Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

24.01.2012 10:16

Snæfell féll út í tvíframlengdum leik


Joshua Brown tryggði KR í kvöld farseðilinn inn í undanúrslit Poweradebikarkeppninnar eftir 111-104 sigur KR gegn Snæfell í tvíframlengdum háspennuleik. Brown gerði 49 stig í leiknum og þegar í harðbakkanna sló tók hann KR liðið á bakið og bar það í átt að sigri, mögnuð frammistaða hjá þessum áræðna leikstjórnanda. Áður en leikurinn hófst var mínútu þögn til minningar um knattspyrnumanninn Sigurstein Gíslason sem nýverið féll frá eftir erfið veikindi en Sigursteinn gerði garðinn m.a. frægan með KR á sínum tíma og varð bæði Íslands- og bikarmeistari með klúbbnum. Sigursteinn gekk í raðir KR árið 1999 en þá varð liðið bæði Íslands- og bikarmeistari í knattspyrnu.
 
Heimamenn í KR byrjuðu betur og léku þétta vörn, lítið var skorað á upphafsmínútunum en það fóru þó að detta körfur og KR tók frumkvæðið 6-0. Ingi Þór splæsti þá í leikhlé fyrir Hólmara sem komu út með fimm stig í röð en þá tók KR aftur á rás, mættu með 7-0 áhlaup og staðan 13-5. Dejan Sencanski kom KR svo í 26-15 með þriggja stiga körfu og röndóttir leiddu síðan 27-17 að loknum fyrsta leikhluta.
 
Hafþór Gunnarsson og Ólafur Torfason létu vel að sér kveða í liði gestanna í öðrum leikhluta þar sem Snæfell skoraði 30 stig gegn 18 frá KR og leiddu gestirnir því 44-46 í leikhléi. Jón Ólafur Jónsson var daufur í dálkinn í fyrri hálfleik í liði Snæfells og skoraði sín fyrstu stig eftir 15 mínútna leik. Robert Ferguson var að stríða stóru leikmönnum Snæfells og dró þá vel út úr teignum og setti m.a. tvo þrista í leikhlutanum en það voru þó Hólmarar sem leiddu.

Ferguson var með 12 stig hjá KR í hálfleik og þeir Brown og Sencanski 10. Hjá Snæfell voru Hafþór og Marquis Hall báðir með 11 stig.

 
Nýting liðanna í hálfleik:
KR: 48% í teignum, 33,3% í þriggja og 46,1% í vítum
Snæfell: 70% í teignum, 22,2% í þriggja og 72,7% í vítum

KR opnaði þriðja leikhluta 10-0 og mættu með flotta vörn inn í síðari hálfleikinn. Snæfell gekk illa að finna leið upp að körfu KR og þeir Jón Ólafur Jónsson og Quincy Hankins-Cole fengu báðir sína fjórðu villu í þriðja leikhluta.

Með hverri mínútunni í þriðja leikhluta hitnaði undir Brown leikstjórnanda KR og lokaði hann þriðja leikhluta með flautukörfu uppi á lyklinum og KR leiddi 66-61 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Marquis Hall átti góða kafla hjá Snæfell í kvöld og minnkaði muninn í 68-64 með þriggja stiga körfu og voru það hans fyrstu stig í síðari hálfleik. KR náði snemma tíu stiga forskoti en Hólmarar létu ekki stinga sig af, Ferguson fór af velli í liði KR með fimm villur en þrátt fyrir hans fjarveru var KR ávallt við stjórnartaumana.

Það var ekki fyrr en undir lok fjórða leikhluta sem Snæfell færðist nær, Brown reyndi hvað hann gat til að halda Hólmurum fjarri og aðrir KR-ingar voru í nokkru áhorfendahlutverki með þá Ferguson og Sencanski á bekknum með fimm villur en sá síðarnefndi fór skömmu á eftir Ferguson á tréverkið.
 
Brown kom KR í 83-77 þegar 1.25mín. voru til leiksloka, hér hrökk í gang magnaður kafli hjá KR, Quincy fær villu og víti að auki, 83-80 og skömmu síðar vippar stóri maðurinn sér upp fyrir utan þriggja og jafnar 83-83! KR hélt í sókn en Quincy ver skot frá Finni Atla en næsta sókn Hólmara var illa ígrunduð og því varð að framlengja.
 
Snæfell lék svæðisvörn í framlengingunni enda hafði maður á mann vörnin ekki virkað mikið gegn Brown sem skyldi alla eftir í reyk. Jón Ólafur minnkaði muninn í 88-87 þegar 40 sekúndur voru til leiksloka og Pálmi Freyr kom gestunum svo yfir 88-89 á vítalínunni. Næsta KR sókn vildi ekki verða að körfu og brotið var á Pálma sem kom Snæfell í 88-91 þegar 13 sekúndur voru til leiksloka. Títtnefndur Brown brunaði þá yfir völlinn og setti gríðarlega erfiðan og myndarlegan dreifbýlisþrist og jafnaði metin 91-91 þegar 5 sekúndur voru eftir af framlengingunni. Snæfell tókst ekki að nýta tímann til að gera út um leikinn og því varð að framlengja á nýjan leik þökk sé svakalegri frammistöðu hjá Brown.

 Í stöðunni 95-94 í seinni framlengingunni nennti Brown þessu ekki lengur og tók málin ennfrekar í sínar hendur. Kappin fór hér á kostum, kom KR í 97-94, næst 99-94 með tveimur vítum og svo 101-94 með gegnumbroti og maðurinn skoraði í öllum regnbogans litum! Lokatölur reyndust 111-104 KR í vil og KR-ingar geta þakkað Brown fyrir að liðið verði með í næsta bikardrætti enda lygileg frammistaða hjá kappanum sem fékk 44 framlagsstig fyrir sína vasklegu framgöngu í kvöld. Martin Hermannsson var einnig traustur á lokasprettinum og fékk ansi vænar mínútur í reynslubankann.


 
Myndasafn frá leiknum á Karfan.is


 

HSH

Nafn:

Héraðssamband Snæfellsnes og Hnappadalssýslu

Farsími:

865-0294

Afmælisdagur:

24 september 1922

Heimilisfang:

Sólvellir 3. 350 Grundarfirði

Staðsetning:

Snæfellsnes

Heimasími:

436-1635

Önnur vefsíða:

umfi.is

Kennitala:

620169-5289

Bankanúmer:

0191-15-370322

Tenglar

Flettingar í dag: 79
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 514
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 3294555
Samtals gestir: 253637
Tölur uppfærðar: 20.1.2018 03:10:10
Flettingar í dag: 79
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 514
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 3294555
Samtals gestir: 253637
Tölur uppfærðar: 20.1.2018 03:10:10