Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Flokkur: Körfubolti

09.04.2013 09:20

Snæfell undir geng Stjörnunni

Karlakarfan - 8. apríl 2013

Jay Threatt hvíldi eftir meiðslin sem hann hlaut í síðasta leik og ætlar að vera klár í slaginn í Garðabænum á föstudaginn næsta en það voru Stjörnumenn sem tóku þriðja leik liðanna 79-93 og leiða einvígið 2-1 eftir hörkuleik í Hólminum þar sem tæknivillur og óíþróttamannslegar villur fuku um allt hús.
 
Stjörnumenn byrjuðu brattir og leiddu leikinn en Snæfell hélt sig nærri strax í upphafi og voru skrefinu á eftir 11-15. Snæfellsmenn hrukku í gír og Ryan og Sigurður áttu stóru skotin sem jafnaði leikinn 17-17. Hafþór Gunnarsson kom svo með sprengju inn á og kom Snæfelli í 21-17 með tilþrifum. Jarrid Frye sem hafði farið fyrir Stjörnunni fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu og Snæfell var yfir 25-19. Justin svaraði þá með þrist og staðan 27-22 eftir fyrsta hluta en Snæfell voru að fá fráköstin í röðum......


Meira...

06.04.2013 19:29

Snæfell vann KR, staðan 1-1

Snæfell vann í háspennuleik

Vísir Körfubolti 06. apríl 2013 
Berglind Gunnarsdóttir, leikmaður Snæfells.
Berglind Gunnarsdóttir, leikmaður Snæfells.
Snæfell jafnaði í dag metin gegn KR í undanúrslitarimmu liðanna í úrslitakeppni Domino's-deildar kvenna með naumum sigri, 61-59, í æsispennandi leik.

KR vann fyrsta leik liðanna í Stykkishólmi og fékk því tækifæri til að komast í 2-0 á heimavelli í dag. KR-ingar byrjuðu betur í leiknum en munurinn var þó aldrei mikill á milli liðanna. Staðan í hálfleik var 34-30, KR-ingum í vil.

Staðan var 59-55 þegar þrjár mínútur voru eftir og þá tók Snæfell völdin í sínar hendur. Hildur Sigurðardóttir jafnaði metin þegar 29 sekúndur voru eftir og KR hélt í sókn.

En Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir klikkaði á skoti og gestirnir fengu boltann þegar sautján sekúndur voru eftir. Kieraah Marlow kom Snæfelli yfir en það var þó enn tími fyrir KR-inga.

Shannon McCallum reyndi þriggja stiga körfu þegar leiktíminn var að renna út en skotið geigaði. Tveggja stiga sigur Snæfells var því staðreynd en þegar uppi var staðið hafði Snæfell skorað sex síðustu stig leiksins.

Marlow skoraði 26 stig fyrir Snæfell og tók tólf fráköst. Berglind Gunnarsdóttir bætti við þrettán stigum fyrir gestina. Hjá KR var McCallum stigahæst með 31 stig en Sigrún Ámundadóttir kom næst með ellefu.

06.04.2013 19:27

Naumt tap gegn Stjörnunni


Bikarmeistarar Stjörnunnar jöfnuðu í kvöld einvígi sitt gegn Snæfell í undanúrlsitum Domino´s deildar karla. Staðan er nú 1-1 eftir annan spennuslag millum liðanna. Justin Shouse fór fyrir Garðbæingum í kvöld og gerði 31 stig í 90-86 sigri Stjörnunnar. Jay Threatt leikstjórnandi Snæfells lék ekki með sínum mönnum síðustu sex mínútur leiksins eða svo en hann kenndi sér eymsla í fæti, hver staðan á honum er skýrist von bráðar. Garðbæingar unnu frákastabaráttuna í kvöld, 51-41, og þar af voru 21 sóknarfrákast en sú barátta var þeim þung í fyrstu viðureign liðanna þar sem bláum tókst ekki að taka eitt einasta sóknarfrákast. Hólmarar voru ófeimnir við að skjóta þristum og hefðu betur ráðist meir að körfunni en heimamenn voru þéttir í teignum að þessu sinni.........


Meira...

05.04.2013 18:20

Stjarnan - Snæfell í kvöld

05.04.nonni@karfan.is
Flestra augu beinast að Ásgarði og Egilsstöðum í kvöld, í Garðabæ taka bikarmeistarar Stjörnunnar á móti Snæfell í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Domino´s deildarinnar og á Egilsstöðum eigast við Höttur og Hamar í sinni annarri viðureign í undanúrslitum 1. deildar karla.
 
Viðureign Hattar og Hamars hefst kl. 18:30 en Hamarsmenn leiða 1-0 í einvíginu eftir sigur í fyrsta leik í Hveragerði og dugir þeim sigur í kvöld til að tryggja sér sæti í úrslitarimmunni. Sigur hjá Hetti tryggir þeim oddaleik í Hveragerði.
 
Snæfell leiðir 1-0 gegn Stjörnunni eftir spennusigur í Stykkishólmi í fyrstu viðureign liðanna. Lokatölur í fyrsta leiknum voru 91-90 þar sem Jay ógnvaldur Threatt átti rándýran stolinn bolta og Snæfell fagnaði sigri.
 
Tveir toppslagir í kvöld og vissara að mæta tímanlega í húsin. Hér má svo sjá yfirlit yfir alla leiki dagsins.
 
Mynd/ Eyþór Benediktsson - Það var fagnað vel í Hólminum eftir fyrstu viðureign Snæfells og Stjörnunnar.

05.04.2013 16:41

Tap geng KR í fyrsta leik


KR sigraði Snæfell í fyrsta leik liðanna í Hólminum 52-61, þegar undanúrslit Domino´s deildar kvenna hófust í kvöld. Alda Leif var ekki með Snæfelli og óvíst með þátttöku hennar meira á þessu tímabili. Aðeins fleira fólk var mætt í stúkuna en á venjulegum degi í deildinni og góður stuðningur frá þeim sem mættu en það má samt minna fólk á að úrslitakeppni kvenna er líka byrjuð og þar er titill í boði líka og framhaldinu er kallað eftir fólki í vesturbæinn á laugardaginn kl 16:00, flykkjumst á völlinn fallega fólk.

Snæfell komst í 7-0 og KR sá þann kost vænstan að taka leikhlé en Snæfell hafði stoppað þær vel í vörninni. KR kom þá til baka og jafnaði 7-7 og voru mættar til leiks en mjög lítið var skorað í fyrsta hluta og einhver hrollur í liðunum í fyrsta leik. KR komst í 7-11 og dæmið snérist við. Snæfell kom til baka með hertri vörn og baráttu og jöfnuðu 11-11 sem var staðan eftir fyrsta hluta......


Meira...

02.04.2013 12:42

Snæfell - Stjarnan í kvöld


Í hálfleik verður tilkynnt um íþróttamenn HSH 2012. Einnig verður vinnuþjarkur HSH útnefndur.

29.03.2013 08:05

Snæfell í undanúrslit

Angan af reynslu við lokasprettinn í Hólminum

Snæfell mætir Stjörnunni í undanúrslitum

28.03.2013 21:33 nonni@karfan.is
Snæfell tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum Domino´s deildar karla með 84-82 sigri á Njarðvíkingum í oddaleik 8-liða úrslitanna. Risavaxið sóknarfrákast og karfa frá Ryan Amoroso þegar 4,5 sekúndur lifðu leiks gerðu útslagið eftir hnífjafnan og æsispennandi leik. Jay Threatt fór fyrir Hólmurum með 21 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar en Nigel Moore var með 25 stig, 9 fráköst og 9 stoðsendingar hjá Njarðvíkingum.
 
Njarðvíkingar sitja því eftir og eru komnir í sumarfrí, kveðja deildina í svipuðum sporum og í fyrra eða í 8-liða úrslitum en Snæfell er komið skrefinu lengra en á síðustu leiktíð þar sem þeir féllu út í 8-liða úrslitum en þramma nú inn í undanúrslitin og mæta þar Stjörnunni. Snæfell mun hafa heimaleikjaréttinn í seríunni gegn Garðbæingum.
 
Marcus Van gerði fystu stig leiksins eftir sóknarfrákast en Jón Ólafur Jónsson var fljótur að svara fyrir heimamenn strax í næstu sókn. Sigurður Á. Þorvaldsson ,,loggaði" svo inn fyrsta þristinn í leiknum þegar hann kom Snæfell í 5-4. Ekki leið svo á löngu uns Amoroso kom með annan þrist og heimamenn duttu í 10-4. Jón Ólafur bætti við þriðja þristinum og Snæfell komst í 13-6 og heimamenn voru ekki hættir því Pálmi Freyr mætti með þann fjórða og staðan 16-8 þegar Einar Árni bað um leikhlé eftir fimm mínútna leik.
 
Njarðvíkingar komu beittari út úr leikhléi og minnkuðu muninn í 18-12 og héldu Snæfell í aðeins tveimur stigum í heilar þrjár mínútur. Elvar Már fékk sína aðra villu í Njarðvíkurliðinu og inn í hans stað kom Óli Ragnar sem hafði farið mikinn í leik liðanna í Ljónagryfjunni. Heimamenn í Hólminum leiddu svo með sex stigum að loknum fyrstu tíu mínútunum, staðan 21-15.
 
Á milli fyrsta og annars leikhluta var ungur maður að nafni Ólafur Björn Eyjólfsson sem setti niður Domino´s skotið og fékk fyrir vikið ársbyrgðir af flatbökum. Til lukku Ólafur Björn.
 
Njarðvíkingar gerðu fjögur fyrstu stig annars leikhluta og Ingi Þór kallaði þá sína menn í leikhlé og staðan 21-19. Sveinn Arnar gerði fyrstu stig Snæfell í öðrum leikhluta og jók muninn í 24-19 með þrist og þannig leiddu heimamenn lungann úr leikhlutanum, naumlega og grænir aldrei langt undan.
 
Elvar Már átti erfitt uppdráttar fyrstu 15 mínútur leiksins í Njarðvíkurliðinu en hýrnaði yfir leikstjórnandanum öfluga þegar hann setti þrist og minnkaði muninn í 28-24 og hans fyrstu stig í leiknum komin í hús sem og fyrsti Njarðvíkurþristurinn en á sama tíma höfðu heimamenn gert fimm slíka. Ekki laust við stress í herbúðum Njarðvíkinga sem á þessum tíma fyrir þrist Elvars voru 1-5 í vítum og 0-6 í þristum. Alltaf náðu heimamenn að slíta sig nokkrum stigum frá eftir Njarðvíkurrispur og Jay Threatt var beittur undir lok fyrri hálfleiks. Grænir gestirnir áttu lokaorðin í fyrri hálfleik þegar Nigel Moore keyrði upp að körfunni og minnkaði muninn í 39-35 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
 
Jón Ólafur Jónsson var stigahæstur í liði Snæfellinga með 11 stig og 2 stoðsendingar í hálfleik og Elvar Már Friðriksson var stigahæstur Njarðvíkinga með 8 stig og Marcus Van með 6 og 11 fráköst.
 
Njarðvíkingar byrjuðu vel og minnkuðu muninn í 39-37 og fengu síðan ruðning dæmdan á Jay Threatt. Heimamenn voru þó ekki lengi að slíta sig aftur frá og Sigurður Þorvaldsson breytti stöðunni í 42-37 með þrist gegn klunnalegri vörn gestanna á upphafsmínútum síðari hálfleiks.
 
Hólmarar héldu vel um stýrið uns þrjár mínútur lifðu eftir af þriðja leikhluta en þá hrukku þeir Ólafur Helgi og Ágúst Orrason í gang og skoruðu saman átta stig á örskömmu tíma fyrir gestina og grænir komust í 50-52 og leiddu í fyrsta sinn síðan í stöðunni 0-2.
 
Nigel Moore kom svo með fjögur sterk Njarðvíkurstig á lokasprettinum og gestirnir leiddu 56-58 fyrir fjórða og síðasta leikhluta en Threatt minnkaði muninn fyrir heimamenn með sterku gegnumbroti um leið og leikhlutinn rann út.
 
Moore var enn sjóðheitur í liði Njarðvíking í upphafi fjórða og skoraði átta stig í röð fyrir gestina sem komust í 59-66. Heimamenn ætluðu ekki að láta stinga sig af, Amoroso splæsti í tröllatroðslu og Sigurður Þorvaldsson kom með þrist og staðan 64-66. Ekki leið á löngu uns heimamenn náðu forystunni á ný en það gerði Amoroso með stökkskoti við endanlínuna og staðan 70-68 þegar sex mínútur voru til leiksloka og Njarðvíkingar tóku leikhlé.
 
Heimamenn í Hólminum voru komnir á bragðið, lokaspretturinn var þeirra með angan af reynslu. Pálmi Freyr sendi niður einn stóran og kom heimamönnum í 78-74, teigskotin fóru að detta hjá Amoroso en Njarðvíkingar minnkuðu muninn í 82-79 með þriggja stiga körfu frá Ólafi Helga en nær komust þeir ekki. Síðasta mínútan eða svo var ansi mistæk á báða bóga en þegar um hálf mínúta lifði leiks hélt Snæfell í sókn, skotið reið af og Amoroso náði sóknarfrákastinu og skoraði af harðfylgi og breytti stöðunni í 84-79 þegar 4,5 sekúndur liðfu leiks og björninn unninn. Njarðvík skoraði þrist um leið og leiktíminn rann út og lokatölur 84-82.
 
 
Byrjunarliðin:
Snæfell: Jay Threatt, Pálmi F. Sigurgeirsson, Jón Ólafur Jónsson, Sigurður Á. Þorvaldsson og Ryan Amoroso.
Njarðvík: Elvar Már Friðriksson, Nigel Moore, Maciej Baginski, Ólafur Helgi Jónsson og Marcus Van.
 
Dómarar leiksins: Kristinn Óskarsson, Jón Guðmundsson og Davíð Kr. Hreiðarsson.
 
Mynd og umfjöllun/ nonni@karfan.is  

26.03.2013 14:15

Oddaleikur á fimmtudag


Njarðvík skellti Snæfell í Ljónagryfjunni í kvöld, 105-90, og tryggði sér oddaleik í Stykkishólmi á Skírdag. Heimamenn voru við stýrið frá upphafi til enda þó Hólmarar hafi vissulega átt sínar rispur. Nigel Moore fór fyrir Njarðvíkingum með 30 stig, 13 fráköst og 4 stoðsendingar. Hólmarar voru fremur flatir í sínum aðgerðum í kvöld og lykilmenn nokkrir voru snemma komnir í villuvandræði.

Heimamenn í Njarðvík byrjuðu betur og komust í 9-2 strax eftir rúmlega tveggja mínútna leik. Jón Ólafur Jónsson fékk á þessum tíma tvær villur og inn í hans stað kom Sveinn Arnar Davíðsson í Snæfellsliðinu. Pálmi Freyr.....


Meira...

23.03.2013 00:23

Naumur sigur hjá Snæfell

22. mars 2013
Eins stigs sigur í fyrsta leikNjarðvíkingar byrjuðu af krafti með Elvar Friðriksson í fararbroddi og í stöðunni 2-10 var Elvar búinn að skora öll stig Njarðvíkur. Snæfell voru kaldir og Njarðvík yfirspilaði á miklum hraða og ljóst að þeir voru ekki komnir í skemmtiskokk í Skerjafirðinum. Snæfell lagaði sinn leik allverulega og hófu sína skothríð og komust yfir 16-10 með Jón Ólaf, Sigurð Þorvaldsson og Ryan Amoroso í stuði og gerðu þetta að leik. Marcus Van átti eina skrímslatroðslu og reyndi að keyra sitt lið í gang, var drjúgur í fraköstum og búinn að bæta við 6 stigum fyrir Njarðvík. Staðan var 22-16 eftir fyrsta hluta.

Menn voru ekkert gríðalega mikið á skotskónum í öðrum hluta en fór að glæðast undir lokin og staðan var lengi vel 25-23 fyrir Snæfell. Skriður komust á sóknarleik liðanna og leiddi Snæfell áfram naumt 36-32. Framan af voru einungis tveir leikmenn Njarðvíkur að skora, þeir Marcus og Elvar en Ólafur Helgi og Hjörtur Hrafn bættust í hópinn um síðir og ljóst að fleiri yrðu að stíga upp. Snæfell leiddi í hálfleik 41-36.

 

 

Í hálfleik voru stigahæstir hjá Snæfelli Jay Threatt 12 stig, Jón Ólafur 9 stig og Ryan Amoroso 9 stig og 7 fráköst. Í liði Njarðvíkur bar Elvar Friðriksson höfuð og herðar yfir aðra með 22 stig og næstur honum var Marcus Van 8 stig og 12 fráköst. Ólafur, Hjörtur og Nigel voru komnir með 2 stig hver.

Marcus Van byrjaði af krafti og hamraði eina troðslu, reif niður frákast og skoraði yfir Snæfell í annari sókn Njarðvíkur og staðan því strax jöfn 41-41. Liðin léku stál í stál og Njarðvík komst yfir 52-54 með þristum frá Elvari Má og Ágústi Orrasyni. Jón Ólafur kom Snæfelli yfir með þremur 57-56 og var það staðan eftir þriðja hlutann.

Ótrúlega gaman að sjá bakverði beggja liða Jay Threatt og Elvar Má eigast við en þar fór allt sem góður körfubolti getur sýnt okkur í þessum flottu leikmönnum sem héldu sínum liðum algjörlega við efnið allan leikinn. Njarðvík komst yfir 68-62 en Snæfell með þristum frá Ryan og Jóni náðu að jafna 68-68 þegar 4:30 voru eftir. Ágúst Orrason átti þá magnaðann þrist á skotklukkuflautu og Ólafur Helgi bætti öðrum við og staðan 68-74 og hittnin ógurleg á þessum kafla.

Þvílíkur leikur sem boðið var upp á í Hólminum og Njarðvík leiddi 76-78 þegar 1:35 voru eftir sem breyttist fljótt í 79-78 fyrir Snæfell þegar Jay Threatt fór á vítalínuna með þrjú skot og Snæfell hafði skorað sjö síðustu stig leiksins. 20 sekúndur voru eftir og Njarðvík var í sókn og fengu svo innkast þegar 4 sekúndur voru eftir en náðu ekki að nýta sér það og Snæfell sigraði 79-78 og leiða 1-0 í einvíginu. Það er því ljóst að hörkuleikur verður í boði á mánudaginn næsta í leik tvö í Njarðvík og að bæði lið ætla sér betri leik.

 

 

Snæfell: Ryan Amoroso 27/10 frák. Jay Threatt 22/4 frák/9 stoðs. Jón Ólafur Jónsson 17/4 frák. Pálmi Freyr 6. Sigurður Þorvaldsson 5. Ólafur Torfason 2. Stefán Karel 0. Sveinn Arnar 0. Hafþór Ingi 0. Tinni Guðmundsson 0. Óttar Sigurðsson 0. J.Kristófer Sævarsson 0.

Njarðvík: Elvar Már Friðriksson 35/7frák/6 stoðs. Marcus Van 17/24 frák. Ólafur Helgi 11. Ágúst Orrason 6. Nigel Moore 5/5 frák. Hjörtur Hrafn 2. Friðrik Stefánsson 2. Óli Ragnar 0. Kristján Rúnar 0. Oddur Birnir 0. Maciej S Baginski 0. Brynjar Þór 0.

 

Símon Hjaltalín

Myndir: Eyþór Benediktsson

 

10.03.2013 09:54

Tap geng Grindavíkurstúlkum

08.03.2013 22:12 nonni@karfan.is
Grindvíkingar gerðu góða ferð í Stykkishólm í kvöld er þær lögðu Snæfell 73-76. Crystal Smith gerði 36 stig og tók 13 fráköst í liði Grindavíkur en hjá Snæfell var Kieraah Marlow með 21 stig og 5 fráköst.
 
Byrjunarliðin:
Snæfell: Kieraah Marlow, Hildur Björg, Hildur Sigurðard. Berglind Gunnarsd. Alda Leif.
Grindavík: Crystal Smith, Ingibjörg Yrsa, Helga Rut, Harpa Rakel, Petrúnella Skúladóttir.
 
Snæfell hafði góða yfirönd strax í upphafi og komust í 7-0 og svo 16-8 ef við stökkvum þangað. Grindavík tók leikhlé og löguðu sinn leik en alla grimmd vantaði. Snæfell fannst leikurinn of þægilegur í upphafi í slakaði heldur betur á og Grindavík jafnaði 18-18 með góðum leik. Staðan eftir fyrsta hluta 20-18 fyrir Snæfell sem þurftu að skoða leik sinn.
 
Grindavík voru komnar á sporið og stálu boltum, jöfnuðu 22-22 og komust yfir 22-24. Crystal Smith var drjúg í að stjórna sínu liði og Grindavík spilaði góðan varnaleik. Kieraah Marlow og Hildur Sig voru að fara fyrir Snæfelli í skori en nokkuð vantaði upp á vörnina þegar Grindavík sótti á og Snæfellsstúlkur heldur ragar og fastar í fæturnar sóknarleiknum. Rósa kom sterk af bekknum og smellti góðum þrist sem kom Snæfelli í 31-26 og allt annað Snæfellslið mætti eftir skraf og ráðagerðir. Snæfell stillti upp í algjöran vegg í vörninni með flottu svæði og komust í 39-30 og leiddu í hálfleik 39-33.
 
Stigahæstar í Snæfelli í hálfleik voru Kieraah Marlow með 15 stig og Hildur Sigurðardóttir með 8 stig. Crystal Smith var stigahæst Grindavíkur með 11 stig og 8 fráköst.
 
Snæfell var 10 stigum yfir 48-38 og Grindavík tóku góðann kafla þar sem þær söxuðu niður í 48-45 og virtust vera að spýta í líkt og í fyrri hálfleik. Grindavík komust aftur yfir 53-48 og áttu þar af leiðandi 15-0 áhlaup og Snæfell úti að aka og misstu boltan oft á klaufalegan hátt og spiluðu engan veginn sinn leik. Mikil spenna var hlaupin í leikinn þegar staðan var 56-56 og hart barist. Það voru hins vegar Grindvíkingar sem leiddu 57-60 fyrir fjórða fjórðunginn.
 
Snæfell hélt áfram að kasta frá sér tækifærum og Grindavík leiddi 57-65 og svo komnar í 10 stiga mun 59-69 þegar 5:36 voru eftir. Snæfell kom þá til baka og saxaði á 67-69 en Hildur Björg Kjartansdóttir reif niður fráköst og fór sex sinnum í röð á vítalínuna og setti flest niður og með 2:36 á klukkunni var hún búin að jafna á vítalínunni 69-69 og svo strax 71-69 og kórónaði frábæra baráttu og 12-0 kafla Snæfells.
 
Crystal var ekki hætt hjá Grindavík var í algjörum sérflokki og hleypti spennu af stað með þrist 71-74 þegar einungis tæp mínúta var eftir. Grindavík náði svo boltanum aftur og náðu að éta upp tímann en Snæfell náði boltanum þegar 15 sekúndur voru eftir og náðu þriggja stiga skoti sem geigaði og Petrúnella kom Grindavík í 71-76 á vítalínunni. Með 3.6 sekúnudur eftir reyndu Snæfell við körfu og settu tvö en allt kom fyrir ekki og Grindavík náði hörku baráttusigri á of mörgum köflum bitlausu Snæfellsliði 73-76.
 
Snæfell: Kieraah marlow 21/5 frák. Hildur Björg 19/6 frák. Hildur Sigurðardóttir 15/6 frák/8 stoðs/3 stolnir. Helga Hjördís 7/8 frák.Berglind Gunnarsdóttir 6/4 frák. Rósa Kristín 5/6 frák. Alda Leif 0/7 frák/4 stolnir. Sara Sædal 0. Silja Katrín 0. Rebekka Rán 0. Aníta Rún 0. Brynhildur Inga 0.
 
Grindavík: Crystal Smith 36/13 frák/5 stoðs/4 stolnir. Helga Rut 8/5 frák. Jóhanna Rut 7/4 frák. Jeanne L. F. Sicat 4. Harpa Rakel 4. Eyrún Ösp 2. Ingibjörg Yrsa 2. Hulda Sif 0. Julia L. F. Sicat 0. Katrín Ösp 0.
 
 
 
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín  

08.03.2013 10:10

Mikilvægur sigur á Skallagrím

07.03.2013 23:43 nonni@karfan.is
Það er ávalt mikið í húfi þegar Skallagrímur og Snæfell mætast í úrvalsdeildinni í körfubolta.  Ekki eru einungis 2 stig í boði, heldur einnig er stoltið og montrétturinn í húfi.  Leikurinn í kvöld var þar engin undantekning. Taugar leikmanna.dómara og áhorfenda voru þandar frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu og litlu mátti muna að upp úr syði. Stemmingin í stúkunni var mögnuð hvar stuðningsmannaklúbbur fjósamanna riðu húsum og höfðu hátt.
 
Eftir fremur jafna byrjun tóku heimann frumkvæðið og leiddu 13-8 eftir um 6 mínútna leik.  Bæði lið lögðu hjarta og sál í leikinn og oft var það kappið sem bar fegurðina ofurliði. Hólmarar áttu í talsverðum vandræðum sóknarlega og eftir gott áhlaup heimamanna og þrist frá Páli Axel í lok 1.leikhluta leiddu þeir 22-15 að loknum fyrstu 10 mínútunum. Borgnesingar hófu 2.leikhluta einnig af miklum móð og eftir frábæra vörn og góða hittni var staðan allt í einu orðin 29-15 og skömmu síðar eftir tvo þrista frá Palla neðan úr Hyrnu var staðan 35-20.  Þá fóru nú Snæfellingar aðeins að hressast.  Vörnin small saman hjá þeim og skotin fóru að detta.  Staðan í hálfleik 39-34
 
Liðin skiptust á að skora í upphafi síðari hálfleiks.  Mönnum var orðið ansi heitt í hamsi inni á vellinum og slakir dómarar leiksins við það að missa tökin á leiknum.  það var skemmtileg stund þegar  Snæfellingurinn í liði Skallagríms Egill Egilsson kom inná um miðjan 3.leikhluta.  En hann hefur ekkert leikið með liðinu síðan í október sökum meiðsla.  Eftir gríðarlega baráttu og þrátt fyrir magnaða vörn Orra á Nonna Mæju náði Nonni fram hefndum er hann jafnaði 58-58.  þegar leikhlutanum lauk var jafnt 60-60 og Hólmarar virtust komnir á bragðið.  Mikið fum og fát var á leikmönnum beggja liða í upphafi 4.leikhluta.  Ekki var ástandið á dómurunum skárra, þeir vissu vart sitt rjúkandi ráð á köflum. Leikurinn var við það að leysast uppí vitleysu, en Snæfellingar héldu leikskipulagi sínu og þegar 2.30 mínútur voru eftir höfðu þeir náð 5 stiga forystu.  Í stöðunni 78-82 þegar 51 sekúnda var eftir gerðist afar umdeilt atvik. Dæmt var villa á Nonna Mæju og Skallagrímur fékk 2 víti. Medlock fór á vítalínuna og hitti úr fyrra skotinu. Þá hins vegar flautaði dómarinn og eftir mikla reikistefnu og stíf fundarhöld dómaranna dæmdu þeir vítin af Medlock og Snæfell fékk boltann.  Villan á Nonna stóð hinsvegar óhögguð.  Vildi dómaratríóið meina að rangur maður hafi farið á vítalínuna.  Hver það var sem átti að taka vítin skal ósagt látið.  Snæfellingar héldu kúlinu til loka og lönduðu sigri 78-85
 
Snæfell var lengi í gang í leiknum og átti í svitlum vandræðum með vörn heimamanna framan af.  Þeir hittu illa framan af.  En Ingi Þór þjálfari Snæfells hélt ró sinni, vissi hvers megnugir sínir menn væru og eins og góðra liða er siður ná þau að hanga í andstæðingunum og sigla svo fram úr þegar mest á reynir.  Ryan Amoroso var magnaður í kvöld með 27 stig og 90% nýtingu auk þess tók hann 15 fráköst.  Nonni Mæju var lengi í gang en var ansi drjúgur á lokakaflanum og skoraði þegar mest á reyndi, alls 17 stig
Skallagrímur átti afbragðsleik í fyrri hálfleik en heldur dró af þeim í þeim síðari.  Segja má að hæðarskortur hafi verið þeim dýr í kvöld. Án eiginlegs miðherja gekk þeim illa að ráða við téðan Amoroso. Venju samkvæmt var Carlos stigahæstur Skalla með 31 stig. Palli gerð 21 stig þar af 17 í fyrri hálfleik
 
 
Mynd/ Ómar Örn Ragnarsson
Umfjöllun/ Ragnar Gunnarsson

04.03.2013 11:45

Góð ferð í Hafnarfjörð

2. mars 2013
Snæfell fór illa með Hauka

Snæfellsstúlkur fóru illa með annars gott lið Hauka í Hafnarfirði í dag. Þær voru aldrei í vandræðum með leikinn og sigruðu með 28 stiga mun 50-78. Mínútufærri og yngri leikmenn fengu fín tækifæri í dag einnig og bara hamingja.

 

Fyrsti hluti hafðist 13-28 og línurnar lagðar í leiknum. Óvenju lítil mótspyrna Hauka en einhver þó gaf þeim það að saxa lítillega á forskot Snæfells í öðrum hlutanum sem féll þeirra megin 17-13 og staðan því 11 stig eða 30-41. Það vantaði meira framlag frá fleiri leikmönnum Hauka en Siarre Evans sem hélt uppi sóknarleik Hauka.

 

Í þriðja hluta var gestagangur Snæfells að Ásvöllum heldur mikill og fóru algjörlega með leikinn alla leið heim Hólm og stoppuðu ekki í Borganesi. Þriðji leikhluti vannst 8-24 og staðan því 38-65. Rebekka Rán, Aníta Rún, Silja Katrín og Brynhildur fengu að spreyta sig mikið í fjórða hluta og komust vel frá því verkefni og unnu fjórða hluta 12-13 og leikinn eins og áður sagði 50-78.

 

Burtséð frá slökum Haukaleik þá voru Snæfellsstúlkur ákveðnar og kom til dæmis Rósa Kristín með 3 þrista í kippu og smellti þeim öllum niður í fyrri hálfleik þar sem tónnin var gefinn. Berglind Gunnars var sterk í þessum leik einnig, opnaði t.d leikinn með þrist. Hildur og Hildur voru einnig sterkar ásamt Öldu Leif sem setti niður stór skot, en Hildur Björg var að stela 4 boltum í leiknum og Hildur Sig reif niður 11 fráköst. Þá var liðið að leika vel í heildina og allar voru að gefa til liðsins nokkuð jafnt.

 

Tölfræði leiksins

 

Stigaskor leikmanna:

 

Haukar: Siarre Evans 26/13 fráköst/5 stolnir, Gunnhildur Gunnarsdóttir 4, Dagbjört Samúelsdóttir 4, María Lind Sigurðardóttir 4/5 fráköst, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 3/4 fráköst, Auður Íris Ólafsdóttir 3/6 fráköst, Sylvía Rún Hálfdanardóttir 2, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 2, Inga Sif Sigfúsdóttir 2, Aldís Braga Eiríksdóttir 0, Þóra Kristín Jónsdóttir 0, Sólrún Inga Gísladóttir 0.

 

Snæfell: Kieraah Marlow 14/5 fráköst/5 stoðsendingar, Alda Leif Jónsdóttir 13/6 fráköst/4 varin skot, Berglind Gunnarsdóttir 12/6 fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir 10/6 fráköst, Rósa Indriðadóttir 10, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 7/10 fráköst, Hildur Sigurðardóttir 7/11 fráköst, Rebekka Rán Karlsdóttir 3, Aníta Sæþórsdóttir 2, Brynhildur Inga Níelsdóttir 0, Silja Katrín Davíðsdóttir 0, Sara Sædal Andrésdóttir 0.

 

Símon B Hjaltalín

01.03.2013 14:49

Baráttuleikur

Sigur á Keflavík í hörkuleik


Bæði lið töpuðu leikjum sínum í síðustu umferð, að mörgum finnst óvænt, en hvað er óvænt ef þegar komið er á fullt í leikina og annað liðið er ekki alveg mætt 100%. Engu að síður tvö lið mætt í þennan leik sem vilja taka tvö stig í leik Snæfells og Keflavíkur í Hólminum í kvöld. Magnús Gunnarsson var í byrjunarliðinu þrátt fyrir vel teipaða fingur vegna fingurbrots.

Byrjunarliðin:
Snæfell: Jón Ólafur, Pálmi Freyr, Ryan Amoroso, Sigurður Þorvaldsson, Jay Threatt.
Keflavík: Billy Baptist, Valur Orri, Michael Craion, Magnús Gunnarsson, Darrel Keith Lewis.

Leikurinn byrjaði vel en körfurnar virtust oft lokaðar báðum megin þrátt fyrir að menn væru að leggja boltann ofaní. Snæfell komst í 14-11 en Keflavík náði því upp 14-15 og leikurinn jafn. Staðan var 18-18 eftir fyrsta hluta og menn fóru svo til varfærnislega í leikinn ef orða má svo.

Hafþór Gunnarsson byrjaði á þrist fyrir Snæfell en Keflavík með Magnús, Baptist og Lewis voru feti á eftir og jöfnuðu svo 26-26. Varnarleikur liðanna mýktist um miðjan annan fjórðung og skoruðu liðin nokkuð auðveldalega á víxl og hraði kominn í leikinn og staðan varð fljóttt 37-35 fyrir Snæfell og svo 37-40 fyrir Keflavík. Staðan var svo 44-40 fyrir Snæfell eftir að Sigurður Þorvaldsson setti niður þrist undir lok fyrri hálfleiks.

Stigahæstu menn voru hjá Snæfelli Ryan Amoroso með 10 stig og Nonni Mæju með 8 stig og báðir voru með 6 fráköst. Hjá Keflavík var Billy Baptist kominn með 14 stig  og honum næstur var Darrel Lewis með 9 stig.

Snæfell byrjaði ferskir og tóku fyrstu fjögur stigin í sín hús en það var ekkert gefið eftir hjá Keflavík sem fóru alls ekki í kerfi við það og héldu sig nærri 50-46. Arnar Freyr er að koma sér inn í leik Keflavíkur og á ekki að eiga í erfiðleikum með það þekkjandi innviðið eins og lófann á sér og hann smellti góðum þrist, 53-49. Billy Baptist lét rigna yfir Snæfell sem hittu illa og áttu þvingaðar sóknir gegn ágætri vörn Keflavíkur og kom þeim yfir 56-58 með tveimur þristum, það var staðan eftir þriðja fjórðung.

Staðan var 64-64 og margar mistækar sóknir beggja liða í upphafi fjórða hluta. Snæfell komst í 65-64 og síðan fór Billy Baptist í sinn sjötta þrist sem hann skellti niður og Lewis bætti við tveimur og staðan því fljót að breytast í 65-69 fyrir Keflavík.  Snæfell jafnaði 69-69 eftir leikhlé. 74-74 jafnaði svo Keflavík og áhorfendur fengu fyrir allan aurinn í kvöld. Billy Baptist var settur í einangrun af Sveini Arnari og átti alls ekki að fá fleiri sénsa. Þegar staðan var 75-75 voru 49 sekúndur eftir og Ryan setti tvö og fékk víti að auki 78-75. Craion kom Keflavík nær 78-77.

Eftir mistök beggja liða í sóknum sínum og nokkur leikhlé undir lokin náði Nonni Mæju frákasti eftir geigað skot Craion og kom boltanum á Jay Threatt sem Valur Orri braut á og Jay setti víti niður og sekúnda lifði á klukkunni. Keflavík tókst ekki að gera sér mat úr því og Snæfell sigraði 79-77 eftir æsispennandi og hörkuleik þar sem hvergi var hægt að sjá hvar þetta félli. 

 

Tölfræði leiksins

 

Snæfell: Ryan Amoroso 25/9 frák. Jay Threatt 18/5 frák/8 stoðs. Jón Ólafur 11/10 frák/4 stoðs. Sigurður Þorvaldsson 9/5 frák. Pálmi Freyr 6/3 frák. Ólafur Torfason 5. Hafþór Ingi 3. Sveinn Arnar 2/4 frák. Stefán Karel 0. Óttar Sigurðsson 0. Jóhann Kristófer 0. Þorbergur Helgi 0.

Keflavík: Billy Baptist 23/12 frák. Darrel Keith Lewis 22/4 frák. Michael Craion 13/14 frák. Valur Orri 7. Magnús Gunnarsson 5. Snorri Hrafnkelsson 4. Arnar Freyr 3/3 stoðs. Ragnar Gerald 0. Andri Daníelsson 0. Andri Þór 0. Hafliði Már 0. Almar Stefán 0.

Símon B. Hjaltalín.

28.02.2013 10:16

Sigur á Fjölnisstúlkum

Tvö stig í hús Snæfells

\

 

Byrjunarliðin.

Snæfell: Kieraah Marlow, Hildur Björg, Hildur Sigurðardóttir, Alda Leif, Berglind Gunnarsdóttir.

Fjölnir: Britney Jones, Bergdís Ragnarsdóttir, Heiðrún Harpa, Bergþóra Tómasdóttir, Fanney Lind. 

 

Snæfell byrjaði af krafti og virtust ætla sér að keyra þetta í gang strax. Fjölnisstúlkur voru heldur betur ekki á því eftir smá samtal við Ágúst þjálfara og komust þær yfir 5-6 og gerðu leikinn fyrir vikið spennandi og skemmtilegan. Fjölnir komst með fínni vörn í 11-14 og Snæfell hitti ekki vel en staðan hefði verið önnur ef eitthvað hefði farið ofaní en sóknarleikurinn varð staður og rýr. Snæfell fóru þá til skrafs og ráðagerða sem kom þeim tilbaka um fimm stig og með þremur frá Öldu komust þær í 16-14 og enduðu fyrsta hluta á að leiða 20-18 og Fjölnir voru að veita góða keppni.

 

Fjölnir komust aftur yfir og fór Fanney Lind að setja góðar körfur ásamt Britney Jones sem gaf þeim forystu 24-31. Þá kom að kafla Snæfells sem jöfnuðu 33-33 með góðum skotum Öldu og Hildar Sig en sóknarleikurinn var að fá meiri hreyfingu og vörnin með góð stopp. Hildur Sig og Berglind Gunnars sáu til þess að Snæfell kæmist í 39-33 með stóru skotunum en Kieraah Marlow sallaði niður undir körfunni og áttu því flottan kafla sem steinlá 14-0. Snæfell leiddi í hálfleik 41-35 og voru orðnar heitar.

 

Hjá Snæfelli var Kieraah Marlow komin með 14 stig og 8 fráköst og næst henni voru Hildur Sig, Alda Leif og Berglind Gunnars með 8 stig hver. Í liði Fjölnis var Britney Jones komin með 13 stig, Fanney Lind 8 stig og Bergdís Ragnars 6 stig.

 

Snæfell komst í 47-39 í upphafi þriðja hluta en gáfu svo oft eftir í sóknum sínum líkt og í upphafi fyrri fjórðunga í leiknum eða eins og má líka færa þetta upp að Fjölnir spilaði ágætis varnarleik. Það kom þó ekki að sök því þær náðu að halda Fjölni fyrir aftan sig í þetta skiptið þó ekki skildi mikið að 54-48. Snæfell leiddi 65-56 eftir þriðja fjórðung.

 

Snæfell leiddu leikinn 77-66 og voru alltaf þessu skrefi á undan þegar þær höfðu uppskorið forystuna. Liðin voru að skiptast á að skora í fjórða hluta og jafnræði með liðunum en ekkert sem ógnaði forystu Snæfells frá Fjölnisliðinu sem áttu erfitt með að elta um 10 stiga muninn uppi og Snæfell gerðu það sem þær þurftu til að klára leikinn 92-76. Fjölnir heldur því áfram að glíma við að verkefni að verma botnsætið en sýndur samt að þær eiga sitthvað inni. Snæfell hins vegar í öðru sætinu sem fyrr og ætla sér að landa því hið minnsta.

 

Snæfell: Kieraah Marlow 26/15 frák/5 stoðs. Hildur Sigurðardóttir 25/7 frák/10 stoðs. Alda Leif 17/5 frák/5 stoðs. Bergænd Gunnarsdóttir 10/4 frák. Hildur Björg 9/10 frák/6 stoðs. Helga Hjördís 3/4 frák. Rósa Kristín 2. Aníta Rún 0. Rebekka Rán 0. Brynhildur Inga 0. Sara Sædal 0.

 

Fjölnir: Britney Jones 36/3 frák/5 stoðs. Fanney Lind 14/6 frák. Bergdís Ragnarsdóttir 12/8 frák. Hrund Jóhannsdóttir 6/7 frák. Bergþóra Tómasdóttir 6. Eyrún Líf 2. Heiðrún Harpa 0. Dagbjört Helga 0. Margrét Loftsdóttir 0. Hugrún Eva 0. Eva María 0.

 

Símon B. Hjaltalín.

 

 

 

26.02.2013 11:24

Snæfell tapaði á Króknum

26.02.2013 01:19 nonni@karfan.is
Tindastóll atti kappi við Snæfellinga þetta mánudagskvöld í Síkinu á Sauðárkróki, í virkilega mikilvægum leik, sérstaklega fyrir heimamenn sem eru í blóðugri fall/úrslitakeppnisbaráttu. Liðin létu óvenjulegan leiktíma ekki trufla sig mikið nema síður sé, og buðu upp á algjöra eðal skemmtun fyrir alltof lítinn pening. Eigilega skandall að áhorfendur hafi bara borgað þúsund kall fyrir miðann.
 
Mikið tempó var strax í upphafi leiks, og bæði lið voru í háum gír. Tindastólsmenn voru spila hraðann bolta en Snæfellingar héldu vel í Stólana með Sigurð Þorsteinsson og Jay Threatt baneitraða fyrir utan bogann og refsuðu grimmilega í hvert einasta skipti sem Stólarnir náðu ekki að stíga út í þá. Síðan þegar Pálmi, Amaroso og Nonni Mæju náðu allir að setja einn þrist í púkkið hver undir lok annars leikhluta náðu Snæfellingar smá forskoti og leiddu kurteisislega í hálfleik 39-46 með 10 af 20 í þriggja stiga skotum.
 
Seinni hálfleikur byrjaði rólega og liðin tóku nokkrar mínútur í að byrja leikinn aftur. Það má segja að leikurinn hafi hafist fyrir alvöru þegar Helgi Rafn fékk opinn þrist um miðjan þriðja leikhluta og skellti honum ofan í og setti stöðuna í 45-48. Það kveikti vel í rassinum á Tindastólsmönnum, þeir þéttu vörnina og tóku völdin á vellinum með Helga Rafn algjörlega þyrlutrylltan inn á. Leikhlutinn endaði 22-13 fyrir Tindastól og því byrjuðu þeir fjórða leikhluta með tvö stig í plús, 61-59.
 
Fjórði leikhluti var síðan algjörlega í járnum, þannig mátti sjá þessar tölur í leikhlutanum: 61-61, 63-63, 65-65, 67-67 og 69-69. Það var ekki fyrr en þrjár mínútur voru eftir sem Stólarnir fóru að búa til meira en einnar sóknar gat. Bræðurnir Svavar og Hreinn settu niður stig á þessum kafla og fögnuðu þannig enn einum bróðurinum sem kom í heiminn fyrir viku síðan en stærsta karfa leiksins kom þegar tvær mínútur voru eftir. Þá setti Helgi Freyr niður rándýran þrist sem breytti stöðunni í 78-71 og Snæfellingar komnir með bakið við tvo veggi.
 
En leikurinn var langt í frá búinn því Snæfellingar voru engan veginn búnir að gefast upp. Lokamínútan var eftir og eins og allir vita gerast ævintýrin þar. Eftir tvo vítaskot frá Threatt og Gibson, setti Siggi Þorvalds niður rosalegan þrist þegar 40 sek voru eftir og staðan 80-78. Helgi Rafn komst á vítalínuna hinum meginn en skotin fóru forgörðum og því fengu Snæfellingar frábært tækifæri til að jafna leikinn eða jafnvel eitthvað meira.
 
Snæfellingar tóku sér góðan tíma í sókninni sem endaði þannig að brotið var á Amaroso þegar 8 sekúndur voru eftir sem gaf Amaroso tækifæri til að spreyta sig á vítalínunni. Fyrra skotið fór ofan í, 80-79 og allt algjörlega stjörnuvitlaust í Síkinu og víðar.Taugarnar héldu hins vegar ekki hjá Amaroso og áhorfendum tókst að öskra seinna vítið af hringnum. Snæfellingar brutu strax á Helga Rafni sem kom stöðunni í 81-79.
 
Snæfellingar fengu 7 sekúndur til að jafna. Jay Threatt keyrði upp að körfunni og fékk algjörlega opið sniðskot á síðustu sekúndinni... en aftur tókst áhorfendum að öskra skotið uppúr hringnum og þannig fór sem fór, 81-79, góður og líklega sanngjarn sigur Tindastólsmanna.
 
Helgi Rafn fór algjörlega fyrir sínum mönnum, bæði í vörn, sókn, í upphitun, á bekknum, í hálfleik og eftir leik og átti mestan heiðurinn af því að orustan um teiginn fór 40-22 fyrir Stólunum í kvöld. Þá átti Tariq Johnson góðan leik fyrir Stólanna en hann var ansi grimmur í kvöld og náði að pota inn 21 stigi. Annars var þetta einn af þessum liðsheildarsigrum hjá Stólunum þar sem leikurinn vannst í vörninni. Seint vanmetinn þessi varnarleikur.
 
Hjá Snæfellingum voru Amaroso með 16/16 og Jay Threatt með 30/4/5 lang öflugastir, með smá hjálp frá Sigurði og Pálma. Snæfellingar sýndu mikinn karakter í lokin en ekki var það nóg í þetta sinn og Tindastólsmenn fagna í kvöld.
 
 
Umfjöllun/ BIÓ

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 2393
Gestir í dag: 152
Flettingar í gær: 846
Gestir í gær: 68
Samtals flettingar: 3301120
Samtals gestir: 253923
Tölur uppfærðar: 23.1.2018 23:15:22
Flettingar í dag: 2393
Gestir í dag: 152
Flettingar í gær: 846
Gestir í gær: 68
Samtals flettingar: 3301120
Samtals gestir: 253923
Tölur uppfærðar: 23.1.2018 23:15:22