Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Flokkur: Körfubolti

07.12.2011 20:37

Slakur leikur gegn Keflavík í lengjubikarnum


Umfjöllun af Karfan.is

Keflavík vann annan spennuslag gegn Snæfell

 


Það verða Keflavík og Grindavík sem leika munu til úrslita í Lengjubikar karla þetta árið en Keflavík var rétt í þessu að leggja Snæfell að velli í síðari undanúrslitaleik kvöldsins í DHL-Höllinni. Lokaspretturinn var æsispennandi en Keflvíkingar sem höfðu frumkvæðið í leiknum héldu út og unnu sinn annan spennusigur í röð á Snæfellingum, lokatölur að þessu sinni 88-93. Jarryd Cole fór mikinn í liði Keflavíkur með 36 stig og 10 fráköst en Marquis Hall var með 25 stig í liði Snæfells. Úrslitaviðureign Grindavíkur og Keflavíkur hefst svo kl. 16:00 í DHL-Höllinni á morgun.

 


Keflvíkingar mættu með sex fyrstu stig leiksins og komust síðar í 5-12 þar sem Jarryd Cole gerði 10 stig og liðsfélagar Quincy Hankins-Cole voru orðnir þreyttir á því að grátbiðja sinn mann um að sína smá lit í vörninni. Ingi Þór Steinþórsson tók við þetta leikhlé fyrir Hólmara og smellti Quincy á bekkinn og þá hresstust hans menn nokkuð. Sveinn Arnar Davíðsson átti fína spretti hjá Snæfell sem snöggtum minnkaði muninn í 17-19. Quincy kom inn á völlinn að nýju undir lok leikhlutans og afrekaði það að setja niður síðustu stig hans og koma Snæfell í 25-23 og þannig stóðu leikar að leikhlutanum loknum.


 
Ekki átti að fara mikið fyrir varnarleiknum í öðrum leikhluta, Keflvíkingar höfðu frumkvæðið en Snæfell var aldrei langt undan. Valur Orri Valsson kom með fimm stig í röð hjá Keflavík og á sama tíma virtist Ingi Þór þjálfari Snæfells vera eini Hólmarinn með metnað til að vinna leikinn en hans liðsmenn voru fremur bragðdaufir í upphafi annars leikhluta.


 
Quincy Hankins-Cole jafnaði metin í tvígang fyrir Snæfell, 42-42 og svo aftur 44-44. Þegar leið á annan leikhluta mætti Steven Gerard með góðar rispur og munurinn komst upp í átta stig í leikhléi eftir byrjendamistök Snæfellinga, hentu fyrst boltanum upp í hendur Keflvíkinga í innkasti, Gunnar Hafsteinn Stefánsson mætti þá með þrist og þegar Hólmarar héldu í lokasókn fyrri hálfleiks misstu þeir boltann, Charles Parker brunaði þá upp og tróð með látum og Keflavík leiddi 51-59 í hálfleik.


 
Jarryd Cole var með 20 stig og Steven Gerard 15 hjá Keflavík en þeir Quincy Hankins-Cole og Marquis Hall voru báðir með 14 stig í liði Snæfells.


 
Keflavík kom muninum upp í tíu stig snemma í síðari hálfleik, Hólmarar virtust þá lítinn áhuga á því að spila vörn en hægt og bítandi fór varnarleikurinn að þéttast hjá báðum liðum og ekki seinna vænna eftir 110 stiga fyrri hálfleik.


 
Almar Guðbrandsson laumaði inn fínum rispum hjá Keflavík og Jarryd Cole fékk að leika sér nokkuð frjálslega, Hankins-Cole ekki mikið fyrir varnarleikinn í kvöld. Aukin harka færðist þó í leikinn í síðari hálfleik með bættum varnarleik en Keflavík leiddi 68-74 að loknum þriðja leikhluta.


 
Tvær mínútur liðu stigalausar í fjórða leikhluta áður en Jarryd Cole rauf þögnina. Hólmarar fóru þó að lemja sig nærri og minnkuðu muninn í 77-78 eftir þrista frá Hafþóri og Marquis en Keflvíkingar voru engu að síður alltaf með frumkvæðið.


 
Charles Parker tók lítinn þátt í síðari hálfleik í liði Keflavíkur en Jarryd Cole, Valur Orri Valsson og Steven Gerard voru Snæfell illir viðureignar. Gerard jafnaði metin í 83-83 með þriggja stiga körfu þegar læti voru komin í herbúðir Snæfells og upphófst spennandi lokasprettur.


 
Jarryd Cole kom Keflavík í 85-87 og síðar í 86-89 þegar 27 sekúndur voru eftir. Almar Guðbrandsson braut svo á Jóni Ólafi Jónssyni sem á vítalínunni minnkaði muninn í 88-89. Snæfell braut strax á Keflavík í næstu sókn og sendu Gerard á línuna og öryggið uppmálað kom hann Keflvíkingumí 88-91. Í næstu sókn Hólmara ver Halldór Örn Halldórsson skot frá Marquis Hall, Gerard greip frákastið af varða skotinu og Hólmarar brutu strax á honum, vítin fóru sína leið og lokatölur urðu svo 88-93 Keflavík í vil.


 
Annar spennusigurinn í röð sem Keflvíkingar vinna á Snæfell og að þessu sinni var Jarryd Cole atkvæðamikill með 36 stig og 10 fráköst. Steven Gerard bætti við 26 stigum og 8 stoðsendingum og Charles Parker var með 12 stig. Hjá Snæfell var Marquis Hall með 25 stig og Quincy Hankins-Cole bætti við 22 stigum og 11 fráköstum og þá var Jón Ólafur Jónsson með 18 stig og 7 fráköst.


 
Magnús Þór Gunnarsson tók út leikbann í liði Keflavíkur í kvöld og verður því löglegur með liðinu í úrslitaleiknum á morgun gegn Grindavík. Þá var Arnar Freyr Jónsson á bekknum í borgaralegum klæðum og því tvær kanónur sem Keflvíkingar eiga enn uppi í erminni.


 
Mynd/ Eyþór Benediktsson

Umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson - nonni@karfan.is 

01.12.2011 09:08

Góður sigur á KR

Það var ekki fyrir gæðum körfuboltans að fara þegar Snæfell sigraði KR í Iceland express deild kvenna 77-72. Snæfell var langt frá sínu besta en það var slakt KR liðið líka, en leikurinn var jafn heilt yfir með sprettum beggja liða sem gerðu sig seka um mörg mistök einnig.
Byrjunarlið leiksins:
Snæfell:
Kieraah Marlow, Hildur Björg, Hildur Sig, Helga Hjördís, Alda Leif.
KR: Helga Einars, Bryndís Guðmunds, Erica Prosser, Margrét Kara, Sigrún Sjöfn.    


Í upphafi fyrsta hluta voru bæði Snæfell og KR að skiptast á að skora til jafns við að henda boltanum frá sér klaufalega hvort sem var í skrefum, lélegum sendingum og slakri hittni. Staðan var 7-9 um miðjann hlutann en Snæfell stökk aðeins frá KR uppúr því í 14-9 en jafnræðið var við völd í leiknum og KR náði fljótt í 18-16 en staðan eftir fyrsta hluta 20-16 fyrir Snæfell.


KR náði að jafna 20-20 strax í öðrum fjórðung en Margrét Kara var heit og smellti tveimur þristum sem kom þeim svo einu stigi nær 24-23. KR virtust braggast við þetta tóka 8-0 sprett í 24-28 en á móti var sóknarleikur Snæfells varð tilviljunarkenndur og hægur. Kara skellti sínum þriðja þrist svellköld komin með 14 stig og kom KR í 28-33 og vörn Snæfell að slakna einnig. Staðan í hálfleik var 33-40 fyrir KR.


Hjá Snæfelli var Kieraah Marlow komin með 16 stig og Hildur Sigurðardóttir 6 stig. Í liði gestanna í KR var Margrét Kara komin með 14 stig, Erica Prosser 9 stig og 5 stoðsendingar. Hafrún Hálfdánardóttir 8 stig og 4 fráköst.


Snæfellsstúlkur hefðu hæglega getað gert betur í að nýtaöll þau færi sem gáfust undir körfunni en boltinn bara vildi ekki ofan í en ótal sóknarfráköst fengu þær í staðinn. KR náði að leiða að mestu með fimm stigum í upphafi þriðja hluta en Snæfell kom til baka og jafnaði 44-44 og voru að binda sig betur saman og jafn leikur fylgdi í kjölfarið. Staðan eftir þriðja hluta 53-52 fyrir Snæfell þar sem Kieraah var að fara á kostum með 26 stig á meðan Margrét Kara var sett á ís.


Kara beið þó færis og smellti þrist fyrir KR og stal bolta strax í upphafi fjórða hluta og KR minnti heimastúlkur á að þær nörtuðu í hæla þeirra og staðan 55-55. Hildur Björg skellti næstu fimm stigum og þar af einum "Kareem Abdul Jabbar" húkkara ofan í og Hildur Sig þrist strax í næstu sókn og staðan strax 63-55 og mikill sprettur á stúlkunum sem áttu orðið yfirhöndina í vörn og fráköstum líka en þar fór Helga Hjördís fremsti flokki á vellinum og laumaði sínum stigum niður. Staðan var þó orðið 69-67 þegar tvær mínútur voru eftir og dregið af Snæfelli um tíma. 

 

71-70 var staðan þegar 50 sek voru eftir og Snæfell smellti tveimur vítum niður 73-70. KR voru komnar með 5 liðsvillur og brutu á Hildi Sigurðardóttur sem brást ekki á línunni og Snæfell fór í 75-70 stálu bolta ruku í næstu sókn og lítið sem KR gat gert í stöðunni 77-70 og örfáar sekúndur sem þær höfðu til að bæta þeim tveimur stigum við sem féll þeim til og Snæfell sigraði með glæsilegri baráttu í lokin 77-72.Snæfell: Kieraah Marlow 32/8 frák/4 stoðs. Helga Hjördís 14/16 frák. Hildur Sigurðar 13/5 frák/4 stoðs. Hildur Björg 11/8 frák/4 stoðs. Ellen Alfa 3. Alda Leif 2/6 stoðs. Sara Mjöll 2. Björg Guðrún 0/2 stoðs. Rósa Kristín 0. Aníta Rún 0.KR: Erica Prosser 19/7 frák/8 stoðs. Margrét Kara 19/6 frák/3 stoðs. Sigrún Sjöfn 14/6 frák. Hafrún Hálfdánard 11/5 frák. Bryndís Guðmundsdóttir 4/9 frák. Helga Einarsd 4. Rannveig Ólafsd 1. Hrafnhildur Sif 0. Kristbjörg 0. Anna María 0. Ragnhildur Arna 0. Helga Hrund 0.Símon B. Hjaltalín

28.11.2011 21:03

Lengjubikarmeistararnir í undanúrslitin.

Það voru 9 leikmenn Stjörnunuar sem mættu í Hólminn til að takast á við Snæfell í úrslitaleik í c-riðli Lengjubikarsins, Jovan Zdravevski var kominn í búning en kom aldrei við sögu í leiknum. Snæfell höfðu aðeins eitt stig í plús í innbyrðisviðureign liðanna en náðu að klára verkefni kvöldins 94-84 en þó  ekki örugglega nema í lokin.

 

 


Byrjunarliðin:
Snæfell:
Nonni, Pálmi, Sveinn, Quincy, Marquis.
Stjarnan: Marvin, Keith, Sigurjón, Justin, Fannar.

 

Stjörnumenn virkuðu léttari fyrstu andartök leiksins en lítið var um skor svona fyrst um sinn en Keith Cothran setti fyrstu stig leiksins á 8:43. Pálmi Freyr kom Snæfelli yfir með þrist 5-4 og liðin ekki að nýta skotin sín framan af í leiknum og voru að missa boltan bæði í upphafi. Það voru þó heimamenn í Snæfelli sem gáfu betur í eftir að Stjarnan komst í 7-10 með fínum kafla en fóru svo að missa boltann aftur og aftur í skrefum og klaufaskap alls 10 sinnum í hlutanum. Snæfell gekk á lagið skoraði 12 stig og komust í 19-10 með þristum frá Hafþóri, Pálma og Marquis og virtust hitna á augabragði. Staðan eftir fyrsta fjórðung var 24-14 fyrir Snæfell.

 

Snæfellingar héldu stefnunni og keyrðu hraðann upp eftir stoppin í vörninni og voru komnir mest í 14 stiga mun í leiknum í öðrum hluta 35-19 með troðslu frá Quincy sem leiðist ekki að fá slík augnablik. Nonni Mæju var hvíldur seinni hluta fjórðungsins með 3 villur á bakinu og Stjörnumenn fóru að stilla byssurnar sem höfðu ekki fengið mörg skot.  Marvin og Guðjón náðu strax 4 stigum niður fyrir Stjörnuna en hinn heiti herra Vesturland Haffþór Gunnarsson setti þrjú strax til baka 40-30. Í stöðunni 42-34 með 1:40 á klukkunni settu Stjörnumenn allt í gang og tóku góðann 7-0 kafla með 2 stolnum boltum og 7 stigum frá Keith Cothran og staðan í hálfleik 42-41 fyrir Snæfelli sem misstu niður 14 stiga forskot á svipstundu.

 

 

 

Í hálfleik voru hjá Snæfelli Quincy Cole kominn með 14 stig og 4 fráköst og Nonni Mæju 7 stig. Hjá Stjörnunni var Keith Cothran kominn með 14 stig en Justin Shouse og Guðjón Lárusson með 8 stig hvor.

 

Stjörnumenn héldu áfram að bæta við sprettinn strax í þriðja hluta sem þeir voru á í lok fyrri hálflkleiks. Þeir komust í allt í 11-0 og staðan 41-45 strax í upphafi og virtist Stjarnan vera búnir að ná tökum á boltanum. Snæfell komst strax yfir 46-45 með þrist frá Quincy og Nonni bætti einum til 49-45 og taflið snérist hratt við. Til að sýna að hann gæti líka skotið þristum og ekki óvanur því á fjölunum í Hólminum setti Justinn einn og minnkaði muninn í 55-53.  Kaflakilin voru þó ekki langt undan og komu þau þegar Snæfell sprettaði í 68-55 með stórþristum frá Pálma og Svenna en Stjörnumenn hittu ekkert og eins og þeir væru komnir með sleipefnið á hendurnar aftur. Staðan var 68-59 fyrir lokahlutann.

 

Nonni Mæju sem hafði mest vermt tréverkið vegna villuvandræða kom inn og smellti sínum þriðja þrist í 71-59 og eftir "alley-oop" troðslu Quincy og óíþróttamannslega villu á Fannar Frey var Snæfell komið aftur komið í sinn mesta mun í leiknum 14 stig, 75-61. Nonni skellti þá sínum fjórða þrist áður en hann kvaddi völlinn þetta kvöldið. Þá var komið að meistara Justin Shouse sem skellti tveimur sjóðheitum bombum í hringinn úr stöðunni 80-72 í 80-78 þegar um fjórar mínútur voru eftir en hann fór svo útaf með 5 villur þegar um 2:30 voru eftir og staðan einkar spennandi 82-80.  Marquis Hall smellti þá næstu 5 stigum og líkt og slokknað hefði á Stjörnumönnum eftir að Justin fór af velli en hann gerði Snæfellingum oft erfitt fyrir. Á einni mínútu varð staðan 91-80 fyrir Snæfell og virtust gestirnir ekki hafa uppá meira að bjóða til að krafsa þann mun niður. Quincy Cole sem þykir einkar troðinn og reynir óspart að finna sér slík augnablik kláraði síðustu stig leiksins í með einni troðslu og Snæfell komst áfram í undanúrslit lengjubikarsins með sigri 94-84.

 

 

 

Helsta tölfræði leikmanna.
Snæfell: Quincy Cole 28/11 frák. Jón Ólafur 21. Marquis Hall 14/7 stoðs. Pálmi Freyr 10/4 frák/6 stoðs. Ólafur Torfason 9/10 frák. Hafþór Ingi 6/4 frák. Sveinn Arnar 6. Guðni 0. Þorbergur 0. Egill 0. Magnús 0. Daníel 0.

 

Stjarnan: Justin Shouse 29/4 frák. Keith Cothran 20/5 frák/5 stolnir boltar. Fannar Freyr 12/11 frák. Guðjón Lárusson 10/5 frák/3 stolnir boltar. Marvin Valdimarsson 10/5 frák. Dagur Kár 3. Sigrjón Lárusson 0/4 frák/ 3 stolnir boltar. Tómas Þórður 0. Jovan Zdravevski 0.

 

Fróðleikspunktar.

  • Stjarnan tapaði boltanum 10 sinnum í fyrsta hluta
  • Snæfell gaf 21 stoðsendingu á móti aðeins 7 Stjörnunnar.
  • Stjarnan komst 4 stigum yfir á kafla en Snæfell leiddi mest með 14 stigum tvisvar sinnum í leiknum og tapaði því niður í bæði skiptin.
  • Snæfell eru núverandi Lengjubikarmeistarar.
  • Í einu leikhlé í fjórða hluta var boðið upp á þrumur með rigningu og áhorfendaópum sem er nýtt en introið í Thunderstruck með AC/DC var notað.
  • Tölfræði leiksins 

 

 

Símon B. Hjaltalín

Myndir: Þorsteinn Eyþórsson

 

 

26.11.2011 14:35

Naumt tap hjá Snæfell gegnKeflavík
Fyrir leikinn var Keflavík í 4. Sæti með 8 stig en Snæfell í 7 sæti með 6 stig og munar ekki miklu frá sætum 3-9. Alltaf eftirvænting eftir leik við Keflavík í Hólminum en Snæfellingar ætluðu að freista þessa að teygja sig í sæti Keflavíkur í það minnsta.

 

Byrjunarliðin:
Snæfell:
Nonni Mæju, Pálmi Freyr, Egill, Ólafur, Marquis.
Keflavík: Gerard, Parker, Magnús, Cole,  Almar.

 

Keflavík byrjaði betur í upphafi og komust strax í 6-0 og Snæfell lengi í gang í sóknum sínum en Pálmi setti þrist og lagaði startið eilítið.  Keflavík herti þó á og komst í 3-13 með Magga Gnnars  fremstann í þeirri aðgerð. Snæfell tók leikhlé í stöðunni 10-16 og herti róðurinn og náði að jafna 16-16 og svo yfir 21-16 með 11-0 kafla. Kaflaskiptur fyrsti hluti með góðum áhlaupum beggja liða. Staðan eftir fyrtsa hluta 23-16 fyrir heimamenn í Snæfelli. Quincy var að svara fyrir að byrja á bekknum og gaf í fyrir Snæfell þegar hann kom inná.

 

Keflvíkngar komu aðeins hressari í upphaf annars hluta en leikar jöfnuðust fljótt út og liðin að spila jafnann leik framan af. Magnús Gunnarsson einn besti maður Keflavíkur í leiknum fram að þessu lenti í orðaskaki við Rögnvald dómara vegna að virtist 3 ja sekúndna sem hann vildi fá dæmdar á Snæfell sem kostaði hann tæknivillu en því var ekki lokið þar þar sem samræðum var ekki lokið og Magnús var látinn víkja af velli þegar 2:27 voru eftir af fyrri hálfleik. Þetta drap Keflvíkinga ekki niður þar sem hópur manna voru tilbúnir að berjast áfram aðallega Parker, Gerard og Cole. Snæfell hafði forystuna 43-39 þegar Haffi Gunnars setti niður þrist og leikhlutinn jafn. En hálfleikstölur 49-41 fyrir Snæfell.

 


 

Hjá Snæfelli voru frændurnir Quincy Cole og Marquis Hall með sín hvor 11 stigin en Quincy með 5 fráköst og Marquis 4. Næstur þeim var Nonni Mæju með 10 stig og Hafþór 7 stig. Í liði Keflavíkur voru Parker, Gerard og Cole allir með 10 stig. En næstur þeim var Magnús kominn með 8 stig.

 

Snæfellingar hengu á 10 stiga forystunni framan af þriðja hluta en þrír póstar í hvoru liði héldu að mestu uppi leik liðanna. Keflavík minnkaði muninn í 68-63 með þrist frá Gerard og voru farnir að spila hraðar á Snæfellinga sem slökuðu á taumnum og tóku tíma í umræður um það. Parker setti svo þrist í 68-67 stal boltanum og tróð og Keflavík snéri við blaðinu 68-69. Á lokamínútu þriðja hluta var þristasýning Gunnar Stefáns bætti við einum í 71-72 og Egill Egils fyrir Snæfell á flauti 74-72 fyrir Snæfell fyrir lokafjórðunginn og leikurinn orðinn mjög jafn og skemmtilegur.  

 


 

Hafþór Gunnarsson smellti tveimur þristum og hélt Snæfelli við efnið í stöðunni 86-80 og leikar að æsast. Halldór Halldórsson setti einnig tvo þrista til svars fyrir Keflavík. Snæfell komst þá í 95-87 og ætluðu ekki að gefa eftir forystuna auðveldlega.  Staðan var 97-93 fyrir Snæfell þegar tvær mínútur voru eftir. Halldór lagaði stöðuna fyrir Keflavík í 99-96 með sínum þriðja þrist og Jarryd Cole tróð fyrir 99-98 og fór svo útaf með fimm villur en Snæfell missti boltann í þriðja sinn og Keflavík nýtti það ekki . Þegar 18 sek voru eftir setti Quincy niður víti 100-98 og leikhlé tekið. Keflavík jafnaði 100-100 með skoti frá Parker og 9 sek eftir.  Snæfell klikkaði á sókn sinni undir lokin sem hefði getað klárað leikinn en Quincy var ónákvæmur á gefnu sniðsskoti og framlenging raunin.

 


 

Marquis setti fyrstu stigin með þrist 103-100 og Hafþór Gunnars bætti við tveimur í 109-104 en Keflavík með Parker komust nær 109-108. Halldór jafnaði fyrir gestina 109-109 af vítalínunni og háspennuleikur í gangi. Liðin skiptust á að skora mest á vítalínunni fram undir lokin en Ólafur Torfason jafnaði 113-113 af vítalínunni. Parker náði tveggja stiga skoti 113-115 og Snæfell fékk leikhlé þegar 1.8 sek voru eftir sem nýttist þeim ekki þegar Gunnar Stefáns  komst inn í sendinguna af innkastinu og góður sigur Keflavíkur 113-115.

 

Stigahæstir voru hjá Snæfelli, Hafþór Gunnars 23 stig sjóðandi á þristunum með 5 slíka á ögursrundum og Quincy Cole 23/12 frák/4 stoðs. Jón Ólafur 22/5 frák/4 stoðs. Marquis Hall 20/5 frák/9 stoðs. Pálmi 14 stig.

 

Hjá Keflavík var Steven Gerard í stuði með 36/4 frák/5 stoðs. Parker var gríðalega heitur og fékk að skora að vild með 32/12 frák. Jarryd Cole  23/10 frák. Einhverra hluta vegna var Halldór Halldórsson ekki á stattinu og má taka einhverjar tölur þar með fyrirvara en hann var allavega með 4 þrista og í allt 14 stig+.

 

Símon  B. Hjaltalín.
Myndir: Eyþór Benediktsson

 

23.11.2011 23:14

Slæmt tap i Hafnarfirði

Umfjöllun: Öruggur sigur Hauka í Schenkerhöllinni
23 11 2011 | 21:34

Umfjöllun: Öruggur sigur Hauka í Schenkerhöllinni

Haukar unnu frekar auðveldan 80-55 sigur á liði Snæfells í kvöld þegar liðin mættust í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði. Haukar hafa verið á miklu skriði undan farið og unnið síðustu fjóra leiki sína og með sigrinum í kvöld fara Hafnarfjarðarstúlkur upp í þriðja sæti IE-deildarinnar.
 
Snæfellstúlkur voru hreinlega ekki mættar á svæðið í upphafi leiks og nýttu Haukar sér það. Rauðar fengu auðveld skot og þurftu ekki að hafa mikið fyrir hlutunum í vörninni. Íris Sverrisdóttir kom Haukum strax í 6-0 með tveimur þriggja stiga körfum og í stöðunni 12-0 tók Ingi Þór, þjálfari Snæfells leikhlé. Eftir leikhléið tóku Snæfellsstúlkur sig örlítið saman í andlitinu og þá sérstaklega í vörninni. Gestirnir náðu að takmarka skaðan og leiddu Hauka með 12 stiga muninum sem þær náðu í upphafi þegar leikhluanum lauk. Staðan 26-14 eftir fyrsta leikhlua
 
Það var það sama uppi á teningnum í öðrum leikhluta og var í þeim fyrsta. Haukar héldu áfram að fá opin skot sem þær nýttu vel og voru komnar með glimrandi nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna í hálfleik. Fátt gekk upp hjá Snæfellsstúlkum og voru tíðar ferðir á vítalínuna í raun þeirra líflína. Haukar kláruðu fyrri hálfleik með 16 stiga mun, 46-30, og fátt sem að benti til þess að Snæfell myndi ógna mun þeirra á nokkurn hátt.
 
Haukar leyfðu sér að prufa nýja hluti í vörninni í seinni hálfleik þar sem að þær skiptu yfir í maður á mann svæðisvörn. Munurinn hélst sá sami í raun út leikhlutann í ljósi þess að örfáar körfur litu dagsins ljós í leikhlutanum. Snæfell spilaði þó mun betur en þær höfðu gert framan af og enduðu leikhlutann með jafn mörg skoruð stig og Haukar eða átta talsins.
 
Haukar bættu í í loka leikhlutanum og náðu að keyra muninn upp í 27 stig. Snæfell kom aðeins til baka og minnkaði muninn niður í 21 stig. Hildur Sigurðardóttir sem jafnan er illviðráðanleg fann sig engan veginn í leiknum og munar um minna fyrir Snæfellsliðið. Hildur skoraði sín fyrstu stig í fjórða leikhluta og fór á endanum útaf með 5 villur. Haukar unnu að lokum verðskuldaðan sigur þar sem varnarleikur þeirra sem og góð hittni skóp sigurinn. Leiknum endaði með 25 stiga sigri Hauka 80-55.
 
Jence Rhoads var með flotta tvennu þegar hún gerði 20 stig og gaf 10 stoðsendingar og Íris Sverrisdóttir kom henna næst með 19 stig og 9 fráköst.
 
Hjá Snæfelli var Kieraah Marlow einnig með myndarlega tvennu en hún skoraði 21 stig og tók 17 fráköst og Hildur Björg Kjartansdóttir var með 17 stig og 11 fráköst.
 
 
emil@karfan.is

23.11.2011 22:29

Góðar fréttir úr körfunni hjá Víking

Karfa: Minnibolti 11 ára

Laugardaginn 19. nóvember héldu krakkarnir í Minnibolta 11 ára frá Víking/Reyni í langt ferðalag til Ísafjarðar þar sem þau tóku þátt í keppni á Íslandsmóti D-riðils þar sem þau kepptu við lið KFÍ og Njarðvík B en lið Fjölnis átti líka að vera á mótinu en forfölluðust, þar með vorum við kominn strax með einn sigurleik.

Eftir langa bílferð og bátsferð með Baldri var komið á Ísafjörð og fyrsti leikur var gegn liði Njarðvíkur B. En Njarðvík sá aldrei til sólar í þeim leik og Víkingur/Reynir sigruðu leikinn mjög örugglega 60-19.

Þar sem KFÍ vann einnig lið Njarðvíkur B, þá var seinni leikur dagsins úrslitaleikur um hvort liðið sigruðu riðilinn og kæmust þar með upp í C-riðil.

Leikurinn byrjaði mjög jafnt og KFÍ voru yfir 12-8 eftir 1.leikhluta, einnig var 2.leikhluti mjög jafn en okkar krakkar komust reyndar yfir og voru yfir í hálfleik 18-25.

En eftir það þá sigldi Víkingur/Reynir fram úr og hreinlega völtuðu yfir KFÍ í næstu tveimur leikhlutum sem endaði með því að Víkingur/Reynir fór með sigur af hólmi 27-59 frábær sigur!

Með því þá komst Víkingur/Reynir upp úr D-riðli í C-riðil þar sem þeir munu leika þegar næsta mót fer fram, frábær árangur hjá þessum krökkum sem hafa þar með farið upp um tvo riðla á tveimur mótum.

Var fagnað vel í lok leiks áður en haldið var á veitingastað þar sem fengið var sér að borða áður en haldið var heim. Frábær ferð sem heppnaðist vel og vill undirritaður þakka krökkunum og bílstjórum kærlega fyrir ferðina.

 

Sama dag fór svo fram leikur hjá Mfl. Víkings Ólafsvíkur í kennaraháskólanum í Rvk gegn liði Smára frá Varmahlíð. Leikurinn byrjaði jafn og í lok 1.leikhluta var staðan 17-19 Víking í vil, en svo átti Víkingur betri kafla í 2. leikhluta þar sem þeir skoruðu 26 gegn 18 frá Smára og voru því yfir í hálfleik 35-45.

En Smáramenn gáfust ekki upp og leikurinn var jafn seinustu tvo leikhlutanna en Víkings-menn náðu þó alltaf að halda í forystuna og leikurinn endaði með sigri Víkings 76-86.

Næsti leikur hjá Víkingi Ólafsvík er svo heimaleikur næstkomandi laugardag 26.nóvember gegn liði ÍBV, allir á völlinn!

 

Kv. Jens

21.11.2011 09:05

Snæfell tók þátt í afmælisgjöfinni

Umfjöllun: Stólarnir gáfu Kára sigur í afmælisgjöf
20 11 2011 | 23:00

Umfjöllun: Stólarnir gáfu Kára sigur í afmælisgjöf

Boðið upp á hörkuleik í Síkinu í kvöld sem endaði eins og allir leikir eiga enda, með sigri Tindastóls. Eftir leikinn tóku svo allir leikmenn og áhorfendur lagið og sungu afmælissönginn fyrir Kára Marísson sem er, ótrúlegt en satt, sextugur í dag!
Leikurinn var þrælskemmtilegur alveg frá byrjun til enda eins og oft vill verða þegar Tindastóll vinnur en Tindastólsliðið leiddi leikinn meira og minna allan tímann með nokkrum stigum og stóðu uppi sem verðskuldaðir sigurvegarar.
 
Strákarnir byrjuðu ágætilega, Helgi Rafn tók að sér að klára fyrstu sóknirnar í leiknum en stigaskorið var vel dreift og allir strákarnir voru að leggja nokkur lóð á vogarskálina. Eins og áður sagði voru það Tindastólsstrákarnir sem sáu um leiða leikinn en Snæfellingar að elta. Nonni Mæju var einna erfiðastur í liði Snæfellinga en Nonni er með fulla vasa af körfuboltatöfrabrögðum sem hann nýtti óspart í fjórða leikhlutanum. Það var svona helsta ástæðan fyrir því að eltingarleikur Snæfellinga virtist ætla að takast þegar Snæfellingar komust yfir í næstum því fyrsta skipti í leiknum þegar ein mínúta og 46 sekúndur voru eftir, 78-79.
 
En Tindastólsstrákarnir voru ekkert á því að fara á taugum, Svavar Birgis setti þrist í næstu sókn og kom okkur yfir 81-79 og eltingarleikurinn hófst á ný en í þetta skiptið voru vígstöðvarnar færðar yfir á vítalínu Snæfellinga. Svavar Birgis eða Svavar svellkaldi setti niður þrjú af fjórum og Moe setti síðan bæði sín niður þegar 10 sekúndur voru eftir sem komu okkur í 86-83. Síðasta sókn Snæfellinga endaði á vítalínunni þegar 4.6 sekúndur voru eftir og Marquis Hall hjá Snæfell skoraði úr fyrra en klúðraði seinna. Tindastóll náði frákastinu og ,,game over" - 86-84.
 
Flott frammistaða hjá Tindastól í leik sem verður kannski ekki flokkaður sem mikilvægasti leikur í sögu körfuboltans í Skagafirði en engu að síður virkilega gott fyrir strákana að fá smá sigurtilfinningu í magann. Það er vel að merkja framför hjá strákunum og virkilega gaman að sjá að menn eru komnir með almennilegt blóð á tennurnar í varnarleiknum.
 
Eins og áður sagði þá var sigurinn tileinkaður Kára Marísson, frumkvöðul og körfuboltarisa hérna í Skagafirði. Það var kannski vel við hæfi að leikurinn vannst á vítalínunni en Kári hefur ekki klúðrað mörgum vítum á ævinni, hvorki á æfingu eða leik. Sagan segir meira segja að Kári hafi bara brennt af tveimur vítum, einu sinni í leik í barnaskólasalnum á móti Ungmennafélagi Hrunamanna og einu sinni á æfingu árið 1993 en við seljum það ekki dýrara en við keyptum það.
 
Við óskum Kára að sjálfsögðu með afmælið þótt að við trúum því náttúrulega engan veginn að kappinn sé orðið sextugur.

Snæfell tapaði naumt gegn Tindastóli sem hafði forystu mest allann leikinn Leikar fóru 86-84 fyrir Stólunum og ljóst að um hreinann úrslitaleik í Lengjubikarnum verður að ræða þegar Stjarnan mætir í Hólminn sunnudaginn 27. nóvember n.k. Snæfell og Stjarnan eru bæði með 4 stig en Snæfell ekki með nema +1 stig innbyrðis við Stjörnuna og verður um hörkuleik að ræða sem sker úr um hvort liðið tekru efsta sætið og fer í undanúrslitin.

 
Texti: Björn Ingi Óskarsson. 

19.11.2011 18:38

Auðvelt hjá Snæfellsstúlkum
Snæfellsstúlkur tóku á móti Val í Iceland express deild kvenna í Stykkishólmi. Valur í 7. Sæti með 4 stig en Snæfell 5. Sæti með 6 stig og lítill munur á milli liða á þessum slóðum. Þess má geta að þetta var 1000. leikur sem Einar Þór Skarphéðinsson dæmir.

 

Byrjunarliðin:

  • Snæfell: Kieraah, Hildur Björg, Hildur Sig, Helga Hjördís, Alda Leif.
  • Valur: Þórunn, Unnur Lára, Melissa, Kristrún, María Ben.

 

 

Leikurinn fór varlega af stað og liðin stilltu vel upp og fóru sér engu óðslega. Snæfell komst strax í 7-3 með þrist frá Öldu Leif sem stal svo bolta í næstu sókn. Valsstúlkur hertu heldur betur á vörninni og náðu góðum stoppum á Snæfell sem skilaði þeim minnkandi mun 9-8. Snæfell aftur á móti lét það ekki trufla sig og keyrðu hratt á Val sem skilaði þeim 9-1 kafla og staðan fljótt orðin 18-9 og Hildur Sigurðardóttir var líkt á frjálsíþróttamóti í hlaupunum. Valsstúlkur fóru að hitta illa í sóknum sínum og voru með slaka nýtingu.  Staðan eftir fyrsta hluta 27-17 fyrir Snæfell.

 

Snæfell byrjaði af gríðalegum krafti 12-0 þar sem Sara Mjöll var í hörkustuði með 9 stig í upphafi. Valsstúlkur misstu allann varnaleik frá sér og voru seinar að loka á þær á meðan allt gekk upp Snæfellsmegin. Alda Leif kom Snæfelli með stórum þrist í 42-17 og Valur ekkert búnar að skora í öðrum hluta þegar staðan var 46-17 fyrir Snæfell og annað leikhlé Vals tekið eftir fjögra mínútna leik. 23-0 varð kafli Snæfell áður en karfa kom frá Guðbjörgu Sverrisdóttur og gestum. Snæfell valtaði yfir Val í öðrum hluta 31-8 og staðan í hálfleik 58-25.

 

Atkvæðahæstar í hálfleik liði Snæfells voru Hildur Sig með 15 stig og 9 fráköst, Kieraah Marlow og Alda Leif með 13 stig hvor og Alda 3/3 í þristum. Sara Mjöll kom svo með 9 stig. Hjá Val var Kristrún Sigrjónsdóttir með 9 stig og Guðbjörg Sverrisdóttir 8 stig. Tveggja stiga skotnýtingin var 63% hjá Snæfelli gegn 20% hjá Val.

 

Fyrstu tvö stig Melissu Leichlitner komu í upphafi þriðja hluta og auðvitað vantaði meira framælag frá henni líkt og öðrum.  Snæfell voru þó alltaf í einhverjum gæðaflokkum fyrir ofan Val og 40 stig skildu liðin af um miðjann þriðja fjórðung 73-33.  Valur náði þó að minnka muninn um 10 stig með góðri stemmingu en Guðbjörg Sverrisdóttir og María Ben létu til sín taka og staðan 75-45 fyrir Snæfell og Valur barðist við að reyna að komast inn í leikinn. Staðan eftir þriðja hluta 79-47 fyrir heimastúlkur en leikhlutinn 20-22 fyrir Val.

 

Lítið breyttist í fjórða hluta í leiknum. Valur réði lítið við Kieraah hjá Snæfelli sem var komin með 31 stig og engin sem gat stoppað hana í teignum þar sem hún var auk þess komin með 14 fráköst. Það var Alda Leif sem rauf 100 stiga múrinn fyrir Snæfell með þrist en það er ekki oft eða aldrei sem Snæfell hefur sett 100 + á töfluna leyfi ég mér að fullyrða. Leikurinn endaði 102-73 í fyrirhafnalitlum sigri Snæfells.

 

Stigaskor Snæfells: Kieraah Marlow 31/16 frák/5 stoð. Hildur Sig 24/13 frák/8 stoð. Alda Leif 18/4 frák/ 5 stoð. Sara Mjöll 9/4 frák. Hildur Björg 6/5 frák. Helga Hjördís 6/5 frák. Ellen Alfa 4. BJörg Guðrún 2. Rósa Kristín 2.

 

Stigaskor Valur: Guðbjörg Sverrisdóttir 20/4 frák. Hallveig Jónsdóttir 12/5 frák. María Ben 12. Kristrún Sigrjónsdóttir 9. Melissa Liechlitner 6/5 frák/4 stolnir. María Björnsdóttir 6. Ragnheiður Benónísdóttir 2/7 frák. Þórunn Bjarnadóttir 2. Unnur Lára Ásgeirsdóttir 2/3 frák. Margrét Einarsdóttir 2. Berglind Karen 0/4 frák/4 stoð.

 

Punktar eftir leikinn:
    Snæfell skorar 102 stig í leiknum gegn 73 Vals
    Valur hafði 20-0 innbyrðis en Snæfell rétti það við um 9+.
    Snæfell var með helmingi hærri framlagsstig 120/60 eftir leikinn.

 

Símon B. Hjaltalín.

18.11.2011 17:43

Mikilvægur sigur hjá Snæfellsstúlkum

Umfjöllun: Alda Leif stigahæst í sigri Snæfells á Fjölni
16 11 2011 karfan.is

Umfjöllun: Alda Leif stigahæst í sigri Snæfells á Fjölni

Fjölnisstúlkur mættu í Hólminn verandi í 6. sæti með 4 stig en Snæfell í neðsta sæti en einnig með 4 stig. Það var því mikið í húfi fyrir bæði lið að fá stig í þessari súpu sem er þarna í 4. - 8. sæti deildarinnar.
 
Byrjunarlið leiksins:
Snæfell: Hildur Sig, Hildur Björg, Helga Hjördís, Kieraah, Alda Leif.
Fjölnir: Brittney, Katina, Birna, Erla Sif, Eva María.
 
Snæfell byrjaði á fínum spretti og komust í 10 -2 með þristum frá ÖlduLeif og Helgu Hjördísi áður en Fjölnir tók tíma í spjall þar sem sóknir þeirra runnu mikið í hendur Snæfells bæði í fráköstum og töpuðum boltum. Fjölnisstúlkur voru hittu illa þrát fyrir ágætis færi og þegar tvær mínútur voru eftir höfðu þær einungis skorað 6 stig gegn 21 Snæfells og hefur sést meiri ákveðni úr Grafarvoginum. Staðan eftir fyrstu lotu var 21-12 fyrir Snæfell.
 
Snæfell hélt Fjölni tíu stigum á eftir sér framan af öðrum hluta en liðin skiptust á að skora þó Snæfell hefði forskot á flestum sviðum leiksins. Alda Leif smellti einni stórri úr 33-19 í stöðuna 36-19 og Snæfell var að auka forskotið rétt fyrir hálfleiksflautið og kitluðu 20 stiga muninn 44-24 þegar mínúta var eftir, en Fjölnir kom með 5 stig strax í kjölfarið 44-29 eiturhressar. Hálfleikstölur voru 46-29.
 
Atkvæðamestar í Snæfelli voru Alda Leif með 17 stig og var gríðalega öflug í leiknum en næst henni kom Kieraah með 11 stig og 5 fráköst. Flestir leikmenn voru þó sprækir og gáfu fínt framlag. Hjá Fjölni var Brittney komin með 14 stig og var líkt og ein á vellinum á köflum en næst henni var Eva María með 6 stig. Katina Mandylaris var komin með 4 stig og 4 fráköst en vermdi tréverkið þar sem henni áskotnuðust 3 villur snemma í leiknum.
 
Fjölni gekk lítið að komast inn í leikinn en Snæfell hafði leikinn auðveldlega í höndum sér. Brittney Jones reyndi hvað hún gat en var komin með 4 ofaní í tveggja stiga körfum af 18 reyndum. Á meðan var Alda Leif að fara á kostum í liði Snæfells og setti nánast allt ofan í sem hún reyndi. Staðan eftir þriðju lotu var 62-42.
 
Fjölnir áttu flott áhlaup strax í fjórða hluta og minnkuðu muninn um 11 stig úr 67-44 í 67-55 þar sem þær náðu fráköstum og keyrðu leikinn alveg á fullt með Brittney og Katina fremstar í skori. Snæfell klúðraði hverju skotinu á fætur öðru og létu ýta sér algjörlega út úr þeim þægilega leik sem þær að minnsta kosti héldu að þær hefðu í hendi sér. Never say never sagði Bieber og það gerðu Fjölnisstúlkur líka þegar þær höfðu minnkað muninn í 6 stig 67-61 með glæsilegur sprettkafla og svo setti Brittney þrist fyrir Fjölni í 69-66 og 1:36 eftir áður en Snæfell tók leikhlé.
 
Brittney var komin með 37 stig og hún og Katina virtust vera þær einu á vellinum sem gætu skorað. Leiknum lauk þó með sigri Snæfells 73-68.

Snæfell: Alda Leif Jónsdóttir 24/4 frák/5 stoð/3 stolnir. Kieraah Marlow 14/11 frák. Hildur Sig 11/7 frák/6stoð. Helga Hjördís 8/5 frák. Hildur BJörg 7/7 frák. Ellen Alfa 7. Sara Mjöll 2. Björg Guðrún 0. Rósa Kristín 0. Aníta Rún 0.
 
Fjölnir: Brittney Jones 37/8 frák/7 stoð/3 stolnir. Katina Mandylaris 14/13 frák. Eva Emilsdóttir 6. Birna Eiríksdóttir 6. Erla Sif 4. Bergdís Ragnarsdóttir 1. Heiðrún Harpa 0. Sigrún Anna 0. Dagbjört 0. Guðbjörg 0. Margét Helga 0. Telma María 0.
 
 
Puntkar úr leiknum:
 Brittney Jones skoraði 14 í fyrri hálfleik en 23 í þeim seinni.
 Þar af komu 17 stig frá henni í fjórða hluta
 Katina skorarði 7 af 10 stigum seinni hálfleiksstigum sínum í fjórða hluta.
 Snæfell hafði tekið 10 fleiri fráköst í fyrri hálfleik en Fjölnir náði því í 39/36 aðallega í fjórða hluta þar sem þær áttu flest öll fráköst á vellinum.
 Alda Leif spilaði flottan leik fyrir Snæfell með 75% nýtingu í tvistum, 57% í þristum 4/7 og 100% 6/6 í vítum ásamt því að spila hörkuvörn.
 Snæfell skaust upp í 5. Sætið og skildi Fjölni eftir á botninum, en staðan gríðalega jöfn frá 4 .- 8. sæti.
 
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín. 

15.11.2011 01:34

Stjarnan náði fram hefndum

Umfjöllun: Stjarnan ein í öðru sætinu
11 11 2011 | 22:31

Umfjöllun: Stjarnan ein í öðru sætinu

Stjarnan hefndi fyrir ófarir liðsins í Lengjubikarnum með eins stig sigri á Snæfell í Iceland Express deild karla í Garðabænum í kvöld. Stjarnan náði myndarlegu forskoti í upphafi leiks en Snæfell kom til baka í öðrum leikhluta og leikurinn var í járnum það sem eftir var. Snæfell átti seinustu sókn leiksins, einu stigi undir, en tókst ekki að nýta sér tækifærið og fóru því tómhentir heim. Með sigrinum eru Garðbæingar einir í 2. sæti deildarinnar með 10 stig.
 
Stigahæstur í liði Stjörnunnar var Keith Cothran með 34 stig en næstir voru Marvin Valdimarsson með 24 stig og 10 fráköst og Fannar Helgason með 13 stig og 8 fráköst. Í liði Snæfells var Jón Ólafur Jónsson stigahæstur með 23 stig en næstir voru Quincy Hankins-Cole með 16 stig og 12 fráköst og Pálmi Sigurgeirsson með 14 stig og 7 stoðsendingar.
 
Leikurinn byrjaði nokkuð jafn og liðin skiptust á að skora fyrstu mínúturnar. Stjarnan hafði þó frumkvæðið og þegar leið á leikhlutan tókst þeim hægt og rólega að stíga framúr. Sóknarleikur heimamann var til fyrirmyndar og tókst þeim að skora 35 stig af öllum kúnstarinnar gerðum áður en fyrsti leikhluti var flautaður af. Þá höfðu Þeir náð 10 stiga forskoti á Snæfell, 35-25.
 
Stjarnan hélt uppteknum hætti í upphafi annars leikhlut og höfðu náð forskotinu upp í 16 stig, 44-28. Þá virtust Snæfellingar vakna til lífsins og á á stuttum tíma náðu þeir muninum niður í 9 stig, 47-38, en þá tók Teitur Örlygsson leikhlé fyrir Stjörnuna. Hægt og rólega hélt munurinn þó áfram að minnka og þegar um tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik var hann kominn niður í 4 stig, 52-48. Snæfellingar höfðu getað gert enn betur en fengu dæmdan á sig ruðngin tvær sóknir í röð undir lok leikhlutans á meðan ekkert gekk í sóknarleik Stjörnunnar. Snæfell tókst þó að komast yfir áður en flautað var til hálfleiks því þeir settu eldsnögg 8 stig á lokamínútnni og höfðu því 4 stiga forskot þegar flautað var til hálfleiks, 52-56.
 
Stigahæstur í hálfleik hjá Snæfell var Jón Ólafur Jónsson með 16 stig og 5 fráköst en næstir voru Quincy Hankins-Cole með 13 stig og Marquis Sheldon Hall með 9 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar. Hjá Stjörnunni var Marvin Valdimarsson stigahæstur með 20 stig og 6 fráköst en næstir voru Keith Cothran með 18 stig og Justin Shouse með 5 stig.
 
Snæfell tókst þó aldrei að stinga Stjörnuna af í þriðja leikhluta og Stjarnan var fljót að vinna sig aftur inní leikinn. Þegar leikhlutinn var að verða hálfnaður kom Keith Cothran Stjörnunni aftur yfir með stórglæsilegri troðslu eftir sendingu frá Justin shouse nokkuð fyrir utan þriggja stiga línuna, 65-63. Snæfell svaraði í næstu sókn áður en Ingi Þór tók leikhlé fyrir Snæfell, 65-65 og 5 mínútur eftir af þriðja leikhluta.
 
Jón Ólafur Jónsson, Ólafur Torfason,Snæfell, og Fannar Helguson, Stjörnunni, fengu allir sína fjórðu villu á síðustu þremur mínútum þriðja leikhluta en bæði Fannar og Jón Ólafur fengu að sitja það sem eftir lifði leikhlutans á bekknum. Þegar flautað var til loka þriðja leikhluta hafði Stjarnan 2 stiga forskot, 74-72.
 
Jón Ólafur Jónsson fékk sína fimmtu villu snemma í fjórða leikhluta og var því sendur í bað. Stjarnan hafði þá frumkvæðið í leiknum og leiddu með 2-4 stigum. Þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum höfðu þeir yfir, 83-81. Tveimur mínútum síðar var jafnt á öllum tölum, 86-86 og spennan farin að magnast. Ingi Þór tók leikhlé fyrir Snæfell stuttu seinna í stöðunni 88-86. Stjarnan hafði svo 1 stigs forskot 90-89 þegar Snæfell fór í síðustu sókn leiksins. Snæfell reyndi háan bolta inná Marquis Sheldon Hall en Marvin komst inní sendinguna og Stjarnan fagnaði því vel í leikslok.
 

09.11.2011 10:18

Snæfell sigraði Stjörnuna með einu stigi

 Umfjöllun: Stáltaugar Ólafs dugðu til sigurs
07.11.11

Umfjöllun: Stáltaugar Ólafs dugðu til sigurs

Ólafur Torfason var hetja Snæfells í kvöld þegar Hólmarar lögðu Stjörnuna 94-95 í Lengjubikar karla í Garðabæ. Brotið var á Ólafi um leið og leiktíminn rann út og hann sendur á vítalínuna þar sem honum dugði annað skotið til að tryggja sigurinn. Framan af benti allt til sigurs gestanna í leiknum en Garðbæingar hleyptu mikilli spennu í lokasprettinn með góðri baráttu sem þó varð skammvinn að þessu sinni.
 
Garðbæingar þurfa ekki að bíða lengi eftir því að fá tækifæri til að kvitta fyrir leikinn í kvöld þar sem liðin mætast í Iceland Express deildinni á föstudag og þá aftur í Ásgarði.
 
Gestirnir úr Stykkishólmi voru ferskari í Ásgarði í upphafi leiks eftir stormasama ferð suður til Reykjavíkur í hvassviðrinu. Quincy Hankins-Cole var skæður í teignum í upphafi en Garðbæingar unnu á og minnkuðu muninn í 20-26 með þriggja stiga körfu frá Marvin Valdimarssyni um leið og fyrsta leikhluta lauk.
 
Framan af öðrum leikhluta batnaði Stjörnuvörnin og Garðbæingar minnkuðu muninn í 24-29 en þá fóru Hólmarar hægt og sígandi að slíta sig frá. Staðan í hálfleik var 36-50 Snæfell í vil þar sem Fannar Freyr Helgason var með 10 stig í liði Stjörnunnar en Marquis var með 13 stig.
 
Snæfell opnaði síðari hálfleik með 7-0 dembu og staðan 36-57 en þá rönkuðu heimamenn við sér. Marvin Valdimarsson fór að minna á sig og þegar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum herti Stjarnan róðurinn og náði að minnka muninn í 7 stig, 66-73 þar sem Fannar Freyr Helgason lokaði þriðja leikhluta með þriggja stiga körfu.
 
Fannar opnaði fjórða leikhluta líkt og hann lokaði þeim þriðja og staðan 69-73. Garðbæingar voru allan fjórða leikhluta að narta í forystu gestanna og það gaf á bátinn þegar tvær og hálf mínúta var eftir. Pálmi Freyr Sigurgeirsson fékk þá tæknivillu dæma á sig fyrir samskipti sín við einn dómara leiksins og skömmu síðar kom Marvin Valdimarsson Stjörnunni yfir í fyrsta sinn í leiknum er hann breytti stöðunni í 91-90.
 
Lokakaflinn var æsispennandi, bæði lið voru í bullandi villuvandræðum og komin með skotrétt svo lítið mátti út af bera. Marquis Hall og Jón Ólafur Jónsson voru báðir utan vallar með fimm villur og hjá Stjörnunni voru þeir Fannar Freyr og Sigurjón Lárusson einnig utan vallar fyrir sömu sakir.
 
Keith Cothran jafnaði metin í 94-94 á vítalínunni þegar hann setti aðeins niður annað vítið, Hólmarar héldu í sókn með 18 sekúndur eftir, Pálmi Freyr stillti upp og fyrsta skot Hólmara geigaði en sóknarfrákastið endaði í höndum Ólafs Torfasonar og er hann reyndi skot rann klukkan út á meðan boltinn var í loftin og villa dæmd um leið á varnarmanninn Sigurbjörn Björnsson.
 
Ólafur fékk því tvö víti og voru Garðbæingar fjarri því sáttir við þessa niðurstöðu enda töldu þeir villuna vera komna til fyrir litlar sakir. Ólafur hélt á línuna og setti fyrra vítið og brenndi af því síðara en það skipti engu máli, Garðbæingar áttu ekki sekúndubrot inni til að svara fyrir sig og lokatölur því 94-95 Snæfell í vil.
 
Stigaskor:
 
Stjarnan: Fannar Freyr Helgason 20/7 fráköst, Justin Shouse 20/4 fráköst/9 stoðsendingar, Keith Cothran 17/6 fráköst, Sigurjón Örn Lárusson 16/7 fráköst, Marvin Valdimarsson 15/5 fráköst/3 varin skot, Guðjón Lárusson 6/5 stoðsendingar, Magnús Bjarki Guðmundsson 0, Sigurbjörn Ottó Björnsson 0, Dagur Kár Jónsson 0, Christopher Sófus Cannon 0, Aron Kárason 0.
 
Snæfell: Marquis Sheldon Hall 20/8 stoðsendingar, Quincy Hankins-Cole 16/11 fráköst, Jón Ólafur Jónsson 13, Egill Egilsson 12/4 fráköst, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 12, Ólafur Torfason 12/8 fráköst, Hafþór Ingi Gunnarsson 7, Sveinn Arnar Davidsson 3/4 fráköst, Daníel A. Kazmi 0, Snjólfur Björnsson 0, Þorbergur Helgi Sæþórsson 0, Magnús Ingi Hjálmarsson 0.
 
Mynd/ Ólafur Torfason í baráttunni við Marvin Valdimarsson í Ásgarði í kvöld.
Mynd og umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson - nonni@karfan.is

05.11.2011 20:11

Snæfell tapaði í Njarðvík

 Lokatölur í Njarðvík voru 90-80 grænum í vil þar semþær Lele Hardy og Shanae Baker gerðu báðar 26 stig í Njarðvíkurliðinu. Hjá Snæfell var Hildur Sigurðardóttir atkvæðamest með 28 stig.
 

 
Njarðvík-Snæfell 90-80 (28-24, 24-22, 12-14, 26-20)
 
Njarðvík: Shanae Baker 26/7 stoðsendingar, Lele Hardy 26/11 fráköst, Eyrún Líf Sigurðardóttir 12, Harpa Hallgrímsdóttir 10/5 fráköst, Salbjörg Sævarsdóttir 5, Erna Hákonardóttir 5, Petrúnella Skúladóttir 4/4 fráköst, Sara Dögg Margeirsdóttir 2, Ólöf Helga Pálsdóttir 0, Marín Hrund Magnúsdóttir 0, Emelía Ósk Grétarsdóttir 0, Ásdís Vala Freysdóttir 0.
 
Snæfell: Hildur Sigurdardottir 28/7 fráköst/6 stoðsendingar, Kieraah Marlow 23/15 fráköst/7 stoðsendingar, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 14/7 fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir 6/7 fráköst/5 stoðsendingar, Ellen Alfa Högnadóttir 4, Alda Leif Jónsdóttir 3/4 fráköst, Sara Mjöll Magnúsdóttir 2, Aníta Sæþórsdóttir 0, Rósa Indriðadóttir 0.

04.11.2011 09:30

Öruggt hjá Snæfell gegn Njarðvík

 Umfjöllun: Engin norðankæla, heimamenn sigldu lygnan sjó
04 11 2011 karfan.is

Umfjöllun: Engin norðankæla, heimamenn sigldu lygnan sjó

Snæfell tók á móti Njarðvík í Stykkishólmi í Iceland Express deild karla og fyrir leikinn voru heimamenn í 8. Sæti en Njarðvík í 7. Sæti og bæði lið með 4 stig eftir fjóra leiki. Það fór svo að Snæfell keyrði leikinn fljótt upp og sköpuðu sér forystu 35-14 eftir fyrsta hluta sem þeir létu aldrei af hendi, höfðu greinilega lært af ÍR leiknum, þrátt fyrir að Njarðvíkingar kæmu með heiðalegar tilraunir til að minnka muninn sem varð 30 stig í fjórða hluta. Einfaldlega of mikið of seint og Snæfell sigraði örugglega 89-67 í leik sem varð aldrei spennandi að ráði.
 
Byrjunarliðin:
Snæfell: Jón Ólafur, Sveinn Arnar, Pálmi Freyr, Quincy Cole, Marquis Hall.
Njarðvík: Ólafur Helgi, Cameron Echols, Rúnar Ingi, Elvar Már, Travis Holmes.
 
Snæfellingar byrjuðu á að keyra leikinn strax upp og tóku hraðar sóknir sem skiluðu fljótt 10 stiga forskoti 15-5. Njarðvíkingar splæstu þá í svæðisvörn til að freista þess að stoppa gegnumhlaup Snæfells en fengu í staðinn stórskot á sig frá Nonna og Sveini Arnari. Grænir tóku leikhlé í stöðunni 23-11 en fengu samt hratt á sig næstu 9 stig, Snæfell voru búnir að skora 14-0 og staðan varð fljótt 32-11 fyrir Snæfell. Ekki það að Njarðvíkingar væru að fá sérstaklega slæm skot þau bara voru ekki að detta og varnarleikurinn var svollítið skrefi á eftir til að byrja með. Staðan þægileg, 35-14, fyrir Snæfell eftir fyrsta leikhluta.
 
Leikurinn varð jafnari þegar blásið var til annars hluta og liðin skiptust á að skora. Snæfellingar héldu um 20 stiga forystu framan af nokkuð áreynslulaust og virtist fyrsti hlutinn hafa tekið Njarðvík nokkuð útúr leiknum en það var fyrir fína varnarvinnu í svæðinu að Njarðvík vann annann hluta 16-22. Ekkert annað stórkostlega markvert fyrir utan eitt "veggspjald" hjá Quincy Cole í Snæfelli var í fyrri hálfleik, sem er farið að vera daglegur hlutur jafnvel út í búð á miðjum degi í Hólminum. Njarðvíkingar bættu eilítið við sig og minnkuðu muninn í 15 stig áður en flautan gall við í hálfleikinn, 51-36 eftir að hafa verið 24 stigum undir og sóknir þeirra runnu ögn betur.
 
Hjá Snæfelli var Quincy kominn með 15 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar. Pálmi Freyr 11 stig og Marquis Hall 10. Í liði Njarðvíkur var Tarvis Holmes atkvæðamestur með 11 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar. Næstir honum voru Rúnar Ingi og Cameron Echols með 6 stig hvor.
Snæfellingar komu mistækir til leiks í seinni hálfleik, voru á hælunum í vörninni, misstu boltann ítrekað í sókninni og gestirnir gengu á lagið og minnkuðu muninn í 10 stig 52-42 með góðri vörn og hröðum sóknum, ásamt því að fá að fara oft á vítalínuna. Þar á meðal vegna tæknivillu á Quincy Cole hjá Snæfelli og Jón Ólafur var komin í villuvandræði um miðjann þriðja hluta með fjórar villur. Snæfell krafsaði sig uppí 18 stig aftur með góðu áhlaupi 68-49 þar sem Sveinn Arnar setti niður stórar körfur og Quincy var drjúgur í teignum en í liði Njarðvíkur var Travis Holmes einkar sprækur og átti mestann þátt í áhlaupi síns liðs. 76-51 var staðan eftir þriðja hluta fyrir Snæfell og þeir aftur komnir í þægilega stöðu þrátt fyrir stríðni Njarðvíkinga í uppahafi hlutans.
 
Snæfellingar komust svo auðveldlega í 84-54 um miðjann hlutann og leikurinn fór að verða alls óspennandi hvað stigamuninn varðar og liðin fóru að rúlla á öllum mönnum eins og sagt er sem var jákvætt að sjá. Erfiður heimavöllur fyrir ungt og sprækt Njarðvíkurlið, en þaðan kemur gott fólk og þekki ég nokkra alveg prýðismenn. 89-67 endaði leikurinn fyrir heimamenn í Snæfelli.
 
Snæfell: Quincy Cole 19/10 frák/6 stoð. Jón Ólafur Jónsson 15/6 frák. Pálmi Freyr Sigurgeirsson 14/4 frák/3 stoð. Sveinn Arnar Davíðsson 12/4 stoð. Marquis Hall 12/3 frák/4 stoð. Ólafur Torfason 9/6 frák/3 stoðs. Hafþór Gunnarsson 4. Egill Egilsson 2. Snjólfur Björnsson 2/3 frák. Guðni, Daníel og Magnús spiluðu en náðu ekki að skora.
 
Njarðvík: Travis Holmes 17/3 frák/3 stoðs. Cameron Echols 10/5 frák. Rúnar Erlingsson 9/3 frák. Maciej Baginski 8. Hjörtur Einarsson 7. Elvar Friðriksson 6/5 stoðs. Ólafur Jónsson 5. Óli Alexandersson og Jens Óskarsson 2 stig hvor. Oddur Pétursson 1. Sigurður Dagur og Styrmir Gauti skoruðu ekki.
 
 
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín.

31.10.2011 16:31

Víkingur og Mostri í Powerade-bikar

Dregið í 64-liða úrslit Powerade-bikar karla
Á föstudag var dregið á skrifstofu KKÍ í 64-liða úrslit Powerade-bikarkeppni karla.

Félög í Iceland Express-deild karla og 1 deild karla koma inní 32-liða úrslit.

41 lið var skráð til leiks og fara 19 þeirra í 64-liða úrslit.

Eftirfarandi lið drógust saman:
Laugdælir-KR-b
Álftanes-Fjölnir-b
Stjarnan-b-Augnablik
Haukar-b-Katla
Leiknir-Reynir Sandgerði
KV-Víkingur Ólafsvík
Mostri-Valur-b
Tindastóll-b-Patrekur
Njarðvík-b-Bolungarvík

ÍBV situr hjá og fer beint í 32-liða úrslit ásamt félögum í Iceland Express-deild karla 1. deild karla.

Leikið verður dagana 11.-14. nóvember.

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 79
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 514
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 3294555
Samtals gestir: 253637
Tölur uppfærðar: 20.1.2018 03:10:10
Flettingar í dag: 79
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 514
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 3294555
Samtals gestir: 253637
Tölur uppfærðar: 20.1.2018 03:10:10