Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Flokkur: Körfubolti

17.11.2012 13:11

Snæfell kjöldróg Fjölni

14. nóvember 2012Snæfell kjöldró botnlið Fjölnis í Domino´s deild kvenna í kvöld. Lokatölur 47-82 í Dalhúsum. Gestirnir úr Stykkishólmi tóku forystuna snemma í leik sem var aldrei spennandi. Hildur Sigurðardóttir fór fyrir Hólmurum með 19 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar en hjá Fjölni var Brittney Jones með 18 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar.


 
Snæfell gerði sjö fyrstu stigin í Dalhúsum áður en heimakonur komust á blað. Strax frá fyrstu mínútu var þetta áreynslulaust hjá gestunum á meðan Fjölniskonur virkuðu flatar og hugmyndasnauðar í sínum sóknaraðgerðum. Varnarleikur Fjölnis var ekki upp á marga fiska og Snæfell leiddi 13-25 að loknum fyrsta leikhluta en það var Brittney Jones sem klóraði þar smá í bakkann fyrir Fjölni með flautuþrist.


 
Áfram hélt andleysið hjá Fjölni í öðrum leikhluta og þó heimakonur reyndu fyrir sér í svæðisvörn hafði það lítið að segja gegn Hólmurum. Gular réðu á engan hátt við Kieraah Marlow sem fór upp að körfunni þegar hana lysti en hún var með 18 stig, 14 fráköst og 5 stoðsendingar í kvöld. Staðan í leikhléi var 25-47 Snæfell í vil þar sem Marlow var með 14 stig og Hildur Björg 13. Hjá Fjölni var Brittney með 14 og Fanney Lind 5.


 
Snæfell opnaði síðari hálfleik 3-10 og engin batamerki að sjá á Fjölni svo ekki leið á löngu uns bæði lið fóru að gefa lítt reyndari leikmönnum færi á að spreyta sig. Staðan var 38-73 að loknum þriðja leikhluta þar sem Rósa Kristín Indriðadóttir lokaði leikhlutanum með þrist fyrir Snæfell.


 
Fjórði leikhluti var í raun bara bið eftir því að leiktíminn rynni út og undirritaður hálfpartinn gapti yfir andleysi Fjölnis því frammistaða gulra í kvöld bar þess ekki vott að liðið væri að berjast fyrir tilverurétti sínum í deildinni. Að sama skapi voru Snæfellingar beittir og þó, eins og marg oft hefur verið rætt, liðið sé með þunnan hóp þá er hann gríðarlega sterkur. Leikmenn eins og Marlow, Hildur Sig og Hildur Björg og Alda eru bakbeinið í hópnum og eru jafnvel enn hættulegri þegar leikmenn eins og Rósa Kristín taka sínar rispur.


Myndasafn úr leiknum
Tölfræði leiksins
 
Myndir og umfjöllun/ nonni@karfan.is 

14.11.2012 16:43

Sigur á Hamri í Lengjubikarnum

12. nóvember 2012Sóknarlega voru liðin lengi í gang og voru sprækari varnarlega en Snæfell fékk slatta af skotum, sérstaklega þessum sex þristum sem þeir nýttu ekki og staðan var lengi 8-2 eða eftir 6 mín leik þá komst Snæfell fljótt í 14-5. Frekar kuldaleg byrjun á leiknum í Hólminum í kvöld en Snæfell bætti aðeins í og staðan 19-8 eftir fyrsta hluta.


Halldór Gunnar smellti tveimur þristum fyrir Hamar til að kveikja vonir og halda mönnum við efnið enda ekki nema um 10 stig sem skildu liðin af 25-15 en Hamar varð að einbeita sér betur. Á móti voru Snæfellsmenn ekkert að gera neinar rósir og virtust meira eyða hraðanum og orkunni í lítið á köflum en leiddu leikinn þrátt fyrir að eiga 70% inni.


Snæfellingar héldu áfram að reyna við þrista þegar liðið var á annan hluta en 0/11 segir allt um nýtinguna en góðan tíma fengu þeir við skotin. Það var svo Ólafur Torfason sem kom þeim fyrsta ofaní 1 af 12 og Snæfell 40-28 yfir.


Staðan í hálfleik 44-28 fyrir Breiðafjarðardrengjum í Snæfelli sem áttu meira inni og þeirra stigahæstir Asim McQueen með 12 stig og Hafþór Gunnars með 10 stig. Hjá Hamri var Halldór Gunnar með 12 stig og þeirra heitastur en honum næstur var Jerry Lewis með 9 stig.


Snæfell beittu stífri pressu á Hamar og uppskáru gott forskot 61-38 og nýttu breiddina gegn Hamri meira en í fyrri hálfleik. Snæfell týndi fleiri stig á töfluna þó Hamarsmenn reyndu vel og var sem Snæfell nennti þessu meira í seinni hálfleik og voru yfir 79-46 eftir þriðja fjórðung en Hafþór Gunnarsson hafði farið hamförum í að stela boltum og skora sniðskotum.


Leikurinn gekk fram og til baka með gamanmálum og hnyttni en Hamarsmenn náðu að beita sér aðeins með Þorstein Má, Halldór og Örn fremsta í flokki en lykilmenn Snæfell fengu hvíldina og allir spámenn liðanna stóðu sig vel í leiknum sem er fyrir öllu. Snæfell vann sannfærandi sigur 97-75 og taka efsta sætið í B-riðli.


Snæfell: Hafþór Ingi Gunnarsson 24/4 frák/3 stoðs/5 stolnir. Stefán Karel Torfason 16/9 frák. Asim McQueen 13/8 frák. Jay Threatt 13/4 stoðs. Pálmi Freyr Sigurgeirsson 9/3 stoðs. Jón Ólafur 7/5 frák. Sveinn Arnar 6/3 frák/8 stoðs. Ólafur Torfason 5/5 frák. Tinni Guðmundsson 4. Magnús Ingi 0/3 frák. Óttar Sigurðsson 0. Kristófer Sævarsson 0.


Hamar: Örn Sigurðsson 18/12 frák. Þorsteinn Már Ragnarsson Halldór Gunnar 16. Jerry Lewis 9/7 frák. Hjalti Valur 6. Ragnar Nathanaelsson 5/10 frák. Eyþór Heimisson 2. Bjartmar Halldórsson 2. Bjarni Rúnar 0. Björgvin Snær 0. Mikael Rúnar 0.


Símon B. Hjaltalín. 

Mynd: Sumarliði Ásgeirsson

12.11.2012 10:50

Sjö Snæfellsstúlkur rúlluð yfir Val.

10. nóvember 2012


Snæfellsstúlkur tóku á móti Val í dag og voru ekki margar í liðinu, alls sjö, eftir að hafa fengið Ellen Ölfu Högnadóttir inní liðið. Berglind Gunnarsdóttir á við meiðli að etja og þrjár stúlkur úr stúlknaflokk fóru í leiki með sínum flokk og mættu KKÍ menn athuga að mjög margar stúlknaflokksstelpur spila orðið með meistaraflokki og því ótrúlegt að þessum leikjum skuli vera raðað á sama tíma.


Bæði lið byrjuðu skipulögð og tilbúin í leikinn. Varnarlega var Snæfell þó sterkara og sóknarmegin smelltu Rósa og Alda Leif stórum körfum niður og komust í 12-8. Alberta Auguste hjá Val var komin í vandræði og fékk sína þriðju villu sem tæknivillu og var komin á tréverkið eftir fjögra mínútna leik. Snæfellsstúlkur voru duglegar að stela og taka fráköstin í vörninni og uppskáru að komast fljótt í 23-12.


Dómarar leiksins voru mjög strangir á tæknivillum eftir fyrirspurn um leikinn frá Inga Þór og fékk hann eina slíka á sig. Snæfell hélt forskoti sínu í öðrum hluta 36-23 en Valsstúlkur voru tilbúnar í að sækja í sig veðrið og Alberta komin inná. Þá kom mikil kafli hjá Snæfelli sem kom þeim í 43-23 og mikið brotið á bak aftur hjá Val sem voru að stilla sig af en Ágúst varð að taka smá tíma í spjall. Kieraah Marlow var sjóðandi og Helga Hjördís smellti stórum stigum yfir Val. Staðan 53-27 þegar ástæða þótti til skrafs og ráðagerða hjá Völsurum.


Ekki var að sjá að Ellen Alfa hefði einhverju gleymt og stóð sig vel en hjá Val voru þær Guðbjörg Sverrisdóttir, Alberta Auguste og Kristrún Sigrjóns sem reyndu að halda Val við efnið en staðan ver erfið eða 29 stiga munur 58-29 í hálfleik þar sem allir sjö leikmenn Snæfells voru uppá tánum með allt á hreinu og mjög góð skotnýting.


Valsstúlkur reyndu hvað þær gátu og áttu góðar sóknir á kafla en varnarleikurinn var frekar daufur og þurfti mikið púður í að slaka niður um 30 stiga forskoti þar sem Snæfelli héldu engin bönd og staðan 70-45 eftir þriðja hluta.


Fjórði hlut var prýðilega spilaður af báðum liðum en eins og áður sagði staðan löngu orðin erfið fyrir Val að elta svona mikið forskot uppi. Leiknum lauk 88-54 í öruggum sigri Snæfells og ótrúlega lítil fyrirstaða í Valsliðinu þennan leikinn en þær eiga nokkuð mikið inni trúi ég.Símon B. Hjaltalín.

12.11.2012 10:49

Góður sigur Snæfells á Fjölni

9. nóvember 2012


Snæfell heldur uppteknum hætti með sigri á Fjölni í Grafarvoginum í kvöld.  Snæfell hefur nú sigrað 5 af fyrstu sex leikjum deildarinnar og líta vægast sagt vel út.  Fjölnir siglir lignan sjó um miðja deild með þrjá sigra og þrjú töp.  Það munaði þó ekki miklu á liðunum í kalfaskiptum leik kvöldsins.  Snæfell tók af skarið og náði með 17 stiga forskoti en Fjölnir svaraði um hæl, oftar en einu sinni.  Snæfell var þó sterkara liðið á lokakaflanum með flottum leik frá Ólafi Torfasyni og Jóni Ólafi Jónssyni sem settu hvern þristinn á fætur öðrum og tryggðu 7 stiga sigur Snæfells, 95-102.

 

Stigahæstur í liði Snæfells var Jón Ólafur Jónsson með 32 stig og 5 fráköst en næstu menn voru Asim McQueen með 25 stig og 13 fráköst  og Jay Threatt með 17 stig og 8 fráköst.  Hafþór Ingi Gunnarsson átti einnig glimrandi góðan leik með 10 stoðsendingar.  Í liði Fjölnis var Sylvester Spicer stigahæstur með 27 stig og 7 fráköst en næstu menn voru Jón Sverrisson með 20 stig og 8 fráköst og Arnþór Guðmundsson með 19 stig og 5 stolna bolta.  Tómas Tómasson átti einnig virkilega góðan leik hjá Fjölni með 14 stig og 12 stoðsendingar. 

 

Snæfell byrjaði leikinn vel, þeir létu háan varnarleik heimamanna ekki trufla sig go nýttu sér vel yfirburði Asim McQueen í teignum, en hann hafði skorað 6 af fyrstu 13 stigum Snæfells þegar þrjár mínútur voru liðnar, 6-13.  Fjölnismenn voru duglegir að sækja á körfuna og uppskáru nokkrar villur með hröðum leik.  Þeir voru aftur búnir að minnka muninn niuður í 2 stig um mínútu síðar eftir glæsilega troðslu frá Sylvester , 13-15.  Það virtist þó alltaf vera auðveldara fyrir Snæfell að koma boltanum í körfuna og voru þeir búnir að ná forskotinu aftur upp í 8 stig þegar tvær mínútur voru eftir, 17-25.  Þessu forskoti héldu Snæfellingar til loka fyrsta leikhluta sem lauk 21-28. 

 

 Snæfell bætti smá saman í forskotið í öðrum leikhluta og þegar tvær mínútur voru liðnar var forskot þeirra komið í 11 stig, 23-34.  Varnarleikur Snæfells var að gera Fjölnismönnum erfitt fyrir sem gátu þó líka sjálfum sér um kennt þar sem þeir fóru illa með nokkur áleitleg færi í upphafi annars leikhluta.  Snæfell náði virkilega góðum kafla stuttu seinna og skoruðu 6 stig á innan við mínútu sem heimamönnum tókst ekki að svara, 23-40.   Hjalti Þór tók svo leikhlé fyrir Fjölnismenn stuttu seinna í stöðunni 25-43. 

 

Liðin skiptu með sér stigunum næstu mínúturnar en Fjölnir gekk illa að saxa á forskot Snæfells.  Þegar þrjár mínútur voru til hálfleiks munaði 16 stig á liðunum, 33-49.  Fjölnir tók sitt annað leikhlé í leikhlutanum þegar ein og hálf mínúta var eftir og það munað 14 stigum á liðunum, 35-49.  Fjölnismenn skoruðu þá fimm stig gegn engu á þeim tíma sem eftir var fyrri hálfleiks og því munaði aðeins 9 stigum á liðunum þegar gengið var til klefa, 40-49. 

 

Stigahæstur í liði Snæfells í hálfleik var Asim McQueen með 17 stig en næstu menn voru Jón Ólafur Jónsson með 11 stig og Jay Threatt með 10 stig.  Hjá Fjölni var Arnþór Guðmundsson stigahæstur með 11 stig en næstu menn voru Sylvester Spicer og Jón Sverrisson með 8 stig hvor. 

 

Fjölnismenn tóku uppá því skemmtilega uppátæki að bjóða öllum börnum í salnum uppí dans.  Það voru því hátt í 50 börn sem sáu um að skemmta áhorfendum með dansinum "Gangnam Style" sem flestir ættu að þekkja í dag.  Frábært framtak sem vakti vafalaust lukku bæði hjá ungum og eldri. 

 

Snæfell tókst ekki að vinna aftur upp forskotið í upphafi seinni hálfleiks og Fjölnir nýtti sér hver mistök gestana til að minnka forskotið.  Þegar rúmlega þrjár og hálf mínúta var liðin af þriðja leikhluta höfðu Fjölnismenn minnkað muninn niður í 4 stig, 53-57, og Ingi Þór tók leikhlé fyrir Snæfell.  Nonni mæju fékk þá sína þriðju villu en á þeim tímapunkti hafði Fjölnir aðeins fengið á sig fimm villur í öllum leiknum, á móti 9 villum Snæfellinga.  Snæfell svaraði því þó um hæl og var munurinn kominn aftur í 9 stig aðeins tveimur mínútum síðar, 55-64.  Fjölnir tók leikhlé stuttu seinna þegar forskot Snæfells var aftur komið upp í 11 stig, 57-68. Forskot Snæfells náði mest 12 stigum undir lok þriðja leikhluta en líkt og í lok annars leikhluta tókst Fjölni að skora síðustu fimm stig þess þriðja og minnka forskot gestana niður í 7 stig, 66-72. 

 

Sveinn Arnar Davíðsson fékk sína fimmtu villu strax í fyrstu sókn Fjölnis í fjórða leikhluta og var því settur á ís.  Heimamenn pressuðu þá hátt á Snæfell sem fékk fyrir vikið á sig fyrstu sex  stig leikhlutans, og þar af ótrúlega laglega Alley-oop troðslu frá Sylvester Spicer eftir sendingu frá Tómasi Tómassyni, 71-72.  Snæfell átti þó svör og settu næstu 5 stig, þar af þriðji þristurinn í leiknum frá Ólafi Torfasyni, 71-77.  Jón Ólafur Jónsson setti næsta þrist og á örstundu var Snæfell aftur komið með 9 stiga forskot, 71-80.  Fjölnir átti næsta kafla í leiknum þar sem þeir minnkuðu muninn aftur niður í eitt stig, 80-81, þegar leikhlutinn var rétt tæplega hálfnaður. 

 

Snæfell tók svo leikhlé stuttu seinna með þriggja stiga forskot, 80-83 og fjórar og hálf mínúta var eftir af leiknum.  Hafþór Iingi Gunnarsson fór meiddur af velli um mínútu síðar eftir rausnarlegt olnbogaskot frá Tómasi Tómasssyni sem virtist þó vera óviljaverk að öllu leiti.  Ólafur Torfason lét það ekki slá sig útaf laginu því hann setti sinn fjórða og fimmta þrist í leiknum stuttu seinna og það munaði því aftur 9 stigum á liðunum, 83-92.  Fjölnismenn tóku leikhlé þegar ein og hálf mínúta var eftir en forskot gestana stóð þá í 10 stigum og því ljóst að mikið þyrfti að breytast í leik Fjölnis til að vinna það forskot upp.  Snæfell stóð af sér síðasta áhlaup Fjölnis og vann á endanum 7 stiga sigur, 95-102. 

 


Umfjöllun: Gisli@karfan.is

Myndir: Heiða

 

07.11.2012 14:55

KR launaði Snæfelli lambið gráa

6. nóvember 2012Heimamenn í KR tóku frumkvæðið snemma í kvöld þegar Snæfell var í heimsókn í Lengjubikarnum. Þegar 40 mínútum var lokið stóðu röndóttir uppi sem sigurvegarar, 90-67. Kvalarar KR úr Stykkishólmi voru flatir og hittu illa og heimamenn að sama skapi þéttir og tilbúnir í átök. Nú velta margir því fyrir sér hvort risinn sofandi sé vaknaður. Martin Hermannsson var að minnsta kosti vel vakandi og fór fyrir KR í kvöld með 19 stig.


KR leiddi 47-35 í hálfleik þar sem Brynjar Þór var kominn með 14 stig og Martin 10. Asim var með 8 hjá Snæfell og þeir Jón Ólafur og Sveinn Arnar báðir með 7 stig.


Æðibunugangur var á báðum liðum í upphafi síðari hálfleiks og tilheyrandi mistök sem fylgdu í kjölfarið. Brynjar Þór og Helgi fengu báðir sínar fjórðu villu í leikhlutanum og sáust lítið eftir það. Þessi villuvandræði landsliðsmannanna komu að lítilli sök því heimamenn í KR höfðu fyrir margt löngu plantað sér þægilega í bílstjórasætið.


Kristófer Acox átti lipra spretti með KR í kvöld og skilaði af sér 14 stigum og 7 fráköstum en hann og Martin Hermannsson fóru fyrir KR í síðari hálfleik. Röndóttir voru mun þéttari fyrir í kvöld, börðu vel frá sér og voru ófeimnir við snertinguna á meðan skapið virtist hanga á stuttum þræði hjá gestunum sem hittu illa í kvöld. Snæfell setti aðeins niður þrjá þrista í kvöld en síðast þegar þeir mættu í DHL Höllina settu þeir met á leiktíðinni og skelltu niður 15 stykkjum. Staðan að loknum þriðja leikhluta 66-49 fyrir KR.


Munurinn fór fljótt upp í 20 stig í fjórða leikhluta og þannig héldust leikar allt þar til lokaflautið gall. Nokkuð þungu fargi örugglega létt af heimamönnum sem voru mun líkari sjálfum sér í kvöld en upp á síðkastið. Góð barátta, menn ófeimnir við að spila stíft og fá villur og keyra svo upp hraðann og þannig refsuðu þeir gestum sínum margsinnis í kvöld.


Tölfræði leiksins


 
Mynd og umfjöllun/ nonni@karfan.is

07.11.2012 14:54

Tap geng KR í kvennakörfunni


93-67 tap var staðreynd eftir að Snæfellsstúlkur höfðu verið á hælunum nær allan leikinn gegn KR sem gáfu ekkert eftir en slakur varnarleikur Snæfells gaf KR næði til að klára góðar sóknir sínar. Fyrirfram hefðu flestir haldið að þetta yrði jafnari leikur þar sem KR er með hörkulið og Snæfell einnig.

Svo fór sem fór og stúlkurnar horfa fram á veginn í næsta leik en hann verður ekki gefinn gegn Val laugardaginn 10. nóv kl 15:00 í Stykkishólmi.

 

KR-Snæfell 93-67 (18-13, 28-12, 24-18, 23-24)
 
KR: Patechia Hartman 28, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 25, Helga Einarsdóttir 11/5 fráköst, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 9, Hafrún Hálfdánardóttir 8, Hrafnhildur Sif Sævarsdóttir 4, Anna María Ævarsdóttir 3, Björg Guðrún Einarsdóttir 3, Helga Hrund Friðriksdóttir 2, Salvör Ísberg 0, Perla Jóhannsdóttir 0, Rannveig Ólafsdóttir 0.
 
Snæfell: Kieraah Marlow 24, Hildur Björg Kjartansdóttir 17, Hildur Sigurðardóttir 7/4 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 7, Alda Leif Jónsdóttir 7, Aníta Sæþórsdóttir 2, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 2, Rósa Indriðadóttir 1, Rebekka Rán Karlsdóttir 0, Silja Katrín Davíðsdóttir 0.

03.11.2012 20:17

Taka tvö: Snæfell lagði KFÍ aftur.Ísfirðingar voru mættir í Hólminn á fimmtudaginn til að sleppa við ófærð og frestun en þá dundi yfir aftakaveður fyrir sunnan og dómarar komust hvergi. Eftir að frestun á föstudeginum var leikurinn leikinn í dag laugardag, allir í stuði. Gæðadrengurinn og Hólmarinn Kristján Pétur var kominn í lið KFÍ að nýju eftir meiðsli en Pálmi Freyr hjá Snæfelli var frá vegna meiðsla en verður kominn fyrr en varir á parketið.

Byrjunarlið Snæfells voru Jón Ólafur, Hafþór Ingi, AsimMcQueen, Jay Threatt og Sveinn Arnar. Hjá KFÍ voru Pance Ilievski, BJ Spencer, Chris Miller, Mirko Stefán og Jón Hrafn sem byrjuðu.
 

Leikurinn byrjaði með jafnræði og liðin voru rétt að hita sig upp en eftir að Snæfell komst yfir 7-6, þá kom sterk vörnin og flæði í sóknum varð gott. Snæfell komst í 15-9 og þegar Hafþór Gunnars tók sig til, smellti þrist og svo tveimur stigum í næstu sókn varð staðan 20-10. Strákur var þó ekki hættur þar og stal boltanum strax í næstu sókn og Momcilo braut óíþróttamannslega í sniðskotinu en Hafþór setti bæði vítin niður þar. Staðan eftir fyrsta hluta var 26-15 fyrir Snæfell sem hafði tök á leiknum.

KFÍ voru stífir í vörninni og alls ekki sannfærandi en sóknir voru betri þó skotin geiguðu oftar en ekki og brugðu á það ráð að taka leikhlé þegar staðan var 32-17 fyrir Snæfell og heimamenn að bæta hægt og sígandi í. Minna um vörn og meira varð um hlaup þegar leið á annan hluta en það kom ekki í veg fyrir að Snæfell héldi forskotinu. 43-27. Kristján Pétur var kominn inná og átti greinilega að finna gömlu góðu fjölina út við þriggja stiga línu og var einkar drjúgur fyrir lið sitt í sínum fyrsta leik í vetur og mikilvægt fyrir KFÍ að fá hann til baka en hann smellti niður fjórum stykkjum af þristum í leiknum.

KFÍ fundu glufu og gengu á lagið á meðan Snæfell slakaði á klónni í vörninni og Ísfirðingar söxuðu vel á áður en flautað var í hálfleik 45-36. Stigahæstir voru Jón Ólafur og Asim hjá Snæfelli með 11 stig hvor og Hafþór Ingi með 9 stig. Í liði KFÍ var Mirko Stefán kominn með 11 stig og Momcilo Latinovic 7 stig.

Snæfell náðu strax 6-0 áhlaupi og komnir í 51-36 þegar KFÍ tók kaffíhlé. Það lagaði eittvhað og þeir komu sér inn í leikinn aftur. Hafþór Ingi kom þá með enn eina sprengjuna fyrir Snæfell, setti tvo þrista í röð, stal svo bolta sem gaf tvö stig í næstu sókn og fór svo hraðaupphlaup í sókninni þar að eftir skoraði og fékk víti sem hann setti niður og staðan varð fljótt 69-49 fyrir Snæfell. Latinovic var farinn að hitna hjá KFÍ og hélt sínum mönnum við skorið. Títtnefndur Hafþór var þó iðinn við kolann í vörn og sókn fyrir Snæfell og sá til þess að staðan eftir þriðja hluta væri 82-61.

KFÍ sóttu í sig veðrið í upphafi fjórða hluta og sóknir runnu út í sandinn hjá Snæfelli. Asim McQueen fór útaf með 5 villur þegar tæpar 4 mínútur voru eftir en staðan var komin í 96-87 fyrir Snæfell þegar um 2:30 voru eftir og þar höfðu B. Spencer og Latinovic verið iðnir ásamt öllu liðinu sem gaf í og voru komnir nær því að gera þetta að alvöru leik undir lokin. Snæfell hélt þó haus undir lokin og náðu að setja nokkur mikilvæg stig undir lokin sem gáfu tóninn að sigri 108-95.

Snæfell: Jón Ólafur Jónsson 26/17 frák. Hafþór Ingi Gunnarsson 23/4 frák/4 stoðs/2 stolnir. Jay Threatt 19/15 stoðs. Asim McQueen 15/12 frák. Sveinn Arnar Davíðsson 10. Ólafur Torfason 9/5 frák. Stefán Torfason 6.  Tinni Guðmundsson 0. Kristófer Sævarsson 0. Óttar Sigurðsson 0. Magnús Ingi Hjálmarsson 0.

KFÍ: Momcilo Latinovic 28/6 frák. Bradford Spencer 20. Mirko Stefán Virijevic 17/9 frák. Kristján Pétur Andrésson 16. Chris Miller 6. Leó Sigurðsson 3. Jón Hrafn Baldvinsson 3/5 frák. Guðmundur Guðmundsson 2. Pance Ilievski 0. Hákon Halldórsson 0. Óskar Kristjánsson 0.

Símon B. Hjaltalín.

 

02.11.2012 22:36

Púðurlaus sigurleikur

31. október 2012

Njarðvíkurstúlkur mættu í Hólminn án nokurra leikmanna sem hafa staðið sig vel það sem af er vetri. Aníta Carter, Ingibjörg Elva og Marín Hrund en skarð þeirra var fyllt með óreyndari leikmönnum. Snæfell hins vegar með 9 leikmenn innanborðs.


Snæfellsstúlkur gengu hratt í leikinn og komust í 9-0 áður en Njaðrvík svaraði og voru með yfirráðin í leiknum. Segja má að ef það var ekki Lele Hardy fyrir Njarðvík þá var það lítið annað nema þegar Eyrún Líf byrjaði annan hluta af krafti með þrist og staðan 25-19 fyrir Snæfell en staðan hafði verið 25-16 í eftir fyrsta hluta.


Snæfell komst í 42-24 í öðrum hluta og voru bara að bæta í þrátt fyrir að vera ekkert að spila neina hörkuvörn en Njarðvík fengu oft fín færi sem þær nýttu en Snæfell áttu betri sóknir heilt yfir. Staðan í hálfleik 48-31 fyrir Snæfell. Stigahæstar hjá Snæfelli voru Kieraah Marlow með 16 stig og Hildur Björg 10 stig. Hjá Njarðvík var Lele Hardy með 16 stig og Eyrún Líf með 5 stig.


Í þriðja hluta náði Njarðvík stöðunni niður í 10 stig 50-40 og Lele Hardy þá komin með 25 stig. Snæfell setti þá í annan gír og komust strax með 10 stiga áhlaupi í 60-40  og héldu út 20 stiga mun þangað til flautað var út  og staðan þá 65-45 fyrir Snæfell og ekki mikil vandræði í leik þeirra þó þær hefðu getað gert betur oft á tíðum en þær spiluðu langt í frá á fullum hraða og leikurinn heilt yfir púðurlaus.


Bitlaus bolti var í fjórða hluta þar sem leikurinn var svo til búinn og liðin skiptust á skori með litlum tilþrifum eða meira Lele Hardy og Snæfell skiptust á að skora en stúlkan sú varð ekki fyrir vonbrigðum í "draumaliðsleiknum" með 32 stig af þessum 57 Njarðvíkur en lítil leikgleði var hjá Njarðvík. Áreynslulaust sigraði svo Snæfell leikinn 84-57.


Snæfell: Kieraah Marlow 26/4 frák/4 stoðs. Hildur Björg Kjartansdóttir 20/9 frák. Hildur Sigurðardóttir 13/11 frák/6 stoðs. Rósa Indriðadóttir 12/3 frák. Alda Leif Jónsdóttir 7/10 frák. Berglind Gunnarsdóttir 4/3 frák. Helga Hjördís Björgvinsdóttir 2/7 frák. Aníta Rún Sæþórsdóttir 0. Rebekka Rán Karlsdóttir 0.


Njarðvík: Lele Hardy 32/15 frák/. Salbjörg Sævarsdóttir 6/8 frák. Eyrún Lís Sigurðardóttir 5. Ásdís Vala Freysdóttir 5. Guðlaug Björt Júlíusdóttir 4. Ína María Einarsdóttir 3. Sara Dögg Margeirsdóttir 2. Eygló, Ásta, Emelía, Elísabet og Erna skoruðu ekki.


Símon B. Hjaltalín.

02.11.2012 22:34

Létt sigling í blíðunni við Breiðafjörðinn

29. október 2012

Bæði lið gerðust sek um örlítið mistækan leik í upphafi þegar KFÍ heimsótti Hólminn í Lengjubikarnum en Snæfell hitti þó betur. Menn voru að fínslípa sig í gegnu fyrsta hluta og hraðinn stundum meiri en sóknir liðanna réðu við. Snæfell stökk svo frá 11-10 stöðu í 29-10 með betri varnarleik og voru fyrri til að ná tökum á sínum leik. KFÍ héldu hins vegar áfram að missa boltann í slæmum sendingum og slökum skotum í hendur Snæfells og voru langt frá einbeitingu varnarlega. Staðan var 31-13 eftir fyrsta hluta fyrir heimamenn.


KFÍ skoraði fyrstu fimm stig annars hluta og virtust hafa fengið einhver góð orð frá Pétri Má um að koma sér í gírinn. Snæfellsmenn voru mjög oft eins og fransbrauð í höndunum og misstu ófáa bolta með að geta ekki gripið boltann en það háði þeim ekki í að leiða leikinn 39-20. KFÍ náðu með stórum skotum frá Óskari Kristjánssyni og tveimur frá Bradford Spencer að saxa aðeins á forskot Snæfellls 43-34.


Snæfellsmenn voru ekki í villuleiðangri framan af leiknum komnir með 3 villur gegn 10 gestanna undir lok fyrri hálfleiks. Ísfirðingar urðu beittari varnarlega og virtust vilja gera þetta loksins að leik 49-43. Snæfell bætti þó aðeins við undir lokin ogstaðan 52-43 í hálfleik. Stigahæstu menn voru hjá Snæfelli Jón Ólafur Jónsson með 14 stig og Jay Threatt með 11 stig. Hjá KFÍ voru Pance Illievski, Momcilo Latinovic, Bradford Spencer allir með 8 stig.


Pétur Már fékk dæmda á sig tæknivillu og smellti Jón Ólafur niður báðum vítum eftir að Asim McQueen hafði sett niður tvö víti og Jón smellti svo þremur stigum niður strax í næstu sókn og Snæfell komst aftur í 19 stiga mun 68-49. Magnað atvik átti sér stað þegar brotið var á Jay Threatt hjá Snæfelli áður en hann komst yfir miðju og kastaði hann boltanum í átt að körfunni í brotinu og smellti niður spjaldið ofan í en fékk ekki körfuna dæmda gilda og væri gaman að skoða hvort hann hefði átt að fá þessi stig. Staðan fyrir lokafjórðunginn 91-60 fyrir Snæfell sem áttu töluvert meira bensín.


Pálmi Freyr stirðnaði upp í baki við að dripla boltanum upp og lagðist flatur í gólfið og óvitað hvort upp hafi verið að taka sig gömul sár í baki eða hvað en slæmt virtist það vera. Fáar leiðir voru fyrir Ísfirðinga að koma til baka þegar Snæfell leiddi 102-72 um miðjan síðasta fjórðunginn. Liðin skoruðu á víxl og úrslitin nokkuð ráðin og lokastaðan varð 118-87 í öruggum sigri Snæfells en KFÍ menn fá að mæta aftur og reyna sig við Snæfellinga í Domino´s deildarleik á föstudaginn eftir viku í Hólminum.


Snæfell: Jón Ólafur Jónsson 28/5 frák. Asim McQueen 20/9 frák. Jay Threatt 20/4 frák/6 stoðs/4 stolnir boltar. Hafþór Ingi Gunnarsson 18/5 frák/5 stoðs. Sveinn Arnar Davíðsson 10/3 stolnir boltar. Pálmi Freyr Sigurgeirsson 8/3 stoðs. Ólafur Torfason 6. Stefán Karel Torfason 5/3 frák. Óttar Sigurðsson 3. Magnús Ingi Hjálmarsson 0. Kristinn Einar Guðmundsson 0. Kristófer Sævarsson 0.


KFÍ: Pance Illievski 17/4 frák. Bradford Spencer 15/5 frák/9 stoðs. Momcilo Latinovic 15/5 frák. Óskar Kristjánsson 14. Leó Sigurðsson 8. Christopher Miller-William 6/5 frák. Mirko Stefán Virijevic 6. Guðmundur J. Guðmundsson 6. Gautur Arnar Guðjónsson 0. Jón Hrafn Baldvinsson 0/5 frák/4 stoðs/3 stolnirboltar.

 

Símon B. Hjaltalín

26.10.2012 00:55

Magnaðir Hólmarar gerðu KR að athlægi á heimavelli.Já athlægi, viðstaddir gátu vart annað en boðið upp á myndarlegan Skarphéðinshlátur í DHL-Höllinni í kvöld þegar Snæfell tortímdi KR 63-104. Hólmarar hlógu að gestgjöfum sínum og brutu sjálfstraust heimamanna í mél um miðjan annan leikhluta. Útreið nægir vart til að lýsa þeim ósköpum sem áttu sér stað í vesturbænum í kvöld. Jón Ólafur Jónsson fór fyrir heitum gestunum með 27 stig en framlagið var myndarlegt úr Hólminum í kvöld, sex leikmenn með 11 stig eða meira.


Hólmarar mættu ákveðnir til leiks í DHL-Höllinni og léku fína vörn. Jay Threatt var þó helst til að klappa boltanum of mikið í liði Snæfells en það kom ekki að sök því Snæfell leiddi 13-24 að loknum fyrsta leikhluta. Heimamenn í KR voru bragðdaufir í sóknum sínum gegn þéttri vörn Snæfells og skortur á vilja og ákveðni nokkuð áberandi og það færðu Snæfellingar sér í nyt.


 
Í öðrum leikhluta skellti Danero Thomas niður tveimur KR þristum og minnkaði muninn í 27-38. Þetta og nokkrar rispur hjá Martin Hermannssyni var allt og sumt sem KR bauð upp á í kvöld. Annað var algerlega í eigu Snæfellinga. Eftir Danero-rispuna fór Snæfell aftur í gang, KR breytti yfir í svæðisvörn og það hægði stutta stund á leiknum en Snæfell áttaði sig á þessu fljótt og leiddu 27-53 í hálfleik þar sem Hafþór Ingi Gunnarsson átti lokaorðið fyrir Snæfell með þriggja stiga körfu.

  
Danero Thomas var með 10 stig hjá KR í hálfleik og Martin Hermannsson 7. Hjá Snæfell var Jón Ólafur með 16 stig og Jay Threatt 10.
 
Nýting liðanna í hálfleik
 
KR: Tveggja 31,5% - þriggja 27,2% - víti 75%
Snæfell: Tveggja 60% - þriggja 50% - víti 100%


 
Það var nokkuð ljóst á upphafsmínútum síðari hálfleiks að KR myndi ekkert fá út úr leik kvöldsins. Sveinn Arnar Davíðsson splæsti í tvo þrista í röð og kom Snæfell í 37-69. Gestirnir voru óeigingjarnir og margir komust í flottan takt við leikinn. Staðan var 45-74 að loknum þriðja og heimamen hreinlega farnir að bíða spenntir eftir lokaflauti leiksins.


 
Í fjórða leikhluta kom það svo sem ekki á óvart að KR-ingar færu að skeyta skapi sínu á innanstokksmunum í DHL Höllinni enda frammistaðan pínleg og þrjú tæknivíti fæddust og tvö þeirra sáu til þess að Jón Orri Kristjánsson þyrfti að fara í steypibað. Lokatölur reyndust svo 63-104 Snæfell í vil.


KR-ingar geta þó huggað sig við þá staðreynd að botninum er náð. Töpin verða fleiri, það á við um öll lið í þessari deild en þau verða ekki jafn stór hjá KR og í kvöld. Jafn vel mannað lið og röndóttir láta það ekki gerast tvisvar sömu vertíðina. Landsliðsmennirnir þrír og erlendu leikmennirnir tveir vita upp á sig skömmina, lykilmenn í röndóttu sem þurfa heldur betur að leggjast í naflaskoðun.


Snæfellingar vorumagnaðir í kvöld, veglegt framlag úr öllum áttum, óeigingirni og svo eitthvað sem hefur verið ábótavant hjá þeim, þéttur og sterkur varnarleikur. Ekki heiglum hent að halda KR í 63 stigum í DHL Höllinni.

 


 

KR-Snæfell 63-104 (12-24, 15-29, 18-22, 18-29)
 
KR: Danero Thomas 16, Martin Hermannsson 12, Brynjar Þór Björnsson 10, Helgi Már Magnússon 8/6 fráköst, Ágúst Angantýsson 7, Kristófer Acox 6, Jón Orri Kristjánsson 4, Þorgeir Kristinn Blöndal 0, Darri Freyr Atlason 0, Finnur Atli Magnusson 0/4 fráköst, Sveinn Blöndal 0, Keagan Bell 0.


 
Snæfell: Jón Ólafur Jónsson 27/5 fráköst, Jay Threatt 18/11 fráköst/10 stoðsendingar, Sveinn Arnar Davidsson 14, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 13, Asim McQueen 12/10 fráköst, Hafþór Ingi Gunnarsson 11, Ólafur Torfason 5/4 fráköst, Stefán Karel Torfason 4/5 fráköst, Óttar Sigurðsson 0, Magnús Ingi Hjálmarsson 0, Kristinn Einar Guðmundsson 0, Jóhann Kristófer Sævarsson 0.


 
Tölfræði leiksins
 
Myndasafn úr leiknum

Umfjöllun og myndir: Jón Björn Ólafsson hjá Karfan.is

 


25.10.2012 07:18

Naumt tap í Keflavík


Snæfell og Keflavík mættust í Domino´s deild kvenna í kvöld. Toppliðin bæði ósigruð fyrir umferðina og því eftirvænting eftir leiknum. Keflavíkurstúlkur voru sterkari á lokasprettinum og sigruðu með fjórum stigum. 73:69 í hörku leik.


 
Það var sem fyrr segir búist við hörku leik og áhorfendur urðu ekki fyrir vonbrigðum.  Hvorugt liðið lét undan og í fyrri hálfleik var aðeins eitt stig sem skildi liðin að. Pálína Gunnlaugsdóttir var að leiða sitt lið áfram á meðan Hildur Sigurðardóttir sá um það hjá Snæfelli.

 

Í þriðja fjórðung voru gestirnir ívið sterkari og voru að spila á köflum frábæra vörn sem gerði sóknarleik Keflavíkur hálf vandræðalegan og hugmyndasnauðann.  Oftar en ekki urðu þær að skjóta skotum einungis til þess eins að missa ekki boltann vegna skotklukkunar.  Þessi vörn færði Snæfell í bílstjórasætið í leiknum og lítið sem benti til þess að heimastúlkur myndu landa sigri þetta kvöldið.


 
Í fjórðaleikhluta skipti Sigurður Ingimundarson yfir í svæðisvörn og það virtist hægja á gestunum. Ofaní það fóru lukkudísirnar að svífa yfir liði Keflavíkur þegar Pálína Gunnlaugsdóttir lét flakka þrist um leið og skotklukkan gall og viti menn, spjaldið ofaní.  Eftir þetta hresstust heimastúlkur og komu sér aftur inní leikinn og voru á leið í land með þrjú stig.

 

En stutt skammhlaup kom í leik þeirra undir lokin og Snæfellsstúlkur neituðu að játa sig sigraðar.  Þegar um 20 sekúndur lifðu leiks áttu Snæfell séns á því að jafna leikinn en áður nefnd Pálína gerði vel í vörninni þegar hún fiskaði ruðning á Kieraah Marlow og þar með var leikurinn þeirra.
 

Tölfræði leiksins.

 

Keflavík-Snæfell 73-69 (18-15, 18-20, 12-20, 25-14)
 
Keflavík: Pálína Gunnlaugsdóttir 26/9 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 16/8 fráköst, Jessica Ann Jenkins 13, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 10/7 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 4/8 fráköst, Ingunn Embla Kristínardóttir 2/4 fráköst, Sandra Lind Þrastardóttir 2/8 fráköst, Aníta Eva Viðarsdóttir 0, Telma Lind Ásgeirsdóttir 0, María Ben Jónsdóttir 0, Katrín Fríða Jóhannsdóttir 0, Bríet Sif Hinriksdóttir 0.


 
Snæfell: Hildur Sigurðardóttir 20/8 fráköst/5 stoðsendingar, Kieraah Marlow 14/11 fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir 14/13 fráköst/5 stolnir/3 varin skot, Berglind Gunnarsdóttir 10/8 fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 7/4 fráköst, Alda Leif Jónsdóttir 4/7 fráköst/5 varin skot, Rebekka Rán Karlsdóttir 0, Aníta Sæþórsdóttir 0, Silja Katrín Davíðsdóttir 0.

 

Fengið af Karfan.is

 


 

24.10.2012 22:02

Lengjubikar karla: Snæfell sigraði í Hveragerði 

Umfjöllun af Karfan.is

 

Snæfell silgdi heim 11 stiga sigri í Hveragerði 78-89 í Lengjubikarnum í kvöld. Eftir rólegt skor í fyrsta leikhluta þar sem Snæfell leiddi 15-17, tóku gestirnir völdin og fóru að setja skotin ofaní án mikillar móttstöðu frá Hamri. Bæði lið rúlluðu á flestum leikmönnum og háflgerð deyfð og áhugaleysi yfir báðum liðum.


33-45 í hálfleik gaf etv. Snæfelli von um þægilegan leik í síðari hálfleik og 28-18 fyrir Snæfell í 2.leikhluta. En aðeins kom spenna í þetta eftir hlé og Hjalti Valur setti strax 3 stig úr 3 vítum og smátt og smátt minnkaði munurinn. Minnstu munaði 58-59 þegar skammt lifði af 3ja leikhluta eftir 6 stig í röð frá heimamönnum en Sveinn Arnar fékk víti og setti bæði og vestanmenn leiddu með 3 stigum fyrir lokahlutann. Hamar vann 3.hlutann 25-16 og kveikti aðeins í vonum áhorfenda og leikmanna Hamars um spennandi leik en sú varð þó ekki raunin. Snæfell gerði það sem til þurfit í 4. leikhluta og vann hann sannfærandi 20-28 og leikinn með 11 stigum eins og áður sagði.


Ágætis æfingaleikur að baki þar sem undirritaður setur spurningarmerki við tilgang þess að hafa þessa keppni inni í Íslandsmóti. Eins er það nokkur fórnfýsi og elja hjá 1.deildar liðum að spila þessa leiki með minni hóp en flest öll úrvalsdeildarliðin og 1 erlendan leikmann móti 2 í þokkabót. Af því sögðu má hrósa neðrideildarliðunum að taka þátt og auðvitað vilja þau mæla sig við betri liðin.


 
Hjá heimamönnum skoraði Hollys 27 stig og tók 8 fráköst, Hjalt Valur 11 stig, Örn 9 / 8 fráköst og Ragnar og Lárus Jóns með sín 9 stigin hvor, Bjartmar 5 og Bjarni og Halldór með sín 4 stig hvor.


Hjá Snæfell var Jay Threatt með 21 stig/8 frák., Pálmi Freyr 15 stig, Sveinn Arnar 12, Asim McQueen 12/8 frák, Stefán Karel 10, Nonni Mæju 9, Hafþór Ingi og Ólafur Torfa sín hvor 5 stigin.


Mynd úr safni - Eyþór Benediktsson
Umfjöllun af Karfan.is / Anton Tómasson 

24.10.2012 22:01

Snæfell átti stóru skotin

18. október 2012
Justin Shouse kann vel við sig í Hólminum enda fór hann fyrir sínum mönnum í Stjörnunni fyrstu mínútur leiksins og átti auðvelt með það í þokkabót og gestirnir komust í 4-10. Nonni Mæju smellti þá þremur og lagaði stöðuna 7-10 og Snæfell saxaði á 13-14. Eftir það var leikur beggja liða jafnari. Marvin braut á Hafþóri Gunn í þriggja stiga skoti og hann kom Snæfelli yfir 19-17 með þremur vítum, plús einu til í næstu sókn.  Eftir hörkubaráttu í leiknum og skor á víxl kom Jovan Stjörnumönnum með stórum þrist í 21-25 en staðan var 23-27 eftir fyrsta fjórðung.


Liðin voru alveg hnakka í hnakka og ansi mikið jafnt í öðrum hluta en Asim McQueen var að setja drjúgt fyrir hvíta en Justin og Marvin hinum megin fyrir bláa. Þegar staðan var 34-32 smellti Nonni Mæju þremur niður og svo aftur fyrir 40-34. Hafþór Gunnarsson var að spila vel í innkomu sinni, duglegur í varnarleiknum gegn Justin og átti svo einn ískaldann fyrir 48-37 og Snæfell aðeins að búa til gap.


Stjarnan náði með góðum hraða að taka til hendinni og ná Snæfelli sem fóru að hitta illa sjálfir, 50-49. Staðan í hálfleik 52-51 fyrir Snæfell. Stigahæstu menn hjá Snæfelli Asim McQueen 17 stig og Nonni Mæju 13 stig en hjá Stjörnunni var Justin Shouse með 15 stig og Marvin og Brian Mills 12 hvor.

Snæfell náði forskoti á ný 73-63 með stórskotum frá Nonna, Haffa og Jay. Þetta var ekki sterkasti varnarleikur sem sést hefur hjá liðunum báðum en góðir sprettir inn á milli. Sóknarleikur Stjörnunnar var mest í höndum tveggja manna , Justin, og Marvins en sóknir runnu mikið út í sandinn ef þeirra naut ekki við. Hafþór Gunnarson smellti niður þremur undir lok þriðja hluta og hélt Snæfelli við efnið 86-75.

Asim McQueen hafði haft veður af Quincy Cole sem var hjá Snæfelli í fyrra og hann lét ekki sitt eftir liggja og tróð tvisvar af ákveðni. Snæfell efldist og komst í 95-81 með látum og leikhlé tekið hjá Stjörnunni. Nonni Mæju bætti þá í 98-83 áður en hann fór ú taf með 5 villur þegar um 4:30 voru eftir og Stjarnan réði lítið við skyttur Snæfells og sóknir urðu tilviljunakenndar. Snæfell átti ekki erfiðann fjórða hluta en bæði lið voru mistæk á köflum en Snæfell þó minna og voru yfir 107-91 þegar farið var inní síðustu mínútuna í leiknum.


Þegar 15 sekúndur lifðu fór mikil sóknnarflétta af stað hjá Snæfelli og boltinn fbarst í hendur Ólafs Torfasonar sem fleygði honum hátt í loft og þar kom Stefán bróðir kom með eina af fallegri gerðinni í troðningi. Snæfell lenti svo 110-94 sigri og voru meira sannfærandi en sterkt Stjörnuliðið þetta kvöldið.


Stigaskor Snæfells: Asim McQueen 28/7 frák. Nonni Mæju 19. Jay Threatt 16/11 stoðs. Hafþór Ingi 11. Ólafur Torfason 11/5 frák. Pálmi Freyr 9/5 frák. Sveinn Arnar 8/8 frák. Stefám Karel 8. Kristinn Einar 0. Kristófer 0. Magnús Ingi 0.


Stigaskor Stjarnan: Justin Shouse 31//8 stoðs. Marvin Valdimarsson 29/10 frák. Brian Mills 12/8 frák. Fannar Freyr 7/10 frák. Sæmundur Valdimarsson 7. Dagur Kár Jónsson 5. Jovan Zdravevski 3. Kjartan Atli 0. Björn Kristinsson 0. Sigurður Dagur 0. Tóma Þórður 0.

 

Ingi Þór var að vonum ánægður með sína menn. "Við fengum góð skot frá skyttunum okkar og allir komu í leikin og stóðu vel í liðinu og ég er ánægður með framlag minna manna í kvöld. Við erum ákveðnir í að hér er ekkert gefins"

 

Símon B. Hjaltalín.

24.10.2012 22:00

Öruggur sigur Snæfells

17. október 2012
Snæfellsstúlkur voru smátíma að átta sig á að leikurinn væri byrjaður en það kom fljótt, en þær voru enn án Kieraah Marlow. Grindavíkurstúlkur voru hinsvegar baráttuglaðar, trufluðu Snæfell vel, pressuðu á alla bolta og uppskáru svo fínar sóknir úr stöðunni 9-6 og komust yfir 9-10. Alda Leif setti þá þrist í 12-10. Petrúnella svaraði með þristi og hélt Grindavík inni 14-13. 19-13 var hinvegar staðan að loknum fyrsta hluta fyrir Snæfell sem voru ekki eins mislagðar hendur og í upphafi.


Bragi sá þann kost vænstann að taja leikhlé þegar Snæfell hafði skorað 6-0 í upphafi annars hluta. Það gekk illa gegn sterkri vörn Snæfells sem tóku öll fráköstin í vörninni eftir að skot Grindavíkur geiguðu. Snæfell hafið skorðað á fjórum mínútum 12-0 og voru að stinga af 31-13. Staðan í hálfleik 41-28 fyrir Snæfell en Grindavík náðu að koma eilítið tilbaka. Hjá Snæfelli voru Alda Leif komin með 16 stig og Berglind Gunnars með 12stig. Petrúnella hélt skori Grindavíkur í gangi og var komin með 19 stig og 8 fráköst.

Petrúnellu Skúladóttur leiðist ekki fjalirnar í Hólminum en hún smellti tveimur þristum í röð og öðrum þeirra "Sean Burton style" og var komin með 27 stig þegar staðan var 51-38 fyrir Snæfell og barátta Grindavíkur komin aftur. Snæfell hélt sinni forystu þó og náðu að halda sínu striki í sóknum sínum. Berglind Gunnars sem var búin að vera drjúg fyrir Snæfell fékk högg á öxlina og fór útaf í kælingu. Staðan eftir þriðja hluta var 61-44 fyrir Snæfell.

Snæfell voru komnar í þægilegann gír í 81-55 í fjórða hluta og Rebekka Rán bætti í 5 stig fyrir Snæfell þegar um ein og hálf  mínúta voru eftir 86-55 og lítið í kortunum annað í fjórða hluta en að Snæfell væri með þetta og sigruðu sannfærandi 86-55.

Stigaskor Snæfell: Alda Leif 21/3 frák/5 stoðs. Hildur Sigurðar 18/13 frák/7 stoðs. Hildur Björg 17/13 frák. Berglind Gunnarsdóttir 14. Helga Hjördís 5/4 frák. Rebekka Rán 5. Rósa Kristín 4/6 frák. Aníta Rún 2. Silja Katrín 0.

Stigaskor Grindavík: Petrúnella Skúladóttir 31/11 frák. Harpa Rakel 8/7 frák. Jeanne Sicat 4. Berglind Anna 4. Helga Hallgríms 3/8 frák. Ingibjörg Sigurðardóttir 3. Mary Sicat 2. Jóhanna Rún 0. Eyrún Ösp 0. Alexandra Marý 0. Julia Sicat 0. Ingibjörg Yrsa 0.

Símon B. Hjaltalín

16.10.2012 00:07

Sigur á KR eftir framlengingu.

Bæði lið voru tilbúin að keyra upp hraðann í leiknum og tempóið var hátt. Liðin skiptust á skori í hröðum sóknarleik og var jafnt á með liðunum. Brynjar var að spila vel fyrir KR í vörn og sókn en var kominn með 10 af 15 stigum KR um miðjan fyrsta fjórðung þegar staðan var 14-15 fyrir KR. Staðan var 16-20 fyrir KR eftir fyrsta hluta.


Snæfellingar náðu strax í skottið á KR og jöfnuðu 20-20. KR voru þó skrefinu á undan í öðrum hluta en Snæfellingar hittu ekki eins vel þrátt fyrir góð færi en voru þó ekki nema c.a 5 stigum á eftir, eftir að Nonni Mæju reyndi að kveikja neista með stórþrist. KR voru þolinmóðari í sóknum sínum og sterkir í vörninni og komust í 27-34. Snæfell hertu þá á tökunum síðustu mínúturnar og náðu að einbeita sér betur varnarlega og uppskáru að vera orðnir bara 1 stigi undir í hálfleik 35-36. Stigahæstu menn voru Nonni Mæju með 15 stig hjá Snæfelli og Brynjar Björnsson 13 stig hjá KR.


Seinni hálfleikur byrjaði af krafti jafn og hress en þegar staðan var 41-41 tóku KR fínt áhlaup sem gaf þeim 41-45 og svo komu tveir þristar frá Helga Má og Danero Thomas og staðan breyttist fljótt í 43-51. Erfitt var fyrir Snæfell að elta þar sem margar sóknir runnu út í sandinn gegn vörn KR. Í stöðunni 49-59 tóku Snæfellingar sér smá tak og komust nær 56-61 sem var staðan fyrir fjórða hlutann fyrir KR.


Pálmi Freyr barðist vel fyrir 4 stigum og staðan var 64-67 fyrir KR en Jay Threatt jafnaði 67-67 og KR aðeins ruglast í ríminu. Þegar um 4 mínútur voru eftir var staðan 69-67 fyrir Snæfell en Jay Threatt setti þá niður annan þrist og kom Snæfelli í 72-69 en KR voru farnir að stressast pínulítið upp í sóknum sínum og misstu boltann klaufalega og Snæfell bætti í 74-69.


Snæfell áttu mikilvæg varnarfráköst þegar KR nýtti illa sóknir sínar og Snæfell gekk á lagið og juku foystu í 78-71 og þar á meðal voru tvær troðslur frá Sveini Arnari sem kveikti í Snæfellingum. Martin Hermanns átti hörkuþrist þegar um 40 sek voru eftir og lagaði stöðuna 80-76 og Keagan Bell kom svo í  næstu sókn með annan þrist 81-79. Þegar staðan var 83-80 fyrir Snæfell smellti Brynjar Þór niður einum löngum og jafnaði 83-83 þegar 5.7 sek voru eftir, ekki fyrsta skipti hjá Brynjari og ábyggilega ekki það síðasta. 83-83 varð raunin og framlengja varð leikinn.


Í framlengingunni fór Jay Threatt algjörlega fyrir Snæfelli og áttu KR menn erfitt með að stoppa strák. Snæfell tók framlenginguna 12-5 og þrátt fyrir að hafa þurft að elta mest allan leikinn komust þeir sér í betri stöðu undir lokin og sigruðu 95-88 í fyrst leik liðanna í Lengjubikarnum.


Stigaskor Snæfell: Asim McQueen 23/10 frák. Jay Threatt 21/11 frák/9 stoð/4 stolnir. Nonni Mæju 20/6 frák. Sveinn Arnar 15. Pálmi Freyr 8/7frák/7 stoðs. Ólafur Torfason 4/7 frák. Hafþór Gunnarsson 4.


Stigaskor KR: Brynjar Þór Björnsson 23/7 frák. Helgi Már Magnússon 15/10 frák. Martin Hermannsson 13. Finnur Magnússon 13. Danero Thomas 11/5 frák. Keagan Bell 6/6 frák. Ágúst Angantýsson 5/5 frák. Jón Orri Kristjánsson 2/4 frák.


Símon B. Hjaltalín

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 417
Gestir í dag: 49
Flettingar í gær: 471
Gestir í gær: 114
Samtals flettingar: 3290043
Samtals gestir: 253476
Tölur uppfærðar: 16.1.2018 11:23:15
Flettingar í dag: 417
Gestir í dag: 49
Flettingar í gær: 471
Gestir í gær: 114
Samtals flettingar: 3290043
Samtals gestir: 253476
Tölur uppfærðar: 16.1.2018 11:23:15