Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

15.11.2013 12:40

Snæfellsstúlkur sóttu 2 stig

13.11.2013 22:49 nonni@karfan.is
Baráttan skilaði Snæfell tveimur stigum í Vodafonehöllinni í kvöld þegar Hólmarar heimsóttu Valskonur að Hlíðarenda. Jaleesa Butler fékk lokatilraun til að knýja fram framlengingu fyrir Val en skotið geigaði og Snæfellskonur fögnuðu sigri eftir spennuslag, lokatölur 74-77. Snæfell var lengst af við stýrið og fór mikið púður hjá Val í að komast upp að hlið gestanna og þegar það hafðist stóðu gestirnir áhlaupið af sér.
 
 
Valur hefur nú tapað fjórum heimaleikjum í röð í Domino´s deild kvenna sem fyrir þennan hóp er langt í frá ásættanlegt. Að sama skapi eru Hólmarar með fjóra í röð á útivelli og í 2. sæti deildarinnar með 12 stig.
 
Byrjunarliðin í kvöld:
Valur: Þórunn Bjarnadóttir, Kristrún Sigurjónsdóttir, Hallveig Jónsdóttir, Jaleesa Butler og Ragna Margrét Brynjarsdóttir.
Snæfell: Hildur Sigurðardóttir, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, Chynna Unique Brown, Hugrún Eva Valdimarsdóttir og Eva Margrét Kristjánsdóttir.
 
Með Hildi Björgu í leyfi næstu þrjá leiki bjuggust flestir við að Valur myndi yfirgnæfa frákastabaráttuna í kvöld en þannig varð málum ekki háttað. Hólmarar voru fyrri til að finna neistann á slyddukvöldi sem þessu og leiddu 19-24 að loknum fyrsta leikhluta. Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells var ekki sáttur þegar Chyanna Brown fékk sína þriðju villu undir lok fyrsta leikhluta en Brown var mikið að dekka Jaleesu Butler og þarna er töluverður hæðarmunur svo Butler sótti stíft á Brown. Eins og áður segir, Snæfell leiddi með 5 stiga mun þrátt fyrir að glutra boltanum æði oft frá sér og leiddu frákastabaráttuna 7-12 eftir þessar fyrstu 10 mínútur leiksins.
 
Rut Herner Konráðsdóttir bauð annan leikhluta velkominn með þriggja stiga körfu fyrir Val og minnkaði þannig muninn í 22-24. Megnið af sóknarleik Vals fór í gegnum Jaleesu Butler og fyrir vikið varð varnarvinnan aðeins auðveldari hjá gestunum, það kom þeim ekkert á óvart, Butler átti bara að fá boltann. Snæfell var alltaf skrefinu á undan og þennan leikhluta var það hlutskipti Valskvenna að grýta boltanum frá sér í tíma og ótíma.
 
Chyanna Brown lék mest allan leikhlutann þrátt fyrir að hafa fengið þrjár villur í þeim fyrsta, annan leikhluta lék hún villulaust og náði að baka Val umtalsverð vandræði. Hildur Sigurðardóttir var að gera allt vel nema kannski í þriggja stiga skotum þar sem aðeins 1 af 5 vildu niður fyrstu 20 mínúturnar en annað var hún með á tæru og Snæfell leiddi 31-38 í hálfleik þar sem Hildur var með 13 stig og 6 fráköst í liði Snæfells en Jaleesa Butler var með 14 stig og 4 fráköst hjá Val og merkilegt nokk, Hólmarar, þeir leiddu frákastabaráttuna 21-24, höfðinu minni svona að jafnaði en baráttuþrekið í botni.
 
Valskonur mættu með læti og hávaða inn í síðari hálfleikinn, stöku pressa sást skjóta upp kollinum og náðu heimakonur að minnka muninn í 39-42 en Snæfell átti alltaf svar. Illa gekk hjá Hlíðarendakonum að brjóta þennan svokallaða ís og með tímanum í þriðja leikhluta fór vörnina að leka. Arkitektinn Hildur Sigurðardóttir þefaði uppi glufurnar og Brown smeygði sér inn í þær og Snæfell náði upp 14 stiga forskoti, 49-63 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Til að nudda salti í sár Valskvenna þá skellti Ísfirðingurinn Eva Margrét Kristjánsdóttir niður flautuþrist fyrir Snæfell sem héldu vígreifar inn í fjórða og síðasta hluta.
 
Eitthvað hefur værukærðin tekið sér bólfestu í Snæfellsliðinu, að sama skapi hertu Valskonur róðurinn í vörninni og gestirnir gerðu aðeins 3 stig á fyrstu sjö mínútum fjórða leikhluta! Ragna Margrét Brynjarsdóttir minnkaði muninn í 64-66 með góðu stökkskoti í Snæfellsteignum en Brown kom Snæfell í 68-72 með stökkskoti á hinum enda vallarins þegar 48 sekúndur voru til leiksloka. Brown var svo aftur á ferðinni skömmu síðar og gerði út um leikinn þegar hún jók muninn í 68-74 þegar 23 sekúndur lifðu leiks. Þessi tími reyndist ekki nægilegur fyrir Valskonur til þess að bjarga málunum og Hólmarar fögnuðu sigri þrátt fyrir heiðarlega tilraun Valskvenna sem og sjö afar daprar mínútur af gestanna hálfu í fjórða leikhluta. Lokatölur 74-77 og það hefðu nú heldur betur orðið læti ef Butler hefði sett niður lokaþrist leiksins og galdrað fram framlengingu en stundum vill hann bara ekki detta.
 
Hugrún Eva Valdimarsdóttir steig vel upp hjá Snæfell í fjarveru Hildar Bjargar og lauk Hugrún leik með 14 stig og 9 fráköst en það voru Hildur Sigurðardóttir og Chyanna Brown sem leiddu Snæfellinga, Hildur að daðra við þrennu með 14 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar og Brown með 29 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Hjá Val var Jaleesa Butler með 27 stig og 12 fráköst og Kristrún Sigurjónsdóttir bætti við 26 stigum, 5 fráköstum og 5 stoðsendingum. 
 
Tilþrif leiksins: Flautuþristur Evu Margrétar undir lok þriðja leikhluta, sá hlýtur að hafa sviðið í sárum Valskvenna.
 
 

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 360
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 514
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 3294836
Samtals gestir: 253656
Tölur uppfærðar: 20.1.2018 14:41:32
Flettingar í dag: 360
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 514
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 3294836
Samtals gestir: 253656
Tölur uppfærðar: 20.1.2018 14:41:32