Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Flokkur: Körfubolti

31.10.2013 14:19

Sigur og tap gegn Haukum30.10.2013 19:54 nonni@karfan.is
Fyrri leik kvöldsins í tvíhöfðanum í Hafnarfirði er lokið. Snæfellskonur sóttu tvö dýr stig í greipar Hauka rétt í þessu en þriðja leikinn í röð var boðið upp á spennuslag í Schenkerhöllinni. Snæfell hefur þar með jafnað Keflavík á toppi deildarinnar
 
 
Í Hafnarfirði fengu Haukakonur síðustu 16 sekúndur leiksins til þess að stela sigrinum en lokaskot Lele Hardy vildi ekki niður og Snæfell fagnaði sigri. Tröllatvenna er fasti hjá Lele Hardy og í kvöld var hún með 27 stig, 23 fráköst og 7 stoðsendingar en hjá Snæfell var Chyanna Brown atkvæðamest með 19 stig, 14 fráköst og 6 stoðsendingar.


31.10.2013 00:02 nonni@karfan.is
Það var ágætlega mætt í Schenker-höllina í kvöld þar sem Haukar fengu Snæfellinga í heimsókn í öðru veldi. Kvenfólkið reið á vaðið kl. 18:00 þar sem gestirnir mörðu sigur að lokum. Það var því á herðum karlmannanna að jafna um gestina og eftir tvo flotta sigra Haukamanna í þremur leikjum mátti allt eins búast við því enda höfðu Hólmarar ekki byrjað mótið sannfærandi, aðeins með einn sigur, og það nauman, gegn Sköllum.
 
 
Haukamenn byrjuðu ansi rólega og gestirnir komust í 2-7. Sóknarleikur beggja liða var ekki til fyrirmyndar en heimamenn hresstust mjög er á leið og leiddu 21-17 eftir fyrsta fjórðung.
Annar leikhluti einkenndist af gríðarlegri baráttu sem skilaði samt sem áður engum stigum á töfluna! Vörnin hjá Haukum var loft- og vatnsþétt og Hólmarar litu út fyrir að hafa enga hugmynd um hver tilgangur sóknarleiks væri. Haukar skoruðu reyndar ekki neitt heldur fyrstu 3 mínúturnar eða svo en það var einfaldlega vegna þess að þeir hittu ekki úr annars fínum skotfærum sem þeir bjuggu sér til. Þegar liðin höfðu mjakað örfáum stigum á töfluna ákvað klukkan í húsinu að fara í verkfall í dulitla stund, sem er afar bagalegt og stöðvaði flæði leiksins. Við því máttu Hólmarar alls ekki enda flæðið í leik þeirra svo gott sem ekkert fyrir! Watson og Haukur sýndu lipra takta og héldu heimamönnum í nokkurra stiga forystu en einstaklingsframtak gestanna, einna helst Nonna Mæju, kom í veg fyrir að Haukarnir stingu af. Emil Barja endaði hálfleikinn með því að vaða fram allan völlinn á tæpum 3 sekúndum og setja buzzer-þrist, staðan 42-35 í hálfleik.
 
Þrátt fyrir býsna lélegan leik gestanna tókst þeim að halda í við heimamenn í þriðja leikhluta og má segja að leikurinn hafi verið í nokkuð góðu jafnvægi og liðið skiptust á körfum. Haukar þó alltaf með nokkurra stiga kodda og Emil og Watson áberandi í liði heimamanna. Kristján Pétur kom með ágæta mola fyrir gestina en annars var það einkum Nonni Mæju sem hélt gestunum inn í leiknum. Staðan eftir þriðja leikhluta 64-59 Haukum í vil.
 
Ekki skánaði leikur Snæfellinga í fjórða leikhluta. Vance Cooksey hafði ekki spilað vel í leiknum og var mest í því að tapa boltanum og hlaupa sig í vandræði. Hann tapaði þremur boltum (stattið er ekki sammála af einhverjum ástæðum) á skömmum tíma og Haukar virtust loksins ætla að klára dæmið og komu sér í 11 stiga forskot, 75-64 og fjórar mínútur eftir. En Haukamenn virðast ætla að leggja það í vana sinn að bjóða upp á svolitla spennu á sínum heimavelli, hægðu á leiknum og virtust ekki vilja skora neitt meira. Snæfellingar pressuðu og náðu að naga niður forskotið í 79-77 þegar 40 sekúndur lifðu leiks. Emil Barja tók svo rándýrt sóknarfrákast þegar um 20 sekúndur voru eftir og Snæfellingar urðu að brjóta. Pálmi fékk tækifæri á að jafna með þriggja stiga skoti í blálokin sem geigaði og Emil endaði leikinn með tveimur vítum, góður sigur heimamanna 82-77 í höfn.
 
Haukar halda áfram að gleðja áhangendur sína, og aðra, með flottri spilamennsku. Terrence Watson er algerlega frábær leikmaður, endaði með 31 stig, 13 fráköst og mjög góða nýtingu. Emil Barja virðist ætla að veita Ermolinskij smá samkeppni og lauk leik með 21 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar! Haukur átti einnig fínan leik.
 
Nonni Mæju var helst með lífsmarki hjá gestunum með 25 stig og 9 fráköst en tók þó svolítið skrautleg skot á köflum. Vance Cooksey kom þar á eftir með 13 stig, 7 fráköst sem og stoðsendingar. Nýtingin hins vegar slök og framlag hans ekki ásættanlegt.
 

22.10.2013 10:38

Snæfell 76-59 Njarðvík

Snæfell réði ferðinni frá fyrstu mínútu

 Snæfellsstúlkur tóku á móti Njarðvík í Dominos deildinni í dag og byrjuðu leikinn 6-0 og voru að gera Njarðvíkurstúlkum óleik með stífrivörn vörn. Njarðvík gekk illa í varnaleiknum og sprengdi Snæfell hraðann upp í sínum sóknarleik og þær grænklæddu réðu illa við slíkt, Snæfell voru þá komnar í 20-4 með 14-0 kafla og leikhlé dugði ekki til að laga leik Njarðvíkur til nokkurs hlutar. Staðan eftir fyrtsa hluta var 25-12 fyrir heimastúlkur.

 Snæfell byrjaði annan hluta afritað og límt frá þeim fyrri 6-0, 31-12. Nokkuð ljóst í hvað stefndi í leiknum þar sem yfirburðir Snæfells voru algerir á vellinum komnar í 37-14. Vel sást að Hildur Björg er mætt aftur og eignaði sér teiginn og mikill styrkur í  leik Snæfells að fá hana tilbaka en það var svo sem alveg sama hver kom inn á hjá Snæfelli allar gerðu sitt með sóma. Stigaskor beggja liða dreifðist þokkalega á leikmennog staðan í hálfleik 49-25.

Hjá Snæfelli var Chynna Brown komin með 13 stig, 5 fráköst og Hildur Björg 12 stig. Guðrún Gróa var með enn einn varnarsigurinn og var komin með 8 stig og Eva Margrét 7 stig.

Hjá Njarðvík var Jasmine Beverly komin með 8 stig og Aníta Carter 5 stig en mikið vantaði upp á varnaleikinn og baráttu alls liðsins til að gera sér eitthvað í leiknum.

 Það var annað að sjá Njarðvíkurliðið byrja í seinni hálfleik og voru þær einbeittari í sínum aðgerðum inni á vellinum bæði í vörn og sókn. Snæfellsstúlkur þurftu að halda sama dampi til að sigla þann sjó sem þær voru búnar að halda út á þar sem áræðni Njarðvíkur var allt annað í leiknum. Því var þó þannig fyrirkomið í leiknum að erfitt var fyrir Njarðvík að elta uppi þann mun sem hafði myndast og staðan 61-37 fyrir Snæfell. Njarðvík sýndi þó að þær geta barist en það þarf að byrja á fyrstu mínútu leiksins. Heldur fór að halla undan leik þeirra grænklæddu undir lok þriðja fjórðungs og staðan 67-37 fyrir Snæfell.

 Fjórði hlut var eiginlega til þess að spila hann út og klára leikinn en yfirburðir Snæfells í leiknum komu snemma í ljós og ekkert sem kom í veg fyrir stórann sigur í dag í Stykkishólmi og endaði leikurinn 76-59 þar sem stigakor dreifðist vel á leikmenn Snæfells en 5 leikmenn skoruðu yfir 10 stig og næsti leikmaður var með 8 stig þar á eftir. Í liði Njaðrvíkur dreifðist skorið en Jasmine Beverly skoraði 30 stig en næst á eftir var með 6 stig.

Snæfell: Chynna Brown 19/9 frák/9 stoðs/ 4 stolnir. Guðrún Gróa 15/6 frák/4 stolnir boltar. Hildur Björg 12/8 frák. Hildur Sigurðardóttir 11/ 8frák/ 9 stoðs. Eva Margrét 11/6 frák. Hugrún Eva 8. Helga Hjördís 0/4 frák. Rebekka Rán 0. Silja Katrín 0. Aníta Rún 0. Brynhildur Inga 0. Edda Bára 0.

 Njarðvík: Jasmine Beverly 30/ 14 frák. Salbjörg Sævarsdóttir 6/4 frák. Aníta Carter 5/5 frák. Sara Dögg 4. Erna Hákonardóttir 3. Svava Ósk 3. Andrea Björt 2/4 frák. Ásdís Vala 2. Guðbjörg Ósk 2. Guðlaug Björt 2. Elísabet Sigurðardóttir 9. Heiða Valdimarsdórttir 0.

 Símon B. Hjaltalín.  Mynd - Eyþór Ben

 

19.10.2013 16:56

Snæfellsstúlkur fá Njarðvík í heimsókn á sunnudag

Snæfell - Njarðvík!

 

Mætum og hvetjum stelpurnar til sigur! Stuðningur ykkar skiptir okkur miklu máli.

 

Áfram Snæfell

19.10.2013 16:47

Snæfell hafði betur í Vesturlandsslagnum

Sigur í Borgarnesi

Snæfell slapp með tvö stig út úr Fjósinu á fimmtudag þegar Hólmarar lögðu Skallagrím 86-89 eftir spennandi lokasprett. Hafþór Ingi Gunnarsson, af færibandinu í Borgarnesi, gerði út um leikinn á vítalínunni þegar skammt var til leiksloka. Vance Dion Cooksey vakti athygli fyrir frammistöðu sína í kvöld en hann er nýkominn til landsins og gerði 30 stig fyrir Snæfell í leiknum. Hjá Skallagrím var Mychal Green með 24 stig.

 

"Nei nei, það er bara gaman að spila í Borgarnesi," sagði Hafþór Ingi Gunnarsson í samtali við Karfan.is eftir leik aðspurður hvort það væri tregablandið að leika á uppeldisvellinum. Hafþór kláraði Skallagrím á línunni með tveimur vítum sem rötuðu rétta leið. "Ég hef áður tekið einhver vítaskot þarna og það var bara gaman að vera í þeirri stöðu að taka þessi skot," sagði Hafþór sem fannst Snæfell með tök á leiknum framan af.

 

"Við byrjuðum sterkt og höfðum góð tök á leiknum en Skallarnir komu til baka, fóru að hitta og fengu framlög frá fleiri leikmönnum en mér fannst þó að við hefðum átt að leiða með meiri mun í hálfleik. Við þurfum svo að bæta þriðja leikhlutann hjá okkur sem byrjaði þó ágætlega í kvöld en við gáfum eftir og svo varð fjórði leikhluti bara járn í járn," sagði Hafþór en Snæfell hafði það af að landa tveimur stigum og ekki síst fyrir tilstilli nýja mannsins, Vance Dion Cooksey, sem gerði 30 stig í sínum fyrsta leik með Snæfell og það nýkominn til landsins!

 

"Hann er ekkert almennilega kominn inn í hlutina hjá okkur, hann átti flottan leik og mér líst vel á hann, þetta er töffari," sagði Hafþór og viðurkenndi að þessi fyrstu stig tímabilsins hjá Snæfell væru léttir. "Já þetta er léttir, miðað við hvernig við lékum gegn Þór Þorlákshöfn þá fengum við smá blauta tusku í andlitið, þetta er einhver einbeitingarskortur sem við þurfm að laga," sagið Hafþór en í næsta leik verður svakalegur slagur í Stykkishólmi þegar sjóðheitir KR-ingar koma í heimsókn en röndóttir hafa skellt Grindavík og ÍR í fyrstu tveimur umferðunum.

 

"Já það eru meistaraefnin í næsta leik, það verður mjög gaman, það er áskorun að spila gegn þeim og við mættum þeim í Lengjubikarnum og þar fannst mér KR komið lengra en við. Fann það svona í leikjunum gegn þeim en nú verðum við bara að bæta okkur með hverjum leik enda langt í hann svo við rífum í járnin og tökum vel á því."

 

Tekið af www.karfan.is
og myndin er tekin úr myndasafni leiksins frá Ómari Erni Ragnarssyni

14.10.2013 11:54

Góður sigur hjá Snæfellsstúlkum

Snæfell lagði Val í Stykkishólmi

Snæfell lagði Val. Myndin er úr leik liðanna á síðasta tímabili. stækka

Snæfell lagði Val. Myndin er úr leik liðanna á síðasta tímabili. mbl.is/Árni Sæberg

Snæfell og Valur mættust í Stykkishólmi og fóru heimastúlkur með sigur af hólmi, 72:60.

Snæfell náði forskoti strax í upphafi og létu það aldrei af hendi. Í hálfleik munaði tíu stigum á liðunum, 42:22, en þegar yfir lauk munaði tólf stigum á liðunum.

Hjá Snæfelli var Chynna Unique Brown atkvæðamest en hún skoraði 26 stig og tók 15 fráköst. Hjá Val var Jaleesa Butler stigahæst, hún skoraði 20 stig og tók átta fráköst.

Snæfell - Valur 72:60
 
Stykkishólmur, Úrvalsdeild kvenna, 13. október 2013.
Gangur leiksins:: 4:6, 9:8, 19:12, 22:15, 27:19, 30:23, 35:30, 42:32, 42:38, 44:40, 48:45, 56:48, 59:50, 64:54, 70:58, 72:60.
Snæfell: Chynna Unique Brown 26/15 fráköst/5 stolnir, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 9/7 fráköst/5 stoðsendingar, Hildur Björg Kjartansdóttir 8/10 fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 8/8 fráköst, Hildur Sigurðardóttir 7/5 fráköst/7 stoðsendingar, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 7/4 fráköst, Eva Margrét Kristjánsdóttir 5/4 fráköst, Rebekka Rán Karlsdóttir 2.
Fráköst: 30 í vörn, 23 í sókn.
Valur: Jaleesa Butler 20/8 fráköst/4 varin skot, Ragna Margrét Brynjarsdóttir 10/6 fráköst, Kristrún Sigurjónsdóttir 10/5 fráköst, Unnur Lára Ásgeirsdóttir 9/6 fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir 6, Hallveig Jónsdóttir 2, Rut Konráðsdóttir 2, María Björnsdóttir 1.
Fráköst: 25 í vörn, 11 í sókn.
Dómarar: Jón Guðmundsson, Isak Ernir Kristinsson.

12.10.2013 10:31

Tap hjá Snæfell gegn Þór

Tap í fyrsta heimaleik vetrarins!

Fyrsti leikur Snæfells og Þórs frá Þorlákshöfn orðinn að veruleika í Domino´s deild karla þetta tímabilið. Snæfell sendu Jamarco Warren ekki heim nýverið, heldur héldu honum innan norðvesturkjördæmis og fengu Skagamenna styrk í sitt lið.

 

Liðin voru jöfn á báðum endum vallarins og hittu ekkert sérlega vel í fyrstu og voru að finna tempóið í leiknum. Tómas Tómasson setti smá tón með þremur 6-9 fyrir Þór en Jón Ólafur og Finnur Atli jöfnuðu í 11-11. Menn fóru að setjann undir lok fyrsta hluta og voru þar Finnur, Jón og Sigurður í farabroddi fyrir Snæfell en Mike Cook var í leiðtogahlutverki hjá Þórsurum og Baldur var sprækur. Staðan 24-19 fyrir heimamenn eftir fyrsta fjórðung sem lögðu vel í vörnina undir lok hlutans. Mike Cokk hélt uppi skori Þórsara kominn með 18 stig af 29 gegn 34 stigum frá Snæfelli.

 

Menn voru að láta ákvarðanir dómara fara aðeins í sig á beggja megin og hafðist tæknivilla á Sveinn Arnar út úr einum slíkum og svo önnur á Inga Þór og máttu Snæfellingar halda áfram að einbeita sér að þeim ágæta leik sem þeir höfðu sýnt framan af. Þórsarar náðu með harðfylgi að jafna 38-38 í meðstreyminu, nýttu það vel.

 

Um leið og Snæfellingar settu fókusinn á leikinn uppskáru þeir 8-0 áhlaup og komust í 46-38 en staðan í hálfleik var 46-40 fyrir Snæfell. Hjá Snæfelli var Jón Ólafur kominn með 15 stig og Sigurður Þorvaldsson 9 stig. Í liði Þórs var Mike Cook kominn með 24 stig og ef hann var ekki í sóknarhug þá var lítið í gangi þeim megin, næstur var Nemjana Sovic með 6 stig.

Jón Ólafur byrjaði seinni hálfleik á þremur en Tómas svaraði strax. Þórsarar jöfnuðu 53-53 með góðum þrist frá Sovic og voru fleiri að svara kallinu í sókninni. Snæfellsmenn voru þvingaðir frá körfunni í sóknum sínum og þéttari vörn Þórsara var að skila góðum leik þegar Snæfell lentu tvígang í að renna út á sóknarklukku og Þór höfðu yfirhöndina 59-68 eftir þriðja fjórðung. Ragnar Nathanaelsson var að bæta verulega í kominn með 15 stig og 12 fráköst og snéri leiknum við og Nemjana Sovic hafði einnig hleypt sóknargyðjunum lausum.

Snæfellingar börðust við að ná tökum á sóknum sínum og tókst með prýði og mikill kraftur fór í að elta 66-79 og róðurinn þyngdist eftir því sem leið á fjórða hluta. Þórsarar höfðu einfaldlega tekið allt annan pól í leikinn og voru allt annað lið í seinni hálfleik og það stuðaði Snæfellinga. Þórsarar héldu velli og pressa Snæfellinga var ekki að taka nein stopp sem gat gefið þeim von þegar um 2 mínútur voru eftir og púðrið á þrotum. Þórsarar tóku sín fyrstu stig í deildinni eftir sigur í Hólminum 81-92.

 

Snæfell: Jón Ólafur 28/10 frák. Sigurður Þorvaldsson 12/6 frák. Hafþór Gunnarsson 11. Finnur Atli 8. Sveinn Arnar 7/4 frák. Stefán Karel 6. Kristján Pétur 5/6 frák. Pálmi Freyr 3. Þorbergur Helgi 1. Kristófer Sævarsson 0. Óttar Sigurðsson 0. Snjólfur Björnsson 0.

 

Þór: Mike Cook 38. Nemjana Sovic 18/5 frák. Ragnar Nathanaelsson 17/14 frák. Tómas Heiðar 9. Baldur Ragnarsson 6/6 stoðsendingar. Emil Karel 2. Þorsteinn Már 2. Jón Jökull 0. Vilhjálmur Atli 0. Halldór Grétar 0. Davíð Arnar 0. Sveinn Hafsteinn 0. Dómarar: Rögnvaldur Hreiðarsson, Einar Þór Skarphéðinsson og Jakob Árni Ísleifsson. Alls ekki slakir en mættu smyrja sig nokkuð fyrir framhaldið.

 

Símon B. Hjaltalín.

Myndir - Sumarliði Ásgeirsson

11.10.2013 10:43

Snæfell - Þór í kvöld

Fjörið er að byrja!

Strákarnir ríða á vaðið með hörkuleik í 1. umferð Domino's deildarinnar. Látum okkur ekki vanta í stúkuna!

Sjáumst á vellinum! Áfram Snæfell!!!

25.09.2013 13:40

Snæfell lagði Stjörnuna

25. september. 2013

Snæfell tryggði sér sæti í undanúrslitum

Lið Snæfells bar sigurorð af liði Stjörnunnar í gærkvöld þegar liðin mættust í átta liða úrslitum Lengjubikars karla í körfubolta. Lokatölur leiksins urðu 85:97 og eru Hólmarar þar með komnir með sæti í undanúrslitum. Fyrri hálfleikur leiksins í gær einkenndist af jafnfræði milli liðanna. Hólmarar voru með yfirhöndina að loknum fyrsta leikhluta 15:21 en eftir góðan leik Garðbæinga í öðrum leikhluta lentu þeir þremur stigum undir í hálfleik, 45:42. Áfram var jafnt með liðunum í þriðja leikhluta og greinilega ljóst að bæði lið ætluðu sér að hremma farseðilinn í undanúrslit. Staðan að loknum leikhlutanum 69:69. Hólmarar mættu síðan vel stemmdir til lokaleikhlutans og náðu fljótlega yfirhöndinni. Þunnskipaðir Stjörnumenn áttu enga ása upp í erminni gegn klókri spilamennsku gestanna á lokametrunum sem að endingu unnu tólf stiga sigur.

Stigahæstur í liði Snæfells í leiknum var Sigurður Þorvaldsson sem skoraði 18 stig og gaf 7 stoðsendingar. Finnur Atli Magnússon kom næstur með sinn besta leik á tímabilinu með 17 stig og þá skoraði Bandaríkjamaðurinn Zachary Warren 15 stig, en hann var að auki drjúgur í öðrum tölfræðisþáttum með 8 fráköst, 7 stoðsendingar og 6 stolna bolta. Einnig skoruðu Kristján Pétur Andrésson 11 stig, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 10, Sveinn Arnar Davíðsson 3 og Stefán Karel Torfason 2.

 

Í undanúrslitum mætir Snæfell liði Grindvíkinga og fer leikurinn fram á föstudaginn. Í hinni undanúrslitaviðureigninni eigast við Keflavík og KR. Körfuknattleikssamband Íslands á eftir að tilkynna leiksstað og tímasetningu leikjanna, en auk úrslitaleiksins, fara þeir fram á sama leikvelli.

24.09.2013 09:21

Snæfell í öðru sæti og áfram í 8 liða úrslit

Tap á móti mjög sterku KR-liði

Fyrir leikinn var staðan þannig að KR voru efstir með 10 stig en Snæfell í öðru sæti með 8 stig, Snæfell hefði þurft að vinna leikinn með 3 stigum til að ná efsta sætinu af KR-ingum. Það gekk ekki eftir og er 2. sætið því staðreynd og útileikur á móti Stjörnunni á þriðjudaginn 24. september. 

Leikirnir í 8-liða úrslitunum:

Stjarnan - Snæfell 19:15
Keflavík - Þór Þ.   19:15
Njarðvík - Grindavík 19:15
KR - KFÍ 20:00

Undanúrslit og úrslit eru spiluð í Njarðvík um næstu helgi (föstudag og sunnudag)

Allir á völlinn!

Áfram Snæfell 

Umfjöllun um leikinn má finna hérna: http://karfan.is/read/2013/09/22/kr-ingar-taplausir-a-toppnum

Einnig er NBA-Ísland með umfjöllun og myndir frá leiknum: http://nbaisland.blogspot.com/2013/09/etta-er-byrja.html

24.09.2013 09:17

Öruggt hjá Snæfellsstúlkum

Öruggur sigur á Njarðvík

 

Snæfellsstelpurnar sem voru úr myndinni að komast í úrslitaleikinn í Lengjubikarnum mættu Njarðvíkurstúlkum á heimavelli síðastliðinn laugardag.  

Snæfellsstelpurnar sigruðu 85-61 og urðu því í öðru sæti í B-riðli, Haukastúlkur sem sigruðu okkur síðastliðinn fimmtudag leika gegn úrslita gegn Valsstúlkum.

Okkar dömur voru ekkert of gestrisnar í upphafi leiks og tóku strax forystuna í sínar hendur, þær leiddu 21-13 eftir fyrsta leikhluta og virtust með öll völd á vellinum. Fjórar þriggja stiga körfur frá Njarðvíkurstúlkum breyttu stöðunni og allt í einu var leikurinn orðinn jafn og Njarðvíkurstúlkur náðu að komast yfir 32-35.  Ingi Þór tók leikhlé og stelpurnar skoruðu átta stig á einni minútu í lok fyrri hálfleiks og leiddu 43-35.  Stigahæstar í Snæfell í hálfleik voru  Chynna Brown með 20 stig og Eva Margrét með 9 stig.  Hjá Njarðvík var það Salbjörg Sævarsdóttir hæst með 13 stig og Erna Hákonardóttir með 10.

Hildur Sig, Eva Margrét og Chynna voru að skora grimmt fyrir heimastúlkur en allar okkar dömur fengu flott tækifæri í dag, liðið leiddi 63-51 eftir þriðja leikhluta og með leikinn í sínum höndum.  Fjórði leikhluti var algjör eign Snæfells, hann vannst 22-10 og lokatölur 85-61.

 Bæði lið luku þar með þáttöku sinni í Lengjubikarnum og munu nú snúa sér að æfingum fyrir átökin í Dominosdeildinni sem hefst 9. Október þegar okkar dömur heimsækja Grindavík.

Stigahæstar í leiknum gegn Njarðvík var Chynna Brown með 30 stig/12 fráköst, Eva Margrét Kristjánsdóttir 15stig/8fráköst, Hildur Sigurðardóttir 12stig/8fráköst/5 stoðsendingar, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 10 stig, Rebekka Rán Karlsdóttir 6 stig, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 5, Aníta Rún Sæþórsdóttir 3 stig, Hugrún Eva Valdimarsdóttir og Silja Katrín Davíðsdóttir 2, Edda Bára Árnadóttir 0, Brynhildur Inga Níelsdóttir 0. 

 Tölfræði leiksins

18.09.2013 17:02

Sigur og tap í hólminum

 Björg Guðrún hóf leik Snæfell og KR í Lengjubikarnum með góðum þrist úr horninu og Hildur Sigurðardóttir svaraði strax Snæfellsmegin. Þorbjörg Friðriksdóttir var hins vegar í stuði og hafði sett 7 stig þegar KR hafði forystu 7-12. Staðan eftir fyrsta hluta var 20-20 en Eva Margrét hafði jafnað fyrir Snæfell 18-18.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og leið Björgu Einarsdóttur vel í sínum heimabæ og hélt að mestu uppi leik KR í öðrum hluta. Engir sprettir voru á liðunum og staðan í hálfleik 40-39 fyrir heimastúlkur í Snæfelli þar sem Hildur var komin með 11 stig, Chynna Brown 9 stig og Eva Margrét 7. Hjá KR var Björg með 12 stig, Bergþóra 9 stig og Þorbjörg 7 stig.

Mikið var um tapaða bolta á víxl og mikið afl fór í hlaup fram og til baka hjá liðunum í þriðja hluta en Snæfell var þó yfir 57-51 fyrir lokafjórðunginn. Snæfellsstúlkur áttu fína spretti í fjórða hluta sem gaf þeim tíu stiga forskot 63-53 þar sem Hildur lék á alls oddi. KR stúlkur komu tilbaka undir lokin og voru ansi nálægt 71-68 þegar 16 sekúndur voru eftir. Snæfell hélt haus undir lokin þrátt fyrir harðann aðgang KR, leikurinn 73-68 fyrir Snæfell.

Snæfell: Hildur Sigurðardóttir 22/10 frák. Chynna Brown 21/8 frák/6 stoðs. Guðrún Gróa 11/17 frák. Eva Margrét 9/5 frák. Hugrún Eva 4/7 frák. Edda Bára 2. Rebekka Rán 2. Helga Hjördís 2. Aníta Rún 0. Silja Katrín 0. Brynhildur Inga 0.

KR: Bergþóra Tómasdóttir 23/6 frák. Björg Guðrúun 14. Sigrún Sjöfn 13/13 frák/8 stoðs. Þorbjörg Friðriksdóttir 11. Rannveig Ólafsdóttir 3. Sara Mjöll 2. Ragnhildur Arna 2. Anna María 0. Ína María 0.

 


KR heimsóttu Snæfell einnig í karlaflokknum í Lengjubikarnum í kvöld þar sem bæði lið höfðu unnið þrjá leiki í riðlinum. KR sóttu fast á heimamenn í upphafi 2-7 en Snæfellingar voru tilbúnir og leikar jöfnuðust 15-15. Staðan 19-28 fyrir KR eftir fyrsta hluta sem tóku rispu í lokin og spiluðu hratt með Brynjar, Darra og Pavel í farabroddi. KR héldu uppteknum hætti í öðrum hluta spiluðu vel sókn og vörn og bættu í, 27-42, á meðan Snæfelli gekk illa að fóta sig í sínum leik en þó var ekki af varnarleik Sveins Arnars skafið sem sýndi þar mátt sinn.  Staðan í hálfleik var 36-44 fyrir KR þar sem Darri og Magni voru komnir með sín 10 stigin hvor. Hjá Snæfelli var Jón Ólafur kominn með 9 stig og Finnur Atli 7 stig.

 

Snæfell misstu KR enn og aftur meira frá sér en þau 8-10 stig sem höfðu munað á liðunum. Snæfell höfðu misst Stefán meiddan af velli. KR komust í 45-65. Staðan eftir þriðja hluta 53-67 fyrir KR sem höfðu tögl og haldir í leiknum og Snæfell að ströggla við að koma sér inn í hann aftur. Snæfell kom aldeilis tilbaka og minnkaði muninn í 63-72 með frískari leik og seigluðust svo nær 70-74 með góðum leik Jamarco, en Snjólfur og Kristjáns Pétur höfðu átt góða innkomu í fjórða hluta. KR létu ekki beygja sig alveg þó Snæfell næði að minnka í 85-86, rétt héldu haus og náðu sigri 85-87.

 

Snæfell: Zachary Jamarco Warren 26/9 frák/7stoðs. Jón Ólafur 12. Finnur Atli 11/5 frák. Sigurður Þorvaldsson 11/7 frák. Kristján Pétur 10/4 frák. Stefán Karel 4. Sveinn Arnar 4/6 frák/6 stoðs. Hafþór Ingi 3. Snjólfur Björnsson 2. Pálmi Freyr 2. Óttar Sigurðsson 0. Tinni Guðmundsson 0.

 

KR: Brynjar Þór 19. Ingvaldur Magni 18/6 stoðs. Pavel Ermolinskij 17/9 frák/10 stoðs. Helgi Már 15/6 frák/8 stoðs. Darri Hilmarsson 14. Þorgeir Blöndal 2. Martin Hermannsson 2. Hugi Hólm 0. Kormákur Artúrsson 0. Ólafur Már Ægisson 0.


10.09.2013 14:26

Snæfell - ÍR mætast í kvöld kl. 19.15

Körfuboltavertíðin hafin og báðum liðum hefur gengið vel.

Karlakarfan - 10. september 2013

04.06.2013 10:41

Snæfell styrkir sig fyrir komandi tímabil

Finnur Atli og Guðrún Gróa í Snæfell.

Heilmikið havarí var á Hótel Stykkishólmi þegar endurnýjaðir voru leikmannasamningar við marga af þeim leikmönnum sem leikið hafa með karla og kvennaliði Snæfells síðustu ár. Fyrir utan Jón Ólaf og Kristján Pétur sem skrifuðu undir nýverið hafa Pálmi Freyr, Hafþór Gunnarsson og Stefán Karel skrifað undir.
Sigurður Þorvaldsson, Jóhann Kristófer og Óttar Sigurðsson skrifuðu undir í kvöld.

 

 

Í kvennaliðinu skrifuðu allmargar undir, en þær sem voru síðasta tímabil skrifuðu næstum allar undir í dag. Hildur Sigurðardóttir, Hildur Björg, Alda Leif, Berglind Gunnarsdóttir, Helga Hjördís, Aníta Rún, Rebekka Rán og Silja Katrín voru allar á síðasta tímabili og verða áfram.

 

 

 

Þegar heilmiklar endurnýjanir á samningum voru búnar var komið að tveimur nýjum leikmönnum að skrifa undir. Finnur Atli Magnússon og Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir hafa ákveðið að leika með Snæfelli komandi tímabil og fögnum við mjög slíkum styrk sem við fáum í okkar lið. Bæði koma þau frá KR og hafa verið lykilleikmenn í sínum liðum þar.

 

Finnur Atli hefur farið mikinn í teig andstæðinga og hafa Snæfellingar fengið sinn skammt frá honum en nú söðlar hann útá land. Finnur Atli var með 11.4 stig og 5.4 fráköst að meðaltali í 28 deildarleikjum fyrir KR síðasta tímabil og mikill styrkur í miðherjastöðuna.

"Mig langaði að breyta til og prófa eitthvað nýtt, Ingi bauð mér góðan samning og ef ég ætlaði einhverntíma að prófa að breyta til þá var tíminn núna. Ég þekki flesta strákana mjög vel og þá sérstaklega Nonna Mæju. Við höfum verið í ýmsum leiðindum inni á vellinum en erum mjög góðir félagar fyrir utan. Það er spennandi að flytja út á land, eins og sagt er, í einn fallegasta bæ á landinu. Bróðir minn [Guðmundur Magnússon] þekkir alla króka og kima hérna og formanninn nokkuð vel en svo vill ég auðvitað líka fara í lið sem er að berjast um titla og ég geri sömu kröfur á Snæfell eins og hjá KR að sækja alla titla sem í boði eru."

Guðrún Gróa er einn af bestu varnarmönnum kvennadeildarinnar og virkilega mikill styrkur í liðið með mikla reynslu og titla á bakinu úr vesturbænum. Guðrún var með 8,2 stig og 7.5 fráköst að meðaltali í 35 deildarleikjum síðasta vetur hjá KR.

 

"Ég var algjörlega óákveðin í hvað ég ætlaði að gera, klára skóla í haust eða gera eitthvað allt annað kannski og þetta hljómaði virkilega spennandi. Það er gaman að prófa eitthvað nýtt, viðkunnalegur staður, alltaf gaman að koma hingað og svo þekki ég Inga Þór og Hildi Sigurðardóttir mjög vel ásamt því að kannast við hinar stelpurnar. Þetta er bara allt annar pakki en ég verið í og er mjög heillandi."

 

-sbh-

 

27.05.2013 10:28

Körfuboltafólk á Smáþjóðaleika

Hildur, Hildur og Nonni á Smáþjóðaleikana


Þjálfarar A-landsliðanna hafa valið þá 12 leikmenn sem munu leika fyrir Íslands hönd á Smáþjóðaleikunum í ár sem hefjast í 26. maí næstkomandi og fara fram í Lúxemborg.
 
 
Þeir leikmenn sem skipa landslið karla og kvenna eru eftirfarandi:
 
Landslið kvenna:
Pálína Gunnlaugsdóttir · Keflavík
Sara Rún Hinriksdóttir · Keflavík
Ingunn Embla Kristínardóttir · Keflavík
Bryndís Guðmundsdóttir · Keflavík
Hildur Sigurðardóttir · Snæfell
Hildur Björg Kjartansdóttir · Snæfell
Kristrún Sigurjónsdóttir · Valur
Hallveig Jónsdóttir · Valur
Petrúnella Skúladóttir · Grindavík
Gunnhildur Gunnarsdóttir · Haukar
Helena Sverrisdóttir · Good Angels Kosice, Slóveníu
María Ben Erlingsdóttir · Saint Gratien, Frakklandi
 
Sverrir Þór Sverrisson - Þjálfari
Anna María Sveinsdóttir - Aðstoðarþjálfari
 
Landslið karla:
Hörður Axel Vilhjálmsson · MBC, Þýskalandi     
Finnur Magnússon · KR
Brynjar Þór Björnsson · KR
Ægir Þór Steinarsson · Newberry  
Axel Kárason · Værlöse
Jóhann Árni Ólafsson · Grindavík          
Ragnar Nathanaelsson · Hamar
Elvar Már Friðriksson · Njarðvík
Justin Shouse · Stjarnan
Martin Hermannsson · KR 
Magnús Þór Gunnarsson · Keflavík
Jón Ólafur Jónsson · Snæfell
 
Pétur Már Sigurðsson - Þjálfari
Arnar Guðjónsson - Aðstoðarþjálfari

 

Frétt tekin af Karfan.is 

Mynd/ nonni@karfan.is - Hildur Björg Kjartansdóttir verður með A-landsliði kvenna á Smáþjóðaleikunum.

 

14.04.2013 19:55

Bæði Snæfellsliðin komin í sumarfrí
Undanúrslitaviðureign KR og Snæfells er lokið með 3-1 sigri KR í rimmunni. Liðin mættust í sínum fjórða leik í DHL Höllinni í dag þar sem KR hafði 68-67 spennuþrunginn sigur á Hólmurum. Leikurinn var mögnuð skemmtun þar sem liðin skiptust á forystunni en þegar upp var staðið náði KR að slíta sig lítið eitt frá á lokasprettinum og það dugði til að tryggja sigurinn. Shannon McCallum átti enn einn skrímslaleikinn með 40 stig, 13 fráköst, 5 stoðsendingar og 7 stolna bolta!


Fyrrum liðsfélagarnir Jón Ólafur Jónsson og Justin Shouse buðu upp á þriggja stiga hólmgöngu í Ásgarði í kvöld. Þegar reykinn lagði voru það Garðbæingar sem stóðu uppi sem sigurvegarar, lokatölur 97-84 og Stjarnan leikur til úrslita í annað sinn á þremur árum. Snæfell var aldrei langt undan í kvöld en meiðsli Jay Threatt voru þeim einfaldlega um megn þessa tvo síðustu leiki liðsins á tímabilinu. Jarrid Frye var stigahæstur hjá Stjörnunni í kvöld með 27 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar en Jón Ólafur Jónsson gerði 30 stig, tók 4 fráköst og gaf 4 stoðsendingar hjá Snæfell.
 

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 417
Gestir í dag: 49
Flettingar í gær: 471
Gestir í gær: 114
Samtals flettingar: 3290043
Samtals gestir: 253476
Tölur uppfærðar: 16.1.2018 11:23:15
Flettingar í dag: 417
Gestir í dag: 49
Flettingar í gær: 471
Gestir í gær: 114
Samtals flettingar: 3290043
Samtals gestir: 253476
Tölur uppfærðar: 16.1.2018 11:23:15