Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

31.03.2014 09:21

Héraðsmót HSH í frjálsum íþróttum innanhús

Árlegt héraðsmót HSH í frjálsum íþróttum innanhúss var haldið í íþróttahúsinu Stykkishólmi laugardaginn 29. mars 2014.

Keppendur voru um 40 talsins; 28 úr Snæfelli, 11 frá UMFG og 1 úr Umf. Staðarsveitar. 

Aldursdreifing var þannig að í flokkum 8 ára og yngri og 9-10 ára voru 16 þátttakendur, stelpur og strákar. Það er frekar fátt miðað við fyrri ár, þar sem yngstu hóparnir hafa verið fjölmennastir. Í flokkum 11-12 ára og 13-14 ára voru 20 keppendur og síðan höfðum við 4 eldri keppendur; tvo 16 ára, einn 17 ára og einn tvítugan. Til fróðleiks má nefna að síðustu árin hefur HSH ekki oft átt keppendur á mótum, sem eru yfir 16 ára aldri. 

Allir flokkar kepptu í 35 m spretthlaupi, langstökki með atrennu og langstökki án atrennu. Níu ára og eldri kepptu auk þess í hástökki og hjá 11 ára og eldri bættist kúluvarp við.  

Mótið gekk mjög vel fyrir sig undir vaskri stjórn Guðnýjar Jakobsdóttur mótsstjóra og duglegra foreldra og fleiri sem sáu um mælingar, skráningu og að allt gengi vel fyrir sig. 

Allir 10 ára og yngri fengu þátttökuverðlaun en veitt voru verðlaun fyrir efstu sæti í flokkum 11 ára og eldri. Í þeim flokkum eru því miður fáir í hverjum flokki, jafnvel svo að dugar ekki alltaf til að fylla verðlaunasætin, gull, silfur og brons. Þar eigum við verk að vinna, að auka þátttöku unglinga í frjálsum íþróttum. Við verðlaunaafhendinguna nutum við aðstoðar sonar Guðnýjar mótsstjóra, Brynjars Gauta Guðjónssonar, knattspyrnumanns úr Breiðuvík á Snæfellsnesi, sem kominn var á mótið að styðja yngri systur sína. Brynjar leikur nú með ÍBV og hefur verið í U21 landsliðinu. Hann var á yngri árum liðtækur frjálsíþróttamaður og á ennþá allnokkur héraðsmet sem ekki hafa verið slegin, t.d. í hástökki, langstökki, þrístökki, spjótkasti og kúluvarpi 13-14 ára pilta, innan- og utanhúss. Við trúum því að frjálsíþróttirnar á sínum tíma hafi hjálpað Brynjari að verða enn betri og fjölhæfari fótboltamaður. 
Eitt héraðsmet var sennilegast jafnað á mótinu. Stefán Karel Torfason, fæddur 1994, sem keppir undir merkjum Snæfells í körfubolta, tók sig til og sá mótsgestum fyrir æsispennandi hástökksseríu undir lokin. Reyndar gerðu fleiri keppendur það, því í hástökkinu magnast spennan alltaf eftir því sem stöngin hækkar. Stefán Karel stökk 1,90 m en felldi tilraunir við 1,95 m. Þegar þetta er skrifað er verið að skoða hvort hann sé löglegur keppandi undir merkjum HSH í frjálsum. Ef svo er, telst þetta jöfnun á héraðsmeti HSH í hástökki innanhúss í flokki pilta 20-22 ára. Eldri met eiga þeir Sæþór H. Þorbergsson Stykkishólmi, sem stökk 1,90 m í Reykjavík 1989, þá 18 ára gamall og Hilmar Sigurjónsson sem á sömu hæð, stokkið á Meistaramóti í Hafnarfirði árið 2004, en þá var Hilmar 16 ára. Ef Stefán telst ekki sjálfkrafa keppandi HSH í frjálsum, þá er hann skráður sem "gestur" á mótinu. Einungis þeir sem keppa undir merkjum HSH geta jafnað eða bætt héraðsmet sambandsins. 

HSH vill þakka þátttakendum á mótinu, aðstandendum þeirra og öðrum gestum fyrir komuna, mótsstjóra og öðrum sem lögðu hönd á plóginn er þakkað kærlega fyrir þeirra framlag.


Myndir frá mótinu eru birtar í myndaalbúmi hér inná vefnum.


Frjálsíþróttaráð HSH

 

 


Skrifað af Björgu

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 79
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 514
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 3294555
Samtals gestir: 253637
Tölur uppfærðar: 20.1.2018 03:10:10
Flettingar í dag: 79
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 514
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 3294555
Samtals gestir: 253637
Tölur uppfærðar: 20.1.2018 03:10:10