Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Flokkur: Knattspyrna

20.03.2012 16:01

Stórt tap hjá UMFG

Knattspyrnuliðin Kári á Akranesi og Grundarfjörður hófu leik í C deild Lengjubikars KSÍ síðasta sunnudag. Þá mættust þau í Akraneshöllinni í sannkölluðum Vesturlandsslag. Lið Kára kom mun betur stemmt til leiks og gjörsigraði lið Grundarfjarðar með 6 mörkum gegn einu. Leikurinn byrjaði með mikilli baráttu en á 30. mínútu brutu Káramenn ísinn. Þeir náðu svo að bæta við öðru marki rétt fyrir leikhlé og staðan því 2-0 í hálfleik. Í síðari hálfleik héldu yfirburðir Kára áfram og þeir bættu þremur mörkum við áður en Grundfirðingar náðu að minnka muninn í 5-1. Skömmu eftir það náðu leikmenn Kára að bæta einu marki við og 6-1 stórsigur þeirra því staðreynd. Bæði þessi lið eiga svo leik næsta laugardag. Grundarfjörður mætir þá liði Stál-úlfs í Akraneshöllinni og Kári mætir liði Bjarnarins á Fjölnisvellinum.

 

10.03.2012 11:43

Góðu samstarfi haldið áfram

Grundarfjörður og Víkingur  munu halda áfram samstarfi sínu frá því í fyrra. Tómas Freyr Kristjánsson formaður UMFG og Jónas Gestur Jónasson, formaður knattspyrnudeildar Víkings undirrituðu samning þess efnis við hátíðlega athöfn í brúnni á Hring SH á dögunum. Samstarfið felur í sér að ungir leikmenn Víkings munu fá að spreyta sig með Grundarfirði og fá þannig dýrmæta leikreynslu. Tilgangur samstarfsins er fyrst og fremst að efla knattspyrnuna á Snæfellsnesi. Samvinna þessara tveggja félaga gekk framar vonum í fyrra og stefnt er á áframhaldandi velgengni á knattspyrnuvöllunum á komandi sumri.


Skrifað af Tommi

07.03.2012 01:00

Gott samstarf

Jafnt í æfningaleik UMFG og Ísbjarnarinns

Til gamans má geta þess að Grundarfjörður lék æfingaleik gegn Ísbirninum í dag og gerði 4-4 jafntefli. Ragnar Smári ætlar að spila með þeim í sumar eftir að hafa æft með okkur í vetur. Hann er ekki búinn að ganga frá félagaskiptum enn og þar með hlutgengur með Víking Ó. Ejub var í vandræðum með vinstri bakvarðastöðuna fyrir leikinn gegn KR. Og hvað gat hann gert. Jú, hann bað um Ragnar Smára frá Grundfirðingunum. En Grundarfjörður átti ekki gott með að missa hann. Og hvernig haldiði að málið hafi verið leyst. Jú, hver annar en Suad Begic (Bega) hljóp í skarðið og spilaði æfingaleikinn með Grundfirðingunum og Ragnar Smári lék þess í stað með Víking Ó. Skemmtilegt, ekki satt.

07.03.2012 00:49

Víkingur 2 -3 KR

Áttum meira skilið.

Lengubikarinn A-deild.
Egilshöll sunnudaginn 4.mars kl. 18.00

KR - Víkingur Ó   3-2  (0-2)

0-1 Tomasz Luba (19.mín)
0-2 Guðmundur Steinn Hafsteinsson (45.mín)
1-2 Kjartan Henry Finnbogason (76.mín)
2-2 Þorsteinn Már Ragnarsson (90.mín)
3-2 Kjartan Henry Finnbogason (94.mín, tvítekið víti)


Þegar dómarinn flautaði leikinn af í kvöld áttu margir stuðningsmenn Víkings Ó erfitt með að standa uppúr sætunum. Menn sátu dolfallnir yfir þessu. Víkingur sem verðskuldaði öll þrjú stigin úr leiknum fékk ekkert. Það mátti halda að dómaratríóið hafi átt miða í Lengjunni. KR þarf ekki hjálp til að vinna sína leiki. Þeir eiga að vinna þá á eigin verðleikum. Það sást ekki í kvöld. Mér leiðist að gagnrýna dómara og vona að ég þurfi helst ekki skrifa neitt um þá en maður getur stundum ekki orða bundist. Í stöðunni 0-2 Víking í hag og stundarfjórðungur eftir af leiknum og KR sóttu meira. Uppúr þurru dæmir Leiknir Ágústsson aukaspyrnu á Víking rétt utan vítateigs. Á hvað? Enginn vissi það. Uppúr aukaspyrnunni skora KR-ingar flott mark og minnka muninn. Á lokamínútunni brjóta KR-ingar upp vörn Víkings og okkar fyrrum samherji Þorsteinn Már Ragnarsson jafnaði leikinn með góðu marki. Ekkert við því að segja. En á 94.mín fær Ólafur Hlynur Illugason okkar maður boltann slysalega í hendina og dæmt er víti réttilega. En þá skeður atburður sem er dómaratríóinu til skammar. Einar Hjörleifsson ver slakkt víti Kjartans Henrys með því að grípa það og allir stuðningsmenn Víkings fagna. Þá skyndilega heimtar annar línuvörðurinn það að vítið sé endurtekið. Hvað var að þessu? Ekki neitt. KR glottuðu örugglega og Kjartan Henry fór aftur á punktinn og þrumaði boltanum í netið og KR vann 3-2.

Það er eins og stóru liðin fái allt en litlu liðin ekkert hjá sumum sem stjórna leikjunum. Erlendur leikmaður innan Víkings Ó sagði mér það eftir leik að þetta vandamál væri líka í hans heimalandi. Stóru liðin fá allt en þau litlu ekkert frá sumum dómurum. Þetta er verkefni fyrir Dómaranefnd KSÍ að laga. Ekki bara réttlæta alla þá vitleysu sem þeirra starfsmenn (dómararnir) gera eins og mér finnst sumir þeirra gera.

Ef við snúum okkur að leiknum er ekki hægt annað en að vera stoltur af frammistöðu Víkings Ó í leiknum. Þeir áttu mun meira í fyrri hálfleiknum en andstæðingarnir og alveg frammá 70 mín var ekki útlit fyrir því að KR myndi skora í leiknum. Einn Pepsídeildarþjálfarinn sagði um miðjan seinni hálfleikinn að KR myndi ekki gera mark í leiknum. En hann grunaði ekki að KR fengi hjálp úr ótrúlegustu átt.

Ég mætti á leikinn með skrifandi penna og punktaði þetta hjá mér. (Maggi þú færð pennann vonandi næst)

Byrjunarlið Víkings Ó.: Einar Hjörleifsson, Steinar Már Ragnarsson, Tomasz Luba, Emir Dokara, Ragnar Smári Guðmundsson, Edin Beslija, Eldar Masic, Alfreð Már Hjaltalín, Fannar Hilmarsson, Guðmundur Steinn Hafsteinsson og Guðmundur Magnússon. Varamenn: Jón Haukur Hilmarsson, Anton J. Illugason, Ólafur H. Illugason, Kristinn Magnús Pétursson og Dominik Bajda.

Af bloggsíðu Helga Kristjáns

28.02.2012 15:27

Góður árangur hjá stelpunum í futsal

Stelpurnar okkar í Futsal


 Laugardaginn 18. febrúar fór fram úrslitakeppni í 3. flokki kvenna í Futsal á Hvolsvelli. Þáttökuliðin voru Snæfellsnes, Breiðablik, Valur, Tindastóll, ÍBV og Fylkir. Stelpurnar okkar töpuðu fyrsta leiknum við Breiðablik en gerðu svo jafntefli við Val. Þessi úrslit þýddu það að Snæfellsnes komst í undanúrslit á hagstæðari markatölu en Valur. Í undanúrslitum var leikið við ÍBV og tapaðist sá leikur. ÍBV komst því í úrslitaleikinn en tapaði gegn Breiðablik. Snæfellsnes spilaði því um þriðja sætið þar sem Snæfellsnes vann Tindastól 5-0. Sannanlega glæsilegur árangur hjá stelpunum. Fylkir vann svo Val í leik um 5. sætið. Þjálfari Snæfellsnesstúlknanna er Björn Sólmar Valgeirsson.

15.02.2012 14:29

Herrakvöld Víkings 25 febrúarVið hvetjum alla til að mæta... frábær dagskrá
Skrifað af Tommi

15.02.2012 14:28

UMFG í c riðli 3 deildar

C Riðill

Þá er búið að draga í riðla fyrir Íslandsmótið í sumar. Við drógumst í C-riðil eins og áður og lítur hann svona út:

FFR - Spila á Framvellinum og eru væntanlega tengdir Fram
Grundarfjörður - okkar menn
Hvíti Riddarinn - Lið sem er nátengt Aftureldingu og spila sína leiki á Tungubökkum
Kári - Frá Akranesi og höfum við mætt þeim þónokkuð oft.
Léttir - Lið sem er nátengt ÍR og spilar sína leiki á gervigrasinu hjá þeim.
Skallagrímur - Frá Borgarnesi að sjálfsögðu
Víðir - Frá Garðinum.
Þróttur V - þar sem að V stendur fyrir Voga

Svo er einnig búið að draga í bikarnum og við fengum útileik gegn ÍH sem verður spilaður þann 6. maí næstkomandi.

Fyrsta verkefnið okkar í Íslandsmótinu er að heimsækja Víði í Garði þann 20. maí. Fyrsti heimaleikur okkar verður svo á móti Hvíta Riddaranum þann 26. maí.Game on.

02.02.2012 16:50

Snæfellingar á landsliðsæfingum

Björt framtíð

Landsliðsfólk í knattspyrnu.

 

Nokkrir efnilegir krakkar af Snæfellsnesi hafa verið að mæta á landsliðsæfingar í knattspyrnu í vetur.

Þetta eru Alfreð Már Hjaltalín sem hefur æft með U-19 ára landsliðinu, Kristinn Magnús Pétursson sem hefur æft með U-17 ára landsliðinu, Rakel Sunna Hjartardóttir hefur æft með U-17 og hefur hún einnig verið valin í undirbúningshóp vegna Norðurlandamóts í júlí n.k.

Viktoría Ellenardóttir hefur æft með U-16 og nú um næstu helgi mæta í fyrsta skipti hjá U-16 landsliðinu þeir Kristófer J. Reyes og Hilmar Orri Jóhannsson.  Við í stjórn knattspyrnudeild Víkings óskum þessum efnilegu krökkum til hamingju með árangurinn sem og við hvetjum þau til að leggja áfram hart að sér sem og öðrum iðkendum í knattspyrnunni á Snæfellsnesi.

Þess má einnig geta að Brynjar Gauti Guðjónsson og Þorsteinn Már Ragnarsson fyrrum leikmenn Víkings Ó. eru í æfingahóp U-21 landsliðssins.09.01.2012 11:33

2 sæti í futsal staðreynd, aftur

Futsal: ÍBV - Víkingur  5-0

08. janúar 2012 klukkan 20:23
Futsal
Úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn.

Víkingur  - ÍBV    0-5  (0-2)


Í dag átti Vikingur  helmingsmöguleika á að krækja sér í Íslandsmeistaratitil. Möguleikarnir fólust í því að leggja Pepsídeildarlið ÍBV að velli. Það tókst ekki í þetta sinn og er þetta annað árið í röð sem við spilum til úrslita í Futsal og bíðum lægri hlut. Þetta er svekkjandi og þá sértaklega í fyrra þegar við vorum betri aðilinn.  dag vorum við slakari aðilinn. Við náðum okkur ekki á strik og það var eiginlega ekki fyrr en við vorum orðnir 0-5 undir að maður fór þekkja liðið sitt. Þá spiluðu Víkingarnir eins og ég vildi að þeir gerðu allan leik. En þessi leikur er búinn og næsta verkefni er útiboltinn. Ejub sagði mér að hann stefndi að því að spila allt að fjóra æfingaleiki fram að fyrsta leik gegn KR í Lengjubikanum þann 18.febrúar n.k. Einnig sagði hann mér það að aðalvandræði liðsins væru það að hvergi væri hægt að æfa nema í íþróttahúsinu vegna mikilla snjóa. Og þó snjórinn væri ekki vantaði samt æfingaaðstöðu yfir vetrarmánuðina. Það vantar knattspyrnuhús á Snæfellsnesið.
En snúum okkur að leiknum. Eyjamenn byrjuðu leikinn af krafti og fljótlega sást að þeir lögðu aðaláhersluna á þétta vörn og þeir vörðust aftarlega. Albert Sævarsson stóð í markinu hjá þeim og var þrælsterkur en tókst honum að halda hreinu. Einhvernveginn fannst manni vera taugaspenna í Víkingsliðinu en leikmenn ÍBV spiluðu afslappaðra. Víkingsliðið hefur alltaf spilað betur en í dag og hugsanlega er skýringin sú að það var heill Íslandsmeistaratitill í húfi. Titill sem kannski Eyjamenn fannst ekki mikill titill en við þráðum. 

Fyrsta mark leiksins kom eftir aukaspyrnu sem þaut í gegnum allt og í netið. Annað markið var slysalegt svo ekki sé mikið sagt. Þá atvikaðist það að Einar markvörður fékk boltann útá velli og sendi boltann að marki en Albert markvörður greip hann og sparkaði honum rakleiðis beint í markið hinumegin. Skelfilegt að horfa á þetta marki. En Víkingunum gekk illa að brjóta vörn ÍBV á bak aftur og það var ekki fyrr en á lokasekúndum fyrri hálfleiks að Víkingur fékk víti á 11 metrunum (þau víti eru dæmd þegar annað liðið brýtur af sér í sjötta skiptið í sama hálfleik). Eldar Masic fór á punktinn og þrumaði boltanum öfugu megin við stöngina og framhjá. Staðan því í hálfleik 2-0 fyrir ÍBV. Í fyrri hálfleik fékk Tryggvi Guðmundsson ÍBV tvö gul spjöld og þar með rautt og spilaði hann því ekki nema 14 mínútur í þessum leik. Það dugði okkur ekki til að skora þó við værum einum fleiri í 2 mínútur.

Seinni hálfleikur byrjaði skelfilega fyrir okkur því á fyrstu 3 mínútunum fengum við á okkur tvö mörk og skyndilega var staðan orðin 4-0 fyrir ÍBV. Fyrra mark þeirra gerði Þórarinn Ingi Valdimarsson með þrumuskoti útvið stöng og seinna markið var slysalegt. Þá breytti laus bolti um stefnu og lullaði undir Einar og rétt innfyrir línuna. Fimmta mark ÍBV kom um stuttu seinna eftir vel útfærða skyndisókn. Staðan orðin 5-0 og þá loksins small Víkings  liðið í gang og átti restina af leiknum án þess að ná að skora framhjá Alberti markverði ÍBV sem átti stórleik.

Víkingur varð fyrir áfalli fljótlega í leiknum þegar Guðmundur Steinn Hafsteinsson meiddist og gat ekki spilað meira. Hinum megin átti okkar fyrrum samherji Brynjar Gauti Guðjónsson stórleik. Hann ásamt Alberti voru bestu menn vallarins.

Bloggsíðan helgik.bloggar.is óskar ÍBV til hamingju með þennan sigur og þá sérstaklega þeim Magga Gylfa og Brynjari Gauta okkar fyrrum samherjum.

Reyni að setja myndir af liðinu og fleiru inná Facebook seinna í kvöld.

Þessir skipuðu lið Víkings . Einar Hjörleifsson, Jón Haukur Hilmarsson, Edin Besljia, Eldar Masic, Tómasz Luba, Ragnar Smári Guðmundsson, Alfreð Már Hjaltalín, Heimir Þór Ásgeirsson, Kristinn Magnús Pétursson, Fannar Hilmarsson, Dominik Bajda, Guðmundur Magnússon og Guðmundur Steinn Hafsteinsson.

Helgi Kristjánsson

09.01.2012 11:31

Víkingur í úrslit futsal

Futsal: Víkingur - Leiknir R. 4 - 3

07. janúar 2012 klukkan 18:07
Á morgun getur Víkingur  orðið Íslandsmeistari í fyrsta sinn í innanhúsfótbolta, því í dag steig liðið stórt skref í þá átt með því að leggja lið Leiknis R að velli með fjórum mörkum gegn þremur í undanúrslitunum.

Víkingur  sem stillti upp mjög sterku liði þar sem þeir Edin Beslija og Eldar Masic voru mættir til leiks byrjaði þennan leik af krafti og náði frumkvæðinu fljótlega. Byrjunarliðið var Einar Hjörleifsson, Tomasz Luba, Edin Beslija, Guðmundur Magnússon og Guðmundur Steinn Hafsteinsson.  Samt var leikurinn mjög jafn en Víkingur  var að fá flest færin. En áhorfendur þurftu að bíða dágóðan tíma eftir fyrsta markinu og það kom í seinni hluta fyrri hálfleiks þegar Tomasz Luba skoraði 1-0 fyrir okkur af miklu harðfylgi. Það liðu ekki mjög margar mínútur þar til Eldar Masic jók forystuna í 2-0. Þannig var staðan í leikhléi. Fljótlega í seinni hálfleik lét Ejub hann Dominik Bajda inná og það var hann sem bætti þriðja markinu við eftir að Einar Hjörleifsson sendi stórkostlega sendingu til hans þar sem sendingin minnti á golfhögg með miklum bakspuna. Boltinn fór nefnilega fram fyrir Dominik og kom siðan til baka með miklum bakspuna og eftirleikurinn var auðveldur fyrir hann sem þrumaði boltanum efst í vinstra hornið og staðan orðin 3-0. Á þessum tímapunkti var maður farinn að eyja úrslitaleikinn en leikir eru ekki búnir fyrr en dómarinn flautar af og það sannaðist í þetta skipti. Leiknismenn náðu nefnilega að skora gott mark og strax í næstu sókn gerðu þeir annað og skyndilega var Leiknisliðið komið í gang og til alls líklegir. En Dominik var ekki á því að láta þá jafna því hann gerði sér lítið fyrir og þegar hann fékk boltann fyrir miðju marki rétt utan teigs lét hann vaða á markið og boltinn steinlá inni, efst í hægra horninu og staðan orðin 4-2 fyrir okkur. En þetta var ekki búið. Leiknir R fékk aukaspyrnu útá kanti sem undir eðlilegum kringumstæðum ætti að vera hættulítil en ekki í þetta sinn, því einn þeirra gerir sér lítið fyrir og þrumar boltanum í netið við nærstöng. Einhvernveginn fannst mér það hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta mark og staðan orðinn 4-3 og allt undir. Alveg undir lok leiksins verður Guðmundi Steini það á að brjóta af sér og Leiknir R fær víti af 11 metrunum. Spyrnan er tekin og hafnar í þverslánni. Annað vítið sem Leiknir misnotaði í leiknum. Hitt kom í fyrri hálfleik í stöðunni 2-0 og fór "kílómeter" framhjá.

Þessi sigur okkar er virkilega ánægjulegur. Annað árið í röð sem við spilum til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. Í fyrra tapaðist úrslitaleikurinn frekar ósanngjarnt fyrir Fjölni 2-3. Nú er lag og með sigri tryggir liðið sér þátttökurétt í Evrópukeppninni í Futsal næsta sumar. Í fyrsta sinn í sögu Vikings sem Evrópusæti ynnist.

Með ÍBV spilar okkar fyrrum leikmaður Brynjar Gauti Guðjónsson og þjálfari þeirra er Ólafsvíkingurinn Magnús Gylfason og þar með er hægt að segja að á morgun verða að minnsta kosti tveir Ólsarar (eða einn Ólsari og einn úr Breiðuvíkurhrepp)  Íslandsmeistarar .

Leikurinn á morgun hefst kl. 14.00 í Laugardalshöllinni og er frítt inn. Mætum öll, bæði til að hittast og hvetja liðið til sigurs. ÁFRAM VÍKINGUR

05.01.2012 01:20

Smá hugleiðing um val í landslið

Þorsteinn Már Ragnarsson valinn í æfingahóp fyrir U-21 árs landsliðið.

05. janúar 2012 klukkan

Eyjólfur Sverrisson landsliðsþjálfari U-21 árs landsliðsins hefur valið 29 manna hóp til æfinga hjá U-21 árs landsliðinu. Einn af þeim sem hann velur er Þorsteinn Már Ragnarsson okkar fyrrum leikmaður. Það er ekki hægt annað en að óska Þorsteini til hamingju með þennan áfanga sem er stór. Einnig vil ég hæla Eyjólfi fyrir þetta val. En ein spurning sækir á mig. Hvers vegna var Þorsteinn ekki valinn fyrr, á meðan hann var leikmaður Víkings Ó.? Það má ekki skipta máli að leikmenn séu valdir til æfinga hjá landsliði nema þeir séu í "réttu" liði. Ef svo er hjakkar landsliðið ávallt í sömu förunum og kemst ekkert áfram. Það eru öll lið á landinu sem halda úti öflugu unglingastarfi að framleiða góða leikmenn.

Ef við skoðum ensku úrvalsdeildina í dag. Hvar voru íslensku leikmennirnir þar aldir upp? Heiðar Helguson kemur frá Dalvík, Eggert Gunnþór Jónssson frá Austra Eskifirði, Grétar Steinsson frá KS á Siglufirði og Gylfi Þór Sigurðsson frá Breiðablik. Í 1.deildinni eru t.d. Aron Einar Gunnarsson frá Þór á Akureyri, Ívar Ingimarsson kemur frá Súlunni á Stöðvarfirði og Hermann Hreiðarsson kemur frá ÍBV í Vestmannaeyjum.

Þessi upptalning sýnir það að úti á landi geta leynst sterkir leikmenn fyrir landslið. Og þeir leynast þar. Gott dæmi um lið sem hefur skapað marga góða og sterka leikmenn er Völsungur frá Húsavík. Einnig ÍA. 

En leikmennirnir eiga að eiga sjens á landsliðssæti þó þeir spili ekki með liðum á höfuðborgarsvæðinu. Ef getan er til staðar.

Helgi Kristjánsson

18.12.2011 17:12

Víkingur - Fylkir 11-7

17. desember 2011

Víkingur  fékk góða gesti í dag til Ólafsvíkur til að spila við sig í Íslandsmótinu í Futsal. Þetta var Pepsídeildarlið Fylkis. Fyrri leik liðana lauk fyrir skömmu í Fylkishöllinni með 4-3 sigri Víkings í háspennuleik. Það verður að taka ofan fyrir liðum KB og Fylkis fyrir að mæta til leiks í Ólafsvík, en eins og menn muna mætti lið Hvíta Riddarans/Aftureldingu ekki til leiks í vikunni. Í útiboltanum getur lið sem mætir ekki til leiks unnið mót eða riðil. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort KSÍ ætti ekki að setja klásúlu í reglugerðina um Futsal að ef lið mætir ekki til leiks skuli liðið sæta bæði sektum og frávísun frá úrslitakeppni gerist það að liðið mæti ekki til leiks. Einnig þar af finna gulrót til að fá fleiri lið til að taka þátt. Fordómar sumra þjálfara fyrir Futsal er með ólíkindum. Futsal er það sem gerði og gerir Brassana góða. Víkingur getur þakkað Futsal mikið hve liðið er með marga tekníska leikmenn í sínum röðum, ásamt þjálfaragenginu.

Í dag fór leikurinn fram í Íþróttahúsinu í Ólafsvík. Þetta var að mér skilst hörkuleikur þar sem hart var barist. Víkingur leiddi í hálfleik 4-2 og sigraði síðan leikinn með 11 mörkum gegn 7. Ég efa það ekki að leikmenn Fylkis hafi átt gott ferðalag vestur og fengið ágætis tilbreytingu frá borgarlífinu.

Mörk Víkings í þessum leik gerðu þeir, Guðmundur Steinn Hafsteinsson 5, Guðmundur Magnússo 3, Tomasz Luba 2 og Ragnar Smári Guðmundsson 1. Hverjir spiluðu fyrir Víking hef ekki á hreinu en ef einhver sem les þetta veit það mætti hann skrifa nöfnin hér fyrir neðan.

Bæði Víkingur og Fylkir hafa tryggst sér sæti í úrsltakeppninni sem fer fram dagana 6.- 8.janúar 2012 og þar mætast 6 lið í tveimur riðlum. Víkingur og Fylkir gætu mæst aftur og önnur líkleg lið til mæta til þessarar úrslitakeppni eru t.d. ÍBV, Fjölnir, Leiknir R, og Viðir. Afríka á reyndar enn sjens en ég tel að ÍBV og Leiknir nái þessum tveimur sætum.

Helgi Kristjánsson

13.12.2011 20:44

Gott gengi hjá 3fl kvk Snæfellsness

Stórsigur í Keflavík

 Þriðji flokkur Snæfellsness kvenna tók þátt í Keflavíkurmóti í Reykjaneshöll laugardaginn 3. desember. Stelpurnar spiluðu 3 leiki, leiktíminn var 1x35 mínútur og spilað var í 11 manna liðum. Stelpurnar af Snæfellsnesi gerðu sér lítið fyrir og sigruðu mótið, þær unnu Þrótt í fyrsta leik 3-0, Keflavík í öðrum leik 5-0 og að lokum unnu þær KR 5-0. Þrír sigrar og markatalan 13-0.  

Meðfylgjandi er mynd af stelpunum með bikarinn ásamt þjálfara liðsins Birni Sólmari Valgeirssyni.

 

 

13.12.2011 07:35

Víkingur kominn í úrslitakeppni Futsal

12. desember 2011

Í kvöld lék Víkingur Ó sinn fjórða leik í Íslandsmótinu í Futsal innanhúsknattspyrnu. Mótherjinn var 3ju deildar lið KB og er ekki hægt annað en þakka þeim kærlega fyrir að hafa mætt til leiks í kvöld. Mörg félag fara bara helst ekki útfyrir höfuðborgarsvæðið á vetrartíma. En Víkingarnir eru sterkir í þessari íþrótt og til að mynda spiluðu þeir úrslitaleikinn í keppninni síðasta vetur. Í kvöld tókst þeim að vinna KB sannfærandi með 20 mörkum gegn fjórum. Þessi úrslit þýða það að Víkingur Ó er komið í úrslit í keppninni enn eitt árið og nú spái ég því að þeir geri harða atlögu að Íslandsmeistaratitlinum. Í kvöld vantaði leikmenn síðasta leik. Einar Hjörleifsson var ekki lentur þ.e.a.s. Guðmundur Jensson SH 717 og þ.a.l. vorum við án hans. Einnig voru þeir Ólafur Hlynur Illugason og Dominik Bajda fjarri góðu gamni í kvöld. Við megum vera með 12 leikmenn á skýrslu en vorum einungis með 10 í kvöld.

Svo óska ég KB mönnum góðrar ferðar heim og að þeir fari varlega.

Mörk Víkings Ó í kvöld gerðu þessir:

Heimir Þór Ásgeirsson 6
Steinar Már Ragnarsson 4
Guðmundur Magnússon 3
Ragnar Smári Guðmundsson 2
Guðmundur Steinn Hafsteinsson 2
Kristinn Magnús Pétursson 1
Alfreð Már Hjaltalín 1
Tomasz Luba 1

Eftirtaldir voru í 10 manna leikmannahópi Víkings Ó í kvöld.
Jón Haukur Hilmarsson sem varði markið, Tomasz Luba, Ragnar Smári Guðmundsson, Alfreð Már Hjaltalín, Guðmundur Steinn Hafsteinsson, Guðmundur Magnússon, Heimir Þór Ásgeirsson, Kristinn Magnús Pétursson, Steinar Már Ragnarsson og Anton Illugason.

Næsti leikur er á miðvikudagskvöldið eftir tvo daga í Ólafsvík gegn Hvíta Riddaranum/Aftureldingu og hefst leikurinn kl. 20.00.

Helgi Kristjánsson

07.12.2011 21:13

Víkingar efstir í B riðli Futsal

Futsal: Fylkir - Víkingur Ó 3-4

03. desember 2011 klukkan
Pepsídeildarlið Fylkis var næsti mótherji okkar í Futsal á þeirra heimavelli. Leikurinn varð gríðarlega jafn og spennandi, það spennandi að hann var ekki fyrir viðkvæmar sálir. Okkur tókst að vinna þennan leik með einu marki í leik sem gat dottið báðum megin en sem betur fer fyrir okkur datt sigurinn okkar megin.

Sem sagt, leikurinn fór 3-4 með sigri okkar. Samt byrjaði leikurinn ekki vel fyrir okkur, því snemma í leiknum gerðu leikmenn Fylkis tvö mörk gegn okkur á stuttum tíma eftir að hafa í bæði skiptin unnið boltann af þremur sækjandi leikmönnum Víkings Ó og brunað upp gegn fámennri vörn okkar. Þrátt fyrir þessa vondu stöðu var maður alveg rólegur. Og hvers vegna var maður rólegur? Jú, Fylkismenn komust varla fram fyrir miðju, þvílíka pressu settu leikmenn Víkings Ó á þá þegar þeir unnu boltann. Og áður en dómararnir blésu til hálfleiks hafði Alfreð Már Hjaltalín komið boltanum tvisvar í netið hjá þeim og staðan því 2-2 í hálfleik.

Í seinni hálfleik kom miklu ákveðnara og sterkara lið til leiks hjá Fylki. Nú gekk þeim betur að svara okkar taktík með því að gera nákvæmlega alveg eins og við, að hápressa. Það voru ekki margar mínútur liðnar af seinni hálfleiknum þegar Guðmundur Magnússon kemur okkur í 2-3 með hörkuskoti úr teignum í stöngina og inn. En Fylkir gafst ekki upp og um miðjan hálfleikinn komst einn þeirra einn gegn Einari markverði, en Einar sá við honum og varði skotið hans. En boltinn hrökk aftur til þessa leikmanns sem náði að renna boltanum undir Einar og í netið. Staðan þar með orðin 3-3 og útlitið þannig næstu mínúturnar að leikurinn muni enda með jafntefli.

En Guðmundur Steinn Hafsteinsson var ekki á því að taka ekki öll þrjú stigin sem í boði voru og skoraði gott mark þegar ein og hálf mínúta voru eftir og kom okkur yfir, 3-4 og þessari stöðu héldum við út, þrátt fyrir harðar sóknaraðgerðir Fylkismanna.

Þessum stórskemmtilega Futsal leik lauk því með sigri okkar manna og þar með erum við með fullt hús stiga eða 9 stig og trónum á toppnum í riðlinum þegar keppni er hálfnuð. Þrír síðustu leikir okkar verða allir spilaðir í Ólafsvík og má segja að úrslitakeppnin í byrjun janúar blasi við.

Næsti leikur okkar verður í Ólafsvík laugardaginn 10.des kl. 12.00 (hádeginu) og síðan kemur sá næsti og hann verður líka í Ólafsvík miðvikudaginn 14.des kl. 19.00 gegn Hvíta Riddarinn/Aftureldingu og svo mæta Fylkismenn til Ólafsvíkur laugardaginn 17.desember kl. 13.00.

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 2155
Gestir í dag: 47
Flettingar í gær: 847
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 3292628
Samtals gestir: 253529
Tölur uppfærðar: 17.1.2018 12:48:16
Flettingar í dag: 2155
Gestir í dag: 47
Flettingar í gær: 847
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 3292628
Samtals gestir: 253529
Tölur uppfærðar: 17.1.2018 12:48:16