Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

18.06.2013 13:45

FH ingar sterkir

Pepsídeildin
Ólafsvíkurvöllur
Sunnudaginn 16.júní 2013

Víkingur Ó - FH  0-4 (0-2)

0-1  Freyr Bjarnason (5.mín)
0-2  Sjálfsmark (35.mín)
0-3  Guðmann Þórisson (52.mín)
0-4  Atli Viðar Björnsson (77.mín)

Byrjunarlið Víkings Ó.: Einar Hjörleifsson, Alfreð Már Hjaltalín, Damir Muminovic, Insa Kiko, Tomasz Luba, Björn Pálsson, Farid Zato, Brynjar Kristmundsson, Eldar Masic, Guðmundur Magnússon og Arnar Már Björgvinsson. Varamenn sem komu inná: Steinar Már Ragnarsson, Fannar Hilmarsson og Vignir Snær Stefánsson. Ónotaðir varamenn: Kaspars Ikstens, Kristinn M. Pétursson, Anton Jónas Illugason og Guðmundur Steinn Hafsteinsson. Meiddir: Jernej Leskovar, Eyþór Helgi Birgisson. Í leikbanni: Emir Dokara.

Víkingur Ó hefur nú notað 21 leikmann í Pepsídeildinni.

Það var vitað að Íslandsmeistararnir væru með sterkt lið og þess vegna viðbúið að þessi leikur gæti farið illa. En fjögur núll bjuggust fáir við. FH hafði tapað sínum leik gegn KR á heimavelli í umferðinni á undan og þess vegna var vitað að þeir myndu koma dýrvitlausir í þennan leik. Vitað var að þeir myndu beita hápressu strax í byrjun og freista þess að setja mark sem allra fyrst. Ef það tækist ekki hjá þeim fyrstu 20 mínúturnar að þá var viðbúið að þeim myndu færa sig til baka og reyna að lokka Víkings Ó liðið framar á vellinni og beita skyndisóknum í einhvern tíma. Þar hefðu okkar möguleikar gegn þeim í fyrri hálfleik geta legið. En þeir fengu óskabyrjun og skoruðu strax á 5. mínútu. Annar leikurinn í röð sem við fáum á okkur mark strax á 5.mínútu og það er okkur dýrt. En nú fengum við að halda áfram 11 inná vellinum.

Við áttum alveg í fullu tré við FH í fyrri hálfleiknum en við erum þessa dagana frekar bitlausir framávið vegna meiðsla sóknarmanna hjá okkur og kannski vegna þess hve við erum frekar varnarsinnaðir á miðjunni. En þetta á eftir að lagast. Byrjunin hjá okkur minnir mig á árið 2006 í 1.deildinni. Það var í 9.umferð að við unnum okkar fyrsta leik það árið og um haustið enduðum við í 7.sæti með 19 stig og fjóra sigra, sjö jafntefli og sjö töp. Það var 10 liða deild. Ég trúi því statt og stöðugt að fyrsti sigurinn er innan seilingar og þegar hann næst fer liðið heldur betur í gang.

Hann var vel sóttur leikurinn í Ólafsvík á okkar mælikvaða. 745 áhorfendur mættu á leikinn og stuðningsmenn Víkings Ó eiga heiður skilið að gefast ekki upp þó liðinu gangi verr en við vildum. Leikmennirnir mega vita það að stuðningsmennirnir munu aldrei snúa baki við þeim og sama með Ejub þjálfara. Það er ekkert smá afrek sem stjórn félagsins, Ejub og hans menn hafa náð með liðið, úr neðstu deild í þá efstu á 9 árum. Samhliða þessum glæsta árangri okkar klúbbs hefur aðstaðan á vellinum byggst upp og í dag á Ólafsvík einn glæsilegasta fótboltavöll landsins.

Það eru ákveðnir leikir sem eru okkur mikilvægari en aðrir í deildinni. Það eru leikirnir gegn liðunum í neðri hlutanum. Þar liggja stigin okkar frekar en gegn "risunum". Það er bónus ef okkur tekst að vinna inn stig gegn fjórum efstu liðunum og það verður að sjálfsögðu reynt að gera, en ef það tekst ekki eins og á móti FH að þá grátum við það ekki. FH kemur til með að vinna flest öll liðin sem við erum að keppa við og sama með KR og Val. En gegn öðrum liðum skulum við gera allt til að vinna. Við nefnilega vitum hvar við stöndum og markmiðið hjá okkur er sama og hjá öllum liðunum í kringum okkur í töflunni að við ætlum að gera allt til þess að halda sæti okkar í deildinni. Eftir þetta keppnistímabil vitum við betur hvernig þessi deild er. Einn sigur og við erum komnir úr fallsæti ef ákveðnir aðrir leikir fara eins og við viljum. Það er ekkert búið að stinga okkur af og þessi slæma byrjun, sem er í raun besta byrjun okkar í Pepsídeildinni á ferlinum, hefur í sjálfu sér ekkert skaðað okkur. Boltinn er bara ennþá hjá okkur. En það væri gaman setja allt á annan endann hjá sparkspekingunum og knattspyrnuhreyfingunni með því á hirða stig á KR vellinum í næsta deildarleik. Við getum það alveg.

En snúum okkur aftur að leiknum gegn FH. Það var rjómablíða í Ólafsvík fimm mínútum fyrir leik og auðvitað um leið og Örvar Sær Gíslason (bróðir Rúnars Freys Gíslasonar leikara) flautaði leikinn á að þá byrjaði að blása. En það bjargaðist því vindurinn varð aldrei verulega sterkur að hann hefði áhrif á leikinn.

Byrjunin eins og ég nefndi áðan var ekki sú sem við vildum sjá. En þrátt fyrir þetta stóra tap sem mér ásamt fleirum fannst í stærra lagi var Víkings Ó liðið að leggja sig fram. Strákarnir börðust um alla bolta og vinnusemin í liðinu var til fyrirmyndar. Ekkert útá það að kvarta. En það sem mér finnst liðið mætti laga, er það sem sást lítið hjá liðinu síðustu árin og er komið í liðið, það er of mikið af háum boltum yfir tengiliðina og fram á fremstu menn og líka allt of mikið af sendingum aftur á markvörðinn sem síðan sparkar boltanum út og mótherjinn oft á tíðum vinnur þannig boltann af okkur. Kantspilið þyrfti að vera öflugra og þaðan eiga að koma eitraðar sendingar fyrir markið um leið og boltinn er kominn langleiðina að hornfána. Leikmenn mættu líka róa sig aðeins niður og horfa betur í kringum sig, en það er hraðinn í deildinni sem kemur okkur kannski mest á óvart og við honum verðum við að bregðast. Það er minni tími sem leikmenn fá með boltann en í 1.deildinni og þess vegna þyrftu menn að hafa einhver ráð til að grípa í þegar liðið liggur undir mikilli pressu. Til dæmis að kantmennirnir spili sig betur fría til að hægt sé að losa boltann til þeirra og á meðan geta aðrir leikmenn hlaupið í "holurnar" sem myndast í varnarmúr mótherjanna. En þetta voru mínar hugrenningar um liðið.

En þegar upp er staðið að þá var þetta sanngjarn sigur FH. Fyrsta markið sem kom mjög snemma skipti miklu máli fyrir þennan leik og í stöðunni 0-1 var Guðmundur Magnússon leikmaður Víkings Ó felldur á markteig af varnarmanni FH og þar skorti Örvar Sæ hugrekki til að dæma víti og ef okkur hefði tekist að jafna leikinn á þeim tímapunkti hefði allt getað gerst í leiknum. En það er erfitt að vera nýliðar í stórri deild þar sem ákveðin lið hafa verið áskrifendur af sæti í tugi ára. Erfitt að brjóta það upp. Virðing fyrir "stóru" liðunum virðist einhvern veginn vera föst í hausnum á sumum dómurum. Mér finnst að það þurfi að koma upp svipuðu kerfi og er í Englandi, ef dómari verður uppvís af afdrifalíkum mistökum, líkt og dómarinn í síðasta leik okkar að þá skuli hann dæma í næstu umferð leik í lægri deildunum sem er minna borgað fyrir en í Pepsídeildinni. Öðruvísi vanda menn sig ekki.

Það var gaman að sjá ungan 16 eða 17 ára uppaldan stórefnilegan dreng Vigni Snæ Stefánsson (Kristóferssonar) koma inná og eiga góðan leik. Hann spilaði síðustu 10 mínúturnar og var kröftugur. Til hamingju Vignir með þinn fyrsta leik í Pepsídeildinni. Í síðasta leik setti Ejub, Anton Jónas Illugason inná gegn Breiðablik og Kristófer Jakobsen Reyes hefur einnig verið í leikmannahópnum. Allir Ólsarar. Nú virðist ný kynslóð sem hefur verið undir handleiðslu Ejub, Bega og fleiri góðra þjálfara að vera að byrja að skila sér uppí meistaraflokkinn. Glæsilegt.

Að mínu mati voru þrír bestu leikmenn Víkings Ó í leiknum þessir: Farid Zata (þrátt fyrir sjálfsmarkið og aðdraganda þess), Damir Muminovic og Tomasz Luba.

Næsti leikur verður í Borgunarbikarnum á Ólafsvíkurvelli næsta miðvikudag kl. 19.15. Mótherjinn er Pepsídeildarlið Fram sem hefur verið á mikilli siglingu eftir þjálfaraskiptin.Helgi Kristjánsson

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 106
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 822
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 3294068
Samtals gestir: 253602
Tölur uppfærðar: 19.1.2018 03:33:19
Flettingar í dag: 106
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 822
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 3294068
Samtals gestir: 253602
Tölur uppfærðar: 19.1.2018 03:33:19