Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

13.05.2013 19:43

Góð heimsókn

Kári Steinn og Sveinbjörg í Grundarfirði

Föstudaginn 10. maí sl. fengum við hjá frjálsíþróttadeild UMFG góða gesti. Það voru þau Kári Steinn Karlsson langhlaupari úr Breiðabliki og Ólympíufari og Sveinbjörg Zophoníasdóttir 21 árs sjöþrautarkona frá Hornafirði, sem nú æfir með FH.

Markmiðið með heimsókn þeirra var að fræða, hvetja og leiðbeina krökkunum - en æfingarnar voru opnar fyrir alla krakka á Snæfellsnesi.


Grunnskólaheimsókn

Fyrir hádegi hittu þau yngri og eldri nemendur í Grunnskóla Grundarfjarðar og ræddu við þau um íþróttir, holla hreyfingu, mataræði og fleira. Þau sögðu að það væri mjög gott fyrir krakka á grunnskólaaldri að æfa fleiri íþróttagreinar en eina og að frjálsarnar væru kjörin íþrótt fyrir þá sem vilja t.d. verða góðir í fótbolta, blaki eða öðrum greinum. Kári Steinn æfði áður fótbolta og körfubolta, með frjálsum, en sneri sér síðar eingöngu að hlaupunum.Að eiga drauma og setja sér markmið

Sveinbjörg sagði að þegar hún var barn og unglingur hefði hún stefnt að því að komast í úrvals- og afrekshóp Frjálsíþróttasambands Íslands. Þau sögðu bæði að það væri mikilvægt að setja sér markmið og vinna markvisst að því að ná markmiðunum. Kári Steinn sagði að hann hefði sett sér ýmis markmið í íþróttunum og oftast væri hann bara að keppa við sjálfan sig og bæta hlaupatímann sinn.


Ólympíuleikar, útiæfingar og aðstaða

Kári Steinn sagði frá þátttöku sinni í Ólympíuleikunum 2012 og hvernig það hefði verið að hlaupa maraþon í London, með fjölda þátttakenda og sjónvarpsmyndavélar nánast við hvert fótmál. Hann sagðist hlaupa úti og færi nánast í hvaða veðri sem er. Hann viðurkenndi að það væri einstaka sinnum erfitt að koma sér af stað, en að það borgaði sig alltaf til baka með góðri líðan, að æfingu lokinni. Sveinbjörg tók í sama streng og sagði að íslenska veðrið herti mann bara. T.d. væri gott að vera vanur rigningunni og að geta keppt á stórmótum þó að hellirigndi. Hún sagði líka að aðstaðan skipti ekki öllu máli, hún hefði æft í heimabænum sínum Hornafirði á malarvelli, áður en tartan kom á hlaupabrautir og íþróttahúsið hefði verið svipað stórt og okkar. Aðalmálið væri að vera duglegur og ákveðinn í að gera sitt besta.


Spurt og svarað

Krakkarnir voru óhrædd við að spyrja ýmissa spurninga, ekki síst þau yngstu. Spurt var hvort þau æfðu líka í jóla- og páskafríium, hvert metið hans Kára væri í maraþoni og hvert heimsmetið væri. Rætt var af hverju Afríkubúarnir eru svona sterkir í langhlaupum, ekki síst Kenýabúar. Þau sögðu að það hefði verið rannsakað og væri bæði vegna þess úr hvaða aðstæðum fólkið kæmi, hvernig mataræði þeirra væri og einnig væri líkamleg bygging Afríkubúanna að mörgu leyti hlaupavænni en t.d. Vesturlandabúa. Margir bestu langhlauparanna hefðu hlaupið mikið sem börn og byggju hátt yfir sjávarmáli, þar sem súrefnið væri minna og fólk ynni betur úr súrefninu úr andrúmsloftinu. Eldri krakkarnir spurðu hvort íþróttamennirnir hefðu tíma fyrir vini og félagslíf. Kári svaraði því þannig til að mjög mikilvægt væri fyrir íþróttamenn að hafa jafnvægi í lífi sínu, það þyrfti líka að passa uppá að sinna vinum og fjölskyldu. Þá gengi líka betur í íþróttunum.  


Hversu mörg skópör?

Kári og Sveinbjörg sögðu það mjög mikilvægt að nota góða skó í íþróttunum til að koma í veg fyrir meiðsli og þreytu. Ein af  spurningunum sem þau fengu var líka hversu mörg skópör þau notuðu á ári.

Kári sagðist hlaupa um 200 km á viku og að hann væri því mjög fljótur að eyða upp skónum. Hann þyrfti að eiga mismunandi pör vegna ólíkra æfinga, t.d. fyrir útihlaup og inni. Hann sagðist fara með ca. 15 hlaupaskópör á ári - og að notuðu skórnir enduðu yfirleitt hjá Rauða krossinum.

Sveinbjörg æfir sjöþraut, sem er í raun 7 mismunandi íþróttagreinar. Hún þyrfti að eiga sérstaka skó fyrir hverja grein, fyrir kúluvarp, langstökk, spretthlaup, o.s.frv. og að hvert par dygði í ca. eitt ár. Það er því verulegur kostnaður bara að kaupa sér góða skó til að nota á æfingum og mótum.


Leiðbeint á frjálsíþróttaæfingum

Eftir hádegi leiðbeindu þau Kári Steinn og Sveinbjörg krökkunum á frjálsíþróttaæfingum allra aldurshópa. Þau gáfu góð ráð með hlaupatækni og ræddu við krakkana um æfingar, mót, hugarfar og fleira.Sveinbjörg og Kári Steinn eru frábærir íþróttamenn og góðar fyrirmyndir. Ekki varð betur séð en að krakkarnir hafi verið mjög ánægðir með heimsókn þeirra, sem var bæði fróðleg og skemmtileg fyrir okkur, börn, kennara og þjálfara.


Fiskur og broddmjólk

Í lok heimsóknarinnar voru Sveinbjörg og Kári Steinn leyst út með gjöfum. Afreksíþróttafólk þarf alvöru mat og þess vegna var þeim færður þorskur í boði G.Run. í Grundarfirði, rækja frá FISK Seafood Grundarfirði og broddur frá Guðrúnu Lilju og Bjarna, bændum á Eiði við Kolgrafarfjörð.

Broddurinn er mjólk úr nýborinni kú og inniheldur mörg lífsnauðsynleg efni sem hjálpa afkvæminu að þroskast og verjast sjúkdómum. Broddmjólkin er hituð í vatnsbaði, þá þá ystir hún og verður stíf, svona svipað og búðingur. Broddmjólkin er afar próteinrík og meinholl - ekki síst fyrir íþróttamenn!


Við heimafólkið þökkum Frjálsíþróttasambandi Íslands og Þóreyju Eddu verkefnisstjóra kærlega fyrir aðstoðina við undirbúning heimsóknarinnar. 
Við þökkum Sveinbjörgu og Kára Steini kærlega fyrir komuna og óskum þeim alls hins besta á vettvangi æfinga og keppna! 

Heimsókn þeirra var á vegum frjálsíþróttadeildar UMFG í samvinnu við stjórn UMFG, HSH og Grunnskóla Grundarfjarðar.


Fleiri myndir má sjá í myndaalbúmi hér á síðunni.


Hér má líka sjá frétt af heimsókn Ásdísar Hjálmsdóttur spjótkastara og Óðins Björns Þorsteinssonar kúluvarpara frá því í maí í fyrra.


 

Skrifað af Björgu

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 2155
Gestir í dag: 47
Flettingar í gær: 847
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 3292628
Samtals gestir: 253529
Tölur uppfærðar: 17.1.2018 12:48:16
Flettingar í dag: 2155
Gestir í dag: 47
Flettingar í gær: 847
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 3292628
Samtals gestir: 253529
Tölur uppfærðar: 17.1.2018 12:48:16