Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Flokkur: Knattspyrna

28.07.2011 07:04

Víkingur með sigur gegn Gróttu

Grótta 1 - 2 Víkingur Ó:
1-0 Jónmundur Grétarsson
1-1 Guðmundur Magnússon
1-2 Þorsteinn Már Ragnarsson

Grótta og Víkingur Ólafsvík áttust við nú fyrr í kvöld út á Seltjarnarnesi. Mikilvægur leikur fyrir bæði lið enda bæði að reyna að slíta sig frá fallslagnum.

Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru vægast sagt slæmar. Stífur vindur allan leikinn og völlurinn blautur.

Grótta lék undan vindi í fyrri hálfleik og var mun sterkara. Kvöldið byrjaði vel fyrir heimamenn því á 19. mínútu fengu þeir aukaspyrnu hægra megin út fyrir teig Víkings eftir að brotið var á Sölva Davíðssyni. Einar Bjarni Ómarsson tók spyrnuna sem Einar Hjörleifsson, markmaður Víkings, náði ekki að halda og boltinn datt fyrir Jónmund Grétarsson sem potaði boltanum yfir línuna.

Eftir markið styrktust heimamenn og áttu nokkuð góð færi. Sölvi Davíðsson tók rosalegan sprett þegar hann fór með boltann yfir allan völlinn og jafnframt framhjá nokkrum leikmönnum Víkings og tók skot við vítateiginn sem skall í stönginni.

Einnig sýndi Jónmundur flotta takta rétt fyrir lok hálfleikissins þegar hann tók hjólhestaspyrnu í teig gestanna en boltinn fór rétt framhjá markinu.

En eins og búast mátti við var alger viðsnúningur í seinni hálfleik þar sem ef eitthvað var virtist hafa bætt í vindinn. Nú var komið af gestunum að sækja. Strax á 52. mínútu fékk Guðmundur Magnússon boltann í teig Gróttu og fékk að taka nokkrar snertingar á boltann áður en hann negldi honum í markið. Frábærlega gert hjá Guðmundi.

Aðeins nokkrum mínútum síðar fengu gestirnir svo dæmt víti þegar brotið var á Guðmundi Hafsteinssyni framherja þeirra inn í teig Gróttu. Á vítapunktinn fór fyrirliði þeirra Þorsteinn Már Ragnarsson sem skoraði að öryggi.

Eftir mörkin héldu gestirnir áfram að sækja án þess að skapa sér mikið af hættulegum færum. Gróttumenn máttu sín hins vegar lítið gegn vindnum og gátu lítið náð upp almennilegu spili. Boltinn fór eiginlega bara í hringi, frá útsparki Kristjáns Finnboga í marki Gróttu í innkast aftarlega á vallarhelmingi Gróttu og eftir innkastið leið ekki langur tími þangað til að hann var kominn aftur til Kristjáns.

Víkingar eiga eflaust eftir að fagna sigrinum vel enda náðu þeir með honum að slíta sig frá fallbaráttunni og eru komnir með 19 stig í 6 sæti . Grótta virðist aftur á móti bíða fallbaráttuslagur það sem eftir er sumars og eru eflaust gríðarlega ósáttir með að hafa ekki náð að klára færin sín betur í fyrri hálfleik.

Frétt fr� Fótbolta.net. Sj alla fr�ttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=112092#ixzz1TNfZKkH6

23.07.2011 14:46

Jafnt hjá Víking og Fjölni

Víkingar og Fjölnismenn áttust við í hörkuleik á Ólafsvíkurvelli í kvöld þar sem liðin skyldu jöfn, 2-2. Blíðskapar veður var í Ólafsvík og kjöraðstæður til knattspyrnuiðkunnar. Leikurinn fór rólega af stað og það var ekki fyrr en tæplega 20 mínútur voru liðnar af leiknum þegar fyrsta alvöru færi leiksins leit dagsins ljós. Þá átti Guðmundur Magnússon sem nýlega gekk í raðir Víkinga skot sem endaði í þverslánni á marki Fjölnis.

 

Fjölnismenn brunuðu í sókn og voru nálægt því að koma sér í álitlegt færi en varnarmenn Víkings komu boltanum frá en þó ekki langt. Ágúst Þór Ágústsson vann boltann glæsilega og Fjölnismenn spiluðu sig í gegnum flata vörn heimamanna og Ómar Hákonarson kom boltanum framhjá Einari í markinu. 0-1 fyrir gestina og þannig var staðan þar til á 43. mínútu leiksins þegar Guðmundur Steinn Hafsteinsson nýtti sér mistök Hrafns Davíðssonar og skallaði boltann í netið. Staðan var því 1-1 þegar Guðmundur Ársælsson dómari leiksins flautaði til loka fyrri hálfleiks.

 

Víkingar komu mun ákveðnari út í síðari hálfleik og voru strax í upphafi nálægt því að ná forystunni í leiknum. Hrafn Davíðsson varði t.a.m. lúmskt skot Guðmundar Magnússonar með miklum tilþrifum. Á 74. mínútu náðu heimamenn svo að komast yfir með marki frá Þorsteini Má Ragnarssyni. Undirbúningurinn var hans eigin og færið kláraði hann einkar vel með skoti rétt við vítateigslínuna sem Hrafn náði ekki að verja.

 

Í kjölfarið á markinu sóttu Fjölnismenn í sig veðrið en fram að þessu höfðu þeir aðeins átt eitt skot að marki sem Einar var ekki í miklum vandræðum með. Þegar rétt um 5 mínútur voru eftir að venjulegum leiktíma náðu gestirnir að jafna. Varnarmönnum Víkings hafði mistekist að koma boltanum frá sem endaði með því að Kristinn Sigurðsson fékk glæsilega sendingu inn fyrir vörn Víkinga. Hann var ekki rangstæður þar sem Artjoms láðist að koma sér í línu við vörnina og spilaði Kristinn þar með réttstæðan. Honum varð svo á engin mistök og setti knöttinn örugglega framhjá Einari í markinu. Staðan 2-2 og lítið eftir af leiknum.

 

Bæði lið reyndu að knýja fram sigur en án árangurs. Svo fór að liðin skyldu jöfn eftir að hafa skipst á að halda forystu. Víkingar fara í 16 stig og eru enn í 7. sæti á meðan Fjölnismenn fara í 5. sæti með 19, jafn mörg og BÍ/Bolungarvík  sem á leik til góða á morgun gegn Haukum. 

Víkingur Ólafsvík

18.07.2011 08:51

Víkingar styrkja leikmannahópinn

Guðmundur Magnússon til liðs við Víking Ó.

16. júlí 2011

Guðmundur Magnússon er genginn til liðs við Víking frá Fram þar sem hann hefur leikið með meistaraflokk frá árinu 2007. Hann á að baki 51 leik með félaginu í deild og bikar þar sem hann hefur skorað 6 mörk.

 

Guðmundur á eins og flestir stuðningsmenn liðsins vita ættir að rekja til Ólafsvíkur og er hann því kærkomin búbót fyrir liðið sem hefur átt í erfiðleikum með að koma knettinum í mark andstæðinganna í undanförnum leikjum. Guðmundur verður kominn með leikheimild þegar Víkingur mætir Fjölni á Ólafsvíkurvelli næstkomandi föstudagskvöld.

 

Vikingurol.is býður Guðmund velkominn í víkina fögru.

17.07.2011 18:25

Sigur hjá UMFG á Birninum

Við gerðum góða ferð í Grafarvoginn á laugardaginn. Þar mættum við liði Bjarnarins sem er undirklúbbur hjá Fjölni. Við höfðum unnið heimaleikinn í sumar og nú var komið að okkur að mæta á gervigrasið við Egilshöllina. Leikurinn var reyndar ekki mikið fyrir augað en gríðarleg barátta einkenndi leikinn. Það var svo á 28 mínútu að Steinar Már Ragnarsson nær að vinna boltann af einum varnarmanni Bjarnarins og geysist í átt að markinu. Varnarmaðurinn sér þann kost vænstan að toga Steinar niður og dómarinn dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu. Hárréttur dómur. Heimir Þór steig upp og var kannski einum of svalur þegar hann ákvað að vippa boltanum í mitt markið. Sem betur fer fyrir okkur þá ákvað markvörður Bjarnarins að taka sénsinn og skutla sér, Þeir sem horfðu á þessa vítaspyrnu fengu hjartastopp í eina sekúndu þangað til að boltinn lá í netinu og staðan orðin 1-0 okkur í vil. Þannig var staðan alveg þangað til að dómarinn flautaði til leiksloka og þrjú stig í hús hjá okkur. Gríðarlega mikilvægt því að nú sitjum við á toppi C-riðils með 22 stig, einu meira en Álftanes sem á þó leik til góða gegn Kára á mánudaginn. Við njótum þess að vera á toppnum á meðan það stendur yfir.


Heimir skoraði eina markið úr víti.

Skrifað 17.7.2011 kl. 0:21 af Tommi

10.07.2011 22:39

Baráttuleikur hjá UMFG og Berserkjum

3. deild: Þrjú rauð á Berserki
Andri Tómas Gunnarsson fékk að líta rauða spjaldið ásamt tveim öðrum Berserkjum
Mynd: Gunnlaugur Júlíusson
`
  Í C-riðli unnu Grundfirðingar 3-2 sigur á Berserkjum

C-riðill

Grundarfjörður 3 - 2 Berserkir
0-1 Gunnar Steinn Ásgeirsson (18')
0-2 Jón Steinar Ágústsson (43')
1-2 Aron Baldursson (60')
2-2 Aron Baldursson (78')
3-2 Aron Baldursson (90')
Rauð spjöld
Róbert Óli Skúlason 57' Berserkir, Einar Guðnason 63' Berserkir Andri Tómas Gunnarsson 67' Berserkir

Seinasti leikur áttundu umferðar fór fram í C-riðli þegar Grundfirðingar tóku ´móti Berserkjum en liðin eru bæði í hörkubaráttu um sæti í úrslitakeppninni. Berserkir höfðu tögl og haldir í fyrri hálfleik og skoruðu tvö mörk gegn engu. Þá vildu þeir fá rautt spjald á Hermann Geir Þórsson þegar hann braut á sóknarmanni Berserkja sem var að sleppa í gegn en dómarinn dæmdi hins vegar ekkert.

Berserkir vildu aftur fá rautt spjald á Grundfirðing í byrjun seinni hálfleiks en var refsað af dómara leiksins og misstu mann útaf og voru mjög óánægðir með það. Grundfirðingar náðu að minnka muninn áður en tveir aðrir Berserkir fengu að fjúka af velli. Þeir vildu meina að það hafi verið klárlega rangur dómur.

Þremur færri áttu Berserkir undir högg að sækja og náðu Grundfirðingar að nýta sér það í nyt og náðu að skora tvö mörk, það seinna í uppbótartíma og náðu að innbyrgja gríðarlega mikilvægan sigur.

Frétt fr� Fótbolta.net. Sj alla fr�ttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=111121#ixzz1RkDgGbHA

10.07.2011 22:32

Góður dagur hjá Víking

Það var blíðskapar veður í Ólafsvík þegar heimamenn í Víking tóku á móti BÍ/Bolungarvík í bráðskemmtilegum leik á Ólafsvíkurvelli. Heimamenn vígðu nýja búninga á meðan gestirnir spiluðu í gömlu varabúningum heimaliðsins þar sem þeim láðist að taka rétt búningasett frá Vestfjörðum.

 


(Myndir: Alma Rún Kristmannsdóttir)

Leikurinn fór fjörlega af stað og ljóst að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt og á fyrstu mínútum leiksins áttu bæði lið ágætis sóknarlotur en án þess þó að skapa sér hættuleg færi. Á 12 mínútu leiksins leit fyrsta markið dagsins ljós en þar var að verki aukaspyrnusérfræðingur Vestfirðinganna Nicholas Deverdicks. Emir Dokara Víkinga lenti þá í vandræðum eftir langa sendingu inn fyrir vörn heimamanna. Emir reyndi þá að taka boltann niður með þeim afleiðingum að hann missti knöttinn frá sér og Tomasz Luba reddaði honum fyrir horn með því að brjóta á sóknarmanni BÍ/Bolungarvíkur. Deverdicks stillti boltanum upp og hélt uppteknum hætti og skoraði framhjá Einari líkt og hann gerði tvívegis í bikarleiknum síðastliðinn sunnudag gegn Þrótturum.  

 

Heimamenn lögðu ekki árar í bát heldur lögðu aukinn kraft í sóknarleikinn og 6 mínútum eftir markið átti Edin Beslija hörkuskot eftir að hann komst einn inn fyrir. Þórður Ingason sá hins vegar við honum og varði í horn. Brynjar Kristmundsson átti svo skot eftir aukaspyrnu  sem fór rétt yfir áður en heimamenn fengu vítaspyrnu á markamínútunni margumtöluðu, þeirri 43. Á punktinn steig Artjoms Goncars vítaskytta þeirra bláklæddu og setti knöttinn örugglega framhjá Þórði sem fór í vitlaust horn. Nokkrum mínútum síðar flautaði Þorvaldur Árnason dómari leiksins til loka fyrrihálfleiks og staðan 1-1. (Mynd: Alma Rún Kristmannsdóttir)

Víkingar komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og strax á upphafsmínútu fyrri hálfleiks fengu þeir fínasta færi en gestirnir vörðust vel. Þegar tvær mínútur voru liðnar af seinni hálfleik fengu heimamenn svo aðra vítaspyrnu. Þá var brotið á Guðmundi Stein Hafsteinssyni inn í teig og Þorvaldur benti rakleiðis á punktinn. Artjoms steig aftur á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Víkingar létu kné fylgja kviði og fjórum mínútum síðar skoraði svo Guðmundur sjálfur eftir sendingu frá Edin Beslija sem var einkar sprækur í kvöld. Í aðdraganda marksins missti Atli Guðjónsson boltann til Edins sem sendi á Guðmund sem gerði engin mistök og þrumaði boltanum í netið.

 

Strax í kjölfarið á marki Guðmundar komst Ameobi  einn inn fyrir vörn Víkinga eftir mistök í vörn heimamanna. Einar Hjörleifsson í marki Víkings sá hins vegar við honum og varði vel. Þremur mínútum síðar átti Colin Marshall sendingu fyrir markið fór óvænt yfir Einari í markinu og í þverslánna á marki Víkings.  Skömmu síðar fékk Artjoms gullið tækifæri til að kóróna þrennuna en skot hans fór yfir markið úr upplögðu færi.

 

Á 74. mínútu leiksins gulltryggðu Víkingar sigurinn með frábæru marki. Þar var að verki Eldar Masic eftir þríhyrningaspil við Þorstein Má inn í teig gestanna. Eldar lagði svo boltann snyrtilega í hornið fjær af stuttu færi.  Eftir markið sóttu gestirnir svo í sig veðrið og reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn en þó án árangurs. Það fór því svo að heimamenn fóru með 4-1 sannfærandi sigur á BÍ/Bolungarvík sem eru eins og flestir vita komnir í undanúrslit Valitor-bikarsins.


Víkingar voru sprækari lungað úr leiknum og áttu auðvelt með að verjast sóknarlotum gestanna sem lágu aftarlega og freistuðu þess að spila löngum boltum upp á Ameobi sem var einn og yfirgefinn í sókninni. Víkingar voru á hinn bóginn ákveðnari í sínum sóknarlotum og nálguðust leikinn af meiri festu sem í lok dags skilar þeim þremur stigum. Heimamenn skríða upp töfluna og eru að loknum 10 umferðum í fjórða sæti með 15 stig, jafnmörg og Fjölnir sem er með lakara markahlutfall. 

Víkingur Ólafsvík

07.07.2011 23:56

UMFG tekur á móti Berserkjum á laugardag

Íslandsmót KSÍ 3.deild C riðill

Laugardagurinn 9. júlí 2011 kl 14:00

Grundarfjarðarvöllur

Grundarfjörður - Berserkir

Grundarfjörður situr í öðru sæti með 16 stig
Berserkir sitja í þriðja sæti með 15 stig

Það er gríðarlega mikið í húfi.

6 stiga leikur.

Síðast unnu Grundfirðingar góðan 2-0 sigur á Víkingsvelli
Hvað gerist nú???

Ekki láta þig vanta á Grundarfjarðarvöll. Hvetjum strákana til sigurs.

ÁFRAM GRUNDARFJÖRÐUR

05.07.2011 17:16

Ragnar Mar þjálfar hjá UMFG

Nýr Þjálfari

Ragnar Mar Sigrúnarson leikmaður Víkings Ólafsvíkur hefur tekið að sér þjálfun á Meistaraflokki Grundarfjarðar. Ragnar Mar hefur mikla reynslu sem leikmaður og á að baki yfir 170 leiki með Víking Ólafsvík. 

Við óskum Ragnar velfarnaðar í starfi og bjóðum hann hjartanlega velkominn.

01.07.2011 07:59

UMFG vann Skallagrím

C - riðill
Berserkir hleyptu skemmtilega spennu í C riðilinn og hindruðu að Álftnesingar mundu stinga af. Gestirnir sigruðu 4-2 í hörku leik þar sem Álftanes brenndi af vítaspyrnu í stöðunni 2-3 og 5 mínútur eftir. Þá voru bæði lið afar ósátt við dómara leiksins sem virtist flauta mjög tilviljunarkenndar aukaspyrnur og bæði lið afar ósátt við líklega 90% af öllum dómum leiksins, sem þó hallaði á bæði lið.

Grundfirðingar unnu góðann útisigur á Skallagrím og eru áfram í öðru sæti riðilsins og virðist ætla að vera mikil spenna milli fjögurra liða í þeim riðli. Þá gerðu tvö slökustu lið riðilsins Ísbjörninn og Afríka 2-2 jafntefli og náðu í sín fyrstu stig á þessu tímabili.

Álftanes 2 - 4 Berserkir
1-0 Ingólfur Örn Ingólfsson
1-1 Kári Einarsson
1-2 Arnar Þórarinsson
2-2 Magnús Ársælsson
2-3 Kári Einarsson
2-4 Arnar Þórarinsson

Skallagrímur 1 - 3 Grundarfjörður
Mörk Grundafjarðar: Steinar Már Ragnarsson, Aron Baldursson, Heimir Þór Ásgeirsson
Mark Skallagríms: Dawid Mikolaj Dabrowski (Víti)

Frétt fr� Fótbolta.net. Sj alla fr�ttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=110644#ixzz1Qq1ZPN81

30.06.2011 15:54

Víkingur landaði 3 stigum

Sigur gegn baráttuglöðum KA-mönnum

29. júní 2011

Víkingar tóku á móti KA-mönnum í blíðskapar veðri á Ólafsvíkurvelli í 9. umferð 1. deildar karla. Fyrir leikinn voru liðin í 9. og 10. sæti deildarinnar og því til mikils að vinna enda bilið milli liða lítið. Heimamenn fóru betur af stað og á fyrstu mínútum leiksins áttu þeir þrjú ákjósanleg færi án þess þó að koma knettinum á rammann.

 

Það voru þó gestirnir í KA sem voru fyrri til að skora því á 9. mínútu leiksins skallaði Hallgrímur Mar Steingrímsson knöttinn í netið eftir fyrirgjöf frá vinstri vængnum. Svo virtist vera að varnarmenn Víkings hafi ekki vitað af Hallgrími sem var algjörlega einn á auðum sjó og átti ekki í vandræðum með að skalla framhjá Einari sem var varnarlaus í markinu.

 

Markið kom sem köld vatnsgusa framan í heimamenn sem höfðu haft yfirhöndina fram að markinu. Það tók því Víkinga allnokkurn tíma að komast í takt við leikinn á ný og var nokkurt jafnræði með liðinum. KA-menn lágu aftarlega á vellinum og freistuðu þess að beita skyndisóknum á meðan Víkingar voru meira með boltann og stjórnuðu þar með ferðinni.

 

Á 42. Mínútu dró til tíðinda á ný þegar brotið var á Guðmundi Stein Hafsteinssyni inn í teig gestanna. Gunnar Sverrir Gunnarsson dómari leiks benti ákveðinn á vítapunktinn handviss í sinni sök. Á punktinn steig vítaskytta heimamanna Artjoms Goncars sem skoraði örugglega framhjá Sandor Matus í marki gestanna. Staðan orðin 1-1 og þannig var hún þegar Gunnar dómari flautaði til loka fyrri hálfleiks.


Mynd: Ingibjörg Sumarliðadóttir

Seinni hálfleikur fór fjörlega af stað líkt og sá fyrri þar sem heimamenn sáu sem fyrr um að stjórna ferðinni. Um miðbik hálfleiksins fékk Guðmundur Steinn besta færi leiksins eftir klaufagang í vörn gestanna. Boltinn hrökk beint fyrir fætur Guðmundar sem var einn á móti Sandor. Guðmundi tókst hins vegar ekki að koma knettinum framhjá Sandor sem varði boltann með fótunum.

 

Nokkrum mínútum síðar varð Guðmundi á engin mistök þar sem honum tókst að koma knettinum framhjá Sandor eftir glæsilegan undirbúning Edin Beslija. Edin kom askvaðandi upp vinstri kantinn, lék á tvo varnarmenn og í stað þess að skjóta á markið sendi hann lúmska sendingu inn á Guðmund sem þrumaði knettinum framhjá Sandor í markinu. Staðan 2-1 og stundarfjórðungur eftir af leiknum.


Mynd: Þröstur Albertsson
 

Í kjölfarið sóttu gestirnir í sig veðrið, staðráðnir í að krækja í það minnsta annað stigið. Síðasta stundarfjórðung leiksins settu KA-menn mikla pressu á heimamenn sem áttu í vök að verjast. Einar Hjörleifsson í marki Víkings var þó vel á verði og greip vel inn í þar sem helstu hættur KA komu eftir föst leikatriði.

 

Víkingum tókst þrátt fyrir mikla pressu gestanna að landa mikilvægum heimasigri sem hífir þá upp töfluna en liðið er nú komið með 12 stig. KA-menn sitja hins vegar eftir með sárt ennið með 10 stig í 10. sæti.

Víkingur Ólafsvík

26.06.2011 08:39

UMFG tapaði fyrir Álftanesi

Þrír leikir fóru fram í þriðju deild karla og kláraðist sjötta umferð þar með í öllum riðlunum. Fótbolti.net skellti sér á Grundarfjörð og sá leik heimamanna og Álftaness og verða viðtöl við þjálfara liðanna birt síðar í kvöld.

C - riðill
Síðasti leikurinn í sjöttu umferð fór fram í dag þegar Álftanes vann góðan sigur á heimamönnum í Grundarfirði í uppgjöri efstu liðanna og eru ennþá með fullt hús stiga.

Grundafjörður 0 - 2 Álftanes
0-1 Guðbjörn Alexander Sæmundsson (37')
0-2 Birkir Freyr Hilmarsson (79')

Heimamenn héldu sig aftarlega á vellinum og ætluðu sér að beita skyndisóknum á meðan gestirnir beittu hröðum sóknum upp báða kanntana. Flestar sóknir beggja liða enduðu oftar en ekki hjá vörnum andstæðinganna en gestirnir voru ágengari og fengu betri færi.

Álftanes náði forystunni á 37.mínútu þegar Kristján Lýðsson komst upp hægri kanntinn og sendi boltann á Guðbjörn Alexander Sæmundsson sem skoraði í autt markið. Álftnesingar héldu svo áfram að þjarma að marki heimamanna en Ingólfur Kristjánsson átti góðan leik í marki Grundafjarðar og bjargaði nokkrum sinnum ágætlega.

Þegar líða tók á seinni hálfleikinn fóru heimamenn að taka fleiri sénsa og sækja á fleiri mönnum en tókst ekki að skapa sér hættuleg færi. Álftnesingar refsuðu þegar varamaðurinn Birkir Freyr Hilmarsson skoraði stórglæsilegt mark sem Ingólfur átti ekki möguleika á að verja.

Eftir markið fjaraði leikurinn smám saman út og gestirnir tóku alla punktana með sér heim og eru með 18 stig á toppnum 5 stigum á undan Grundarfirði og Kára sem sitja í næstu sætum.

Frétt fr� Fótbolta.net. Sj alla fr�ttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=110392#ixzz1QMuXTwlS

24.06.2011 14:17

Tap hjá Víking

3-1 tap gegn Selfyssingum

24. júní 2011 klukkan 10:39
Í gærkvöldi heimsóttu Víkingar Selfyssinga í 8. umferð 1. deildar sem hófst með þremur leikjum. Leikurinn var einungis 6 mínútna gamall þegar heimamenn komust yfir. Þar var að verki Babacar Sarr eftir hornspyrnu. Víkingar vildu þó meina að í aðdragandanum hefðu heimamenn gerst brotlegir auk þess sem Babacar fór nánast með sólann í grímuna á Einari þegar hann kom knettinum í markið.

 

Fimmtán mínútum síðar syrti enn í álinn hjá Víkingum þegar heimamenn komust í 2-0 þegar Endre Brenne náði að komast inn fyrir vörn Víkina við illan leik. Endre braut þá augljóslega á Emir Dokara í vörn Víkings sem lá eftir alblóðugur. Hvorki Leikni Ágústssyni né aðstoðarmanni hans á línunni láðist að sjá brotið og staða heimamanna því vænleg.

 

Víkingar höfðu hins vegar ekki sagt sitt síðasta því á 44. mínútu tókst Edin Beslija að minnka muninn. Það gerði hann eftir vel útfærða aukaspyrnu ásamt Brynjari Kristmundssyni og Eldar Masic. Skot Edins var bæði fast, hnitmiðað og í bláhornið framhjá Jóhanni í marki Selfyssinga.

 

Víkingar voru staðráðnir í að láta kné fylgja kviði og í uppbótartíma fyrri hálfleiks komst Þorsteinn Már Ragnarsson einn inn fyrir vörn heimamanna. Artjoms gaf þá góða sendingu inn fyrir vörn Selfyssinga og Þorsteinn var við það að komast í ákjósanlegt færi. Þá tók Leiknir dómari leiksins upp á því að flauta til loka fyrri hálfleiks sem er í besta falli mjög athugavert.

 

Í síðari hálfleik komu Víkingar sterkir til leiks og ákveðnir í að jafna metin. Þeir voru ýfið sterkari fyrsta stundarfjórðunginn en án þess þó að skapa sér afgerandi færi. Þrátt fyrir ágætis tilraunir náðu Víkingar ekki að jafna og þess í stað náðu heimamenn að auka forskot sitt. Jón Daði Böðvarsson átti þá góða rispu og spólaði sig í gegnum vörn Víkings og sendi boltann á Ibrahima Ndiaye sem skoraði auðveldlega.

 

Eftir þetta var róðurinn þungur fyrir Víkinga en hvorugu liðinu tókst að bæta við marki það sem eftir lifði leiks. Með sigrinum styrkti Selfoss stöðu sína í 2. sæti deildarinnar en Víkingar eru sem fyrr níunda með 9 stig.  Næsti leikur Víkings verður háður á Ólafsvíkurvelli næstkomandi miðvikudag þar sem KA-menn koma í heimsókn. Allir á völlinn!

Mynd: Þröstur Albertsson

Víkingur Ólafsvík

20.06.2011 06:05

Þjálfarskipti hjá UMFG

Þjálfaraskipti

Hermann Geir Þórsson hefur sagt upp starfi sínu sem þjálfari hjá Grundarfirði af persónulegum ástæðum.
Ragnar Smári Guðmundsson fyrirliði og Tryggvi Hafsteinsson munu sjá um þjálfunina á meðan Grundfirðingar leita að öðrum þjálfara.
Grundarfjörður þakkar Hermanni fyrir vel unnin störf og óskar honum velfarnaðar á golfvellinum.

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 106
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 822
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 3294068
Samtals gestir: 253602
Tölur uppfærðar: 19.1.2018 03:33:19
Flettingar í dag: 106
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 822
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 3294068
Samtals gestir: 253602
Tölur uppfærðar: 19.1.2018 03:33:19