Víkings Ó og þá líka nafnalistann. Getur einhver reddað því.

Leikir liðsins í úrslitakeppninni fóru þannig:

Snæfellsnes - Sindri                       6-4
Mörkin gerðu: Ármann Örn Guðbjörnsson 4, Kristófer James og Leó Örn Þrastarson.

Snæfellsnes - Tindastóll                  4-1
Mörkin gerðu: Svanlaugur Atli Jónsson, Sigurjón Kristinsson, Kristófer James og ekki vitað hver gerði það fjórða (veit það einhver?)

Snæfellsnes - Fjarðabyggð/Leiknir    3-0
Mörkin gerðu: Leó Örn Þrastarson 2 og Kristófer James.

Það væri líka gaman að fá að vita hverjir skoruðu mörkin í þessum leikjum.

Þjálfarar liðsins eru: Suad Begic, Dzevad Saric og síðan stjórnaði Vilberg Ingi Kristjánsson liðinu í úrslitakeppninni.  

Liðið spilaði 11 leiki í sumar. Vann 10 og tapaði einum gegn Grindavík á útivelli 3-5. Liðið skoraði 51 mark í sumar og fékk á sig 19.

Eftirtaldir leikmenn skipuðu liðið:


Ármann Örn Guðbjörnsson,  Kristófer Reyes Jacobsen, Kristófer James, Andri Már Magnason, Konráð Ragnarsson, Leó Örn Þrastarsson, Svanlaugur Atli Jónsson, Sumarliði Kristmundsson, Sanjin Horoz, Sigurjón Kristinsson, Elvar Smári Arnarsson, Helgi Sigtryggsson.
Helgi Kristjánsson

24.08.2013 08:30

Góður sigur hjá UMFG

Stórsigur á ÍH

Við tókum á móti ÍH á blautum Grundarfjarðarvelli föstudagskvöldið 23. ágúst. Fyrir leikinn var ÍH í þriðja sæti á meðan við vorum í því þriðja neðsta. 
Gestirnir sáu aldrei til sólar í þessum leik og við vorum komnir í 4-0 eftir 31 mínútu með mörkum frá Golla, Dalibor, Heimir og Hemma. Þeir náðu svo að minnka muninn eftir smá klaufagang hjá okkur og staðan var því 4-1 í hálfleik.
Í síðari hálfleik röðuðum við síðan inn mörkunum og voru þau orðin 5 áður en að dómarinn flautaði af. Golli setti tvö í viðbót en svo voru Danny, Christian og Kiddi Maggi einnig á skotskónum í kvöld.  9-1 sigur því staðreynd og með þessum sigri lyftum við okkur uppfyrir Augnablik og KFR sem eiga bæði leik á morgun. Þetta var þriðji sigurinn í röð og útlitið orðið töluvert bjartara fyrir okkur.

En við verðum að halda áfram að berjast því að liðin í kringum okkur eru líka að týna stig til sín þannig að þessu er hvergi nærri lokið. Næsti leikur er gríðarlega mikilvægur upp á framhaldið en þá mætum við liði Augnabliks í Kópavoginum. Hann verður spilaður laugardaginn 31. ágúst kl. 14:00
Fleiri myndir í myndaalbúminu.
Skrifað af TFK 19.08.2013 10:46

Víkingar með jafnt gegn ÍBV


Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Víðir Þorvarðarson Eyjamönnum yfir en undir lokin jafnaði Farid Zato fyrir gestina. Leikurinn þótti hin minnsta skemmtun.
ÍBV 1 - 1 Víkingur Ólafsvík
1 - 0 Víðir Þorvarðarson ('67)
1 - 1 Farid Zato ('82)

19.08.2013 10:10

Grundfirðingar að vakna?

Við tókum á móti Leikni Fáskrúðsfirði í blíðskaparveðri hér á Grundarfjarðarvelli laugardaginn 17. ágúst síðastliðinn. Við í mikilli botnbaráttu á meðan Leiknir siglir lygnan sjó um miðja deild. Leikurinn var frekar rólegur framan af en á 35 mínútu nær Heimir Þór forystunni fyrir okkur eftir fyrirgjöf frá Dali og þannig var staðan í leikhléi.
4-1 sigur staðreynd og við erum í 8 sæti í deildinni með 13 stig eða jafn mörg og Magni en með betri markatölu. 

Næsti leikur er svo hér heima gegn ÍH sem er í þriðja sætinu og því um erfiðan leik að ræða.

Þann 10 ágúst gerðu Grundfirðingar góða ferð á Hvolsvöll og náðu í 3 stig í 4-2 sigri á KFR

28.07.2013 19:35

Jafnt hjá Víking og Stjörnunni

Alfreð Már Hjaltalín kom Víkingi yfir eftir sautján mínútur gegn Stjörnunni en Garðar Jóhannsson jafnaði í síðari hálfleik. Hörður Árnason, varnarmaður Stjörnunnar, fékk þá rautt spjald undir lok leiksins fyrir tveggja fóta tæklingu.

Eftir leikinn er Stjarnan tveimur stigum frá toppliði FH og tveimur stigum yfir KR. KR á leik til góða á Stjörnuna og Stjarnan á leik til góða á FH. Ólafsvíkingar eru nú þremur stigum frá fallsæti.

25.07.2013 07:50

Markaveisla í sigri Víkings á Fram

Víkingur Ólafsvík vann 3-4 sigur á Fram á Laugardalsvelli í afar spennandi leik. Víkingur er nú á góðri siglingu í Pepsídeildinni og er ekki búinn að tapa í síðustu fjórum leikjum sínum, en fyrir þennan viðsnúning var liðið á botni deildarinnar. Bæði lið byrjuðu leikinn af krafti en Víkingar voru sterkari aðilinn fyrst til að byrja með. Framarar komust þó yfir á 12. mínútu eftir laglega sókn. Það tók hins vegar Víking ekki nema þrjár mínútur að jafna leikinn þegar Guðmundur Magnússon skallaði boltann í netið eftir fyrirgjöf frá nýjum leikmanni Víkings, Spánverjanum Antonio Espinosa. Eftir þessar skemmtilegu upphafsmínútur róaðist leikurinn og boltinn gekk liðanna á milli um tíma. Þegar um hálftími var liðinn af leiknum dró til tíðinda þegar Víkingur fékk aukaspyrnu sem annar nýr leikmaður þeirra tók, annar Spánverji, Samuel Jimenez. Hann sendir boltann inn í teig þar sem Damir Muminovic, miðvörður Víkings, náði skoti og skoraði. Það tók Fram ekki langan tíma að svara og skoruðu þeir jöfnunarmark nánast alveg í kjölfarið. Eftir það róaðist leikurinn í annað sinn og var þannig til hálfleiks.

Seinni hálfleikur fór rólega af stað en á 55. mínútu urðu mistök í vörn Fram til þess að Björn Pálsson kom Víkingi yfir á ný. Aðeins sjö mínútum seinna kom Alfreð Már Hjaltalín Víkingi í tveggja marka forustu með marki eftir samspil Hernandez og Guðmundar Magnússonar. Eftir þetta bökkuðu Víkingsmenn mikið og vörðust vel. Fram klóraði þó aðeins í bakkann eftir fjörugar lokamínútur þegar þeir fengu vítaspyrnu í blálokin sem þeir skoruðu úr. Lengra komst Fram ekki og lokatölur því 3-4 fyrir Víking Ólafsvík sem náði sínum fyrsta útisigri í efstu deild.

Nýju leikmenn Víkings náðu að auki að stimpla sig heldur betur inn í liðið en þeir áttu allir þátt í marki og spiluðu frábærlega með liðinu. Nú er Víkingur kominn með níu stig og úr fallsæti í bili að minnsta kosti.

16.07.2013 10:50

Víkingar með stig gegn Val

Fyrsta stig Víkings Ó á útivelli í Pepsídeildinni

Víkingur Ólafsvík sótti Val heim á Hlíðarenda þegar liðin mættust í elleftu umferð Pepsí deildar karla í gærkvöldi. Leikurinn endaði sem markalaust jafntefli en lið Víkings hefði hæfilega getað gert sér meira úr þessari ferð sinni til Reykjavíkur. Var Víkingur mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og átti meðal annars tvö góð skallafæri sem Guðmundi Magnússyni tókst ekki að klára. Í seinni hálfleik var leikurinn jafnari. Valsmenn fóru að sækja meira og fengu upplagt tækifæri til að komast yfir á 55. mínútu. Þá slapp Andri Sveinn Geirsson einn innfyrir vörn Víkings en þó ekki fram hjá Einari Hjörleifssyni markverði þeirra sem bjargaði þeim í þetta skiptið. Á 75. mínútu varð svo allt vitlaust á vellinum eftir að Haukur Páll Sigurðsson og Farid Zato lentu saman þegar þeir renndu sér full harkalega á eftir boltanum og stóð aðeins Farid upp eftir þá tæklingu. Atvikið átti sér stað alveg við hliðarlínu vallarins og Magnús Gylfason þjálfari Vals bókstaflega trylltist og hljóp inná völlinn. Örvar Sær Gíslason dómari leiksins leysti málið þó með stakri ró og endaði á að gefa Farid gult spjald og hélt leikur áfram eftir það. Víkingsmenn fengu svo á sig rautt spjald undir lokin en það var Spánverjinn Kiko Insa sem fékk þá sitt annað gula spjald og fór í sturtu snemma. Valur náði hins vegar ekki að nýta sér liðsmuninn og lauk leiknum með markalausu jafntefli.

 

 

Víkingur Ólafsvík náði þar með í sitt fyrsta stig á útivelli í efstu deild. Leikur Víkings er greinilega að batna eftir erfiða byrjun og hafa þeir nú fengið fimm stig úr síðustu þremur leikjum. Hafa þeir ekki fengið á sig mark í þrjár umferðir og ljósir punktar eru farnir að sýna sig í sóknarleik þeirra einnig.

 

Næsti leikur Víkings verður mánudaginn 22. júlí á móti Fram, sem einnig hefur verið að sækja í sig veðrið upp á síðkastið og má því búast við hörkuleik tveggja liða á uppsiglingu í Laugardalnum.

12.07.2013 09:11

Tap gegn Berserkjum

Hólmarar töpuðu fyrir Berserkjum

Á laugardaginn mætti Snæfell/Geislinn liði Berserkja á heimavelli í Stykkishólmi í B-riðli 4. deilar karla í knattspyrnu. Heimamenn byrjuðu betur í leiknum og komust yfir með marki frá Óðni Helgasyni á 29. mínútu. Gestirnir jöfnuðu metin á síðustu mínútum fyrri hálfleiks og var staðan 1:1 í hálfleik. Snæfell/Geislinn komst aftur yfir á 58. mínútu og var þar á ferðinni Jóhann Helgi Alfreðsson. Aftur jöfnuðu Berserkir tveimur mínútum síðar og bættu þeir loks tveimur mörkum til viðbótar áður en flautað var til leiksloka. Lokastaðan í leiknum því 2:4 og Snæfell/Snæfell þar með áfram í 7. sæti með fjögur stig að loknum átta leikjum.

Næstu leikur liðsins er gegn KH í Reykjavík í kvöld. 

12.07.2013 09:07

Raunarferð austur á land

Rautt tap

Þá er seinni austurferðinni lokið þetta sumarið og guði sé lof að þetta sé afstaðið. Enn og aftur komum við tilbaka hlaðnir rauðum spjöldum og engin stig í farteskinu. 

2-1 tap gegn Fjarðabyggð þar sem að dómarinn dæmir glórulausa vítaspyrnu á 94 mínútu leiksins. Við það sýður uppúr og Ragnar og Linta fá rautt spjald. Við verðum því væntanlega frekar fáliðaðir þegar að Víðir Garði mætir í Grundarfjörðinn um næstu helgi.

06.07.2013

Tap gegn Huginn

Nú rétt í þessu var leik Hugins og Grundarfjarðar að ljúka á Seyðisfirði með 2-0 sigri Hugins. Christian fékk að líta rauða spjaldið á 38 mínútu í stöðunni 1-0. Strákarnir okkar fengu nokkur færi til að jafna leikinn en eins og fyrri daginn þá vorum við óheppnir fyrir framan mark andstæðingana. Heimamenn bættu svo við öðru markinu í uppbótartíma og þar við sat. 

Úr leik Grundarfjarðar og Hugins hér heima.

Þetta er eiginlega hætt að vera fyndið hvað okkur gengur illa að skora mörk. Erum að spila fínan bolta skapa færi en náum ekki að skora. 

Á morgun er svo leikur gegn Fjarðabyggð á Eskifirði og ljóst að okkar litli hópur verður minni þar sem að Christian tekur út leikbann. Við höfum varla efni á fleiri skakkaföllum en munum halda áfram að berjast í þessu.
Skrifað af Tommi

05.07.2013 00:26

Víkingar fá lið frá Grikklandi og Eistlandi í Futsal

Víkingur Ólafsvík í þriggja liða riðli í Futsal

Riðillinn verður leikinn í Ólafsvík 27. ágúst - 1. september


Dregið hefur verið í riðla í Evrópukeppni félagsliða í Futsal-innanhússknattspyrnu (UEFA Futsal Cup) og eru fulltrúar Íslands Víkingar frá Ólafsvík.  Riðillinn sem þeir leika í fer einmitt fram á heimavelli þeirra í Ólafsvík dagana 27. ágúst - 1. september og í honum eru þrjú lið.  Auk Ólsara eru þar Athina ´90 Athens frá Aþenu í Grikklandi og FC Anzhi Tallinn frá Eistlandi.

Alls eru átta riðlar í forkeppninni og er þetta eini þriggja liða riðillinn.  Sigurvegarar riðlanna halda áfram í aðalkeppnina, sem er leikin í sex riðlum.  Sigurvegarar Ólafsvíkur-riðilsins leika í 6. riðli ásamt liðum frá Aserbaídsjan, Belgíu og Rúmeníu. 

Futsal Cup Evrópukeppnin í Futsal


04.07.2013 02:12

Tap á Akranesi

Tíu gul spjöld í tapi UMFG gegn Kára


Leikið var í þriðju deild karla í knattspyrnu á Akranesvelli í gær þar sem heimamenn í Kára tóku á móti Grundarfirði í Vesturlandsslag. Leikurinn endaði með 1 - 0 sigri Kára. Hann byrjaði rólega og lítið bar á góðum færum. Á 35. mínútu bar til tíðinda, Bjarki Sigmundsson leikmaður Kára sendir boltann listilega inn á vítateig Grundarfirðinga þar sem Gísli Freyr Brynjarsson náði til boltans og skoraði og Káramenn komnir yfir. Í seinni hálfleik voru Grundfirðingar mikið meira með boltann og lágu gestirnir í sókn án þess þó að skapa sér einhver almennileg færi. Tvö gul spjöld litu dagsins ljós hjá sitthvoru liði í fyrri hálfleik en mikil spjaldasöfnun hófst í þeim síðari, sérstaklega hjá Káramönnum sem fengu alls sjö gul spjöld á sig í leiknum á móti þremur hjá Grundfirðingum. Undir lok leiks léttu Káramenn á varnarpressunni með að sækja meira og áttu nokkur góð færi sem þeir náðu hins vegar ekki að klára. Vörnin hélt allan leikinn hjá Káramönnum sem uppskáru sinn annan sigur á tímabilinu og náðu í leiðinni að jafna Grundafirðinga á stigum í deildinni.

 

 

 

Mikil gleði braust út eftir leikinn hjá Káramönnum og stuðningsmönnum sem mættu á völlinn enda orðið ansi langt síðan menn fengu að upplifa heimasigur á Akranesi.

 

Um næstu helgi fara Grundfirðingar á Austurland þar sem þeir eiga leiki á móti toppliði Hugins frá Seyðisfirði og Fjarðabyggð. Kári á næsta leik 12. júlí gegn KFR þegar þeir fara á SS völlinn á Hvolfsvelli.

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 53
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 822
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 3294015
Samtals gestir: 253601
Tölur uppfærðar: 19.1.2018 03:01:06
Flettingar í dag: 53
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 822
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 3294015
Samtals gestir: 253601
Tölur uppfærðar: 19.1.2018 03:01:06