Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Flokkur: Knattspyrna

20.05.2012 00:57

Víkingur gerði góða ferð á Krókinn

Víkingur  gerði góða ferð norður í land í dag eða nánar tiltekið til Sauðárkróks og vann lið heimamanna Tindastól með einu marki gegn engu. Tindastóll náði undirtökunum í byrjun leiks, en á 28.mínútu skoraði Guðmundur Steinn Hafsteinsson eina mark leiksins fyrir Víking  með góðu skoti í fjærhornið. Eftir markið tóku Víkingarnir við sér og héldu undirtökunum út leikinn ef marka má umsögn fótbolta.net frá leiknum.

Þetta voru þrjú kærkomin stig í safnið.

Næsti leikur er um næstu helgi á Ólafsvíkurvelli gegn nýliðum Hattar frá Egilsstöðum sem hafa byrjað mótið frábærlega.

18.05.2012 23:17

Víkingur - ÍBV mætast í 32 liða úrslitum

Bikarkeppni KSÍ 32. liða úrslit | Víkingur Ó - ÍBV

18. maí 2012 klukkan 12:34

 

Við fengum erfiðan leik í bikarkeppninni, Pepsideildarlið ÍBV kemur í heimsókn til okkar á Ólafsvíkurvöll.
Það verður gaman að fá okkar fyrrum félaga Magga Gylfa og Brynjar Gauta í heimsókn.

Leikirnir í 32-liða úrslitunum fara fram 6 og 7. júní næstkomandi.

Nú er um að gera að fjölmenna á völlinn og horfa á skemmtilegan bikarleik.
 

 

18.05.2012 23:15

Víkingar mæta Tindastól á laugardag

Næsti leikur á móti Tindastól á Sauðárkróki. Laugardaginn 19 maí, klukkan 16:00.

18. maí 2012 klukkan 10:56
Laugardaginn 19. maí munum við heimsækja Tindastól á Sauðárkróki. Leikurinn hefst klukkan 16:00.

Ef fólk á leið norður eða býr þarna í nágrenninu, þá er um að gera að skella sér á völlinn og horfa á strákana spila. Þetta er annar leikurinn hjá okkur í deildarkeppninni.

Við gerðum jafntefli í fyrsta leik á móti Fjölni heima, en Tindastólsmenn töpuðu á útivelli á móti Haukum Hafnarfirði. Þannig að það má búast við hörku spennandi leik, þar sem bæði liðin munu reyna að taka 3 stig út úr þessum leik.

Við sendum strákunum góða strauma norður og vonum að stiginn þrjú verði okkar.
Endilega kíkið á heimasíðu Helga Bjargar,  http://helgik.bloggar.is/ 
Þar er mikill fróðleikur um fyrri viðureignir á móti Tindastól.

18.05.2012 23:13

Víkingur með sigur gegn Ægi

Sigur á móti Ægi Þorlákshöfn.

17. maí 2012 klukkan 16:19
Við fórum í heimsókn til Þolákshafnar og öttum kappi við Ægismenn í 2 .umferð bikarkeppni KSÍ.

Leikurinn fór fram við góðar aðstæður, þokkalegt veður og völlurinn góður. En það kólnaði aðeins í veðri þegar líða tók á leikinn.

Leikurinn fór fjörlega af stað og var greinilegt að Ægismenn ætluðu ekki að gefa neitt eftir í baráttu við okkur. Þjálfari Ægismanna er okkur Víkingum að góðu kunnur en það er enginn annar en Alfreð Elías Jóhannsson okkar fyrrum liðsfélagi. 

Eins og við var að búast vorum við sterkari aðilar í leiknum og fór það svo að við unnum leikinn sannfærandi 1-4
Mörkin gerðu
0-1 Edin Beslija (28.mín, víti)
0-2 Eldar Masic  (35.mín)
0-3 Guðmundur Steinn Hafsteinsson (45.mín)
0-4 Guðmundur Magnússon (61.mín)

1-4 Arilíus Marteinsson (66.mín)
  Fyrir Ægi.

Gaman var að sjá hvað margir af stuðningsmönnum okkar komu og fylgdu liðinu eftir. Vonandi verður áframhald á því í sumar. Að fara að horfa á Víkings liðið spila er frábær skemmtun.

Hægt er að lesa nánar um leikinn á heimasíðu Helga Bjargar, virkilega ítarleg og skemmtileg lesning.
http://helgik.bloggar.is/ 
 

18.05.2012 23:11

UMFG - Víðir Garði á sunnudag

Íslandsmót KSÍ 3. deild karla C riðill 2012

 Grundarfjörður - Víðir Garði 

  Grundarfjarðarvöllur

Sunnudagurinn 20. maí 2012 kl 14:00

    Frítt á völlinn. Meistaraflokksráð UMFG

18.05.2012 22:28

Jöfnun á íslandsmeti í Stykkishólmi

Þjálfari Snæfells eftir 0-31 tap: Þetta var mjög gaman
Páll Margeir Sveinsson (til hægri).
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
`
Snæfellingum gekk illa að eiga við Guðmund Viðar Mete.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

,,Þetta var mjög gaman, ég hafði allavega gaman að þessu. Grasið var í fínasta lagi og það var slatti mikið af áhorfendum," sagði Páll Margeir Sveinsson spilandi þjálfari Snæfells léttur í bragði í samtali við Fótbolta.net í dag eftir 31-0 tap liðsins á heimavelli gegn Haukum í bikarnum í gær.

Þetta stóra tap hefur vakið mikla athygli en Páll Margeir segir að fastamenn hafi vantað í lið Snæfellinga og það hafi haft mikil áhrif.

,,Ég bjóst við að vera með allt annað lið í höndunum fyrir leikinn. Það vantaði sjö menn í byrjunarliðið og við vorum ekki að spila á okkar sterkasta liði. Þetta er erfitt hjá okkur út af vinnu og síðan eru einhverjir leikmenn í Reykjavík."

,,Lokahófið hjá körfuknattleiksdeildinni var í gærkvöldi og það hafði áhrif, það voru leikmenn þar sem ætluðu að spila. Allir bestu íþróttamennirnir á svæðinu á milli tvítugs og þrítugs eru í körfunni en mér heyrist að þeir hafi áhuga á að koma og styrkja okkur í sumar og ég vona að þeir komi. Það eru margir þar 1.90 á hæð, góðir hafsentar,"
sagði Páll en hann spilaði sjálfur í gær auk þess sem margir ungir leikmenn voru í liðinu.

,,Það var einn strákur úr 9. bekk sem spilaði allan leikinn og sjálfur spilaði allan leikinn en ég verð 42 ára á árinu. Það má kannski segja að það hafi verið amateur bragur á þessu. Ég hafði vonast til að Haukar myndu mæta ellefu íþróttamönnum í toppstandi en það var ekki út af þessum afföllum."

Litum ekki illa út á kafla í fyrri hálfleik:
Haukar voru 13-0 yfir í leikhléi og í síðari hálfleik héldu mörkin áfram að hrúgast inn.

,,Við spiluðum 4-5-1 og þetta var í raun eltingarleikur. Ef við hefðum verið með okkar sterkasta lið hefði þetta verið allt annað. Það hefði kannski verið betra að spila 5-4-1 eða eitthvað svoleiðis en það voru í raun allir varnarmenn nema þessi fremsti," sagði Páll en Snæfellingar áttu nokkrar álitlegar sóknir.

,,Það var kafli í fyrri hálfleik þar sem við litum alls ekkert svo illa út og það var meira segja klappað fyrir okkur eftir leik. Við fengum 5-6 sinnum nálægt vítateignum í hraðaupphlaup en við náðum ekki opnum færum."

Haukarnir komu drengilega fram:
Haukar höfðu eins og tölurnar gefa til kynna mikla yfirburði og þeir náðu oft að vinna boltann strax eftir miðju og skora.

,,Guðmundur Viðar Mete var eins og refur í hænsnakofa þegar síðari hálfleikurinn byrjaði. Hann óð alltaf upp frá miðjunni í gegnum þríhyrningsspil og sendi á einhvern sem skoraði. Þetta var eins og létt æfing fyrir þá. Ég hef samt ekki trú á öðru en að þeir eigi eftir að gera góða hluti í sumar, þeir hljóta að vera í úrvalsdeildarklassa, það getur ekki annað verið," sagði Páll sem hrósar Haukum mikið fyrir leikinn.

,,Ég er rosalega ánægður með hvað Haukarnir komu drengilega fram við okkur. Þeir sýndu virðingu, þeir voru aldrei að gera grín að einhverjum."

Hef ekki trú á öðru en að við höldum þetta út:
Snæfell er með á nýjan leik lið í þriðju deildinni í sumar eftir fjögurra ára hlé. Liðið mætir Þrótti Vogum í fyrsta leik sínum í deildinni á sunnudag.

,,Ég hef ekki trú á öðru en að við náum að halda þetta út. Það eru fleiri leikmenn hérna en var árið 2008 og það er ný kynslóð ungra leikmanna frá 15-20 ára að koma upp," sagði Páll brattur.

Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?id=126513#ixzz1vGNReO4K

18.05.2012 22:23

Uppskeruhátíð Snæfells

Frá lokahófi Snæfells og Mostra

Það var heilmikið stuð þegar körfuknattleiksdeild Snæfells lokaði tímabilinu. Herbert Guðmunds gerði allt vitlaust að vanda, uppboðið sló í gegn og verðlaun tímabilsins hjá Snæfelli og Mostra voru veitt. Örvar Kristjánsson veislustjóri sá um að enginn færi heim nema með góðar herðsperrur í maga og vakti stormandi lukku með fallegum lýsingum í sögum sínum að kvennfólkið stóð í röðum að laga make-upið eftir á.

 

Það voru þau Hildur Sigurðardóttir og Jón Ólafur Jónsson (Nonni Mæju) sem valin voru bestu leikmennirnir. Bestu varnarmenn voru Alda Leif Jónsdóttir og Sveinn Arnar Davíðasson og ungu efnin voru valin Hildur Björg Kjartansdóttir og Snjólfur Björnsson.

 

Mikið var um allskonar verðlaun hjá Mostra einnig og gríðaleg stemming á sviði og í sal við verðlaun og viðurkennigar kvöldsins en sérstaka þakkarviðurkennigu fékk Kristín Benediktsdóttir frá stjórn Snæfells.

 

Hildur Björg Kjartansdóttir átti ekki heimagegnt álokahófið að þessu sinni vegna Norðurlandamóts u18 landsliðsins í Solna í Svíðþjóð þar sem hún er lykilleikmaður og sendum við henni stuðkveðjur úr Stykkis.

 


 

14.05.2012 16:56

Jafnt hjá Víking og Fjölni

Jafntefli var niðurstaðan í fyrsta leik sumarsins. Leikurinn fór fram á Ólafsvíkurvelli við flottar aðstæður, gott veður og þokkalegt ástand á vellinum.

Við byrjuðum leikinn af miklum krafti og vorum við talsvert ógnandi í upphafi og hefðum við hæglega getað sett tvö mörk snemma leiks. En við fengum dæmda vítaspyrnu á 40 mínútu þegar Guðmundur Steinn var togaður niður í teignum. Edin Beslija steig á punktinn og skoraði nokkuð örugglega.

  Mikið jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik og var talsverð stöðu barátta. Sóknir Fjölnismanna þyngdust og náðu þeir að opna vörn okkar nokkrum sinnum. Það fór svo að Fjölnismenn skoruðu og jöfnuðu metin á 54, mínútu og var þar á ferðinni Ómar Hákonarson. 

Einar Hjörleifsson, fór fyrir okkar mönnum, og varði nokkrum sinnum meistaralega og kom í veg fyrir að Fjölnismenn tækju öll 3 stigin með sér suður.

Niðurstaðan í dag var jafntefli og verður að segja að það hafi verið nokkuð sanngjarnt.
En mótið er rétt að byrja og vonandi eigum við eftir að sjá fullt af skemmtilegum leikjum í sumar.

07.05.2012 22:31

Snæfell áfram í bikarkeppninni

Skessuhorn:


Grundfirðingar féllu úr bikarkeppninni en Snæfell mætir Haukum


7. maí 2012

Lið Grundarfjarðar datt út úr bikarkeppni KSÍ þegar liðið mætti á Ásvelli í Hafnarfirði til að etja kappi við lið ÍH. Hafnfirðingarnir byrjuðu leikinn betur og komust í 1-0 í fyrri hálfleik. Í þeirri stöðu misnotuðu Grundfirðingar kjörið tækifæri til að jafna metin þegar þeir fengu vítaspyrnu en Heimi Þór Ásgeirssyni brást bogalistin á vítapunktinum. ÍH komst svo í 2-0 áður en Heimir Þór náði að minnka muninn í 2-1 þegar skammt var til leiksloka. Leikurinn fjaraði síðan út án þess að Grundfirðingar næðu að bæta við marki.

Aðra sögu er að segja af Snæfelli sem fékk frímiða í næstu umferð bikarkeppninnar þar sem lið Höfrungs frá Þingeyri gaf sinn leik. Snæfell mætir því sterku fyrstudeildarliði Hauka á Stykkishólmsvelli miðvikudaginn 16. maí næstkomandi.

 

19.04.2012 15:55

UMFG með nýjan þjálfar

Nýr Þjálfari

Nú eru þjálfaramál Grundarfjarðar loksins komin á hreint en samningar hafa náðst við Aleksandar Linta um að þjálfa liðið á komandi sumri. Aleksandar hefur verið í Serbíu undanfarna mánuði að ná sér í þjálfararéttindi en hann er hokinn af reynslu. Aleksandar sem er 37 ára gamall var í herbúðum Þórs á Akureyri síðasta sumar og spilaði þar 16 leiki í efstu deild. Linta hefur verið í herbúðum Þórs frá árinu 2008 en hann hefur einnig leikið með KA, ÍA og Víkingi Ólafsvík. Hann á að baki 173 meistaraflokks leiki á Íslandi og hefur skorað 25 mörk í þeim leikjum. 

Við óskum Aleksandar velfarnaðar í starfi.

11.04.2012 21:56

Páskarnir tímar upprisu!!!

Snæfell kemur inn í 3. deildina
Snæfell tekur þátt í Íslandsmótinu á nýjan leik.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Vængir Júpiters og Skallagrímur hafa hætt þátttöku í 3. deild karla og Bikarkeppni KSÍ í meistaraflokki.

Af þessum sökum hefur mótanefnd KSÍ ákveðið eftirfarandi:
Lið Snæfells frá Stykkishólmi tekur sæti Skallagríms í C riðli 3. deild karla og Bikarkeppni KSÍ.
Hönd Midasar frá Reykjavík tekur sæti Vængja Júpiters í Bikarkeppni KSÍ.
Leikir Vængja Júpiters í A riðli 3. deildar karla falla niður.

Eitt sæti er því laust í A riðli 3. deildar karla. Félög sem hafa áhuga á að taka sætið er bent á að hafa samband við KSÍ.

Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?id=124437#ixzz1rluPkbdv

08.04.2012 18:33

Æfingabúðir Víkings

Ferðasaga | Dagur III & IV

06. apríl 2012 klukkan 20:47

Ævintýrið heldur áfram hér í Oliva Nova. Staðan á hópnum er góð, sumir orðnir elg-tanaðir á meðan aðrir eru hvítari en tennurnar á Ryan Seacrest. Gummi Magg er að slátra Kristmundi í tan-keppninni og hefur því Mundi gefið það út að hann ætlar að fara beinustu leið í sólbekkina í Sólarsport.

Það er einhver lægð yfir Stjóranum þessa dagana þar sem hann er að tapa tveimur keppnum, en það er sjaldgæf sjón að sjá Stjórann tapa í einhverju, G.Steinn er með yfirhöndina í Olsen-Olsen við hann á meðan G.Magg er með yfirhöndina í snúningsskotkeppninni. Keppt var við spánskt lið á þriðjudegnum og enduðu leikar 0-0, en liðið átti mjög góðan leik og var ekki að sjá neinn mun á hvort væri atvinnumannalið eða lið úr 1.deildinni á Íslandi. 
Næsti leikur er síðan við ÍBV á föstudaginn. Búast má við hörkuleik, tvö góð lið að mætast á vellinum. Hitinn er heldur betur að aukast í sambúð félagana í herbergi 2314, ákváðu þeir að fara í paranudd á föstudaginn og verður spennandi að sjá útkomuna á því.

Eins og sjá má er margt að gerast og mun skemmtunin halda áfram næstu daga, leikur og almenn gleði.

Kveðjur á klakann,

Hobbitinn #5 og G-pain #8 (herbergi 2314).

 

06.04.2012 15:54

Æfingaferð hjá Víking

Ferðasaga | Dagur I & II

01. apríl 2012 klukkan 20:46
Við strákarnir vorum komnir í hörkugír í vikunni fyrir þessari æfingaferð sem við höfðum beðið eftir með mikilli eftirvæntingu í allan vetur. Eftir frekar leiðinlegan jafnteflisleik á Selfossi var förinni heitið upp á flugvöll þaðan sem haldið yrði í æfingaferð til Spánar. Flugið fór misjafnlega í menn, nefnum engin nöfn en einna stressaðastur var maður sem byrjar á K og endar á mundur

Allt tók sinn tíma og enduðum við upp á hóteli klukkan 03:00 að staðartíma. Sofið var út daginn eftir og hófst dagurinn á fundi og göngutúr um 11 leytið og þar voru línurnar lagðar fyrir ferðina, reglur settar og þjálfarinn harður á því að menn ættu að halda sig inni á herbergi milli æfinga ( s.s. sitja inni á herbergi í 25 stiga hita og sól og horfa á hin liðin baka sig í sólinni). Þetta fór misjafnlega í menn en að sjálfsögðu hlýddu menn skipunum þjálfarans. 

Þess í stað fengu menn góða útrás á kröftugri 2 tíma æfingu þar sem vel var tekið á því. Þegar líða fór á kvöldið fór sá orðrómur á stað innan veggja hótelsins að liðsmenn V.Ó mættu ekki njóta sólarinnar milli æfinga. Þessi atburðarrás endaði þannig að um kvöldið kom Stjórinn sjálfur skellihlæjandi og tilkynnti leikmönnum sínum að hver og einn einasti hefði hlaupið harkalegt aprílgabb! Þetta getur verið dýrkeypt aprílgabb því veðurspár segja að þetta hafi verið eini sólardagurinn í ferðinni. Allir léttust gífurlega eftir þessar fréttir, sérstaklega einn aðili sem hafði þá um daginn gengið 10 km í hringi í 10 fm hótelherbergi sínu (hint: HOBBITINN). 

Annars eru allir hressir og kátir og viljum við endilega skila kveðju til allra stuðningsmanna V.Ó hvar sem er í heiminum.

Nú er aðalspurningin hjá okkur strákunum hvort við þurfum ekki að taka einn svakalegan hrekk til baka hmm..

Kveðja úr herbergi 2314

Steini © #17, G-pain #8 og Fannsi #21.
   
 

27.03.2012 13:13

Jafnt hjá Víking og Þrótti í lengjubikar

Fjörugur leikur og mun betri en sá síðasti

25. mars 2012 klukkan 13:16
Lengjubikar A-deild
Egilshöll
Laugardagur kl. 17.00

Þróttur R - Víkingur Ó 2-2 (0-2)

0-1 Edin Beslija (25.mín, víti)
0-2 Steinar Már Ragnarsson (31.mín)
1-2 Oddur Björnsson (52.mín)
2-2 Hermann Ágúst Björnsson (78.mín)


Þennan leik sá ég ekki vegna árshátíðar hjá Ferðaþjónustu Bænda þar sem konan mín vinnur. Árshátiðin sem haldin var í Bláa Lóninu var á sama tíma. En að sjálfsögðu hafði ég tíðindamann á svæðinu og það sem ég skrifa hér á eftir kemur frá honum.

Víkingur Ó spilaði mjög vel í fyrri hálfleik og hefði með réttu átt að hafa klárað leikinn með 4-5 marka mun. Bæði liðin skutu í þverslá, Þróttur á 2.min og var það eina markfærið þeirra í fyrri hálfleik. Edin svaraði því með öðru sláarskoti hinum megin. Víkingur Ó fékk víti á 24 mín þegar brotið var á Torfa Karli innan teigs og Edin kláraði vítið vel. Steinar Már kom okkur yfir stuttu seinna með skoti sem fór að lokum í stöngina og inn. Eftir þessi tvö mörk fengu Víkingarnir nokkur góð færi til að auka forystuna en tókst það ekki.

Í seinni hálfleik komu Þróttararnir mun ákveðnari til leiks og komust inní leikinn. Á 52.mín var dæmd aukaspyrna á Víking fyrir óþarfapeysutog hjá Steinari Má og uppúr spyrnunni fengu Þróttarar horn sem endaði með marki. Eftir þetta mark vonaði ég að farsíminn minn myndi ekki hringja meira á meðan á leiknum stóð. En svo hringdi hann tólf mínútunum fyrir leikslok með slæm tíðindi. Þróttur hafði jafnað leikinn 2-2 og þannig lauk þessum fjöruga leik.

Ég bað tíðindamann minn að velja þrjá bestu leikmenn Víkings Ó í þessum leik. Hann valdi Eldar Masic sem hann sagði að hafi spilað ljómandi vel og verið miklu betri en í síðasta leik. Emir Dokara spilaði einnig vel fannst honum og sá þriðji sem hann valdi var Steinar Már Ragnarsson sem vex og vex með hverjum leiknum og verður alltaf betri og betri. Kannski verður hann jafngóður og bróðir sinn fljótlega!!

Dómgæslan var góð og fær dómararatríóið 4 í einkunn. Tapa einum vegna þess að ég var ekki á staðnum.

Næsti leikur verður gegn Selfossi á gervigrasvellinum á Selfossi föstudaginn 30.mars kl. 19.00.

Helgi Kristjánsson

25.03.2012 21:17

Aftur tap hjá Grundfirðingum

Annað tap

Grundarfjörður og Stál-úlfur áttust við í Akraneshöllinni í dag, laugardag. Það er nú ekki frá miklu að segja en að við steinlágum aðra helgina í röð og nú 4-0. Að vísu var töluverð mannekla fyrir leikinn og þónokkuð vantaði af varnarmönnum. 

Nú er ekkert annað í stöðunni en að fara að byrja á þessu helvíti.

Spurning hvort að næsti leikur sé um næstu helgi en það skýrist væntanlega í vikunni.

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 689
Gestir í dag: 51
Flettingar í gær: 471
Gestir í gær: 114
Samtals flettingar: 3290315
Samtals gestir: 253478
Tölur uppfærðar: 16.1.2018 17:28:50
Flettingar í dag: 689
Gestir í dag: 51
Flettingar í gær: 471
Gestir í gær: 114
Samtals flettingar: 3290315
Samtals gestir: 253478
Tölur uppfærðar: 16.1.2018 17:28:50